OECD hefur alvarlegar áhyggjur af stöðu mútubrotamála á Íslandi
Í nýrri skýrslu OECD um mútubrot í alþjóðaviðskiptum segir að Íslendingar hafi haft ranghugmyndir um að íslenskir einstaklingar hafi ekki tekið þátt í alþjóðlegum mútugreiðslum. Fyrir vikið hefur skort á rannsóknir á slíkum málum. Samherjamálið hafi splundrað þeim hugmyndum.
Íslendingar hafa haft þá hugmynd að íslenskir einstaklingar taki ekki þátt í mútugreiðslum á erlendum vettvangi. Vegna þess að sú hugmynd er rótföst þá hefur skort á vitundarvakningu, forvirkar rannsóknir og eftirlit með mögulegum mútugreiðslum. Yfirstandandi rannsókn á viðskiptaháttum Samherja í Namibíu og víðar, sem fer fram í að minnsta kosti þremur löndum, hefur splundrað þessari hugmynd (e. shattered this perception).
Þetta kemur fram í niðurstöðukafla nýrrar skýrslu starfshóps Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) um mútubrot í alþjóðaviðskiptum þar sem fjallað er sérstaklega um getu og hæfni Íslands til að takast á við slík brot. Skýrslan var birt í morgun.
Í henni segir að helstu rannsakendurnir sem unnu að gerð skýrslunnar hafi „alvarlegar áhyggjur“ af því að á þeim rúmu 20 árum sem liðin eru frá því að Ísland gerðist aðili að samningi OECD um baráttu gegn mútugreiðslum til erlendra opinberra starfsmanna í alþjóðlegum viðskiptum hafi Ísland enn ekki leitt eitt einasta mál sem snúist um mútugreiðslur á alþjóðlegum vettvangi, og hefur verið tilkynnt til yfirvalda, til lykta. „Ásakanirnar eru ekki metnar né, ef við á, rannsakaðar. Skýrsluhöfundar mælast til þess að Ísland tryggi að allar ásakanir um alþjóðlegar mútugreiðslur (þeirra á meðal þær sem starfshópurinn hefur vísað til íslenskra stjórnvalda) séu metnar af hæfu yfirvaldi og þar sem við á sé rannsókn hafin.“
Skortur á frumkvæði
OECD telur mikilvægt að Ísland tryggi nægjanlega fjármuni til að tryggja alvarlega rannsókn á mögulegum mútugreiðslum íslenskra einstaklinga sem stunda alþjóðaviðskipti og, ef við á, saksókn gegn þeim aðilum. Þetta þurfi Ísland að gera til að standa við þær skuldbindingar sem ríkið undirgengst með því að gerast aðili að samningi OECD um baráttu gegn mútugreiðslum til erlendra opinberra starfsmanna í alþjóðlegum viðskiptum.
Starfshópurinn hefur líka áhyggjur af frumkvæðisvinnu íslenskra löggæsluyfirvalda í mútumálum og bendir í því samhengi á að einungis eitt mál varðandi erlendar mútugreiðslur sé í rannsókn þrátt fyrir að yfirvöldum hafi borist alls fjórar ábendingar sem snerta íslensk fyrirtæki eða einstaklinga.
Því telur starfshópurinn að Ísland þurfi að grípa til ráðstafana við að sýna frumkvæði í rannsóknum og eftirliti á mögulegum mútum. Samhliða þarf að ráðast í ákveðnar breytingar á lagaumhverfi í málaflokknum, auka þjálfun þeirra sem sinna eftirliti og rannsóknum með mútugreiðslum og stuðla að vitundarvakningu í opinbera og einkageiranum um mútubrot.
