Facebook

Facebook í sögulegri störukeppni við áströlsk stjórnvöld og fjölmiðla

Ef einhver velktist í vafa um það ægivald sem Facebook hefur yfir miðlun upplýsinga í heiminum í dag þá ætti vafinn að vera algjörlega úr sögunni eftir nýjustu vendingar í deilu fyrirtækisins við áströlsk stjórnvöld.

Ástr­alir eru þessa dag­ana að setja lög sem skylda stór­fyr­ir­tæki í tækni­heim­in­um, Face­book og Goog­le, til þess að greiða hefð­bundnum fjöl­miðlum fyrir efnið sem þeir fram­leiða.  Face­book hefur svarað með því að loka fyrir að hægt sé að deila efni frá fjöl­miðlum á Face­book í Ástr­alíu og efni ástr­al­skra fjöl­miðla er hvergi hægt að deila. Ekki heldur á Íslandi.

Face­book-­síður ástr­al­skra fjöl­miðla á borð við Sydney Morn­ing Her­ald og The Australian eru tómar skelj­ar. „No posts yet,“ segir Face­book við not­endur sem þangað laum­ast inn.

Laga­frum­varpið sem þessu fjaðrafoki veldur fór í gegnum neðri deild ástr­alska þings­ins í gær og á mið­viku­dags­kvöld, þegar nýr dagur var að renna upp í Ástr­al­íu, kynnti Face­book við­brögð sín. Ástr­alir geta ekki deilt fréttum og heim­ur­inn allur getur ekki deilt fréttum frá áströlskum miðl­um.

Þessi mynd hér að neðan kemur upp þegar reynt er að deila ástr­al­skri frétt á Íslandi.

Skjáskot af Facebook

Fram­koma Face­book sögð tudda­leg 

Þessu hafa margir lýst sem ger­ræð­is­legum til­burðum af hálfu Face­book. Sam­tök breskra fjöl­miðla­fyr­ir­tækja (News Media Associ­ation) sendu frá sér yfir­lýs­ingu í dag þar sem stór­fyr­ir­tækið er sakað um að haga sér eins og „tuddi á skóla­lóð“ og fara of geyst fram.

Auglýsing

„Að­gerðir Face­book í Ástr­alíu sýna nákvæm­lega þörf­ina fyrir að lög­gjafar um allan heim, líka í Bret­landi, setji upp þétt reglu­verk til þess að jafna leik­inn á milli tæknirisanna og útgef­enda,“ er haft eftir for­manni sam­tak­anna í frétt Reuters.

Fyrr­ver­andi æðsti yfir­maður hjá Face­book í Ástr­alíu og Nýja-­Sjá­landi tekur í sama streng. Í skoð­anapistli sínum í Sydney Morn­ing Her­ald segir hann að aðgerðir Face­book í Ástr­alíu séu ekk­ert annað en blygð­un­ar­laus sýn­ing á ægi­valdi fyr­ir­tæk­is­ins.

Áströlsku lögin ógn við grund­vall­ar­fyr­ir­komu­lag nets­ins?

Á hinum pólnum eru síðan þeir sem telja aðgerðir Ástr­alíu vegi að grunn­hug­mynd­inni um net­frelsi og breyti þannig hrein­lega eðli nets­ins. Ekki sé hægt að gera tækni­fyr­ir­tækjum skylt að greiða fyrir efni fjöl­miðla án þess að það bitni á end­anum á frelsi not­enda nets­ins til þess að finna allar þær upp­lýs­ingar sem séu í boði.

Þess­ari skoðun hefur meðal ann­ars Tim Bern­er­s-­Lee, mað­ur­inn sem fann upp tækn­ina á bak við ver­ald­ar­vef­inn (World Wide Web), lýst. Á svip­uðu eða sama máli er Vint Cerf, sem oft er kall­aður „faðir nets­ins“. Vert er að taka fram að sá síð­ari starfar í dag fyrir Goog­le, sem hefur barist gegn aðgerðum ástr­al­skra stjórn­valda.

Önn­ur skoðun sem heyrst hefur frá þeim sem líst illa á áströlsku lög­gjöf­ina er sú að ef ástr­alska ríkið telji að fjöl­miðlar þurfi auk­inn fjár­styrk til að geta sinnt lýð­ræð­is­legu hlut­verki sínu og veitt þau almanna­gæði sem upp­lýst umræða er, eigi ástr­alska ríkið að gera nákvæm­lega það og veita fjöl­miðlum rík­is­styrki í stað þess að þvinga netris­ana til að borga fyrir efnið þeirra.

