Frá árslokum 2016 og fram að síðustu áramótum jókst kostnaður sem hver íbúi í Reykjavík greiðir fyrir veitta félagsþjónustu í borginni úr 211 þúsund krónum í 256 þúsund krónur, eða um 45 þúsund krónur. Það þýðir að kostnaðurinn jókst um 21,3 prósent.
Á fyrra árinu greiddu íbúar í Reykjavík alls 50 þúsund krónum meira en aðrir íbúar landsins að meðaltali í veitta félagsþjónustu. Árið 2019 var sú upphæð komin í 66 þúsund krónur.
Um er að ræða fjárhagsaðstoð til þeirra sem þurfa á slíkri að halda, þjónustu við börn og unglinga, þjónustu við fatlað fólk og aldraða og ýmislegt annað sem fellur undir málaflokkinn.
Þetta má lesa út úr lykiltölum úr rekstri sveitarfélaga á árinu 2019 sem Samband íslenskra sveitarfélaga birti í lok nóvember.
Þegar horft er til nágrannasveitarfélaga höfuðborgarinnar kemur í ljós að kostnaður við veitta félagslega þjónustu í Kópavogi jókst minnst í Kópavogi þessu þriggja ára tímabili, eða um 15 þúsund krónur (13 prósent aukning). Fyrir hverjar nýjar þrjár krónur sem íbúar í Reykjavík settu í félagsþjónustu á þessum þremur árum settu íbúar í Kópavogi eina krónu í málaflokkinn.
Íbúar í Kópavogi eru þeir sem greiddu minnst allra á höfuðborgarsvæðinu til félagsþjónustu hver á síðasta ári, eða 130 þúsund krónur. Íbúar í Reykjavík borga nánast tvöfalda þá upphæð hver árlega.
Garðabær og Seltjarnarnes bættu í en eiga langt í land
Í Garðabæ jókst kostnaðurinn um 31 þúsund krónur á hvern íbúa á tímabilinu, eða um 29,5 prósent og á Seltjarnarnesi um 61 þúsund krónur (70 prósent). Þess má þó geta að íbúar beggja sveitarfélaganna Garðabæjar hafa alltaf greitt, og greiða enn, mun minna vegna veitingu félagsþjónustu en Reykjavíkurborg. Í fyrra greiddi hver íbúi í Reykjavík 72 prósent meira í félagslega þjónustu en íbúi á Seltjarnarnesi og 88 prósent meira en íbúi í Garðabæ.
Í Hafnarfirði hefur framlag hvers íbúa aukist um 45 þúsund krónur á ári, eða 36,2 prósent. Það er þó enn 51 prósent lægra en það sem hver íbúi í Reykjavík greiðir.
Reykjavík er eina sveitarfélagið á höfuðborgarsvæðinu sem innheimtir hámarksútsvar, 14,52 prósent. Hafnarfjörður, Kópavogur og Mosfellsbær eru ekki langt undan, þau rukka 14,48 prósent í útsvar, en í Garðabæ og á Seltjarnarnesi er útsvarsprósentan 13,7 prósent.
Það þýðir á mannamáli að íbúar í Reykjavík borga hærra hlutfall af launum sínum í skatta til að standa undir rekstri sveitarfélagsins en þeir sem búa í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarinnar. Stór ástæða þess er sú að Reykjavík axlar langstærstan hluta þess kostnaðar sem fellur til vegna félagslegrar þjónustu sem sveitarfélögum er gert að veita.
Reykvíkingar borga næstum jafn mikið og allir hinir til samans
Þegar horft er til þess hversu stóru hlutfalli af skatttekjum hvert sveitarfélag á höfuðborgarsvæðinu eyðir í veitta félagsþjónustu kemur í ljós að það hlutfall jókst úr 25 í 26 prósent hjá Reykjavíkurborg milli 2016 og 2019. Hlutfallið stóð í stað í Mosfellsbæ á tímabilinu, var 20 prósent. Í Hafnarfirði fór það úr 15 í 18 prósent og hjá Seltjarnarnesbær úr 10 í 17 prósent. Í Garðabæ jókst hlutfallið úr 13 í 15 prósent en hjá Kópavogi, sem greiðir lægsta hlutfall allra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu í félagsþjónustu, fór það úr 13 í 14 prósent.
Ein stoðin í veittri félagslegri þjónustu er fjárhagsaðstoð til íbúa. Líkt og Kjarninn greindi frá í byrjun síðustu viku þá er Reykjavíkurborg í sérflokki þegar kemur að veitingu á slíkri aðstoð. Hver íbúi höfuðborgarinnar greiðir 21 þúsund krónur í slíka aðstoð á ári, eða tvö þúsund krónum meira en þeir gerðu árið 2016. Til að setja málið í annað samhengi þá greiðir hver íbúi í Reykjavík sex þúsund krónum minna í fjárhagsaðstoð en framlag allra íbúa hinna sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu er samanlagt. Íbúar í Reykjavík greiða 21 þúsund krónur hver en einstakir íbúar í Kópavogi, Hafnarfirði, Garðabæ, Mosfellsbæ og á Seltjarnarnesi greiða samtals 27 þúsund krónur í veitta félagsþjónustu.
Í Reykjavík getur fjárhagsaðstoð til einstaklings verið allt að 207.709 krónur á mánuði og hjón eða sambúðarfólk getur fengið samtals allt að 332.333 krónur á mánuði. Í öðrum sveitarfélögum eru greiðslur að jafnaði lægri. Það þýðir að það borgar sig beinlínis fyrir þá sem þurfa á fjárhagsaðstoð að halda að flytja sig til Reykjavíkur. Þar af leiðandi eru mun fleiri sem þurfa á henni að halda búsettir þar en í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarinnar.
Kostnaður vegna fjárhagsaðstoðar á hvern íbúa Kópavogs stóð í stað á tímabilinu og var átta þúsund krónur, eða 38 prósent af því sem hann er á hvern íbúa í Reykjavík. Í Hafnarfirði stóð hann líka í stað í sjö þúsund krónum, eða þriðjungi af því þeim kostnaði sem hver íbúi í Reykjavík greiðir. Í Mosfellsbæ hækkaði hann um þúsund krónur á hvern íbúa, fór úr fjögur þúsund krónum í fimm þúsund krónur.