Mynd: Bára Huld Beck

Bankar lána nánast einvörðungu í steypu

Viðskiptabankarnir lána lítið til atvinnulífsins um þessar mundir, og ný útlán eru að mestu til fasteignafélaga. Þorri nýrra útlána eru til heimila landsins með veði í íbúð eða húsi. Vart er lánað lengur á Íslandi nema í steypu.

Frá byrjun árs 2020 hafa bankar landsins lánað fyrirtækjum þess nettó ellefu milljarða króna. Tíu þeirra ellefu milljarða hafa verið lánaðir út á síðustu tveimur mánuðum og í janúar námu útlán banka til fyrirtækja 3,2 milljörðum króna. 

Nettó hafa rúmlega öll útlánin verið til fasteignafélaga, en þau hafa fengið 12,5 milljarða króna að láni frá byrjun síðasta árs, eða á þrettán mánaða tímabili. Þau útlán tóku kipp í janúar þegar bankarnir lánuðu alls 5,4 milljarða króna til fasteignafélaga. Til sam­an­burðar lán­uðu bank­arnir tæp­lega 209 millj­arða króna til atvinnu­fyr­ir­tækja árið 2018, þegar efnahagslífið hérlendis var enn í örum vexti.

Þetta kemur fram í nýjum hagtölum Seðlabanka Íslands um bankakerfið sem birtar voru í dag. 

Heimilin draga lánavagninn

Áfram sem áður eru ný útlán viðskiptabankanna aðallega til heimila landsins, og að langstærstu leyti með veði í íbúð eða annars konar fasteign. Lán til heimila að frádregnum upp- og umframgreiðslum, hafa verið 351 milljarður króna frá byrjun árs 2020 og út síðasta mánuð. Þar hafa hafa íbúðalán verið 335,3 milljarðar króna, eða tæplega 96 prósent allra útlána til heimila og rúmlega 87 prósent allra útlána bankakerfisins. 

Auglýsing

Líkt og Kjarninn hefur greint frá áður þá skar árið 2020 sig úr öðrum vegna þess að þá flúðu heimili landsins úr verðtryggðum lánum og yfir í óverðtryggð. Sú þróun heldur áfram inn á þetta ár. 

Í janúar 2021 tók heimili landsins óverðtryggð íbúðalán fyrir 35,4 milljarða króna að frádregnum upp- og umframgreiðslum og frá byrjun síðasta ár nemur sú lántaka heimila alls 399,1 milljarði króna. Óverðtryggð útlán til heimila vegna fasteignakaupa eru auk þess um 5,3 milljörðum krónum hærri en öll útlán bankakerfisins í síðasta mánuði.

 Heimilin í landinu greiddu upp verðtryggð lán upp á 4,8 milljarða króna í síðasta mánuði og frá byrjun árs 2020 hefur umfang verðtryggðra íbúðalána í eignasafni viðskiptabankanna, að frádregnum upp- og umframgreiðslum, dregist saman um 62,8 milljarða króna. 

Framboð og eftirspurn

Innan bankanna segir að þessi staða ráðist einfaldlega af eftirspurn. Í kjölfar mikilla vaxtalækkanna Seðlabanka Íslands, sem hafa skilað stýrivöxtum niður í 0,75 prósent, hafa vextir á óverðtryggðum húsnæðislánum lækkað skarpt. Ódýrustu vextir á óverðtryggð grunnlán eru nú 3,3 prósent, sem er allra ódýrasta lánsfé sem íslenskum heimilum hefur staðið til boða í Íslandssögunni. 

Auglýsing

Fyrir vikið hefur verið mikið líf á fasteignamarkaði, en húsnæðisverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði til að mynda um 7,7 prósent á síðasta ári, þrátt fyrir dýpstu kreppu sem Ísland hefur staðið frammi fyrir í heila öld. Ástæðan er sú að þau heimili sem verða ekki fyrir beinum fjárhagslegum áhrifum af kórónuveirunni, í formi skertra tekna eða atvinnumissis, hafa það heilt yfir betra nú en fyrir ári síðan. Sparnaður hefur hrannast upp vegna þess að ómögulegt er að eyða honum t.d. í ferðalög, og lánsfé er ódýrara og samningsbundnar launahækkanir hafa tekið gildi. Þá er enn mun meiri eftirspurn eftir húsnæði á höfuðborgarsvæðinu en framboð. 

