Karlar og minna menntaðir hrífast af Miðflokknum

Flokkur Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar er á mjög svipuðu róli nú í könnunum og hann var í síðustu kosningum. Hann á erfitt uppdráttar á höfuðborgarsvæðinu og hjá ungu fólki en er sterkur á landsbyggðinni.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er formaður Miðflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er formaður Miðflokksins.
Auglýsing

Um miðjan september 2017 sprakk ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar eftir nokkurra mánaða setu og boðað var til nýrra kosningar. Þegar það gerðist hafði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson verið í pólitískri eyðimerkurgöngu í næstum eitt og hálft ár, eða frá því að hann sagði af sér sem forsætisráðherra vegna Wintris-málsins í apríl ári áður. 

Hann tapaði svo formannsslag í Framsóknarflokknum þá um haustið en ákvað að bjóða sig samt sem áður fram fyrir hönd þess flokks í kosningunum í október 2016. 

Öllum sem með fylgdust áttuðu sig þó á að engin ró var innan Framsóknarflokksins. Í maí 2017 stofnaði Sigmundur Davíð Framfarafélagið utan um sína pólitíska stefnu og um tvö hundruð manns, þar af margir áhrifamenn innan Framsóknar, mættu á stofnfund þess. Flestir töldu þó að Sigmundur Davíð myndi gera eina lokatilraun til að endurheimta formennsku í sínum gamla flokki á flokksþingi sem áætlað var í byrjun árs 2018.

Nýjar kosningar haustið 2017 breyttu þeim áformum og níu dögum eftir að sitjandi ríkisstjórn sprakk vegna uppreist-æru málsins sagði Sigmundur Davíð sig úr Framsóknarflokknum og stofnaði nýtt framboð, sem síðar fékk nafnið Miðflokkurinn. 

Mikill árangur á skömmum tíma

Á skömmum tíma tókst að manna alla lista og ná besta árangri sem nýtt stjórnmálaafl hefur nokkru sinni náð í fyrstu Alþingiskosningum sínum seint í október sama ár, rúmum mánuði eftir að Sigmundur Davíð sagði sig úr Framsókn. Alls fékk flokkurinn 10,9 prósent atkvæða og sjö þingmenn. Það fjölgaði síðan um tvo í þingflokknum eftir Klausturmálið svokallaða, þegar tveir brottreknir þingmenn úr Flokki fólksins, Ólafur Ísleifsson og Karl Gauti Hjaltason, gengu til liðs við hina sem sátu með þeim á sumbli þetta nóvemberkvöld 2018. 

Auglýsing
Miðflokknum gekk líka vel í sveitarstjórnarkosningunum 2018 og er með alls tíu sveitarstjórnarfulltrúa. Þar af er einn í Reykjavík, Vigdís Hauksdóttir sem sækist eftir því að verða næsti varaformaður flokksins. 

Minnst fylgi á höfuðborgarsvæðinu

Enginn flokkur hefur sveiflast jafn mikið í fylgi og Miðflokkurinn á yfirstandandi kjörtímabili samkvæmt könnunum MMR. Eftir að Klausturmálið komst í hámæli fór fylgi flokksins niður í 5,9 prósent en tæpu ári síðan, í kjölfar langvinns málþófs til að tefja fyrir afgreiðslu þriðja orkupakkans svokallaða, náði það sínum hæstu hæðum og mældist 16,9 prósent. Mikil fylgni er milli breytinga á stuðningi við Miðflokkinn annarsvegar og Sjálfstæðisflokkinn hins vegar. Þegar Miðflokkurinn hækkar lækkar Sjálfstæðisflokkurinn, og öfugt. Þetta bendir til þess að flokkarnir séu að fiska í sömu tjörnum eftir kjósendum.

Undanfarið hefur fylgið þó verið rétt undir kjörfylgi. Í síðustu tveimur könnunum MMR hefur meðaltalsfylgið til að mynda mælst 10,3 prósent. Og mikill stöðugleiki er í bakgrunnsbreytum kjósenda flokksins. 

Þegar fylgið er borið saman við það sem mældist í tveimur könnunum MMR í kringum síðustu kosningar, þar sem niðurstaðan var nákvæmlega sú sama og í kosningunum 2017 (10,9 prósent), sést að Miðflokknum gengur heldur verr að ná til yngstu kjósendanna nú en þá. Hjá þeim kjósendum sem eru undir þrítugu mælist stuðningur við flokkinn nú 6,1 prósent, en var 9,2 prósent fyrir rúmum þremur árum. Stuðningur í öðrum aldurshópum er hins vegar meira og minna á svipuðu róli, á milli tíu til tólf prósent.

Höfuðborgarsvæðið er áfram sem áður það landsvæði þar sem flokkurinn á erfiðast uppdráttar en fylgi hans þar mælist 7,1 prósent. Til samanburðar mælist það 16,4 til 17,8 prósent á Norðurlandi, Austurlandi og Suðurlandi. 

Menntun og kyn ráðandi breytur

Stuðningur við Miðflokkinn er mjög mismunandi eftir menntunarstigi. Flokkurinn nýtur mestra vinsælda hjá þeim sem hafa mest lokið grunnskólaprófi, en þar mælist fylgi hans 18,4 prósent. 

Hjá þeim sem hafa lokið háskólaprófi mælist fylgið hins vegar lítið, eða 5,2 prósent. 

Kyn er líka ráðandi breyta þegar kemur að stuðningi við Miðflokkinn. Hann er mun vinsælli hjá körlum en konum. Alls segjast 14 prósent karla að þeir myndu kjósa flokkinn í dag en einungis 5,5 prósent kvenna. Stuðningur á meðal karla hefur aukist lítillega frá 2017 en stuðningur á meðal kvenna hefur dregist saman um þriðjung og er 5,5 prósent. 

Tekjur virðast hins vegar ekki skipta máli þegar kjósendur eru að ákveða hvort Miðflokkurinn höfði til þeirra. Þannig segjast 10,2 prósent þeirra sem eru með undir 400 þúsund krónur í heimilistekjur á mánuði að þeir myndu kjósa flokkinn í dag en níu prósent þeirra sem eru með yfir 1,2 milljónir króna á mánuði í tekjur. Stuðningur hjá þeim tekjuhópum sem eru þar á milli er mjög svipaður, sveiflast frá 9,0 í 10,4 prósent.

Úttekt á bakgrunni stuðningsmanna flokka

Kjarn­inn hefur fengið aðgang að gögnum um bak­grunns­breytur þeirra sem svarað hafa könn­unum MMR um fylgi stjórn­mála­flokka. Þær breytur sem um ræðir eru kyn, ald­ur, búseta, menntun og heim­il­is­tekj­ur. Gögnin eru ann­ars vegar úr síð­ustu tveimur könn­unum MMR, sem gerðar voru 23-28. októ­ber og 6-11. nóv­em­ber 2020 (sam­tals 1.858 svar­end­ur), og hins vegar úr tveimur könn­unum sem gerðar voru öðru hvoru megin við síð­ustu þing­kosn­ingar árið 2017. Með því að skoða þær kann­an­ir, sem fram­kvæmdar voru 26-27. októ­ber og 14.-17. nóv­em­ber 2017 (sam­tals 1.924 svar­end­ur), er hægt að sjá þær breyt­ingar sem orðið hafa á bak­grunns­breytum stuðn­ings­manna flokk­anna frá þeim tíma. Næstu daga mun Kjarn­inn birta umfjöllun um alla þá átta flokka sem mældir eru í könn­unum MMR og í kjöl­farið ýmis konar aðra umfjöllun byggða þeim upp­lýs­ingum sem gagna­safnið geym­ir. 

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Sema Erla telur að dómsmálaráðherra og staðgengill Útlendingastofnunar ættu að segja starfi sínu lausu.
„Ómannúðlegar, kaldrifjaðar og forkastanlegar“ aðgerðir ÚTL
Formaður Solaris segir að aðgerðir Útlendingastofnunar séu okkur sem samfélagi til háborinnar skammar – að æðstu stjórnendur útlendingamála gerist sekir um ólöglegar aðgerðir gegn fólki á flótta.
Kjarninn 22. júní 2021
Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, ásamt samstarfsaðilum frá Namibíu er þeir komu í heimsókn til Íslands.
Samherji „hafnar alfarið ásökunum um mútugreiðslur“
Starfshættir Samherja í Namibíu, sem voru að frumkvæði og undir stjórn Jóhannesar Stefánssonar, voru látnir viðgangast allt of lengi og hefði átt að stöðva fyrr. Þetta kemur fram í „yfirlýsingu og afsökun“ frá Samherja.
Kjarninn 22. júní 2021
Afsökunarbeiðnin sem birtist í Fréttablaðinu og Morgunblaðinu í morgun. Undir hana skrifar Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja.
Samherji biðst afsökunar á starfseminni í Namibíu: „Við gerðum mistök“
Forstjóri Samherja skrifar undir afsökunarbeiðni sem birtist í á heilsíðu í tveimur dagblöðum í dag. Þar segir að „ámælisverðir viðskiptahættir“ hafi fengið að viðgangast í starfsemi útgerðar Samherja í Namibíu.
Kjarninn 22. júní 2021
Neyðarástandi vegna faraldurs kórónuveiru var aflétt í Tókýó í gær.
Allt að tíu þúsund áhorfendur á hverjum keppnisstað Ólympíuleikanna
Ákvörðun hefur verið tekin um að leyfa áhorfendum að horfa á keppnisgreinar Ólympíuleikanna á keppnisstað en Japönum einum mun verða hleypt á áhorfendapallana. Ólympíuleikarnir í Tókýó hefjast þann 23. júlí.
Kjarninn 21. júní 2021
Gunnar Hólmsteinn Ársælsson
Aðförin að lýðræðinu
Kjarninn 21. júní 2021
Guðrún Johnsen hagfræðingur og lektor við Viðskiptaháskólann í Kaupmannahöfn.
Segir dálkahöfundinn Tý í Viðskiptablaðinu hafa haft sig á heilanum í meira en áratug
Guðrún Johnsen hagfræðingur segir allt sem hún hafi sagt í viðtali við RÚV um sölu á Íslandsbanka í byrjun árs hafa gengið eftir. Afslátturinn sem hafi verið gefinn á raunvirði bankans sé 20-50 prósent.
Kjarninn 21. júní 2021
Tæpum helmingi íslenskra blaðamanna verið ógnað eða hótað á síðustu fimm árum
Samkvæmt frumniðurstöðum úr nýrri rannsókn um þær ógnir sem steðja að blaðamönnum kemur fram að helmingur blaðamanna hafi ekki orðið fyrir hótunum á síðustu fimm árum. Töluvert um að siðferði blaðamanna sé dregið í efa.
Kjarninn 21. júní 2021
Viðar Halldórsson
Má ekki bara sleppa þessu? Um verðlaunaafhendingar á skólaútskriftum
Kjarninn 21. júní 2021
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar