Facebook

Facebook í sögulegri störukeppni við áströlsk stjórnvöld og fjölmiðla

Ef einhver velktist í vafa um það ægivald sem Facebook hefur yfir miðlun upplýsinga í heiminum í dag þá ætti vafinn að vera algjörlega úr sögunni eftir nýjustu vendingar í deilu fyrirtækisins við áströlsk stjórnvöld.

Ástralir eru þessa dagana að setja lög sem skylda stórfyrirtæki í tækniheiminum, Facebook og Google, til þess að greiða hefðbundnum fjölmiðlum fyrir efnið sem þeir framleiða.  Facebook hefur svarað með því að loka fyrir að hægt sé að deila efni frá fjölmiðlum á Facebook í Ástralíu og efni ástralskra fjölmiðla er hvergi hægt að deila. Ekki heldur á Íslandi.

Facebook-síður ástralskra fjölmiðla á borð við Sydney Morning Herald og The Australian eru tómar skeljar. „No posts yet,“ segir Facebook við notendur sem þangað laumast inn.

Lagafrumvarpið sem þessu fjaðrafoki veldur fór í gegnum neðri deild ástralska þingsins í gær og á miðvikudagskvöld, þegar nýr dagur var að renna upp í Ástralíu, kynnti Facebook viðbrögð sín. Ástralir geta ekki deilt fréttum og heimurinn allur getur ekki deilt fréttum frá áströlskum miðlum.

Þessi mynd hér að neðan kemur upp þegar reynt er að deila ástralskri frétt á Íslandi.

Skjáskot af Facebook

Framkoma Facebook sögð tuddaleg 

Þessu hafa margir lýst sem gerræðislegum tilburðum af hálfu Facebook. Samtök breskra fjölmiðlafyrirtækja (News Media Association) sendu frá sér yfirlýsingu í dag þar sem stórfyrirtækið er sakað um að haga sér eins og „tuddi á skólalóð“ og fara of geyst fram.

Auglýsing

„Aðgerðir Facebook í Ástralíu sýna nákvæmlega þörfina fyrir að löggjafar um allan heim, líka í Bretlandi, setji upp þétt regluverk til þess að jafna leikinn á milli tæknirisanna og útgefenda,“ er haft eftir formanni samtakanna í frétt Reuters.

Fyrrverandi æðsti yfirmaður hjá Facebook í Ástralíu og Nýja-Sjálandi tekur í sama streng. Í skoðanapistli sínum í Sydney Morning Herald segir hann að aðgerðir Facebook í Ástralíu séu ekkert annað en blygðunarlaus sýning á ægivaldi fyrirtækisins.

Áströlsku lögin ógn við grundvallarfyrirkomulag netsins?

Á hinum pólnum eru síðan þeir sem telja aðgerðir Ástralíu vegi að grunnhugmyndinni um netfrelsi og breyti þannig hreinlega eðli netsins. Ekki sé hægt að gera tæknifyrirtækjum skylt að greiða fyrir efni fjölmiðla án þess að það bitni á endanum á frelsi notenda netsins til þess að finna allar þær upplýsingar sem séu í boði.

Þessari skoðun hefur meðal annars Tim Berners-Lee, maðurinn sem fann upp tæknina á bak við veraldarvefinn (World Wide Web), lýst. Á svipuðu eða sama máli er Vint Cerf, sem oft er kallaður „faðir netsins“. Vert er að taka fram að sá síðari starfar í dag fyrir Google, sem hefur barist gegn aðgerðum ástralskra stjórnvalda.

Önnur skoðun sem heyrst hefur frá þeim sem líst illa á áströlsku löggjöfina er sú að ef ástralska ríkið telji að fjölmiðlar þurfi aukinn fjárstyrk til að geta sinnt lýðræðislegu hlutverki sínu og veitt þau almannagæði sem upplýst umræða er, eigi ástralska ríkið að gera nákvæmlega það og veita fjölmiðlum ríkisstyrki í stað þess að þvinga netrisana til að borga fyrir efnið þeirra.

