Bára Huld Beck

Geðheilsa þjóðar í krísu

Áhrif COVID-19 á samfélagið eru mikil og víða marka afleiðinga sjúkdómsins og sóttvarnaaðgerða djúp spor. Fyrirséð er að efnahagsáhrif verða mikil enda atvinnuleysi við það mesta sem Íslendingar hafa séð í áraraðir. Þetta hefur áhrif á ýmsa þætti og búast má við því að áhrifa muni ekki síst gæta í geðheilsu landans. Kjarninn spjallaði við Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra um geðheilbrigðismál á Íslandi, hvað hefði verið gert og hvað stæði til að gera.

Á tímum COVID-19 sjúk­dóms­ins höfum við öll þurft að læra nýja siði; hvernig við umgöng­umst aðra og högum okkur til þess að gæta að ýtr­ustu sótt­vörn­um. Vissu­lega eru aðgerðir yfir­valda umdeild­ar, eins og gefur að skilja, en þó er óum­flýj­an­legt að þær muni hafa áhrif á okkur flest með ein­hverjum hætt­i. 

Eitt af því sem nefnt hefur verið eru áhrif á geð­heilsu þjóð­ar­inn­ar. Hvað eru yfir­völd að gera til þess að takast á við þau mál? Svan­dís Svav­ars­dóttir heil­brigð­is­ráð­herra svarar þeirri spurn­ingu í sam­tali við Kjarn­ann. 

Hvernig metur ráð­herr­ann stöð­una um þessar mund­ir?

„Í fyrsta lagi þegar ég tók við emb­ætti 2017 þá lagði ég strax mjög mikla áherslu á að geð­heil­brigð­is­mál þyrftu að fá meiri athygli en þau höfðu feng­ið. Mér fannst mik­il­vægt að fjár­magna og standa við geð­heil­brigð­is­á­ætlun sem þá var til og sam­þykkt árið áður,“ segir Svan­dís.

Hún útskýrir að heil­brigð­is­þjón­ustan sé á þremur stig­um. „Í fyrsta lagi er það heilsu­gæsla og á hinum end­anum er það þriðja stigs þjón­usta sem er hátækni­sjúkra­húsið eða Land­spít­al­inn. Þarna á milli er sér­fræði­þjón­usta af ýmsu tag­i.“ Þar á hún við hina ýmsu sér­fræð­inga sem vinna á stof­um, heil­brigð­is­stofn­unum út um land eða sér­hæfðum mót­tökum og teymum á vegum heilsu­gæsl­unn­ar.

Auglýsing

Hún segir að á árinu 2017 hafi þetta þrennt verið fyrir hendi, en aðal­lega þó þegar rætt var um lík­am­lega heilsu. „Þú kemur til heilsu­gæsl­unnar þegar þú ert með hósta. Þú ferð til háls-, nef- og eyrna­læknis ef þú ert með stækk­aða kirtla. Ef þetta er orðið meira mál og þú þarft að fara í aðgerð þá þarftu að öllum lík­indum að fara á spít­ala. Kannski dugar að vera í ann­ars stigs þjón­ust­unn­i,“ útskýrir hún. 

Þá segir Svan­dís að þegar talað var um geð­heil­brigð­is­mál á þessum tíma þá hafi um brota­kennda mynd í kerf­inu verið að ræða. „Þá vorum við með þriðja stigs þjón­ustu, það er að segja inn­lagnir fyrir þá sem glíma við alvar­lega geð­sjúk­dóma á Land­spít­ala og á sjúkra­húsið á Akur­eyri. Að öðru leyti vorum við í hinu opin­bera kerfi með sál­fræð­inga í heilsu­gæsl­unni og á öðrum opin­berum stofn­un­um, og geð­lækna sem störf­uðu á stof­um. Þannig var þró­unin í átt að öfl­ugri geð­heil­brigð­is­þjón­ustu farin af stað í kerf­inu en þjón­ustan enn svo­lítið brota­kennd.“

Geð­heilsa líka verk­efni heilsu­gæsl­unnar

Stefna heil­brigð­is­ráð­herra hefur verið að efla sál­fræði­þjón­ustu í heilsu­gæsl­unni og segir Svan­dís að með því að fjölga sál­fræð­ingum í slíku „lág­þrösk­ulda­úr­ræði“ sem standa öllum til boða séu stjórn­völd í raun og veru að segja að geð­heilsa sé „eitt­hvað sem við erum öll að glíma við og hlúa að í dag­legu líf­i“. 