Hvað er Ástr­alía að reyna að gera?

Á þessu máli eru ótal hlið­ar. Staðan sem blasir við í dag er þó nokkuð sem fáir hefðu getað ímyndað sér fyrir skömmu síð­an. Face­book greip til þess að láta verða af hótun sem stór­fyr­ir­tækið setti fram í fyrra, en áströlsk stjórn­völd virð­ast ekki hafa búist við því að Face­book myndi stíga þetta skref. 

„[Tæknifyrirtækin] eru ef til vill að breyta heiminum, en það þýðir ekki að þau ættu að stjórna honum“

Ráð­herrar í rík­is­stjórn­inni standa þó keikir og segja að þetta komi ekki í veg fyrir að lög­gjöfin verði stað­fest í efri deild­inni á næstu dögum og taki gildi. Scott Morri­son for­sæt­is­ráð­herra sagði í færslu á Face­book í dag að Ástr­alir myndu ekki láta kúga sig og að hann væri í virku sam­tali við aðra þjóð­ar­leið­toga vegna máls­ins. Hann ræddi við Nar­endra Modi for­sæt­is­ráð­herra Ind­lands um málið fyrr í dag. 

„[Tækni­fyr­ir­tæk­in] eru ef til vill að breyta heim­in­um, en það þýðir ekki að þau ættu að stjórna hon­um,“ sagði Morri­son í Face­book-færslu sinni.

Lög­gjöfin í Ástr­alíu er nýj­ung á heims­vísu, en henni er ætlað að jafna leik­inn á milli stóru netrisanna sem hagn­ast á því að selja aug­lýs­ingar innan um efnið sem fólk er komið á Face­book eða Google til þess að skoða. Sem oft og tíðum eru fréttir hefð­bund­inna fjöl­miðla.

Scott Morrison forsætisráðherra Ástralíu.
EPA

Sam­keppn­is­stofnun Ástr­alíu hefur verið rík­is­stjórn­inni til halds og traust við smíði laga­bálks­ins, sem felur í sér að tækni­fyr­ir­tækin greiði fjöl­miðlum ein­hverja sann­gjarna upp­hæð fyrir birt­ingu frétta. Hálf­gerður gerð­ar­dómur myndi ákvarða þá upp­hæð ef ekki væri hægt að kom­ast að sam­komu­lagi við fyr­ir­tæk­in. 

Einnig felur hún í sér kröfur á tækni­fyr­ir­tækin um að láta fjöl­miðl­ana vita fyr­ir­fram ef þau ætla að ráð­ast í ein­hverjar breyt­ingar á algrím­inu sem stýrir dreif­ingu efn­is­ins. Ekki er loku skotið fyrir að fleiri sam­fé­lags­miðlar og leit­ar­vélar bæt­ist inn í lög­gjöf­ina á síð­ari stig­um.

Málið hefur verið til umræðu á vett­vangi ástr­al­skra stjórn­mála und­an­farin miss­eri og Face­book og Google hafa komið ýmsum athuga­semdum á fram­færi við áströlsk stjórn­völd.

Þáttur Roberts Mur­doch

Google hefur látið undan og þegar samið við þó nokkur áströlsk fjöl­miðla­fyr­ir­tæku um greiðslu fyrir dreif­ingu frétta í leit­ar­vél sinn­i. 

Fyr­ir­tækið samdi sér­stak­lega við News Corp, alþjóð­lega fjöl­miðla­sam­stæðu ástr­alska auð­kýf­ing­ins Roberts Mur­doch, um greiðslu fyrir dreif­ingu frétta frá fjöl­miðlum sam­stæð­unnar sem stað­settir eru í Bret­landi og Banda­ríkj­unum auk Ástr­al­íu. Samn­ingar News Corp og ann­arra fyr­ir­tækja er um dreif­ingu inni í hinu svo­kall­aða Showcase-appi Goog­le, sem þegar hefur verið tekið í notkun í Bret­landi með þátt­töku nokk­urra stærstu fjöl­miðla lands­ins. 

Robert Mur­doch er tal­inn hafa haft nokkur áhrif á hversu ákaft áströlsk stjórn­völd hafa beitt sér gegn tækniris­unum tveim­ur, fyrir hönd fjöl­miðla hans og ann­arra.

