Í nóvember árið 2019 komst dagblaðið Politiken á snoðir um drög að skýrslu um fjögur svonefnd „óörugg tilvik“ (usikre forhold) á Kastrup-flugvelli. Mikil leynd hvíldi yfir skýrsludrögunum en blaðamenn Politiken, sem ekki sáu gögnin, vissu að málið snérist um ljósin á flugbrautum vallarins. Í drögunum var talað um brautarljós og í fyrstu töldu blaðamenn að málið varðaði svonefndar ljósastikur. Síðar kom í ljós að um var að ræða ljós sem felld eru niður í flugbrautina sjálfa, bæði miðju hennar og út við jaðrana. Afmarka þannig brautina. Ljósin, sem eru 30 sentimetrar í þvermál, og vega um það bil 8 kíló, eru fest með boltum við stálrör, sem grafin eru niður í brautina. Á Kastrup flugvelli eru um 9 þúsund slík ljós.
Það sem hafði gerst, hin svonefndu „óöruggu tilvik“, lýsti sér í stuttu máli þannig að í nokkur skipti höfðu brautarljósin losnað úr festingunum, ýmist að hluta eða alveg. Ljósin og hlutar úr þeim fundust síðar, á flugbrautunum. Í einu hinna alvarlegu tilvika ók flugvél sem var á leið í stæði á „eitthvað“ sem lá á brautinni. Þetta „eitthvað“ reyndist vera brautarljós sem hafði losnað. Ekkert tjón hlaust af enda vélin á lítilli ferð.
Alvarlegar afleiðingar
Aukahlutir á flugbrautum geta haft mjög alvarlegar afleiðingar eins og dæmin sanna. 25. júlí árið 2000 fórst Concorde þota í flugtaki frá Charles de Gaulle-flugvellinum við París, 109 voru um borð og fórust allir. Við rannsókn slyssins kom í ljós að vélin hafði ekið á hlut sem lá á brautinni og hafði losnað af annarri vél skömmu áður. Þegar Concorde vélin ók á hlutinn sprakk og rifnaði dekk og hluti þess reif gat á annan vænginn og leki kom að eldsneytisgeymi. Þá braust eldur út og vélin hrapaði til jarðar úr lítill hæð.
6. maí árið 2014 lenti Boeing 747, oft kölluð Jumbo, á flugvellinum í Tókýó eftir 12 tíma flug frá JFK flugvellinum í New York. Ekkert bar til tíðinda á leiðinni en eftir lendingu uppgötvaðist gat neðan á búk vélarinnar. Gatið var eftir brautarljós sem hafði losnað, og lenti á vélinni þegar hún tók á loft. Ljósið var samskonar og notuð eru á flugvöllum víða um heim, þar á meðal á Kastrup. Í ljós kom að eftirliti með brautarljósunum á flugvellinum í New York hafði verið verulega ábótavant og flugvallarstjórinn var látinn taka pokann sinn.
Rangur frágangur skapar hættu
Eins og áður var nefnt eru niðurfelldu brautarljósin boltuð við undirstöðuna sem grafin er niður í brautina. Þótt það virðist kannski ekki flókið að herða tvo eða fjóra bolta þannig að þeir losni ekki þarf eigi að síður að gera það með réttum hætti. Og þar hefur iðulega orðið misbrestur. Og þannig var það einmitt á flugvellinum í Kaupmannahöfn, rétt eins og á JFK flugvellinum í New York, frágangur ljósanna var ekki með réttum hætti.
Þotuhreyflar sem keyrðir eru á fullu afli í flugtaki mynda mikinn sogkraft og geta sogað að sér hluti sem liggja á brautinni. Krafturinn er svo mikill að hlutir eins og til dæmis flugbrautarljósin takast hreinlega á loft og geta lent í hreyflinum sjálfum og stórskemmt hann eða lent á flugvélabúknum eins og raunin varð með Jumbo þotuna á JFK flugvellinum. Hola eftir ljós sem hefur losnað getur líka valdið tjóni, eða slysi ef flugvélarhjól fer yfir holuna. Dæmi eru um slíkt. Eftir því sem hjólin á flugvélinni eru minni því meiri er hættan.
