„Mér sýnist að það sé að myndast þverpólitísk sátt um fjölmiðlafrumvarpið sem er jákvætt,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra við RÚV á laugardag, en frumvarp hennar um stuðning við einkarekna fjölmiðla á Íslandi er nú til meðferðar á Alþingi í þriðja sinn.
Frumvarpið er í grunninn með svipuðu sniði og tvö fyrri frumvörp sem Lilja lagði fram til þingsins, eftir að þau höfðu verið samþykkt í ríkisstjórn og þingflokkum stjórnarflokkanna þriggja. Það felur í sér að einkareknir fjölmiðlar á Íslandi verði styrktir um tæpar 400 milljónir króna á ári úr ríkissjóði.
Styrkirnir til fjölmiðla eiga að verða í formi endurgreiðslna vegna launakostnaðar fjölmiðlafólks og útfærslan svipuð og í einskiptisstyrkjum sem fjölmiðlar fengu til þess að takast á við áhrif kórónuveirufaraldursins á síðasta ári.
Í bæði fyrri skiptin sofnuðu frumvörp Lilju svefninum langa í allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis, sem Páll Magnússon þingmaður Sjálfstæðisflokksins stýrir. Það hefur gerst vegna andstöðu nokkurra þingmanna Sjálfstæðisflokksins. Fá teikn virtust á lofti um að annað yrði uppi á teningnum í þriðju tilraun.
Það vakti því töluverða athygli í síðustu viku þegar Páll sjálfur sagði í samtali við Morgunblaðið að Sjálfstæðismenn myndu í „grófum dráttum“ styðja fjölmiðlafrumvarp Lilju. Þau orð lét Páll falla í samhengi við þá ákvörðun stjórnenda Sýnar að fréttatími Stöðvar 2 verði framvegis einungis fyrir áskrifendur.
Það taldi Páll, sem er bæði fyrrverandi fréttastjóri Stöðvar 2 og útvarpsstjóri RÚV, bagalegt fyrir lýðræðið í landinu. Af orðum Páls mátti skilja að þessi stefnubreyting Sjálfstæðismanna væri vegna orða mennta- og menningarmálaráðherra um að samþykkt fjölmiðlafrumvarpsins yrði fyrsta skrefið að brotthvarfi RÚV af auglýsingamarkaði.
Lilja hefur þó boðað lengi að stefna skuli að því að RÚV hverfi þaðan.
Hvort sem það er ákvörðun Stöðvar 2 um að læsa fréttum eða ítrekun á fyrirheitum Lilju um að taka RÚV af auglýsingamarkaði sem veldur, þá virðist hreyfing vera að komast á mál sem hefur til þessa verið skotið niður af þingmönnum Sjálfstæðisflokks, sem hafa haft aðrar hugmyndir um hvernig styðja megi við einkarekna fjölmiðla.
Stjórn BÍ: „Þurfum ekki að finna upp hjólið“
Stjórn Blaðamannafélags Íslands (BÍ) sendi frá sér ályktun vegna læstra frétta Stöðvar 2 á föstudag. Stjórnin sagði að ákvörðun stjórnenda Sýnar væri „þungt áfall fyrir íslenska samfélagsumræðu og áfellisdómur yfir þeim rekstrarskilyrðum sem fyrirtækjum hefur verið búin á þessum markaði frá því að frelsi á ljósvakamarkaði varð að veruleika um miðjan níunda áratug síðustu aldar.“
Fyrirferð RÚV á auglýsingamarkaði er gagnrýnd í ályktuninni, en þar segir einnig að á meðan að fjölmiðlar reyni að fóta sig í breyttum veruleika varðandi tekjuöflun þurfi „hið opinbera að koma að málum með sambærilegum hætti og gert er í nágrannalöndum okkar. Við þurfum ekki að finna upp hjólið, þrautreyndar aðferðir í þeim efnum eru fyrir hendi,“ sagði stjórn BÍ.
Ísland eina norræna ríkið sem ekki styrkir einkarekna miðla
Í greinargerð með frumvarpi Lilju um stuðning við einkarekna fjölmiðla er dregið fram að Ísland er eina norræna ríkið sem ekki veitir beina eða óbeina styrki til einkarekinna fjölmiðla.
„Í Finnlandi eru veittir styrkir til fréttablaða sem gefin eru út á tungumálum minnihlutahópa. Víðtækari framleiðslu- og dreifingarstyrkir eru veittir í Noregi og Svíþjóð. Í Danmörku er annars konar styrkjakerfi þar sem stuðningur er veittur til framleiðslu ritstjórnarefnis á prentuðu formi fyrir smærri fjölmiðla með útbreiðslu á landsvísu auk þess sem netmiðlum er veittur stuðningur. Í Danmörku er einnig veittur verkefnastyrkur vegna stofnunar nýrra fjölmiðla og þróunar þeirra miðla sem fyrir eru á markaðnum,“ segir í greinargerðinni.
Þar segir enn fremur að á Norðurlöndunum hafi mikil umræða átt sér stað um að styrkja einkarekna fjölmiðla enn frekar til að þeir nái að fóta sig í heimi þar sem færri og færri kjósa að greiða fyrir fréttir og samfélagsmiðlar hirða stóran hluta auglýsingakökunnar.