Samkvæmt lögum áttu allir stjórnmálaflokkar landsins að skila inn ársreikningi sínum, undirrituðum af endurskoðanda, til Ríkisendurskoðanda fyrir 1. nóvember síðastliðinn. Stofnunin hefur nú birt ársreikninga sex þeirra átta flokka sem eiga fulltrúa á Alþingi. Þar kemur fram að samanlagt skiluðu þessir sex flokkar, sem eru allir stjórnmálaflokkar á þingi utan Pírata og Flokks fólksins, hagnaði upp á 304 milljónir króna á árinu 2019.
Ofan á það skiptu þeir með sér 728,2 milljónum króna í ár og munu skipta með sér sömu upphæð á næsta ári, sem er síðasta ár yfirstandandi kjörtímabils, en næst verður kosið til Alþingis í september næstkomandi.
Samtals munu rúmlega 2,8 milljarðar króna renna til stjórnmálaflokka átta sem náðu inn á þing í haustkosningunum 2017 á þessu kjörtímabili. Fjármálaáætlun gerir ráð fyrir því að framlögin haldist óbreytt árin 2022 og 2023 og verði 728,2 milljónir króna á hvoru þeirra.
Sjálfstæðisflokkur og Vinstri græn högnuðust samanlagt um meira en 100 milljónir
Algjör viðsnúningur varð í rekstri Sjálfstæðisflokksins á síðasta ári. Flokkurinn tapaði 35,2 milljónum króna árið 2018 en hagnaðist um 67 milljónir króna í fyrra. Nær allar tekjur hans koma úr opinberum sjóðum. Flokkurinn fékk 200 milljónir króna framlag úr ríkissjóði og 17,4 milljónir króna framlag frá sveitarfélögum. Fjárframlög lögaðilar voru 17,4 milljónir króna og framlög eða félagsgjöld einstaklingar 35,8 milljónir króna. „Aðrar tekjur“, sem eru ekki sérstaklega skilgreindar, voru svo 77,4 milljónir króna. Alls námu tekjur stærsta stjórnmálaflokks landsins því 344,2 milljónum króna á árinu 2019. Þar af komu næstum tvær af hverjum þremur krónum sem fóru til flokksins frá opinberum aðilum. Rekstrargjöldin drógust hins vegar verulega saman og voru 251,3 milljónir króna. Þar ber að hafa í huga að á árinu 2018 fóru fram sveitarstjórnarkosningar, með tilheyrandi kostnaði.
Vinstri græn, flokkur forsætisráðherrans Katrínar Jakobsdóttur, hagnaðist um 38,4 milljónir króna á árinu 2019. Það er svipuð upphæð og flokkurinn skilaði í hagnað árið áður þegar slíkur nam 33,6 milljónum króna. Af 153,8 milljón króna tekjum komu 138,5 milljónir króna frá Alþingi eða ríkissjóði og 1,9 milljónir króna frá sveitarfélögum. Það þýðir að 91 prósent af tekjum Vinstri grænna komu úr opinberum sjóðum. Flokkurinn seldi fasteign fyrir nokkru síðan og greiddi samhliða upp skuldir sínar. Því eru Vinstri græn nokkuð skuldléttur flokkur og skulda einungis 9,3 milljónir króna.
Ríkisendurskoðun hefur ekki birt ársreikninga Pírata og Flokks fólksins.
Góð afkoma hjá Framsókn og Miðflokki
Framsóknarflokkurinn snéri sömuleiðis tveggja milljóna króna tapi í 36,9 milljóna króna hagnað á síðasta ári. Fjárframlög úr ríkissjóði voru 82,4 milljónir króna og þingflokksstyrkur til flokksins nam 11,6 milljónum króna. Saman mynduðu þessar tvær tekjustoðir um 90 prósent af öllum tekjum flokksins á árinu 2019.
Rekstrargjöld Framsóknarflokksins drógust verulega saman á síðasta ári líkt og hjá öðrum flokkum og fóru úr 102,5 milljónum króna í 65,7 milljónir króna. Flokkurinn átti eignir sem metnar voru á 206 milljónir króna um síðustu áramót en skuldaði á sama tíma 225,1 milljón króna. Skuldirnar flokksins lækkuðu um 14 milljónir króna í fyrra.
Miðflokkurinn, sem varð til þegar Framsóknarflokkurinn klofnaði í aðdraganda síðustu þingkosninga, hefur náð að koma sér upp myndarlegum sjóði á síðustu árum. Hagnaður flokksins árið 2018 var 30,6 milljónir króna, þrátt fyrir sveitarstjórnarkosningar það ár, og í fyrra bættist við 66,8 milljón króna hagnaður. Alls hagnaðist flokkur Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar því um næstum 100 milljónir króna á tveimur fyrstu heilu árum kjörtímabilsins, og þeim fyrstu eftir að fjárframlög úr ríkissjóði til stjórnmálaflokka voru stóraukin. Miðflokkurinn fékk alls 83,5 milljóna króna framlag úr ríkissjóði á síðasta ári og 17 milljónir króna frá Alþingi. Þá fékk flokkurinn 4,1 milljón króna framlag frá sveitarfélögum og því námu opinber framlög alls tæplega 105 milljónum króna. Það er rúmlega 90 prósent af öllum tekjum flokksins. Miðflokkurinn skuldar nánast ekkert, eða alls 851 þúsund krónur.
Samfylkingin hagnaðist mest allra og Viðreisn tífaldaði hagnað
Viðreisn var stofnuð í aðdraganda kosninganna 2016. Á árinu 2018, þegar flokkurinn tók í fyrsta sinn þátt í sveitarstjórnarkosningum, hagnaðist hann um 2,3 milljónir króna. Í fyrra tífaldaðist hagnaður flokksins og var 23,8 milljónir króna.
Alls voru tekjur flokksins 72 milljónir króna. Þar af komu 64,6 milljónir króna úr ríkissjóði eða úr sjóðum Alþingis og 2,7 milljónir króna komu frá sveitarfélögum. Því komu rúmlega 93 prósent af öllum tekjum flokksins úr sameiginlegum sjóðum. Viðreisn skuldar um 4,2 milljónir króna, en allar þær skuldir eru skammtímaskuldir.
Samfylkingin er sá flokkur sem skilaði mestum hagnaði allra flokka á síðasta ári. Þá jók flokkurinn hagnað sinn frá árinu 2018, sem var 17 milljónir króna, í 71,5 milljónir króna eða um næstum 55 milljónir króna. Samfylkingin, líkt og aðrir eldri flokkar, burðast með umtalsverðar skuldir. Þær stóðu í 76,3 milljónum króna um síðustu áramót og högðu þá lækkað um meira en 30 milljónir króna á einu ári. Flokkurinn á eignir á móti þessum skuldum, meðal annars fasteignir, sem metnar eru á 136,7 milljónir króna.
Alls námu framlög úr ríkissjóði og frá sveitarfélögum 115,8 milljónum króna á síðasta ári, sem var um 78 prósent af öllum rekstrartekjum Samfylkingarinnar á því ári.
Stjórnmálamenn ákváðu að hækka framlögin
Framlög úr ríkissjóði hækkuðu verulega í kjölfar þess að tillaga sex flokka sem sæti eiga á Alþingi um að hækka framlag ríkisins til stjórnmálaflokka á árinu 2018 um 127 prósent var samþykkt í fjárlögum sem voru afgreidd áður en þingi var slitið í lok desember 2017. Framlög til stjórnmálaflokka áttu að vera 286 milljónir króna en urðu 648 milljónir króna á því ári.
Samanlagt verða þau, líkt og áður sagði, um 2,8 milljarðar króna á kjörtímabilinu öllu. Þá eru ótalin framlög úr sjóðum sveitarfélaga.
Einu flokkarnir sem skrifuðu sig ekki á tillöguna voru Píratar og Flokkur fólksins.
Stjórnmálaflokkarnir áttu allir að skila inn ársreikningum til Ríkisendurskoðunar fyrir 1. nóvember og eru reikningarnir birtir nú birtir í heild sinni í fyrsta sinn eftir að Ríkisendurskoðun fer yfir þá. Áður voru einungis birtir útdrættir úr reikningunum.