Leyndu ástandinu
Eftir að Politiken greindi frá skýrsludrögunum haustið 2019 kröfðust þingmenn þess að fá nánari vitneskju um málið. Benny Engelbrecht samgönguráðherra vildi bíða eftir skýrslunni. Þegar skýrslan var tilbúin, skömmu fyrir árslok 2019 mætti yfirstjórn flugvallarins á fund samgöngunefndar þingsins. Þar var farið yfir skýrsluna sem nefnd á vegum yfirstjórnar flugvallarins hafði unnið en samgöngunefnd þingsins fékk ekki skýrsluna sjálfa. Fram kom að viðhaldi ljósabúnaðar vallarins væri mjög ábótavant og sama gilti um eftirlit með ljósunum.
Yfirstjórn flugvallarins ákvað að ekki væri ástæða til að loka flugvellinum, ástandið væri ekki svo alvarlegt. Á fundinum með samgöngunefnd þingsins nefndi flugvallarstjórnin ekki eitt mjög mikilvægt atriði: þrír sérfræðingar í öryggismálum, starfsmenn flugvallarins, töldu að loka ætti flugvellinum í fimm til sjö daga meðan ljósabúnaðurinn yrði yfirfarinn. Sögðu ekki forsvaranlegt að leyfa flugumferð eins og ástandið væri.
Á þessu fimm til sjö daga tímabili sem um ræðir fóru um 560 þúsund manns um flugvöllinn. Í stað þess að loka flugvellinum brá yfirstjórnin á það ráð að loka brautum vallarins til skiptis meðan ljósabúnaðurinn var yfirfarinn, sú ákvörðun stríðir gegn reglum. Samkvæmt þeim má ekki halda flugbraut, þar sem öryggismál eru ekki í lagi, opinni. Þess má geta að sérfræðingarnir tveir, sem nefndir voru hér að framan, voru í hópi þeirra fjölmörgu starfmanna flugvallarins sem misstu vinnuna í kjölfar kórónaveirunnar.
Sagði pabba að fljúga ekki
Síðastliðinn sunnudag, 14. febrúar, birti dagblaðið Politiken (sem fyrst sagði frá málinu 2019) langa umfjöllun um brautarljósin á Kastrup-flugvelli. Blaðið hafði rætt við tvo þeirra öryggissérfræðinga sem töldu að skilyrðislaust hefði átt að loka flugvellinum í um vikutíma í september 2019.
Sérfræðingarnir tveir eru ekki lengur starfsmenn flugvallarins. Í viðtalinu við Politiken kom fram að þeir hefðu, meðan þeir voru við störf verið bundnir þagnarskyldu. Annar þeirra sagðist hafa rofið þagnarskylduna og í september 2019 sagt föður sínum, sem ferðast mikið með flugi, að hann skyldi halda kyrru fyrir, í tiltekinn dagafjölda. Án þess að tilgreina nákvæmlega ástæður.
Hvað vissi ráðherrann?
Umfjöllun Politiken og viðtölin við sérfræðingana vöktu athygli þingmanna. Þeir vilja nú fá að vita hvað ráðherrann vissi þegar sagt var frá skýrslunni um brautarljósin haustið 2019. ,,Hafi ráðherrann vitað að öryggissérfræðingar vildu loka flugvellinum, en brást ekki við er það mjög alvarlegt“ sagði einn þingmaður í viðtali vegna málsins.
Annar sagði það alvarlegt ef Samgöngustofa (Trafikstyrelsen) hafi ekki verið upplýst um allt innihald skýrslunnar á sínum tíma. Benny Engelbrecht samgönguráðherra sagði að hann hefði þegar skrifað Samgöngustofu og beðið um skýr svör við því hvaða upplýsingar menn þar á bæ hefðu fengið frá yfirstjórn flugvallarins. „Og ef Samgöngustofa hefur vitað allt um málið vil ég fá að vita af hverju ekki var brugðist við,“ sagði ráðherrann.
Nokkrir þingmenn hafa krafist þess að samgönguráðherrann geri hreint fyrir sínum dyrum, segi afdráttarlaust hvort hann vissi frá upphafi allt um innihald skýrslunnar. Málið sé grafalvarlegt „eini ljósi punkturinn er sá að ekki varð slys“ sagði þingmaður Venstre í viðtali vegna málsins.