Þau ruddust inn. Stukku yfir öryggisgirðingar sem komið hafði verið upp. Lítið mál. Ekkert mál. Svo gengu þau um ganga sjálfs Bandaríkjaþings með fána sína, sum hver klædd furðufatnaði. Rétt eins og þau vissu að þannig myndu þau vekja athygli og undrun þeirra sem síðar fengju að sjá myndirnar.
Sumir fóru inn á skrifstofur þingmanna. Komu sér þægilega fyrir við skrifborðin. Flettu í gegnum blöð, mögulega trúnaðargögn. Skiptust á að setjast í stól þingforseta í þingsalnum.
Tóku sjálfur. Voru hin rólegustu. Því inni í þinghúsinu voru þeir við völd.
Á meðan höfðu þingmenn og starfsmenn þingsins flúið undir jörðina. Þrætt sig með aðstoð lífvarða og lögreglumanna í gegnum völundarhús ganga.
Þetta er sú birtingarmynd sem margir hafa fengið af árásinni á Bandaríkjaþing á miðvikudag. Inni í húsinu og fyrir utan kom þó til átaka. Einn lögreglumaður lést. Einn úr innrásarhópnum var skotinn til bana. Fimm hafa því týnt lífi vegna óeirðanna.
„Hvernig gat [lögreglunni] mistekist svona herfilega?“ segir öldungadeildarþingmaðurinn og repúblikaninn Lindsey O. Graham. „Þeir hefðu getað sprengt bygginguna í loft upp. Þeir hefðu getað drepið okkur öll.“
Fjölmargar spurningar hafa vaknað. Hvernig lifir maður það af að brjótast inn í miðstöð lýðræðis hins frjálsa heims? Enga nákvæma viðmiðun um viðbrögð yfirvalda er að finna, þetta hefur ekki áður átt sér stað.
Margir sem furða sig á því hvernig þetta gat gerst hafa deilt tísti bandaríska rapparans Noah Caine þar sem stendur við mynd af einum árásarmannanna í stóli forseta öldungadeildarinnar: Að komast hingað án þess að deyja er lifandi dæmi um forréttindi hvítra.
to make it here without dying is the epitome of white privilege pic.twitter.com/Uw5FV33bpO
— Noah Caine (@NoahCaine) January 6, 2021
Innrás stuðningsmanna Donalds Trump í þinghúsið á miðvikudag afhjúpaði í besta falli gríðarmikinn misbrest í öryggismálum því þetta átti sér stað í höfuðborg Bandaríkjanna, þar sem viðbúnaðarstig var þegar hátt, og í sjálfu þinghúsinu, sem hefur yfir 2.000 manna sjálfstæðu lögregluliði að ráða. Lögregluliði sem hefur það hlutverk að verja nokkrar byggingar og umhverfi þeirra. Lögreglulið sem er á pari við þau lið sem starfa í mörgum minni borgum og bæjum Bandaríkjanna.
Hundruð manna tókst þó með að því er virðist lítilli fyrirhöfn, fyrst og fremst með fánastangir og varnarskildi að vopni, að brjótast inn fyrir varnarlínur lögreglunnar fyrir framan byggingarnar og svo alla leið inn í það og inn í þingsali hússins og skrifstofur þingmanna.
En hvernig má það vera?
Það var ekki eins og mótmælin sem þúsundir stuðningsmanna forsetans fráfarandi sóttu hefðu sprottið skyndilega upp. Þau höfðu verið skipulögð vikum saman og Trump sjálfur þegar um miðjan desember hvatt stuðningsmenn sína til að mæta á þau. Þetta var dagurinn sem þingheimur átti að staðfesta – nú eða hafna – niðurstöðum forsetakosninganna. Þá hafði Trump egnt stuðningsmenn sína í ræðu og riti (á Twitter) til að sætta sig ekki við „falska“ niðurstöðu kosninganna sem hann sagði, án nokkurra sönnunargagna, hafa verið „stolið“ af sér. Hann væri réttmætur sigurvegari og hefði unnið með miklum meirihluta.
Allir vissu það. Ekki síst andstæðingar hans.
