Alls lánuðu bankar 305,8 milljarða króna í ný húsnæðislán með veði í fasteign til heimila landsins í fyrra, umfram upp- og umframgreiðslur. Það er næstum þrisvar sinnum hærri upphæð en þeir lánuðu í ný útlán á árinu 2019 og nánast sama upphæð og þeir lánuðu á árunum 2017 til 2019 samanlagt. Á því tímabili námu ný útlán umfram upp- og umframgreiðslur 328,8 milljörðum króna.
Til að setja þetta umfang í annað samhengi þá hafa bankarnir lánað nettó samtals 828,6 milljarða króna í ný húsnæðislán með veði í fasteign frá byrjun árs 2013 og fram til síðustu áramóta, eða á átta árum. Alls kom 37 prósent þeirrar upphæðar til í fyrra.
Þetta kemur fram í nýjum tölum Seðlabanka Íslands um stöðu bankakerfisins sem birtar voru í gær.
Óverðtryggð lán inn, verðtryggð lán út
Árið 2020 var árið sem íslensk heimili flúðu verðtrygginguna í unnvörpum. Umfang óverðtryggðra nýrra húsnæðislána sem bankarnir veittu heimilum landsins umfram upp- og umframgreiðslur var 363,7 milljarðar króna.
Hjá lífeyrissjóðum landsins, hinum stóra virka lánveitandanum, var líka gríðarlegur samdráttur í veitingu nýrra verðtryggðra útlána. Uppgreiðslur og umframgreiðslur verðtryggðra lána voru samtals 18,2 milljörðum krónum meiri á fyrstu ellefu mánuðum síðasta árs en umfang nýrra lána.
Til að setja þann viðsnúning í samhengi þá lánuðu sjóðirnir nettó út 69 milljarða króna í ný verðtryggð húsnæðislán árið 2018 og 60,5 milljarða króna árið 2019.
Hröð stýrivaxtalækkun ráðandi breyta
Ástæðan fyrir þessari hröðu breytingu eru stórbætt óverðtryggð lánakjör. Eftir að vaxtalækkunarferli Seðlabanka Íslands hófst svo í maí 2019 hafa stýrivextir lækkað úr 4,5 prósent í 0,75 prósent. Fyrir vikið er nú hægt að taka óverðtryggt húsnæðislán á 3,3 prósent vöxtum.
Vegna þessarar stöðu hafa viðskiptabankarnir endurheimt stöðu sína sem helstu veitendur húsnæðislána, en lífeyrissjóðir landsins höfðu tekið við henni haustið 2015 þar sem þeir gátu boðið mun betri kjör, sérstaklega á verðtryggðum lánum, á meðan að stýrivextir voru háir og verðbólga lítil.
Fyrir vikið hefur verið mikið líf á húsnæðismarkaði. Mikil ásókn er íbúðir og takmarkað framboð hefur sett þrýsting á íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu. Frá nóvember 2019 og fram í sama mánuð ári síðar hækkaði húsnæðisverðið þar um 7,7 prósent.
Til stendur að banna verðtryggingu án þess að banna hana
Þrátt fyrir að Íslendingar séu ekki að taka verðtryggð lán sem neinu nemur lengur lagði Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, fram frumvarp í síðustu viku um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu sem fela í sér að takmarkanir verða settar á það hverjir mega taka svokölluð Íslandslán, sem eru verðtryggð jafngreiðslulán til 40 ára.
Verði frumvarpið að lögum mun verða bannað að taka verðtryggt húsnæðislán til lengri tíma en 25 ára. Nokkrar undantekningar eru þó á því banni. Þannig má fólk undir 35 ára aldri áfram taka lán til allt að 35 ára og lántaki á aldrinum 35-40 ára má taka lánin til allt að 30 ára. þeir einstaklingar sem eru með árstekjur undir 4,2 milljónum króna (350 þúsund krónur á mánuði) eða hjón/sambýlisfólk sem eru með undir 7,2 milljónir króna á ári (600 þúsund krónur á mánuði) mega áfram taka 40 ára lán.
Enn fremur munu takmarkanir á veitingu nýrra verðtryggðra jafngreiðslulána ekki gilda í tengslum við yfirtöku á eldri lánum, heldur einungis á veitingu nýrra lána. Þá eru ekki settar skorður við veitingu verðtryggðra húsnæðislána með jöfnum afborgunum.
Því stendur til að undanskilja þá hópa sem líklegastir eru til að taka verðtryggð lán til lengri tíma, ungt og tekjulágt fólk sem sækist eftir lágum mánaðarlegum afborgunum, frá því að 25 ára bannið gildi um þau.
Frumvarpið felur líka í sér að bannað verður að lána verðtryggt til styttri tíma en tíu ára.
Verið að efna vilyrði
Tilefni frumvarpsins er ekki aðsteðjandi vandi þeirra sem valið hafa þennan lánakost eða verðbólguskot sem hækkað hefur höfuðstól lánanna skyndilega. Það er í fyrsta lagi að krafa um bann á veitingu Íslandslána rataði inn í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar að kröfu Framsóknarflokksins. Í honum sagði að ríkisstjórnin myndi taka markviss skref á kjörtímabilinu til afnáms verðtryggingar á lánum en samhliða þeim verði ráðist í mótvægisaðgerðir til að standa vörð um möguleika ungs fólks og tekjulágra til að eignast húsnæði.
Í öðru lagi var gerð krafa um það á síðustu metrum viðræðna um gerð Lífskjarasamningsins svokallaða í byrjun apríl 2019 að ríkið þyrfti að beita sér fyrir banni við verðtryggingu. Sú krafa kom meðal annars fram frá Vilhjálmi Birgissyni, sem þá var einn varaforseta Alþýðusambands Íslands og lék lykilhlutverk í kjarasamningsgerðinni í samfloti við tvö stærstu stéttarfélög landsins, VR og Eflingu.
Í lífskjarasamningnum skuldbundu stjórnvöld sig á endanum til að banna 40 ára verðtryggð lán og að grundvalla ætti verðtryggingu við vísitölu neysluverðs án húsnæðisliðar frá og með árinu 2020. Með fylgdi vilyrði um að það yrði skoðað hvort að verðtryggð húsnæðislán yrðu alfarið bönnuð fyrir lok árs 2020.