Hvað er Ástralía að reyna að gera?

Á þessu máli eru ótal hliðar. Staðan sem blasir við í dag er þó nokkuð sem fáir hefðu getað ímyndað sér fyrir skömmu síðan. Facebook greip til þess að láta verða af hótun sem stórfyrirtækið setti fram í fyrra, en áströlsk stjórnvöld virðast ekki hafa búist við því að Facebook myndi stíga þetta skref. 

„[Tæknifyrirtækin] eru ef til vill að breyta heiminum, en það þýðir ekki að þau ættu að stjórna honum“

Ráðherrar í ríkisstjórninni standa þó keikir og segja að þetta komi ekki í veg fyrir að löggjöfin verði staðfest í efri deildinni á næstu dögum og taki gildi. Scott Morrison forsætisráðherra sagði í færslu á Facebook í dag að Ástralir myndu ekki láta kúga sig og að hann væri í virku samtali við aðra þjóðarleiðtoga vegna málsins. Hann ræddi við Narendra Modi forsætisráðherra Indlands um málið fyrr í dag. 

„[Tæknifyrirtækin] eru ef til vill að breyta heiminum, en það þýðir ekki að þau ættu að stjórna honum,“ sagði Morrison í Facebook-færslu sinni.

Löggjöfin í Ástralíu er nýjung á heimsvísu, en henni er ætlað að jafna leikinn á milli stóru netrisanna sem hagnast á því að selja auglýsingar innan um efnið sem fólk er komið á Facebook eða Google til þess að skoða. Sem oft og tíðum eru fréttir hefðbundinna fjölmiðla.

Scott Morrison forsætisráðherra Ástralíu.
EPA

Samkeppnisstofnun Ástralíu hefur verið ríkisstjórninni til halds og traust við smíði lagabálksins, sem felur í sér að tæknifyrirtækin greiði fjölmiðlum einhverja sanngjarna upphæð fyrir birtingu frétta. Hálfgerður gerðardómur myndi ákvarða þá upphæð ef ekki væri hægt að komast að samkomulagi við fyrirtækin. 

Einnig felur hún í sér kröfur á tæknifyrirtækin um að láta fjölmiðlana vita fyrirfram ef þau ætla að ráðast í einhverjar breytingar á algríminu sem stýrir dreifingu efnisins. Ekki er loku skotið fyrir að fleiri samfélagsmiðlar og leitarvélar bætist inn í löggjöfina á síðari stigum.

Málið hefur verið til umræðu á vettvangi ástralskra stjórnmála undanfarin misseri og Facebook og Google hafa komið ýmsum athugasemdum á framfæri við áströlsk stjórnvöld.

Þáttur Roberts Murdoch

Google hefur látið undan og þegar samið við þó nokkur áströlsk fjölmiðlafyrirtæku um greiðslu fyrir dreifingu frétta í leitarvél sinni. 

Fyrirtækið samdi sérstaklega við News Corp, alþjóðlega fjölmiðlasamstæðu ástralska auðkýfingins Roberts Murdoch, um greiðslu fyrir dreifingu frétta frá fjölmiðlum samstæðunnar sem staðsettir eru í Bretlandi og Bandaríkjunum auk Ástralíu. Samningar News Corp og annarra fyrirtækja er um dreifingu inni í hinu svokallaða Showcase-appi Google, sem þegar hefur verið tekið í notkun í Bretlandi með þátttöku nokkurra stærstu fjölmiðla landsins. 

Robert Murdoch er talinn hafa haft nokkur áhrif á hversu ákaft áströlsk stjórnvöld hafa beitt sér gegn tæknirisunum tveimur, fyrir hönd fjölmiðla hans og annarra.