Við erum jú öll með geð­heilsu alveg eins og við erum öll með heilsu. Geð­heilsa sé ekki ein­ungis eitt­hvað sem talað er um þegar mann­eskja þarf inn­lögn á geð­deild heldur þegar fólk glímir við vægan kvíða eða þyngsli eða bara að halda jafn­vægi í dags­ins önn. „Eða þegar við lendum í þung­lyndi eftir barns­burð eða leiða þegar við eigum í erf­ið­leikum út af vinnu­staðn­um, vin­áttu eða hjóna­band­i.“

Fjöldi sál­fræð­inga í heilsu­gæsl­unni hefur þannig nán­ast tvö­fald­ast á þessum tíma. „Þeir eru núna 66 og stað­settir um land allt. Þetta var stóra skrefið í því að segja að geð­heilsa sé líka verk­efni heilsu­gæsl­unn­ar,“ segir hún. 

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir var á blaðamannafundinum í mars síðastliðnum með heilbrigðisráðherra þegar stjórnvöld kynntu hertar samkomutakmarkanir.
Bára Huld Beck

Svan­dís nefnir jafn­framt að þau hafi sett á lagg­irnar svokölluð geð­heilsuteymi – þrjú á höf­uð­borg­ar­svæð­inu og eitt í hverju hinna umdæm­anna, auk sér­staks geð­heilsuteymis fyrir fanga. „Þessi geð­heilsuteymi hafa sinnt 2.600 manns nú þegar á árinu 2020. Og hvað þýðir það? Það þýðir að fólk sem hefði mögu­lega á ein­hverjum tíma­punkti þurft oftar að leggj­ast inn, þurft oftar að líða illa og svo fram­vegis njóti tey­manna sem bæði eru með aðstöðu en sinna líka mögu­lega fólki heima, með við­eig­andi og ein­stak­lings­mið­aðri heil­brigð­is­þjón­ustu. Þetta eru þver­fag­leg teymi en þarna eru lækn­ar, hjúkr­un­ar­fræð­ing­ar, sál­fræð­ingar og fleiri stéttir – og hér á höf­uð­borg­ar­svæð­inu hefur Reykja­vík­ur­borg lagt til félags­ráð­gjafa. Einnig eru í sumum teymunum starf­andi full­trúar fólks með eigin reynslu af geð­rösk­unum en mik­il­vægt er að þjón­ustan taki í rík­ari mæli til­lit til þeirra sem nýta sér hana.

Þarna erum við með alhliða þjón­ustu við þá sem glíma við geð­heil­brigð­is­vanda án þess að við séum að segja að nú sé þetta orðið það alvar­legt að það þurfi sjúkra­húsinn­lögn. Þetta er í raun og veru bylt­ing á þessu kerfi. Að það taki eitt við af öðru; að við séum með sam­fellu í kerf­inu. Það léttir á þyngri end­anum og fækkar inn­lögn­um. En við þurfum að gera enn bet­ur, til dæmis varð­andi göngu­deild­ar­þjón­ustu og þvíum­líkt. Þar þurfum við að gera betur um allt land.“

Auglýsing

Þriðja bylgjan gengur nær fólki

Varð­andi líðan þjóðar í COVID þá segir Svan­dís að von sé á viða­mik­illi rann­sókn á vegum land­lækn­is­emb­ætt­is­ins og Háskóla Íslands. 

„Ekki eru komnar nið­ur­stöður úr þess­ari rann­sókn en við sáum það strax í fyrstu bylgju að sumum leið hrein­lega betur – meiri sam­vera og minni æsing­ur. Það eru aftur á móti mjög mörg merki um að þessi svo­kall­aða þriðja bylgja gangi að sumu leyti nær fólki vegna þess að nú sér það fyrir sér meiri efna­hags­legar áskor­an­ir. Fólk er í vand­ræðum með vinnu til dæmis og við erum að sjá mikið atvinnu­leysi. 

Við erum líka að sjá merkj­an­legt og aukið heim­il­is­of­beldi og erf­ið­leika þeirra sem búa við erf­iðar heim­il­is­að­stæður vaxa. Þegar ekki er einu sinni hægt að fara út af heim­il­inu eykst tíðni vanda­mála sem rekur á fjöru barna­vernd­ar, félags­þjón­ustu og svo fram­vegis og svo fram­veg­is,“ bendir ráð­herr­ann á. 

Þess vegna sé mjög mikil ástæða til að bregð­ast við.

Orsakanna oft að leita ann­ars staðar

Hvernig eru stjórn­völd að bregð­ast við? 

„Strax á þessu ári bættum við við 540 millj­ón­um, bara inn í geð­heil­brigð­is­mál­in, út af COVID og við gerðum það út um allt land í heilsu­gæsl­una, í teymin og í mönnun almennt. Við fjölg­uðum heilsu­gæslu­sál­fræð­ingum og hvöttum til þess að það yrðu ráðnir geð­læknar og svo fram­veg­is,“ svarar hún og bætir því við að í fjár­laga­frum­varp­inu 2021 sé sama upp­hæð lögð í geð­heil­brigð­is­mál­in, auk fram­laga til efl­ingar geð­heil­brigð­is­þjón­ustu í sam­ræmi við geð­heil­brigð­is­á­ætl­un. 

„Enn og aftur er heil­brigð­is­þjón­ustan á þeim enda að við erum að fjalla um ein­kenni en oft er orsakanna að leita ann­ars stað­ar. Þær geta hrein­lega verið í þessum stóru sam­fé­lags­legu þátt­um, eins og ég segi, í félags­legu öryggi og þessu lími í sam­fé­lag­inu. Hef ég eitt­hvað til að hlakka til? Hvernig er til dæmis að vera ung mann­eskja í COVID þegar skól­inn er tak­mark­aður og geta ekki hitt vini sína? Einnig varð­andi menn­ingu og list­ir, að fara í mat­ar­boð – og gleðj­ast og hlæja, hitta marga og vera í kös og allt þetta sem að maður nýtur svo vel og finnur svo vel þegar maður nýtur þess ekki. Að fara á mis við þetta allt veldur álagi og mögu­lega þyngsl­um. Þarna eru áhrifa­þættir á sam­fé­lags­end­anum ef svo má segja.“

Lífið hefur heldur betur breyst á árinu 2020 en þó áttu Íslendingar tiltölulega „eðlilegt“ sumar.
Bára Huld Beck

Hún segir að á hennar borði sé fyrst og fremst sá þáttur sem lýtur að þjón­ust­unni sjálfri en þó jafn­framt geð­rækt og for­vörnum og þangað þurfi að beina sjón­unum enn meira. Þar eru sókn­ar­færi sem geti orði þjóð­inni til mik­illar gæfu. Þess vegna þurfi heil­brigð­is­yf­ir­völd einnig að vera í sam­tali við félags­mála­ráðu­neytið og mennta­mála­ráðu­neytið og svo sveit­ar­fé­lög­in. 

Minnt á að mann­eskjan þrífst illa nema í félagi við annað fólk

Þegar teknar eru ákvarð­anir varð­andi sótt­varn­ar­að­gerð­ir, eru þessir þættir teknir inn í mynd­ina? 

Svan­dís svarar og segir að þau reyni að gera það. „Þetta er svo­lítið áhuga­vert vegna þess að við erum að tala um skýr­ustu mynd­ina af sjúk­dómi. Það er að segja, það er veira sem smit­ast milli fólks og við getum séð, hvort sem er í gegnum mann­kyns­sög­una eða bók­mennt­ir, far­aldra sem þennan stinga upp koll­inum með reglu­bundnum hætti. Við vitum hvað þeir gera við sam­fé­lög; þeir ógna heilsu og þeir ógna lífi – og við erum alltaf að verða betri og betri að takast á við far­aldra af þessu tagi en samt erum við ber­skjölduð þegar far­ald­ur­inn kem­ur. Meira að segja þessi þró­uðu Vest­ur­lönd með heil­brigð­is­kerfið sitt og öfl­ugt efna­hags­líf.“