Þegar rýnt er í upptökur og myndir af því sem fram fór við þinghúsið í fyrradag, og af nógu er að taka í þeim efnum, virðist í sumum tilvikum sem lögreglan hafi vart verið sýnileg, að minnsta kosti ekkert í líkingu við það sem hún var í fjöldamótmælum sumarsins – þegar milljónir söfnuðust saman víðs vegar um Bandaríkin og kröfðust réttlætis fyrir svarta í kjölfar morðsins á George Floyd. Í fréttaskýringu Washington Post, þar sem farið er yfir gjörðir lögreglunnar í upphafi óeirðanna, segir að svo virðist sem sumir lögreglumenn hafi staðið aðgerðalausir hjá á meðan múgurinn réðst til inngöngu í þinghúsið. Heimildarmenn dagblaðsins innan lögreglunnar segja að þinglögreglunni og öðrum embættum sem eiga að tryggja lög og reglu undir þessum kringumstæðum hafi mistekist. Þessir aðilar hafi vanmetið fjölda þeirra sem þátt tóku í mótmælunum og þann árásarhug sem margir voru í.
Annað sem vakið hefur athygli er að miðað við þá vitneskju að til fjöldamótmæla myndi koma hafi þinglögreglan verið illa undirbúin. Girðingum hafði verið komið upp við þinghúsið en þær voru lágar og ekkert mál að stökkva yfir þær. Þá voru lögreglumennirnir flestir í hefðbundnum lögreglubúningum – ekki óeirðarbúningum. Þeir voru klæddir til að fylgjast með mótmælum en ekki til að verjast innrás.
Í grein Washington Post, sem byggir á viðtölum við bæði lögreglumenn og sérfræðinga aðra í löggæslu, vekja viðbrögð lögreglumanna inn í húsinu einnig undrun. Svo virðist sem margir þeirra hafi staðið hjá og lítið brugðist við skaranum sem flæddi þar um ganga. Þetta eru atriði sem sérfræðingarnir telja sig sjá út frá myndböndum og myndum sem birtar hafa verið opinberlega en formleg rannsókn á atburðarásinni allri á auðvitað enn eftir að fara fram.
Annað sem hefur vakið mikla athygli er hversu fáir voru handteknir. Fólk sem hafði brotið sér leið inn í þinghúsið var rekið út úr því en var svo langflest frjálst ferða sinna. Í dag, föstudag, hefur komið á daginn að átökin milli lögreglumanna og óróaseggja utan og innan veggja þinghússins hafi verið meiri en í fyrstu var talið og að minnsta kosti einn lögreglumaður týndi lífi.
Hið meinta aðgerðaleysi einhverra lögreglumanna á sér líklegast, að minnsta kosti að stórum hluta, þá skýringu að þeir áttu ekki von á þessu. Voru illa undirbúnir.
Og það skrifast á yfirvöld.
Steven Sund, lögreglustjóri þinglögreglunnar, sagði að hún hefði undirbúið sig fyrir hörð mótmæli. En í staðinn hafi lið hans þurft að takast á við uppreisnarmenn sem sýndu af sér glæpsamlega hegðun.
Þrír yfirmenn þinglögreglunnar sögðu af sér í gær, þeirra á meðal Sund. En ábyrgðin liggur einnig hærra í stjórnkerfinu.
Hryllingsmynd í beinni
„Þetta er eins og að horfa á hryllingsmynd í beinni,“ segir Kim Dane, sem var yfirmaður þinglögreglunnar á árinum 2012-2016. „Við æfum okkur og skipuleggjum á hverjum einasta degi til að koma í veg fyrir svona atburði. Hvernig þetta gerðist... ég skil það ekki.“
Dane bendir einnig á að það hafi komið sér á óvart hversu nálægt þinghúsinu lögreglan leyfði mótmælendum að koma þegar í upphafi. Þeir gátu staðið á tröppum þess. Þá furðar hann sig einnig á því að þeir sem komust inn hafi ekki þegar í stað verið handteknir.
Stuttu eftir að einn lögreglumaður úr þinglögreglunni hafði hleypt af skoti sem hæfði konu sem brotist hafði inn í þinghúsið í hálsinn tók lögreglan í Washington-borg yfir vettvanginn og það verkefni að koma óeirðarseggjunum út úr byggingunni. „Það sem við gerðum var að endurreisa lýðræðið fyrir öll Bandaríkin,“ sagði Robert Contee, lögreglustjóri Washington-borgar í gær.