Microsoft hreykir sér af mildari afstöðu Google

Microsoft, sem margir gleyma eflaust stundum að starfrækir leitarvélina Bing í (erfiðri) samkeppni við Google, hreykir sér þó einnig af því að hafa haft áhrif á að Google gekk til samninga við fjölmiðla í Ástralíu.

EPA

Í frétt breska blaðsins Guardian er haft eftir Brad Smith forstjóra Microsoft að innan við sólarhring eftir að Microsoft sagðist styðja við áætlanir Ástrala og lagði til að önnur ríki fylgdu í fótspor þeirra hefði Google verið búið að draga úr fyrri hótunum sínum um að loka leitarvél sinni í Ástralíu.

Netrisarnir telja sig gera fjölmiðlum greiða

Málið spratt inn í samfélagsmálaumræðuna í Ástralíu af nokkrum krafti fyrir rúmum mánuði, en þá viðurkenndi Google að fyrirtækið hefði framkvæmt tilraun þar sem um 1 prósent notenda var útilokað frá því að fá fréttir ástralskra fjölmiðla í leitarniðurstöðum sínum. Fyrirtækið sagðist vera að reyna að mæla áhrifin sem fjölmiðlarnir og Google hefðu á hvort annað.

Í frétt Sydney Morning Herald um þetta síðan í janúar kemur fram að Google hafi árið 2018 metið stöðuna svo að með því einu að vera með opna og ókeypis leitarvél væri fyrirtækið að færa áströlskum fjölmiðlum 218 milljóna dollara virði af umferð, með því að beina notendum inn á síðurnar.

Í færslu Facebook frá því í gærkvöldi kemur fram að fyrirtækið telji sig hafa fært áströlskum fjölmiðlum umferð (5,1 milljarð síðuflettinga) sem hægt sé að verðmeta á 407 milljónir ástralskra dala. Facebook segist enn fremur ekki græða neitt sérlega mikið á fréttum. Fréttir séu innan við 4 prósent af því efni sem fólk sjái alla jafna í fréttaveitu Facebook. 

„Blaðamennska er mikilvæg lýðræðislegu samfélagi, það er ástæðan fyrir því að við höfum byggt sérhæfð, ókeypis tól til að styðja fréttamiðla um allan heim við að koma efni sínu á framfæri við fólk á netinu,“ segir meðal annars í yfirlýsingu Facebook um aðgerðirnar í Ástralíu.

Fyrirtækið segir að áströlsk stjórnvöld séu að misskilja í grundvallaratriðum sambandið á milli Facebook og fjölmiðlafyrirtækja.

Fram kemur í frétt BBC að raunin sé sú að Facebook og Google taki til sín um 8 af hverjum tíu áströlskum dollurum sem varið er í auglýsingar á netinu. 36 prósent Ástrala sæki sér fréttir á Facebook, en einungis 14 prósent borgi fyrir fréttir á netinu.

Verður fylgst vel með 

En hvers virði væru Facebook og Google fyrir notendur sína ef þar væri ekki hægt að nálgast fréttir hefðbundinna fjölmiðla? Hvernig munu umferðartölur ástralskra fjölmiðla þróast næstu daga ef Facebook heldur banni sínu til streitu? Munu falsfréttir um mikilvæg málefni eins og bólusetningar fá byr undir báða vængi þegar efni hefðbundinna miðla fær ekki að komast að? Gæti verið að umhverfi fjölmiðla hefðbundinna fjölmiðla myndi hreinlega batna ef þeir yrðu ekki lengur háðir því að keppast um athygli almennings í gegnum Facebook? Ýmsar spurningar vakna.

Fylgst verður vel með afleiðingunum sem hörð afstaða Facebook í málinu mun hafa. Ýmsar ríkisstjórnir og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hafa nefnilega verið að velta svipuðum hugmyndum fyrir sér. Ástralía virðist ætla að ríða á vaðið með sögulega tilraun.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnArnar Þór Ingólfsson
Meira úr sama flokkiErlent