Aukakosningarnar í Georgíuríki síðastliðinn þriðjudag, 5. janúar, til Öldungadeildar þingsins, voru tilkomnar vegna þess að eftir kosningarnar í nóvember stóðu flokkarnir tveir, Repúblikanar og Demókratar,hnífjafnir hvað atkvæðafjölda varðaði. Joe Biden marði sigur í ríkinu í forsetakosningunum og það, ásamt jafnteflinu í þingkosningunum, þótti marka breytingar. Frambjóðandi Demókrata hafði ekki haft betur í forsetakosningum í ríkinu síðan árið 1992 og flokkurinn hafði ekki átt öldungadeildarþingmann frá Georgíu síðan árið 2005 (Zell Miller). Þangað til nú.
En kosningarnar síðastliðinn þriðjudag snerust ekki bara um tvo þingmenn, þær snerust líka um meirihluta í Öldungadeildinni, þar sitja 100 þingmenn. Ef meirihluti í deildinni er andsnúinn forsetanum getur hann komið í veg fyrir að forsetinn komi málum í gegnum þingið. Fyrir aukakosningarnar sl. þriðjudag höfðu Repúblikanar 52 þingmenn í Öldungadeildinni, Demókratar 46. Tveir þingmenn eru óháðir, en þeir hafa þó í flestum, ef ekki öllum, tilvikum fylgt Demókrötum.
Nú, eftir kosningarnar sl. þriðjudag er staðan þannig að Demókratar hafa 48 þingmenn plús 2 óháða og Repúblikanar 50. Pattstaða myndi kannski einhver segja. En þannig er það ekki, atkvæði varaforsetans, sem nú er Kamala Harris, ræður nefnilega úrslitum í kosningum í deildinni, ef atkvæði falla jafnt. Þótt meirihlutinn sé afar naumur gerir hann Joe Biden mun hægara um vik að koma málum gegnum deildina.
Nýju þingmennirnir tveir eru Jon Ossoff og Raphael Warnock. Sá fyrrnefndi verður 34 ára í febrúar, fyrrverandi blaða- og kvikmyndagerðarmaður, hvítur á hörund. Raphael Warnock er 51, prestur, dökkur á hörund. Kjör Warnocks hefur vakið sérstaka athygli en hann er fyrsti þeldökki maðurinn sem nær kjöri til Öldungadeildarinnar fyrir Georgíuríki.
Árangur demókrataflokksins í kosningunum í Georgíu er glöggt dæmi um breytingar í Suðurríkjunum þar sem innflytjendum fjölgar ört.
Brian Kemp, kaupin á eyrinni og símtöl frá Trump
Árið 2018 fóru fram ríkisstjórakosningar í Georgíuríki. Frambjóðandi Demókrata var Stacey Abrams, 45 ára lögfræðingur, af afrískum uppruna. Hún hafði um árabil tekið virkan þátt í stjórnmálum í heimaríkinu og virt fyrir störf sín. Meðal stuðningsmanna hennar í kosningabaráttunni voru þeir Barack Obama, fyrrverandi forseti og Öldungadeildarþingmaðurinn Bernie Sanders.
Frambjóðandi Repúblikana var Brian Kemp, þáverandi innanríkisráðherra Georgíu, 45 ára, búfræðingur að mennt (BS próf). Meðal starfa á könnu innanríkisráðherrans er framkvæmd og eftirlit kosninga, úrskurða um kosningarétt og hafa eftirlit með talningu. Í kringum kosningarnar 2018 urðu miklar deilur, meðal annars þótti óeðlilegt að Brian Kemp sem sjálfur var í kjöri til ríkisstjóra væri jafnframt æðsti yfirmaður kosninganna.
Brian Kemp og starfsfólk hans, nær allt hvítt á hörund, neitaði 53 þúsund borgurum (80 prósent þeirra dökkir á hörund) um að komast á kjörskrá og geta greitt atkvæði. Mörg atkvæði „gufuðu upp“, talningavélar „biluðu“ og fjöldi atkvæða voru úrskurðuð ógild. Brian Kemp sigraði í ríkisstjórakosningunum, hlaut 50,2 prósent atkvæða. Kjörtímabili hans lýkur haustið 2022. Samkvæmt könnun Associated Press fréttaveitunnar, sem gerð var í kjölfar ríkisstjórakosninganna árið 2018 hafði Brian Kemp sem innanríkisráðherra samtals hafnað um einni milljón skráninga til kjörskrár, á árunum 2012 - 2018
Hér má geta þess að það var núverandi innanríkisráðherra Brad Raffensberger sem Donald Trump hringdi í og óskaði eftir að hann „fyndi“ 11.780 atkvæði, sem hefðu dugað Trump til sigurs í Georgíu. Þegar Raffensberger neitaði hringdi Trump í ríkisstjórann, Brian Kemp og fór þess á leit að hann kallaði saman ríkisþing Georgíu í því skyni að ógilda niðurstöður forsetakosninganna í ríkinu, en þar sigraði Joe Biden, naumlega. Brian Kemp hafnaði beiðni forsetans, enda hafði hann ekkert vald til að fyrirskipa ógildingu kosninganna.
Stacey Abrams
Konan sem minnst var á í inngangi þessa pistils og demókrataflokkurinn á mikið að þakka er Stacey Abrams, sú sem beið lægri hlut í ríkisstjórakosningunum í Georgíuríki árið 2018. Hún hafði þá um árabil unnið að því að fá minnihlutahópa, einkum þeldökkt fólk í heimaríkinu, og víðar, til að þess að fá nafn sitt á kjörskrá og nýta rétt sinn þegar kemur að kosningum. Hún hefur lagt mikla áherslu á að þeldökkir íbúar Bandaríkjanna láti ekki kúga sig.
Stacey Abrams er fædd í Madison Wisconsin árið 1973 en skömmu eftir fæðingu hennar flutti fjölskyldan til Gulfport Mississippi og síðar til Atlanta í Georgíu. Stacey Abrams var góður námsmaður og fékk ung áhuga á stjórnmálum og gekk til liðs við ungliðahreyfingu demókrata. Á menntaskólaárunum vann hún á skrifstofu borgarstjórans í Atlanda, Maynard Jackson. Árið 1999 lauk Stacey Abrams doktorsprófi frá Lagadeild Yale háskólans. Þess má geta að Lagadeildin við Yale hefur um árabil verið metin sú besta á sínu sviði í Bandaríkjunum.
Steinrunnin í 10 daga en hófst þá handa
Í blaðaviðtali árið 2019 sagðist Stacey Abrams hafa setið sem steinrunnin í 10 daga eftir ríkisstjórakosningarnar árið 2018. „Ég gerði mér ljóst að hvíti aðallinn myndi, hér eftir sem hingað til, gera allt til að halda völdum og það myndi hann gera með því að velja hverjir fái að kjósa.“ Stacey Abrams hafði árið 2014 stofnað samtökin Fair Fight, tilgangurinn samtakanna var, og er sá, að upplýsa borgarana um rétt sinn til að kjósa og nauðsyn þess að nýta þann rétt.
Starfsemi Fair Fight hefur ekki farið fram hjá „hvíta aðlinum“ í Georgíu og fyrir forsetakosningarnar 2020, og kosningarnar til þingsins, fyrirskipaði Brad Raffensberger innanríkisráðherra Georgíu sérstaka rannsókn á stórum hópi fólks, sem hafði skráð sig og hugðist kjósa. Hafi tilgangur þeirrar rannsóknar verið að meina tilteknum hópi fólks að kjósa mistókst sú tilraun. Joe Biden fékk fleiri atkvæði í forsetakosningunum í ríkinu og Demókratar unnu bæði sætin í aukakosningunum sl. þriðjudag. Nýskráðir kjósendur í nýafstöðnum kosningum voru um það bil 800 þúsund, og þar vegur starfsemi Fair Fight, undir stjórn Stacey Abrams, þyngst.
Sjálf hefur hún lagt áherslu á að árangur demókrataflokksins í forseta- og þingkosningunum sé afrakstur samvinnu margra. „Ég er kannski samnefnari þessa stóra hóps en þar eiga margir aðrir stóran þátt.“
Íhugar framboð 2022 en vill hvorki gifta sig né grennast og er stolt af húðlitnum
Margt forystufólk í demókrataflokknum hefur hvatt Stacey Abrams til að bjóða sig fram til ríkisstjóra Georgíu í kosningunum 2022. Þótt hún hafi sjálf hvorki sagt af né á í þeim efnum búast margir við að hún láti til skarar skríða og sé í raun þegar byrjuð að undirbúa framboðið. Í nýlegu blaðaviðtali sagði Stacey Abrams að ef hún færi fram væri gott að vita af því að húsbændur í Hvíta húsinu væru sér vinveittir.
Í löngu viðtali við tímaritið Vogue fyrir nokkru sagði hún frá því að ýmsir, nafngreindi engan, væru duglegir að gefa sér ráð. „Mörg þeirra hafa reynst mér vel en ég fer ekki eftir þeim öllum. Mér hefur margoft verið sagt að ég þurfi endilega að gifta mig og léttast. Ég ætti líka að láta lýsa á mér húðina. Ég ætla ekki að fylgja þessum ráðleggingum.“