Í fréttatilkynningu dómsmálaráðuneytisins vegna birtingu skýrslunnar segir að í henni lýsi starfshópurinn „áhyggjum yfir því að íslensk yfirvöld hafa enn ekki lokið rannsókn á slíku máli. Er því nokkuð ítarlega fjallað um meint brot Samherja í tengslum við úthlutun veiðiheimilda í Namibíu, enda er það fyrsta mál af þessu tagi sem rannsakað er hér á landi.“
Þar sé einnig fjallað um þann árangur sem náðst hafi hjá íslenskum stjórnvöldum. „Ber þar helst að nefna nýlega samþykkt lög um vernd uppljóstrara, eflingu skrifstofu fjármálagreininga og efnahagsbrotadeildar héraðssaksóknara. Einnig má nefna ýmsar lagabreytingar sem snúa t.d. að hækkun refsinga fyrir mútubrot og breytingar á lögum um meðferð sakamála sem heimila nú beitingu allra þvingunarúrræða og sérstakra rannsóknaraðgerða við rannsóknir þessara brota.“
Mikið fjallað um Samherjamálið
Líkt og segir í tilkynningu dómsmálaráðuneytisins er Samherjamálið, sem snýst um meintar mútugreiðslur, skattasniðgöngu og peningaþvætti Samherja í tengslum við háttsemi fyrirtækisins í Namibíu, til umfangsmikillar umfjöllunar skýrslunni.
Málefni Samherja eru nú til rannsóknar í að minnsta kosti þremur löndum: Namibíu, Íslandi og Noregi. Sex manns sitja í gæsluvarðhaldi í Namibíu vegna málsins og sex Íslendingar eru með réttarstöðu sakbornings í rannsókn héraðssaksóknara á málinu á Íslandi. Á meðal þeirra er Þorsteinn Már Baldvinsson, annar forstjóra Samherja.
Nýjustu vendingar í málinu voru þær að Kjarninn greindi frá því um liðna helgi að norski bankinn DNB sem er að hluta til í eiga norska ríkisins, lauk viðskiptasambandi sínu við Samherja í lok síðasta árs vegna þess að stjórnendur dótturfélaga sjávarútvegsrisans, sem áttu reikninga í bankanum, svöruðu ekki kröfu bankans um frekari upplýsingar um starfsemi þess, millifærslur sem það framkvæmdi og tengda aðila, með fullnægjandi hætti.
Þá er norska efnahagsbrotadeildin Økokrim er með millifærslur sem greiddar voru út af reikningum Samherja hjá DNB og inn á reikning í Dúbaí, í eigu þáverandi stjórnarformanns ríkisútgerðar Namibíu, til rannsóknar. Undirliggjandi í þeirri rannsókn er hvort að DNB hafi tekið þátt í glæpsamlegu athæfi með því að tilkynna greiðslurnar ekki til norska fjármálaeftirlitsins.
Umræddar greiðslur eru taldar vera mútugreiðslur sem greiddar voru til að tryggja Samherja hrossamakrílkvóta í Namibíu.
Í nýlega birtri greinargerð ríkissaksóknara Namibíu í málum þar sem krafist er kyrrsetningar á eignum Samherja sem metnar eru á nokkra milljarða króna og kyrrsetningar á eignum þeirra sex Namibíumanna sem sitja í gæsluvarðhaldi og tíu félaga á þeirra vegum, kemur fram að kyrrsetningarinnar sé meðal ananrs krafist á grundvelli laga um varnir gegn skipulagðri glæpastarfsemi. Í greinargerðinni er sexmenningunum og fimm Íslendingum, undir forystu Þorsteins Más, lýst sem skipulögðum glæpahóp.
Lestu meira:
-
11. janúar 2023Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
-
10. janúar 2023Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
-
10. janúar 2023Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sögulegur en dýrkeyptur kosningasigur þingforsetans
-
7. janúar 2023BDSM-félagið fagnar því að loksins eigi að afnema klámbann
-
7. janúar 2023Litlu fjölmiðlarnir með eldspýturnar
-
7. janúar 2023Með hverjum stendur þú?
-
6. janúar 2023Tíu stærstu útgerðirnar halda á 56 prósent af öllum kvóta
-
6. janúar 2023Guðrún Hafsteinsdóttir segist taka við dómsmálaráðuneytinu í mars