Öldungadeild Bandaríkjaþings mun kjósa um tilnefningu Janet Yellen sem fjármálaráðherra Bandaríkjanna á fimmtudaginn. Í fyrirspurnatíma á þinginu í síðustu viku sýndi hún hvers mætti vænta í efnahagsstefnu landsins, verði tilnefning hennar samþykkt.
Samkvæmt svörum Yellen við spurningum öldungadeildarþingmanna mætti búast við þensluaðgerðum í stað niðurskurðar í yfirstandandi kreppu, þrepaskiptara skattkerfi og engri handstýringu á gengi Bandaríkjadals. Auk þess vill hún halda áfram harðri efnahagsstefnu gegn Kína og setja strangari reglur á miðlun rafmynta, sem hún sagði að væru að miklu leyti notaðar til þess að fjármagna ólöglega starfsemi.
Frekar of mikið heldur en of lítið
Í umfjöllun New York Times um málið kemur fram að þingmenn repúblikanaflokksins lýstu yfir óánægju sinni yfir fyrirhuguðum efnahagsaðgerðum nýrrar ríkisstjórnar í fyrirspurnum sínum, en Joe Biden Bandaríkjaforseti tilkynnti fyrr í mánuðinum að aðgerðirnar myndu kosta ríkissjóð 1,9 billjónir Bandaríkjadala.
Yellen svaraði þingmönnunum að væntur fjárlagahalli vegna aðgerðanna væri ekki mesta hættan sem steðjaði að þjóðinni þessa stundina, hættulegra væri að gera of lítið fyrir vinnumarkaðinn. „Hagfræðingar eru ekki alltaf sama sinnis, en ég held að nú sé samhljómur milli þeirra: Án frekari aðgerða hættum við á lengri og sársaukafyllri kreppu til skamms tíma og frekari löskun efnahagslífsins til langs tíma,“ hefur CBS eftir Yellen.
Þrepaskipt skattkerfi
Repúblikanar voru einnig áhugasamir um það hvort Yellen hafði í hug á að snúa við skattalækkunum sem Donald Trump, fyrrum forseti Bandaríkjanna, kom á í valdatíð sinni. Því svaraði hún að skattar yrðu ekki hækkaðir fyrr en að heimsfaraldrinum loknum. Þessa stundina verði áhersla lögð á að veita hjálparaðstoð fyrir fjölskyldur landsins í stað skattahækkana.
Þrátt fyrir það sagði Yellen að hún myndi leita að leiðum til að breyta skattkerfinu í þágu lág- og millitekjufjölskyldna. Hún sagðist trúa á „sanngjarnt og þrepaskipt skattkerfi“ þar sem ríkir einstaklingar og fyrirtæki borgi þeirra hlut. „Við þurfum að endurbyggja hagkerfið okkar svo að það skili meiri hagsæld fyrir fleiri launþega,“ bætti hún við.
Hörð við Kína
Ekki má þó búast við umskiptingum í samskiptum Kína og Bandaríkjanna verði Yellen settur fjármálaráðherra, en samkvæmt frétt Financial Times var hún mjög harðorð í garð kínverskrar efnahagsstefnu í fyrirspurnatímanum. Hún sagði það vera „óásættanlegt“ að kínversk stjórnvöld handstýrðu gengi gjaldmiðils þeirra, kínverska yuansins, til að ná samkeppnisforskoti og bætti við að hún myndi standa gegn tilraunum allra annarra landa til að gera slíkt hið sama.
Einnig sagðist Yellen munu „taka á fólskulegum, ósanngjörnum og ólöglegum aðgerðum Kína,“ og nefndi þar dæmi um ólöglegar niðurgreiðslur til fyrirtækja, stuldi á hugverkaréttindum og viðskiptahindranir. Að hennar sögn væri forsetinn tilbúinn að nota öll sín tól til að beita sér gegn þessum aðgerðum.
Þessar athugasemdir Yellen eru ekki um margt frábrugðnar þeim sem heyrðust frá síðustu Bandaríkjastjórn, sem var einnig fjandsamleg í garð efnahagsstefnu Kína. Þó greinir Yellen á við Trump í gengismálum, þar sem hann var fylgjandi því að Bandaríkin fylgdu í fótspor Kína og lækkuðu gengi Bandaríkjadals til að bæta útflutningsstöðu þeirra en hún er það alls ekki.
Meiri reglur um notkun rafmynta
Samkvæmt frétt frá miðlinum Ars Technica sagðist Yellen einnig vilja setja notkun rafmynta þrengri skorður, þar sem hún telur þær vera að miklu leyti notaðar til að fjármagna ólöglega starfsemi. Í svari við fyrirspurn frá öldungaþingmanninum Maggie Hassan um rafmyntir sagði hún að hún vilji skoða leiðir til að draga úr notkun rafmynta og sjá til þess að ekki verði hægt að þvætta peninga í gegnum þær.
Yrði fyrsti kvenkyns fjármálaráðherrann
Yellen er sérfræðingur í vinnumarkaðshagfræði, en hún hefur kennt við háskólana Berkeley, Harvard og London School of Economics. Hún var seðlabankastjóri Bandaríkjanna á árunum 2014 til 2018 og sá þar um að vinda ofan af umfangsmikilli peningaprentun sem bankinn hafði ráðist í í kjölfar efnahagskreppunnar árið 2008.
Hún var fyrsta konan til að gegna stöðu seðlabankastjóra, en ef öldungadeild Bandaríkjaþings staðfestir tilnefninguna mun hún einnig verða fyrsti kvenkyns fjármálaráðherra landsins í 231 árs sögu embættisins.
Samkvæmt New York Times er búist við því að öldungadeildin samþykki tilnefninguna, þar sem hún nýtur nægilegs stuðnings þingmanna úr báðum flokkum.