Microsoft hreykir sér af mild­ari afstöðu Google

Microsoft, sem margir gleyma eflaust stundum að starf­rækir leit­ar­vél­ina Bing í (erf­iðri) sam­keppni við Goog­le, hreykir sér þó einnig af því að hafa haft áhrif á að Google gekk til samn­inga við fjöl­miðla í Ástr­al­íu.

EPA

Í frétt breska blaðs­ins Guar­dian er haft eftir Brad Smith for­stjóra Microsoft að innan við sól­ar­hring eftir að Microsoft sagð­ist styðja við áætl­anir Ástr­ala og lagði til að önnur ríki fylgdu í fót­spor þeirra hefði Google verið búið að draga úr fyrri hót­unum sínum um að loka leit­ar­vél sinni í Ástr­al­íu.

Netrisarnir telja sig gera fjöl­miðlum greiða

Málið spratt inn í sam­fé­lags­mála­um­ræð­una í Ástr­alíu af nokkrum krafti fyrir rúmum mán­uði, en þá við­ur­kenndi Google að fyr­ir­tækið hefði fram­kvæmt til­raun þar sem um 1 pró­sent not­enda var úti­lokað frá því að fá fréttir ástr­al­skra fjöl­miðla í leit­ar­nið­ur­stöðum sín­um. Fyr­ir­tækið sagð­ist vera að reyna að mæla áhrifin sem fjöl­miðl­arnir og Google hefðu á hvort ann­að.

Í frétt Sydney Morn­ing Her­ald um þetta síðan í jan­úar kemur fram að Google hafi árið 2018 metið stöð­una svo að með því einu að vera með opna og ókeypis leit­ar­vél væri fyr­ir­tækið að færa áströlskum fjöl­miðlum 218 millj­óna doll­ara virði af umferð, með því að beina not­endum inn á síð­urn­ar.

Í færslu Face­book frá því í gær­kvöldi kemur fram að fyr­ir­tækið telji sig hafa fært áströlskum fjöl­miðlum umferð (5,1 millj­arð síðu­flett­inga) sem hægt sé að verð­meta á 407 millj­ónir ástr­al­skra dala. Face­book seg­ist enn fremur ekki græða neitt sér­lega mikið á frétt­um. Fréttir séu innan við 4 pró­sent af því efni sem fólk sjái alla jafna í frétta­veitu Face­book. 

„Blaða­mennska er mik­il­væg lýð­ræð­is­legu sam­fé­lagi, það er ástæðan fyrir því að við höfum byggt sér­hæfð, ókeypis tól til að styðja frétta­miðla um allan heim við að koma efni sínu á fram­færi við fólk á net­in­u,“ segir meðal ann­ars í yfir­lýs­ingu Face­book um aðgerð­irnar í Ástr­al­íu.

Fyr­ir­tækið segir að áströlsk stjórn­völd séu að mis­skilja í grund­vall­ar­at­riðum sam­bandið á milli Face­book og fjöl­miðla­fyr­ir­tækja.

Fram kemur í frétt BBC að raunin sé sú að Face­book og Google taki til sín um 8 af hverjum tíu áströlskum doll­urum sem varið er í aug­lýs­ingar á net­inu. 36 pró­sent Ástr­ala sæki sér fréttir á Face­book, en ein­ungis 14 pró­sent borgi fyrir fréttir á net­inu.

Verður fylgst vel með 

En hvers virði væru Face­book og Google fyrir not­endur sína ef þar væri ekki hægt að nálg­ast fréttir hefð­bund­inna fjöl­miðla? Hvernig munu umferð­ar­tölur ástr­al­skra fjöl­miðla þró­ast næstu daga ef Face­book heldur banni sínu til streitu? Munu fals­fréttir um mik­il­væg mál­efni eins og bólu­setn­ingar fá byr undir báða vængi þegar efni hefð­bund­inna miðla fær ekki að kom­ast að? Gæti verið að umhverfi fjöl­miðla hefð­bund­inna fjöl­miðla myndi hrein­lega batna ef þeir yrðu ekki lengur háðir því að kepp­ast um athygli almenn­ings í gegnum Face­book? Ýmsar spurn­ingar vakna.

Fylgst verður vel með afleið­ing­unum sem hörð afstaða Face­book í mál­inu mun hafa. Ýmsar rík­is­stjórnir og fram­kvæmda­stjórn Evr­ópu­sam­bands­ins hafa nefni­lega verið að velta svip­uðum hug­myndum fyrir sér. Ástr­alía virð­ist ætla að ríða á vaðið með sögu­lega til­raun.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnArnar Þór Ingólfsson
Meira úr sama flokkiErlent