Yfirvöld á Íslandi hófu í síðustu viku að gefa út rafræn COVID-19 bólusetningarvottorð, fyrst Schengen-ríkja. Þeir sem fengið hafa báðar sprauturnar af bóluefnunum sem þegar eru komin á markað hér á landi geta fengið slík vottorð. Yfir 4.500 manns á Íslandi eru nú fullbólusettir gegn COVID-19 og geta þar með sótt um vottorð í gegnum Heilsuveru. Sjö dagar þurfa þó að líða frá síðari sprautunni þar til vottorð er gefið út. Ekki liggur fyrir hjá heilbrigðisráðuneytinu eða embætti landlæknis hversu margir hafa sótt sér slík vottorð. Þá hefur embætti landlæknis ekki upplýsingar um í hvaða löndum þessi vottorð eru tekin gild.
Vottorðið er að efni og útliti í samræmi við fyrirliggjandi evrópska staðla og alþjóðlega bólusetningarskírteinið sem ferðalangar þekkja. „Markmiðið er að greiða för fólks milli landa, þannig að einstaklingar geti framvísað bóluefnavottorði á landamærum og séu þá undanþegnir sóttvarnaráðstöfunum vegna COVID-19 í samræmi við reglur hlutaðeigandi lands,“ sagði í frétt á vef heilbrigðisráðuneytisins í síðustu viku.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði hins vegar á upplýsingafundi almannavarna í gær að málið væri allt í byrjunarferli. Athyglisvert yrði að sjá hvað aðrar þjóðir ætla að gera og mælast til hvað bólusetningarvottorð varðar. Í það væri ekki enn komin endanleg niðurstaða og þar með ekki hvort að slík vottorð verði tekin gild á landamærum. „Þetta er í svolítilli óvissu. Við eigum eftir að skýra línurnar í þessu betur,“ sagði sóttvarnalæknir.
Meðal annarra ríkja Evrópu sem eru langt komin í undirbúningi slíkra vottorða eru Spánn og Danmörk. Bæði ríkin hyggjast samhliða aflétta ferðahömlum á ríkisborgurum annarra landa sem geta framvísað viðurkenndum vottorðum.
Samræmt vottorð til umræðu
Rætt hefur verið um að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins kynni samræmd vottorð sem öll sambandsríkin taki svo upp. Grísk stjórnvöld hafa óskað eftir því sem fyrst svo auðvelda megi sem fyrst ferðalög fólks innan ESB. Í sunnanverðri Evrópu, þar sem ferðaþjónustan er helsta stoð undir efnahag ríkja, er nokkur þrýstingur á að hraða þessu ferli. Þannig er vonast til þess að bólusetningarvottorðin geti hleypt lífi í ferðasumarið og ýti þar með hjólum atvinnulífsins af stað á ný. En mörg ljón eru enn í veginum.
Mörg Evrópulönd, þar með talin Norðurlöndin, hafa hert aðgerðir sínar á landamærum síðustu daga og vikur. Ferðatakmarkanir hafa víða ekki verið jafn miklar frá því að faraldurinn braust út.
Þola þau annað sumar án ferðamanna?
Ferðalög voru lítil milli landa síðasta sumar og það hafði miklar afleiðingar fyrir lönd á borð við Grikkland, Spán, Ítalíu og Portúgal. Þar, líkt og víða annars staðar, var vonast eftir því að sumarið 2021 yrði mun betra hvað þetta varðar. En vonin hefur dvínað eftir að faraldurinn tók sig hressilega upp aftur og einnig vegna þess að bólusetning virðist ætla að ganga hægar fyrir sig, að minnsta kosti næstu vikurnar, en væntingar voru um.
Forsætisráðherra Grikklands, Kyriakos Mitsotakis, vill að málin fari að skýrast sem fyrst. Annað sumar án ferðamanna yrði Grikkjum gríðarlega erfitt. Hann vill svör við því hvort að til standi að hefja útgáfu samræmdra bólusetningarskírteina sem myndu þá greiða leið handhafa þeirra milli landa ESB. Málið er nú komið inn á borð framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og var það eitt helsta umræðuefni fundar leiðtoga ESB-ríkja fyrir helgi.
Óvissuþættirnir í augnablikinu eru enn mjög margir. Ástæða þess að mörg ríki hafa að undanförnu hert aðgerðir á landamærum er sú að smitum hefur fjölgað víða. Sömuleiðis sjúkrahúsinnlögnum og dauðsföllum. Það á sér aftur skýringu í hraðri útbreiðslu nýrra afbrigða veirunnar, afbrigða sem eru meira smitandi en önnur og óvíst er hvort bóluefni veiti nægjanlega vörn gegn. Því hafa ríki mörg hver ákveðið að toga fast í handbremsuna.
Svo harkalega reyndar að útgöngubann hefur nú verið sett á í Hollandi og landamærunum nær alveg lokað. Það sama íhuga nú Bretar að gera á sínum landamærum enda gríðarlegt álag á sjúkrahúsum þar í landi. Á meðan þessu stendur eru samræmd bólusetningarvottorð ekki efst á forgangslistanum. Fyrst þarf að slökkva elda.
Stjórn Evrópusambandsins vonast til þess að aðildarlöndin verði búin að bólusetja framlínufólk og alla eldri en áttatíu ára fyrir lok mars. Í sumar er svo vonast til að um 70 prósent íbúa innan sambandsins hafi fengið bólusetningu. „Í sumar“ (by summer) er reyndar nokkuð teygjanlegt hugtak.
Geta þau orðið sammála?
Í frétt Aftenposten um málið er bent á að heilbrigðismál eru ekki á ábyrgð stjórnar ESB. Sú ábyrgð hvílir á hverju aðildarríki fyrir sig. Þess vegna getur ESB ekki tekið þessa ákvörðun – stóla þarf á samstöðu ríkjanna allra þegar kemur að samræmdu bólusetningarvottorði. Og í ljósi þess að nokkuð vantaði upp á samræmdar aðgerðir við upphaf faraldursins fyrir ári síðan heyrast efasemdaraddir um að samstaða verði um útgáfu vottorðanna.
Nokkur lönd hafa þegar lýst yfir efasemdum ákveðnum um bólusetningarvottorðin, m.a. Þýskaland og Frakkland. Þá hafa mannréttindasamtök bent á að slík vottorð mismuni hópum, t.d. íbúum fátækari ríkja/svæða sem eru seinastir í röðinni að fá bólusetningu. Einnig hafa áhyggjur af persónuvernd verið viðraðar. Þá spyrja margir: Ef bólusetning verður gerð að skilyrði fyrir ferðalögum – verður það þannig um ókomna framtíð?
Flestir jákvæðir
Niðurstaða fundar ESB-leiðtoga fyrir helgi var sú að mörg ríki eru jákvæð gagnvart samræmdu bólusetningarvottorði en fá vilja ganga eins langt og Grikkland, þ.e. að slík vottorð heimili fólki frjálsa för milli Schengen-landanna.
Framkvæmdastjórnin staðfesti í síðustu viku að verið væri að vinna að samræmdum rafrænum vottorðum. Það yrði gert í samvinnu allra ESB-ríkja og persónuverndarsjónarmiða gætt.