En við höfum líka lært af sög­unni og alþjóð­legt sam­starf varð­andi hvernig best sé að takast á við þennan háska hefur aldrei verið skil­virkara. Hún segir að sam­starf heil­brigð­is­kerf­is­ins og almanna­varna sýni okkur að inn­viðir eru fyrir hendi hér á landi og að við höfum leiðir til að bregð­ast við. „Við höfum þó alltaf vitað um mik­il­vægi þess að halda fjar­lægð. Við þurfum að passa upp á hrein­læti og halda fjar­lægð og það höfum við vitað mjög lengi. Allt í einu eru orð eins og sótt­kví og ein­angrun partur af okkar orða­forða sem maður hefði frekar haldið að væri partur af ein­hverri skáld­sögu fyrir hund­rað árum. Þetta er veru­leik­inn.“

Auglýsing

Svo þegar bylgjan er lent og skollin á sam­fé­lagið þá komi fram ákveðin sam­fé­lags­á­hrif –geð­ræn áhrif sem verki ekki síður á okkur hvert og eitt. „Mér finnst við vera svo minnt á það núna að við erum partur af sam­fé­lagi og mann­eskjan þrífst illa nema í félagi við annað fólk,“ segir hún. 

Söfn­uðu yfir 30.000 und­ir­skriftum

Geð­hjálp stóð nýverið fyrir miklu átaki og afhentu full­trúar sam­tak­anna heil­brigð­is­ráð­herra 30.093 und­ir­skriftir þeirra sem vilja setja geð­heilsu í for­gang.

Und­ir­skrifta­söfn­unin stóð yfir í nokkrar vikur á vef­síð­unni 39.is en talan 39 vísar í þá sem féllu fyrir eigin hendi hér á landi á árinu 2019. Sam­tökin komu með 9 til­lögur að aðgerðum til þess að setja geð­heilsu í for­gang. 

Níu aðgerðir til að setja geðheilsuna í forgang
Skjáskot

Þegar Svan­dís er spurð út í þessar til­lögur Geð­hjálpar seg­ist hún í grunn­inn vera sam­mála þessum áhersl­um. „Ég held að það sé alveg ofboðs­lega mik­il­vægt að setja geð­heil­brigð­is­málin svona kirfi­lega á dag­skrá eins og þau hafa gert. Þessar aðgerðir sem þau leggja til eru algjör­lega í takti við það sem ég hef verið að gera og sumt að því sem ég hef verið að nefna núna. Til dæmið það að efla heilsu­gæsl­una og gera þjón­ust­una þar þver­fag­lega.

Þau nefna fleiri starfs­stéttir eins og þroska- og iðju­þjálfa og ég held að það sé allt til bóta. Í geð­heilsuteymi höfum við verið með not­enda­ráð­gjafa, það er að segja fólk sem hefur reynslu af geð­heil­brigð­is­þjón­ustu sjálft og er partur af teymun­um. Það getur veitt stuðn­ing frá sjón­ar­hóli jafn­ingja. Mér finnst sá partur mjög mik­il­væg­ur,“ segir Svan­dís. 

COVID hægði á vinn­unni



Ein aðgerðin sem Geð­hjálp leggur til er að styðja for­eldra í uppalenda­hlut­verki sínu. Að auka mæðra­eft­ir­lit, for­eldra­fræðslu og ung­barna­eft­ir­lit með það fyrir augum að fræða for­eldra um mik­il­vægi tengsla­mynd­unar fyrstu 1.000 dag­ana í til­veru hvers barns. Á leik­skóla- og grunn­skóla­aldri þurfi einnig að styðja við for­eldra og draga þannig úr árekstrum og erf­ið­leikum síðar meir í lífi barns­ins.