Vantar fjögur þúsund íbúðir

Samkvæmt úttekt Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, sem birt var í janúar, er óuppfyllt húsnæðisþörf nú hátt í fjögur þúsund íbúðir og mun vaxa um 2.300 íbúðir á næstu þremur árum ef ekkert verður að gert. Því er ekki fyrirliggjandi að eftirspurn eftir húsnæði muni dragast saman. 

Ofan á þetta sýndi ný skýrsla Alþýðusambands Íslands (ASÍ), sem var birt í byrjun febrúar, að um fimm til sjö þúsund manns gætu búið í svokölluðum óleyfisíbúðum, sem er húsnæði skipulagt undir atvinnustarfsemi. 

Hækkandi vaxtaálag

Ástæður þess að fyrirtæki eru ekki að taka lán eru aðrar. Í síðasta Fjármálastöðugleikariti Seðlabanka Íslands sem kom út í lok september síðastliðins sagði að sam­­dráttur í inn­­­lendum skuldum fyr­ir­tækja bendi til þess að aðgengi fyr­ir­tækja að fjár­­­magni sé hugs­an­­lega tor­veld­­ara en áður, fyrst og fremst vegna auk­innar áhættu sem end­­ur­­spegl­­ast í hækk­­andi vaxta­á­lagi fyr­ir­tækja­út­­lána bank­anna. „Efna­hags­­sam­­drátt­­ur­inn og aukin óvissa vegna far­­sótt­­ar­innar hefur einnig dregið veru­­lega úr eft­ir­­spurn eftir lánum þar sem sam­hliða dregur bæði úr áhætt­u­­sækni fyr­ir­tækja og fram­­boði á arð­­bærum fjár­­­fest­ing­­ar­tæki­­fær­­um.“

Auglýsing

Þetta þýðir á mannamáli að bankarnir meta líkurnar á endurheimtum lán verri en áður og vilja því fá hærra álag á þau sem endurspeglar áhættuna sem þeir taka af útlánunum. Fyrirtæki í vanda ráða ekki við þau vaxtakjör sem þeim er boðið upp á og því er ekkert lánað. 

Seðla­­bank­inn sagði í ritinu að hann teldi þó að skuldir fyr­ir­tækja sem nýta sér lána­úr­ræði stjórn­­­valda og fjár­­­mála­­fyr­ir­tækja muni vaxa í nánustu framtíð. „Mörg fyr­ir­tæki hafa orðið fyrir miklum tekju­­sam­drætti og munu fara skuld­­sett­­ari inn í þann efna­hags­bata sem vænta má þegar far­­sóttin verður um garð geng­in. Áhætta fyr­ir­tækja vegna vaxta­breyt­inga og/eða tekju­­falls eykst með auk­inni skuld­­setn­ingu. Lágt vaxtastig styður þó við skuld­­sett fyr­ir­tæki að öðru óbreyttu og eykur sjálf­­bærni skuld­­setn­ing­­ar.“

Versn­andi útlána­­gæði lána­­stofn­ana end­­ur­­spegl­ist hins vegar í breyttu áhætt­u­mati og vax­andi virð­is­rýrnun á öðrum árs­fjórð­ungi. Enn sem komið er hafi aðeins lít­ill hluti útlána kerfislega mik­il­vægra banka til fyr­ir­tækja verið færður á stig 3 sam­­kvæmt IFRS-9-­­reikn­ings­skila­­stað­l­in­um, en við­­búið sé að það breyt­ist næstu mis­s­eri enda hafi orðið tvö­­­földun á kröf­u­virði útlána á stigi 2 og virð­is­rýrnun þeirra fimm­fald­­ast. „Hættan á enn frek­­ari virð­is­rýrnun og fjölgun gjald­­þrota fer vax­and­i.“

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar