1. Þetta er djúp kreppa
Sá samdráttur sem búist er við að verði á þessu ári verður sá mesti sem mælst hefur á einu ári hérlendis síðan árið 1920 og umtalsvert meiri enn sá sem varð eftir bankahrunið, en árið 2009 dróst hagvöxtur saman um 6,8 prósent. Seðlabanki Íslands er svartsýnni á stöðuna nú en hann var í ágúst. Ástæðan þess er þriðja bylgja COVID-19 smita í haust sem leiddu af sér hertar sóttvarnir. Sú staða dró úr viðspyrnu í efnahagslífinu. Þess vegna spáir Seðlabankinn nú 8,5 prósent samdrætti á árinu 2020, sem er ríflega einu prósentustigi meiri en hann gerði í ágúst.
2. Vöruviðskipti hafa dregist mikið saman
Íslendingar flytja aðallega út tvennskonar vörur sem seldar eru fyrir gjaldeyri, sjávarafurðir og raforku sem seld er til erlendra fyrirtækja sem reka stóriðjustarfsemi á Íslandi. Um 80 prósent af allri raforku sem framleidd er á landinu fer til slíkra stórkaupenda. Á fyrstu átta mánuðum ársins dróst vöruútflutningur okkar í greiðslujöfnuði saman um 10,7 prósent frá sama tímabili í fyrra. Í fyrra voru þau um 438,6 milljarðar króna en í ár hafa þau verið 391,5 milljarðar króna. Þar munar um 47,1 milljarð króna á milli ára. Bæði orkufyrirtæki landsins og útgerðir þess eru þó í góðri stöðu til að standa af sér þetta ástand.
3. Ferðaþjónustusamdrátturinn bítur hart
Þjónustuviðskipti Íslendinga, sem eru aðallega sala á ferðaþjónustu til útlendinga, hafa dregist saman um 45,9 prósent á fyrstu átta mánuðum ársins miðað við sama tímabil í fyrra. Þá voru tekjur af útfluttri þjónustu 456,6 milljarðar króna en frá byrjun árs og út ágúst voru þær 247 milljarðar króna. Þar munar tæplega 210 milljörðum króna. Helsta birtingarmynd þessa samdráttar er nær algjört tekjufall í ferðaþjónustugeiranum og fjöldaatvinnuleysi innan hans.
4. Ríkissjóður í miklu tapi
Halli á rekstri ríkissjóðs í ár verður 269,2 milljarðar króna. Það er mesti halli sem nokkru sinni hefur verið á rekstri hans. Fjárlög fyrir árið 2020 gerðu ráð fyrir tíu milljarða króna halla þegar þau voru samþykkt í nóvember 2019.
Á næsta ári verður staðan nánast sú sama. Áætlaður halli er 264,2 milljarðar króna. Á tveimur árum verða tekjur ríkissjóðs því 533,4 milljörðum krónum lægri á árunum 2020 og 2021 en útgjöld hans. Þessi munur verður fjármagnaður með lántökum.
Til samanburðar má nefna að hallinn á rekstri ríkissjóðs árið 2008, þegar bankahrunið varð, nam 194 milljörðum króna. Mesti tekjuafgangur sögunnar varð árið 2016, þegar að tekjur voru 302 milljörðum króna meiri en útgjöld í kjölfar þess að slitabú fallinna fjármálafyrirtækja greiddu stöðugleikaframlög í ríkissjóð.
5. 11.444 störf hafa tapast að öllu leyti
Í janúarlok voru 8.808 skráðir atvinnulausir hér á landi. Í lok október voru 20.252 að öllu leyti atvinnulausir og auk þess 4.759 í hlutabótavinnu. Þannig hafa 11.444 störf hafi tapast að öllu leyti og 16.203 að öllu eða einhverju leyti. Flest störfin sem hafa tapast eru í ferðaþjónustu. Ríkisstjórnin kynnti á föstudag að grunnatvinnuleysisbætur verði hækkaðar um alls 6,2 prósent á næsta ári og verði 307 þúsund krónur.
Þessi hópur hefur orðið harðast fyrir barðinu á efnahagslegum áhrifum COVID-19, sá sem misst hefur störf og þar með kaupmátt. Atvinnuleysið er langmest á Suðurnesjum þar sem það mældist í heild 21,2 prósent í október. Almenna atvinnuleysið þar mældist 20,1 prósent en 1,1 prósentustig bættist við vegna hlutabótaleiðarinnar.
Heildaratvinnuleysi á meðal erlendra ríkisborgara á Íslandi var um 25 prósent í október og almenna atvinnuleysið um 22 prósent. Það þýðir að hefðbundnir atvinnuleitendur, þ.e. þeir sem voru í almenna bótakerfinu en ekki á hlutabótaleiðinni, í hópi erlendra ríkisborgara voru 8.204 talsins í lok síðasta mánaðar. Því eru 41 prósent allra atvinnulausra á landinu erlendir ríkisborgarar. Í lok september síðastliðins voru erlendir ríkisborgarar sem búa hérlendis 51.120 talsins, eða tæplega 14 prósent íbúa landsins.