Aðrir sem þekkja til aðgerðanna í þinghúsinu segja að þinglögreglan hafi átt nóg með að tryggja öryggi þingmanna og starfsmanna þingsins. Hún hafi ekki haft mannafla til þess að fara í beinar og harðar aðgerðir gegn innrásarliðinu, t.d. að handtaka fjölda manns. Með öðrum orðum: Allt fárið kom henni algjörlega í opna skjöldu.
„Það átti enginn að vera svona nálægt þinghúsinu,“ sagði þingmaður repúblikana, Tim Ryan, á blaðamannafundi eftir innrásina en hann fer fyrir þingnefnd sem fer með fjárveitingar til þinglögreglunnar. Hann segir að fólk eigi að fá að mótmæla í nágrenni þinghússins en ekki upp við það eins og gerðist í fyrradag. „Ég held að það sé alveg ljóst að það er hópur manna sem á eftir að verða atvinnulaus bráðlega.“
Til að hafa það á hreinu...
Þegar stuðningsmenn Trumps tóku að streyma til Washington í byrjun vikunnar óttaðist borgarstjórinn mest að þeir myndu vinna skemmdarverk á torgi norður af Hvíta húsinu sem helgað hefur verið baráttu Black Lives Matter. Málin þróuðust þó á allt annan veg. Þinglögreglan ber fyrst og fremst ábyrgð á þinghúsinu sjálfu og næsta nágrenni og þótt að mannfjöldinn hafi vaxið í aðdraganda gærdagsins töldu yfirmenn hennar ekki þörf á aðstoð frá almennu lögreglunni í Washington. Einhver fjöldi alríkislögreglumanna var í borginni en hafði verið beðinn að láta lítið á sér bera til að valda ekki óþarfa hræðslu meðal fólks.
Varnarmálaráðuneytið heimilaði fyrirfram aðkomu 340 þjóðvarðliða að löggæslu í borginni á miðvikudag en með þeim skilyrðum að þeir myndu ekki bera skotvopn og tækju að sér stuðningsverkefni eins og umferðarstjórnun.
„Til að hafa það á hreinu þá er alríkishérað Columbiu [D.C.] ekki að óska eftir frekari alríkislögreglumönnum og hvetur ekki til liðsstyrks án samskipta við og eftir ráðleggingar frá [borgarlögreglunni] ef slíkar áætlanir eru í bígerð,“ skrifaði borgarstjórinn í bréfi til dómsmálaráðuneytisins á þriðjudag.
Þegar fyrstu mótmælendurnir höfðu brotist inn í þinghúsið, með því að brjóta glugga með hlífðarskjöldum sem þeir báru, opnuðu þeir dyr hússins fyrir öðrum. Þeir einfaldlega hleyptu skrílnum inn. Þá þegar var sent út neyðarkall til annarra lögregluembætta og þau beðin um liðsstyrk. Við því var hins vegar ekki brugðist af krafti þegar í stað og langur tími leið raunar áður en t.d. þjóðvarðliðar voru kvaddir til. Þegar liðsauki barst voru þegar hundruð manna komin inn í þinghúsið og ástandið orðið óviðráðanlegt.
Fjölmiðlar austan hafs og vestan hafa borið kennsl á óeirðarseggina sem höfðu sig hvað mest í frammi. Sumir þeirra eru þekktir fulltrúar öfga hægri hópa eða talsmenn slíkra skoðana. Þessir hópar hafa margir hverjir lýst yfir stuðningi við Trump svo í raun ætti þátttaka þeirra í uppþotinu ekki að koma á óvart.
Einmana úlfar mynda hjörð
En það er eins og hún hafi komið lögreglu- og borgaryfirvöldum á óvart. Skýringin felst, að mati Seyward Darby, ritstjóra tímaritsins Atavist Magazine og pistlahöfundar New York Times, í því að hingað til hefur verið litið á hvíta þjóðernissinna og aðra hægri öfgamenn sem marga ósamstæða hópa. Í fjölmiðlum eru þeir kallaðir „einfarar“ eða „einmana úlfar“ þegar þeir fremja hermdarverk. Á glæpi þeirra er svo litið sem „einstök tilvik“ – ekki skipulögð hryðjuverk. Mistökin felast í einmitt þessu; að samanlögð ógn hópanna hafi ekki verið metin. „Þeir geta ógnað og eru ógnandi og hér erum við svo stödd, í fyrstu viku ársins 2021, að fylgjast með óvelkominni sögulegri stund í Washington.“