Svan­dís segir í þessu sam­bandi að þau hafi nú kynnt nýja þjón­ustu á vegum Heilsu­gæslu höf­uð­borg­ar­svæð­is­ins sem heitir geð­heilsuteymi fjöl­skyldu­vernd sem sé fyrir for­eldra með ung börn sem þurfa á að halda meiri og sér­hæfð­ari þjón­ustu en sé í heilsu­gæsl­unni. Þver­fag­leg þjón­usta við for­eldra og börn á sér langa sögu í heilsu­gæslu, þar er boðið upp á þver­fag­lega mæðra­vernd, ung­barna­vernd, ráð­gjöf sál­fræð­inga og gan­g­reynd upp­eld­is­nám­skeið.

Í til­lögum Geð­hjálpar er einnig talað um að gera geð­rækt hluta af aðal­námskrá grunn­skóla. „Við eigum mjög flotta skýrslu sem tekin var saman af emb­ætti land­læknis á vegum heil­brigð­is­ráðu­neyt­is­ins í sam­starfi við Mennta­stofn­un, sveit­ar­fé­lögin og fleiri. Þar höfum við það að meg­in­mark­miði að efla geð­rækt á öllum skóla­stig­um. Það má segja að COVID hafi sett hæga­gang í það sem við vorum að setja af stað núna rétt upp úr ára­mót­um. Við erum að taka þetta plagg upp aftur og félags­mála­ráð­herra og mennta­mála­ráð­herra eru sam­ferða mér í því – og ég vona að við getum kynnt aðgerða­á­ætl­un­ina fljót­lega,“ segir Svan­dís. 

Svandís og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ræða málin eftir blaðamannafundinn í mars.
Bára Huld Beck

Gengur ekki eins langt og Geð­hjálp varð­andi það að úti­loka þvingun

Geð­hjálp talar jafn­framt um að úti­loka nauð­ung og þvingun við með­ferð. Í aðgerða­á­ætlun sam­tak­anna kemur fram að sam­kvæmt samn­ingi Sam­ein­uðu þjóð­anna um rétt­indi fatl­aðs fólks sé hvers kyns nauð­ung og þvingun óheim­il. Ísland hafi enn ekki lög­fest þennan samn­ing en ítrekað hafi verið bent á að nauð­ung og þvingun í með­ferð ein­stak­linga með geð­rænar áskor­anir stand­ist ekki lög. Sam­hliða núver­andi end­ur­skoðun lög­ræð­islaga leggur Geð­hjálp til að Ísland verði gert að þving­un­ar­lausu landi sem til­rauna­verk­efni til þriggja ára.

Svan­dís segir að nú vinni hún að breyt­ingu á lögum um rétt­indi sjúk­linga og stefnir hún á að leggja það fram ekki síðar en á vor­þing­i. 

„Í því frum­varpi verður áréttuð þessi meg­in­regla um frið­helgi einka­lífs og að þvingun sé óheimil – og að hvaða skil­yrðum upp­fylltum í und­an­tekn­ing­ar­til­fellum væri unnt að beita þving­un. Þannig að ég geng ekki alveg eins langt og kemur fram hjá Geð­hjálp en mér finnst algjör­lega rétt að þau dragi sína línu mjög skýrt í sand­inn í þessum efn­um. Það þarf að tryggja betur mann­rétt­indi þess­ara sjúk­linga sem eiga í hlut.“

Varð­andi til­lög­una að koma á geð­ráði, breiðum sam­ráðs­vett­vangi um geð­heil­brigð­is­mál, segir Svan­dís það vera afar góða hug­mynd. „Við höfum verið með tíma­bund­inn sam­ráðs­vett­vang sem er raun og veru vett­vangur sem skipt­ist á skoð­unum í gegnum COVID auk þess sem sam­ráð við not­endur þjón­ust­unnar hefur verið aukið á okkar vett­vang­i.“

Auglýsing

Hægt að flokka alls konar hluti undir geð­heil­brigð­is­þjón­ustu

Enn fremur nefnir Geð­hjálp mik­il­vægi þess að gera heild­ar­út­tekt á umfangi og fram­kvæmd geð­heil­brigð­is­þjón­ustu á Ísland­i. 