6. Atvinnuleysið á eftir að aukast
Vinnumálastofnun spáir því að almennt atvinnuleysi eigi eftir að aukast næstu vikur og verði komið upp í 11,3 prósent í lok árs 2020. Það var 9,9 prósent í lok október og náði þar með að klifra yfir mesta atvinnuleysið sem varð á Íslandi eftir bankahrunið 2008, en í febrúar og mars 2009 mældist það 9,3 prósent. Alþýðusamband Íslands birti fyrr í mánuðinum hagspá sína fyrir tímabilið 2020-2022. Þar er spáð að atvinnuleysi haldist yfir 6,9 prósent út tímabilið þrátt fyrir spá um hóflegan 1,8 prósent hagvöxt á næsta ári. Spá ASÍ gerði ráð fyrir að atvinnuleysi myndi verða 8,6 prósent á næsta ári. Því er viðbúið að langtímaatvinnulausum fjölgi mikið í nánustu framtíð, en alls höfðu 3.614 hefðbundnir atvinnuleitendur verið án atvinnu í meira en 12 mánuði í lok október. Þeim hafði þá fjölgað um 2.148 á einu ári eða um tæplega 150 prósent.
7. Þeir sem halda störfum hagnast á ástandinu
Innlán heimila í bankakerfinu hafa aukist mikið í kjölfar COVID-19-farsóttarinnar, en það þýðir að fólk sem er með fé á milli handanna er ekki að eyða því eins og áður. Þau jukust til að mynda um ellefu prósent milli ára á þriðja fjórðungi ársins. Almennar launahækkanir, minni neysluútgjöld samhliða sóttvarnaraðgerðum, aðgerðir til að styðja við heimilin í tengslum við faraldurinn skipta þar máli. Eða eins og Seðlabanki Íslands segir í nýjasta riti Peningamála þá hefur mikil óvissa „leitt til aukinnar varkárni heimila í útgjaldaákvörðunum og áhrif efnahagsáfallsins eru líklega ekki komin fram hjá þeim sem orðið hafa fyrir tekjufalli nema að takmörkuðu leyti vegna ýmissa stuðningsaðgerða stjórnvalda. Sparnaður heimila hefur því vaxið verulega undanfarna mánuði.“
8. Húsnæðisverð hækkar skarpt
Þá hefur húsnæðisverð á höfuðborgarsvæðinu, þar sem tveir af hverjum þremur landsmönnum búa, hækkað um 5,2 prósent síðastliðna tólf mánuði. Nú er meðalsölutími nýrra íbúða á höfuðborgarsvæðinu 65 dagar. Á fyrstu átta mánuðum ársins mældist árshækkun í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins 3,9 prósent en annars staðar á landsbyggðinni mældist 2,4 prósent lækkun þegar miðað er við vísitölu paraðra viðskipta.
Helsta ástæða þessa er sú að það er orðið miklu ódýrara að taka peninga að láni eftir að stýrivaxtalækkanir Seðlabanka Íslands (bankinn hefur lækkað vexti niður í 0,75 prósent). Breytilegir óverðtryggðir vextir á húsnæðislánum Landsbankans og Íslandsbanka eru nú til að mynda 3,5 prósent. Á sambærilegum lánum hjá Arion banka eru vextirnir 3,54 prósent. Í upphafi árs í fyrra voru breytilegir óverðtryggðir vextir bankanna á bilinu sex til 6,6 prósent. Þeir sem hafa haldið vinnunni, og eru með lánshæfi, hafa því líka notið efnahagslega góðs af þessu ástandi.
9. Búist við hægari bata á næsta ári
Þrátt fyrir jákvæðar fréttir af bóluefni gerir sú mikla óvissa um efnahagshorfur sem er uppi vegna farsóttarinnar það að verkum að Seðlabanki Íslands hefur breytt spá sinni um hagvöxt á næsta ári. Nú telur hann að hagvöxturinn verði 2,3 prósent en í ágúst spáði bankinn að hagvöxtur yrði 3,4 prósent á árinu 2021. Helsta ástæða þessa er sú að Seðlabankinn telur að færri ferðamenn komi til landsins á næsta ári en áður var reiknað með. Í forsendum fjárlaga er gengið út frá því að þeir verði 900 þúsund á árinu 2021 en Seðlabankinn telur að þeir verði 750 þúsund. Þetta mun leiða til þess að atvinnuleysi mun aukast meira og verða þrálátara.
10. Töluvert í að hagkerfið nái fyrri styrk
Seðlabanki Ísland telur að það verði kröftugur hagvöxtur á árunum 2022-2023 en að framleiðslustig ársins 2019 muni ekki nást fyrr en árið 2023. Það er því nokkuð í það, samkvæmt spá Seðlabankans, að Ísland nái þeirri stöðu sem var uppi fyrir COVID-faraldurinn.
Þá á enn eftir að borga fyrir allan þann kostnað sem fylgir því að reka ríkissjóð í methalla árum saman. Áætlanir stjórnvalda nú gera ráð fyrir að skuldasöfnunin stöðvist við 59 prósent af vergri landsframleiðslu árið 2025 og taki svo að lækka.