„Ég vil bara finna 11.780 atkvæði,“ sagði Donald Trump, fráfarandi Bandaríkjaforseti, í einstæðu símtali sem dagblaðið Washington Post birti, fyrst að hluta, og svo í heild sinni, á sunnudag. Orð forsetans beindust að Brad Raffensberger, innanríkisráðherra Georgíuríki, og lögfræðingum ríkisins sem voru með honum í símtalinu.
Forsetinn reyndi að fá embættismennina til þess að finna handa sér fleiri atkvæði en talin voru upp úr kjörkössunum í Georgíu. Skoða málið með opnum huga, og reyna með einhverjum hætti að sjá að hann hefði fengið fleiri atkvæði en Joe Biden í kosningunum þann 3. nóvember. „Það er ekkert að því að segja, þú veist, að þið séuð búin að endurreikna,“ sagði forsetinn.
Trump er á útleið og þetta símtal, sem embættismennirnir í Georgíu tóku upp og létu fjölmiðlum sennilega í té eftir að forsetinn fór með fleipur um efni þess á Twitter á sunnudagsmorgun, þótti flestum stjórnmálaskýrendum til marks um að forsetinn væri tilbúinn að ganga nánast endalaust langt í baráttu sinni fyrir því að halda völdum, þrátt fyrir að hafa tapað kosningunum.
Nú eru rúmar tvær vikur þar til Trump lætur formlega af völdum, en í þessari viku eru tveir stórviðburðir í bandarískum stjórnmálum. Í dag er kosið um tvö laus öldungadeildarþingsæti í Georgíu og á morgun koma þingmenn bæði öldungadeildar og fulltrúadeildar saman til þess að staðfesta forsetakjör Joe Biden.
Öldungadeildin gæti endað 50-50
Spennan er mikil í Georgíu. Þar fékk enginn frambjóðandi yfir 50 prósent atkvæða þegar kosið var í byrjun nóvember og ljóst varð að aukakosningarnar í ríkinu skæru úr um hvernig valdahlutföllin í öldungadeild Bandaríkjaþings myndu líta út í upphafi forsetatíðar Joe Bidens.
Mikilvægi kosninganna er því gríðarlegt – og endurspeglast það í því að nærri 500 milljónum bandaríkjadala hefur verið varið í auglýsingar í Georgíu í aðdragandanum.
Samkvæmt samantekt á skoðanakönnunum, sem FiveThirtyEight birti í gærkvöldi, eru frambjóðendur Demókrataflokksins, Jon Ossoff og Raphael Warnock, báðir með um tveggja prósentustiga forskot á keppinauta sína úr röðum repúblikana, David Perdue og Kelly Loeffler. Frá því í nóvember hafa skoðanakannanir hins vegar sveiflast fram og til baka – og það gæti í raun hvað sem er gerst.
Samkvæmt frétt Politico eru ráðgjafar Joe Bidens þó efins um að Ossoff og Warnock hafi báðir sigur og hafa gert áætlanir um stefnumótun á fyrstu 100 dögum Bidens í embætti sem gera ráð fyrir því að Demókrataflokkurinn hafi ekki stjórn á öldungadeildinni. Ef þeir hefðu hins vegar báðir betur yrðu repúblikanar og demókratar í öldungadeildinni þá jafn margir – og atkvæði varaforsetans Kamölu Harris myndu ráða úrslitum varðandi afgreiðslu mála.
Ýmsir telja að Trump sjálfur hafi glætt vonir demókrata um tvöfaldan sigur í kosningum dagsins, með ítrekuðum afsönnuðum fullyrðingum sínum um kosningasvik, sem margir telja að gætu latt kjósendur sem taka mark á Trump í því að greiða atkvæði. Til hvers ætti fólk að kjósa ef það telur að kosningakerfið sjálft sé að svíkja sig?
Politico hefur eftir einum starfsmanni Demókrataflokksins að sá hinn sami eigi erfitt að ímynda sér hvernig Trump hefði getað spillt meira fyrir sigurvonum Perdue og Loeffler.
Ef þetta er raunin, að viðbrögð kjósenda við árásum Trump á lýðræðið verði neikvæð fyrir Repúblikanaflokkinn, gerði framkoma hans á fjöldafundi í Dalton í Georgíu í gærkvöldi lítið til þess að hjálpa frambjóðendum flokksins. Þar þverneitaði hann fyrir sigur Biden og setti fram ýmsar samsæriskenningar um úrslit kosninganna í Georgíu og raunar víðar.
Gæti orðið róstusamt í Washington
Þingmenn beggja deilda Bandaríkjaþings munu á morgun koma saman til að kjósa um hvort staðfesta skuli niðurstöður forsetakosninganna, þann fjölda kjörmanna sem hvor frambjóðandi fékk í hverju ríki.
Í eðlilegu árferði er það einfaldlega gert – algjört formsatriði – en nú hafa á annan tug öldungardeildarþingmanna og yfir 100 fulltrúardeildarþingmenn Repúblikanaflokksins gefið það út að þeir muni mótmæla niðurstöðum kosninganna í nokkrum ríkjum.
Innan þingliðs flokksins standa nú miklar deilur á milli þeirra sem ætla sér að feta þessa braut og annarra, sem segja vegið að lýðræðinu í landinu og stjórnarskránni með þessum æfingum. Rétt er að taka fram að þetta er ekki talið líklegt til að breyta nokkru um það að Joe Biden sverji embættiseið sinn 20. janúar.
Á sama tíma – og kannski til marks um ástandið í bandarískum stjórnmálum – hafa allir tíu fyrrverandi varnarmálaráðherrar Bandaríkjanna skrifað grein í Washington Post, þar sem þeir segja meðal annars að Bandaríkjaher megi ekki taka neinn þátt í tilraunum Trumps til þess að snúa kosningaúrslitunum sér í hag.
Á meðal þeirra sem rita sig fyrir greininni er Dick Cheney, fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna, en samkvæmt fréttum átti hann hugmyndina að því að fá alla núlifandi varnarmálaráðherrana saman í þessa áminningu að hervaldi skuli ekki beita í þágu pólitískra hagsmuna.
Nokkur hundruð þjóðvarðliðar hafa verið kallaðir út í Washington DC, til þess að vera viðbúnir mótmælum sem þar eiga að fara að fram í dag og á morgun, en búist er við því að mikill fjöldi stuðningsmanna forsetans leggi leið sína til höfuðborgarinnar til þess að láta skoðun sína á úrslitum kosninganna í ljós.
„Það er fólk sem ætlar að koma til borgarinnar okkar grátt fyrir járnum,“ sagði Robert Contee, lögreglustjóri í Washington í gær, en skilti hafa verið sett upp í miðborginni til þess að minna á að vopnaburður er óheimill. Þar hafa fyrirtæki sömuleiðis búið sig undir óeirðir á götum úti.