„Ég held að það sé líka bara mjög góð ábend­ing og við munum skoða hana í heil­brigð­is­ráðu­neyt­inu. Geð­heil­brigð­is­þjón­ustan er svo ofboðs­lega víð­tæk. Það er heilsu­gæslan, geðteym­in, spít­al­arnir en það eru líka sveit­ar­fé­lögin og sál­fræði­þjón­usta skól­anna. 

Það eru einka­að­ilar og alls konar fyr­ir­tæki. Það eru geð­læknar með stofur og svo gæti maður spurt sig hvort til dæmis hvort náms­ráð­gjaf­ar. og mannauðs­stjórar sinni ekki líka geð­vernd að ein­hverju leyt­i,“ segir Svan­dís. 

Næstu skref að meta hvert umfang samn­ings­ins ætti að vera

Alþingi sam­þykkti í lok júní að fella nauð­syn­legar sál­fræði­með­ferðir og aðrar klínískar við­tals­með­ferðir undir greiðslu­þátt­töku­kerfi Sjúkra­trygg­inga Íslands. Frum­varpið var sam­þykkt sam­hljóða með 54 atkvæðum en níu þing­menn voru fjar­stadd­ir. Þor­gerður Katrín Gunn­ars­dótt­ir, for­maður Við­reisn­ar, var fyrsti flutn­ings­maður frum­varps­ins en með henni voru þing­menn Pírata, Sam­fylk­ing­ar, Mið­flokks, Flokks fólks­ins, Sjálf­stæð­is­flokks og Fram­sókn­ar­flokks­ins. 

Margir fögn­uðu frum­varp­inu enda er það ekki á allra færi að fara til sjálf­stæðs starf­andi sál­fræð­ings enda kostn­að­ar­samt. Þrátt fyrir sam­þykkt frum­varps­ins er þó ekki gert ráð fyrir eyra­merktu fjár­magni í þessa heil­brigð­is­þjón­ustu í fjár­laga­frum­varpi næsta árs. 

Frumvarpið um að fella nauðsynlegar sálfræðimeðferðir og aðrar klínískar viðtalsmeðferðir undir greiðsluþátttökukerfi Sjúkratrygginga Íslands var samþykkt samhljóða með 54 atkvæðum
Birgir Þór Harðarson

Hvað stendur í vegi fyrir því að Sjúkra­trygg­ingar Íslands geri samn­inga við sjálf­stætt starf­andi sál­fræð­inga?

Svan­dís segir að þegar frum­varpið var sam­þykkt og gert að lögum þá hafi henni fund­ist eins og fólk hafi haldið að þarna væri málið í höfn. „En þarna er í raun heim­ild sjúkra­trygg­inga til að semja við sjálf­stætt starf­andi sál­fræð­inga eins og aðrar heil­brigð­is­stétt­ir.“

Hún telur að næstu skref í mál­inu séu þau að meta hvert umfang samn­ings­ins ætti að ver­a. 

Ríkið sem kaup­andi tekur afstöðu til samn­ings­ins

Svan­dís segir að hún hafi lagt áherslu á það á sínum tíma sem ráð­herra að draga úr greiðslu­þátt­töku sjúk­linga og sett í það fjár­mun­i. 

„Það eru merktar háar fjár­hæðir á fjár­lögum næsta árs í að draga úr greiðslu­þátt­töku sjúk­linga. Við höfðum til dæmis áform um það að draga ennþá úr kostn­aði aldr­aðra og öryrkja við tann­lækn­ing­ar. Við til dæmis felldum niður komu­gjöld þeirra hópa í heilsu­gæsl­una um síð­ustu ára­mót. Og við höfum verið að skoða ýmsar leiðir til þess hvar við ættum að bera niður varð­andi greiðslu­þátt­töku og þetta er eitt af því sem er á því borði. Ég vænti þess að það skýrist, að minnsta kosti áður en þingið afgreiðir fjár­laga­frum­varp­ið.“

Sam­kvæmt ráð­herra mun það skýr­ast hvert umfang samn­ings sjúkra­trygg­inga við sjálf­stætt starf­andi sál­fræð­inga verð­ur. „Það yrði þá eitt­hvað sem ríkið sem kaup­andi slíkrar þjón­ustu myndi taka afstöðu til. Hversu stór slíkur samn­ingur ætti að vera og þá við hverja og svo fram­veg­is. Þannig að sú skoðun er í gangi ásamt öðru sem er til skoð­unar varð­andi það að draga úr greiðslu­þátt­töku sjúk­linga.“

Verða að ákveða fyr­ir­fram hversu miklir fjár­munir munu fara til sjálf­stætt starf­andi sál­fræð­inga

Svan­dís segir enn fremur að vilji þings­ins hafi verið mjög skýr í þessu máli þegar frum­varpið var sam­þykkt. „Ég hef sjálf verið þeirrar skoð­unar að það sé mik­il­vægt að efla sál­fræði­þjón­ustu almennt, eins og ég hef sýnt með því að stór­auka aðgengi að sál­fræð­ingum á heilsu­gæsl­unni og koma á þessum geð­heilsuteym­um. Öll þessi skref lúta að því að efla geð­heil­brigð­is­þjón­ustu og hafa þau verið mjög ofar­lega á dag­skrá hjá mér­.“ 

Hún bendir á að Sjúkra­trygg­ingar Íslands geri ramma­samn­ing um heil­brigð­is­þjón­ustu við hinar ýmsu stétt­ir, til að mynda sér­greina­lækna. Varð­andi það að gera samn­ing við sjálf­stætt starf­andi sál­fræð­inga þá telur hún að taka verði ákvörðun fyr­ir­fram um hversu margir tímar yrðu keyptir hjá ákveðnum aðilum til þess að fjár­munum yrði varið með sem bestum hætt­i. 

„Við þurfum að vita áður en við förum af stað í raun og veru hversu miklum pen­ingum við ætlum að ráð­stafa í þennan samn­ing.“

Varðandi það að gera samning við sjálfstætt starfandi sálfræðinga þá telur hún að taka verði ákvörðun fyrirfram um hversu margir tímar yrðu keyptir hjá ákveðnum aðilum til þess að fjármunum yrði varið með sem bestum hætti.
Bára Huld Beck

Boða til vinnu­stofu um mótun fram­tíð­ar­sýnar í geð­heil­brigð­is­málum

Hvað er mest aðkallandi núna varð­andi geð­heil­brigð­is­mál, í miðjum far­aldri? 

Í þessu sam­hengi eru nokkur atriði sem skipta mestu, að mati ráð­herra. Áfram­hald­andi efl­ing geð­heil­brigð­is­þjón­ustu í heilsu­gæsl­unni skipti miklu núna.

„Stefna og aðgerða­á­ætlun í geð­heil­brigð­is­málum sem sam­þykkt var á Alþingi árið 2016 er að renna sitt skeið. Meg­in­mark­mið geð­heil­brigð­is­stefnu var aukin vellíðan og betri geð­heilsa lands­manna. Mik­il­vægt er að halda áfram að byggja upp geð­rækt, for­varnir og geð­heil­brigð­is­þjón­ustu í land­inu og því þurfum við að huga að næstu skrefum hvað varðar fram­tíð­ar­stefnu í geð­heil­brigð­is­mál­u­m,“ segir hún. 

Heil­brigð­is­stefna til árs­ins 2030 var sam­þykkt á Alþingi árið 2019. Svan­dís segir að ný fram­tíð­ar­sýn í geð­heil­brigð­is­málum þurfi að end­ur­spegla lyk­il­við­fangs­efni heil­brigð­is­stefn­unn­ar. Heil­brigð­is­ráðu­neytið muni boða til vinnu­stofu um mótun fram­tíð­ar­sýnar í geð­heil­brigð­is­mál­um, lík­lega í lok þessa árs, og í kjöl­farið setja saman slíka fram­tíð­ar­sýn og for­gangs­rað­aðar aðgerð­ir. 

„Einnig má nefna önnur og sér­tæk­ari verk­efni sem eru framund­an, til dæmis inn­leið­ingu geð­ræktar og for­varn­ar­starfs í leik-, grunn- og fram­halds­skólum og vinnu við að bæta og sam­hæfa þjón­ustu við börn sem fellur undir mál­efna­svið margra ráðu­neyta,“ segir hún að lok­um. 

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnBára Huld Beck
Meira úr sama flokkiViðtal