Joe Biden, nýkjörinn forseti Bandaríkjanna, hefur tilnefnt Janet Yellen, fyrrum seðlabankastjóra Bandaríkjanna, sem fjármálaráðherra og John Kerry, fyrrum utanríkisráðherra, sem sérstakan sendiherra loftslagsmála. Tilnefningarnar voru formlega kynntar á blaðamannafundi fyrr í dag, en fjölmiðlar vestanhafs staðfestu þær í gær.
Ferlið formlega hafið
Rúmum tveimur vikum eftir að helstu fjölmiðlar í Bandaríkjunum lýstu Joe Biden sigurvegara forsetakosninganna þar í landi geta valdaskiptin formlega hafist eftir að Stoðþjónusta Bandaríkjanna (e. General Services Administration) viðurkenndi úrslitin síðastliðinn mánudag.
Yfirlýsing Stoðþjónustunnar er seinni á ferðinni en vanalega, en seinkunina má rekja til tregðu fráfarandi Bandaríkjaforseta, Donald Trump, við að viðurkenna kosningaúrslitin. Trump hefur efnt til fjölda málsókna vegna meintra kosningasvika í mörgum ríkjum Bandaríkjanna og krafist endurtalningar á atkvæðunum. Enn hafa málsóknirnar og endurtalningarnar ekki breytt úrslitunum að neinu ráði.
Samkvæmt frétt New York Times um málið lýsti Emily W. Murphy, forstjóri Stoðþjónustunnar, yfir sigri Biden á mánudaginn eftir að þingmenn úr röðum repúblikana og áhrifafólk í viðskiptalífinu höfðu fordæmt seinaganginn í að hefja formleg valdaskipti. Sjálfur hefur Biden og helstu aðstoðarmenn hans hans haldið því fram að þessi seinkun ógni þjóðaröryggi Bandaríkjanna og getu nýju ríkisstjórnarinnar til að bregðast við kórónuveirufaraldrinum.
Þrátt fyrir að hafa ekki enn viðurkennt ósigur í kosningunum lagði Trump þó blessun sína yfir ákvörðun Murphy í Twitter-færslu sem birtist í gærkvöldi og sjá má hér að neðan. Í henni lofsamar fráfarandi forsetinn störf hennar hjá Stoðþjónustunni og segir baráttu sinni hvergi nær lokið.
I want to thank Emily Murphy at GSA for her steadfast dedication and loyalty to our Country. She has been harassed, threatened, and abused – and I do not want to see this happen to her, her family, or employees of GSA. Our case STRONGLY continues, we will keep up the good...
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) November 23, 2020
Starfshópur undir Biden sem sér um valdaskiptin fagnaði svo ákvörðun Murphy í fréttatilkynningu sem send var út í gærkvöldi, en samkvæmt henni var ákvörðunin „nauðsynlegt skref til að byrja að takast á við áskoranirnar sem þjóðin okkar stendur fyrir, að ná stjórn á faraldrinum og koma hagkerfinu aftur á rétta braut“.
Janet Yellen sem fjármálaráðherra
Sem liður í valdaskiptunum hefur starfshópur Joe Biden staðfest tilnefningar til ráðherra í verðandi ríkisstjórn Bandaríkjanna. Sem fjármálaráðherra ætlar Biden að tilnefna Janet Yellen, fyrrum aðalhagfræðing seðlabanka Bandaríkjanna, seðlabankastjóra og aðalhagfræðing fjármálaráðuneytisins.
Yellen er sérfræðingur í vinnumarkaðshagfræði, en hún hefur kennt við háskólana Berkeley, Harvard og London School of Economics. Hún var seðlabankastjóri Bandaríkjanna á árunum 2014 til 2018 og sá þar um að vinda ofan af umfangsmikilli peningaprentun sem bankinn hafði ráðist í í kjölfar efnahagskreppunnar árið 2008. Yellen, sem er 74 ára, var fyrsta konan til að gegna stöðu seðlabankastjóra, en ef öldungadeild Bandaríkjaþings staðfestir tilnefningu Biden mun hún einnig verða fyrsti kvenkyns fjármálaráðherra landsins í 231 árs sögu embættisins.
John Kerry sem sendiherra loftslagsmála
Fjölmiðlar vestanhafs hafa einnig staðfest að Biden muni tilnefna John Kerry, fyrrum forsetaframbjóðanda og utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sem sérstakan sendiherra loftslagsmála.
Kerry, sem er 76 ára, var mótframbjóðandi George Bush yngri í forsetakosningunum árið 2004 og tapaði þar með 251 kjörmanni gegn 286. Hann gegndi svo embætti utanríkisráðherra í ríkisstjórn Baracks Obama á seinna kjörtímabili hans árin 2013-2017. Sem utanríkisráðherra skrifaði hann undir Parísarsáttmálann fyrir hönd Bandaríkjanna árið 2016.
Ólafur Ragnar Grímsson fyrrum forseti Íslands fagnaði tilnefningu Kerrys með Twitter-færslu í gær, sem sjá má hér að neðan. Í færslunni, sem skrifuð er á ensku, kallar Ólafur tilnefninguna sögulega, auk þess sem hann deilir myndbandi af ræðu Kerry á ráðstefnu Hringborðs Norðurslóða í fyrra.
A moment ago I congratulated @JohnKerry on becoming President @JoeBiden’s #ClimateEnvoy. Historic choice!
— Ólafur Ragnar Grímsson (@ORGrimsson) November 23, 2020
Listen to him describe the core of that mission at the @_Arctic_Circle Assembly last year. pic.twitter.com/KsGKgVptGa
Fimm aðrir staðfestir
Til viðbótar við Yellen og Kerry hafa fjölmiðlar staðfest fimm aðra kandídata í verðandi ríkisstjórn Bidens. Alejandro Mayorkas, sem var aðstoðarforstjóri innanríkisráðuneytisins á tímabilinu 2013-2016, verður tilnefndur sem innanríkisráðherra, en hann yrði fyrsti Bandaríkjamaðurinn af rómönskum uppruna sem hefði umsjón yfir málefnum innflytjenda þar í landi.
Sem utanríkisráðherra hyggst Biden tilnefna Antony J. Blinken, en samkvæmt breska blaðinu The Guardian er hann um margt frábrugðinn fráfarandi utanríkisráðherra, Mike Pompeo. Blinken, sem ólst að hluta til upp í Frakklandi, hefur verið yfirlýstur stuðningsmaður aukinnar samvinnu Bandaríkjanna og Evrópulanda.
Þar að auki mun Biden tilnefna Avril D. Haines sem yfirmann greiningardeildar bandarískra stjórnvalda (e. Director of National Intelligence) og yrði hún fyrst kvenna til að gegna því hlutverki. Einnig er búist við því að fyrrum þjóðaröryggisráðgjafi Bidens þegar hann gegndi embætti varaforseta, Jake Sullivan, verði tilnefndur þjóðaröryggisráðgjafi, auk þess sem Linda Thomas-Greenfield verði tilnefnd sem sendiherra Bandaríkjanna við Sameinuðu þjóðirnar.