Eru njósnir leyfilegar? – Um mikilvægi upplýsinga

Njósnir eru ekki bara milliríkjamál því upplýsingar varða almenning. Því er mikilvægt að styrkja regluverk um upplýsingaöflun og miðlun þeirra – bæði innan ríkja og alþjóðlega.

Þrátt fyrir að njósnir séu aldagamalt fyrirbæri eru alþjóðalög um þær harla óljós og takmörkuð.
Þrátt fyrir að njósnir séu aldagamalt fyrirbæri eru alþjóðalög um þær harla óljós og takmörkuð.
Auglýsing

Nú þegar kapphlaupið um bóluefni gegn COVID-19 er í algleymingi hafa borist fréttir af innbrotum, m.a. Norður-Kóreumanna og Rússa, inn í tölvukerfi fyrirtækja og stofnana sem hafa haft með bóluefnin að gera. Nú síðast upplýstu Suður-kóresk yfirvöld að Norður-Kóreumenn hafi þannig reynt að komast yfir uppskrift bandaríska lyfjarisans Pfizer en ekki er ljóst hvort það hafi tekist.

Samkvæmt alþjóðalögum eru njósnir ríkja í raun ekki bannaðar en málið er aðeins flóknara en svo. Umræða um njósnir í nútímanum snýst ekki eingöngu um ríki, stórfyrirtæki eða einstaklinga sem reyna að komast yfir leynilegar upplýsingar um hernaðaráætlanir eða hátæknivopn annarra ríkja eða fyrirtækja. Hún snýst einnig um upplýsingaöflun almennt, um eftirlit með almennum borgurum og upplýsingar sem varða þá eða samfélagið allt.  

Njósnir og leyniaðgerðir – frá Guði, Móse og flugumönnum til tölvuinnbrota

Njósnir hafa þekkst frá örófi alda því mikilvægi réttra upplýsinga hefur löngum verið ljóst og ef leitað er í gamlar bókmenntir er Guð þar ákveðinn frumkvöðull. Um 1.300 fyrir Krist, eftir að Ísraelsmenn höfðu flúið frá Egyptalandi og farið yfir Rauðahafið, sagði Guð Móse að senda njósnara til að kanna aðstæður í fyrirheitna landinu. Valdi Móse til fararinnar, að fyrirmælum Guðs, einn forystumann úr hverri af tólf ættkvíslum Ísraels.

Auglýsing

Ef við færum okkur nær í tíma þá hefur nútímatækni breytt aðstæðum talsvert. Áður fyrr var flugumönnum komið fyrir í herbúðum eða stjórnkerfi andstæðinganna, símar hleraðir, brotist inn og skjölum stolið eða teknar ljósmyndir. Eftir því sem internetið verður umfangsmeiri þáttur í allri hugsanlegri starfsemi aukast jafnframt möguleikar til upplýsingaöflunar, hvort sem í hlut eiga stjórnvöld, fyrirtæki eða einstaklingar. Hafi alþjóðalög um njósnir verið takmörkuð, í besta falli óskýr, er ástandið mun verra nú þegar óravíddir internetsins hafa bæst við.

Gerendur eru fleiri og fjölbreyttari, allt frá einum tölvuhakkara í kjallarakompu í fjarlægu landi til tæknirisanna Google og Facebook sem eru í raun orðnir yfirþjóðlegir gerendur. Má þar nefna nýlega atburði í Ástralíu þar sem Facebook lokaði á deilingu upplýsinga, sem m.a. vörðuðu opinberar stofnanir sem hafa treyst á miðlana við upplýsingagjöf til almennings.

Það eru náin tengsl milli upplýsinga, þekkingar og valds því ef allt er vitað um einstaklinga, hópa eða jafnvel heilu ríkin er auðveldara að hafa á þeim stjórn eða hafa áhrif á þau. Á sama tíma eru í opnu lýðræðissamfélagi gerðar ríkar kröfur til stjórnvalda um upplýsingagjöf til almennings, eins og t.d. hefur sýnt sig í COVID-19-faraldrinum og varðandi stöðuna á bóluefnum.

Hagsmunir eru því af misjöfnum toga, allt frá upplýsingum sem geta komið sér vel fyrir almenning, til beinna ógna við öryggi ríkisins. Upplýsingarnar geta í einhverjum tilfellum ráðið úrslitum um framtíð ríkja og þjóða – ýmist tryggt eða ógnað þjóðaröryggi. Og þurfa þá ekki öll ríki að stunda einhverskonar sjálfstæða upplýsingaöflun – reka leyniþjónustu? Ekki endilega til pukrast með illa fengnar upplýsingar eða stunda myrkraverk, heldur til að geta tryggt aðgang að óvilhöllum og réttum upplýsingum?

Slíkt hlýtur að vekja upp fleiri spurningar. Hvar liggja mörkin á milli upplýsingaöflunar og njósna, hvernig eru njósnir skilgreindar? Eru þær leyfilegar í einhverjum tilfellum, hvenær er farið yfir strikið og hver eru viðurlögin?

Hér er rétt að setja ákveðinn fyrirvara því íslensk tunga er hér sérstök áskorun. Hún geymir enn ekkert gott hugtak yfir það sem í ensku er kallað „intelligence“. Orð eins og njósnir og leyniþjónusta hafa yfir sér blæ sem hvorki er hjálplegur né raunverulega lýsandi fyrir þau sem verkefni sem verið er að vísa til.

Hættan á leyndarhyggju – vangeta íslenskra stjórnvalda

Fyrr í vetur bárust fregnir af því að Leyniþjónusta danska hersins hefði gefið bandarísku þjóðaröryggisstofnuninni (NSA) aðgang að dönsku fjarskiptaneti til að njósna um stofnanir og fyrirtæki í Danmörku og nágrannalöndum. Andrés Ingi Jónsson, þá þingmaður utan flokka, lagði fram fyrirspurn á Alþingi til þriggja ráðherra um málið, í ljósi þess að báðir gagnasæstrengirnir sem tengja Ísland við Evrópu liggja um danskt yfirráðasvæði.

Í sameiginlegu svari viðkomandi ráðuneyta var lýst áhyggjum vegna málsins og að margt benti til þess að um ólöglegt athæfi hafi verið að ræða. Öryggis- og varnarmál þörfnuðust nú aukinnar athygli vegna mikilla tækniframfara í fjarskiptum, sem hefðu breytt mjög öryggisumhverfinu. Hins vegar yrði ekki brugðist frekar við á meðan beðið væri eftir niðurstöðu rannsóknar á vegum danskra stjórnvalda.

Þetta er í hnotskurn það sem við er að eiga því mál eru gjarnan dálítið óljós og ríki hafa ákveðið svigrúm til að sleppa því að ræða svo viðkvæm mál. Að einhverju leyti endurspeglar þetta líka vanmátt Íslendinga. Af hverju er setið hjá á meðan Danir gefa út sína útgáfu af sögunni? Hvar er hin sjálfstæða rannsókn íslenskra stjórnvalda á svo viðkvæmu og alvarlegu máli?

Þegar höndlað er með viðkvæmar upplýsingar sem skilgreina má þannig að þær varði þjóðaröryggi er þeim jafnan, eðli málsins samkvæmt, haldið leyndum. En mjög er misjafnt eftir ríkjum hversu opin umræða er um upplýsinga- og njósnastofnanir. Sem dæmi má nefna að í Bandaríkjunum hafa allir verið meðvitaðir um tilvist stofnana eins og CIA og NSA, þrátt fyrir að vissulega hvíli leynd yfir aðgerðum þeirra og aðferðum. Í Bretlandi var því lengst af öfugt farið en allt fram til ársins 1992 var tilvist SIS, sem er forveri MI6-leyniþjónustunnar, ekki opinberlega viðurkennd.

Leyndin er skiljanlega mikil ennþá en við slíkar aðstæður myndast rými fyrir leyndarhyggiu sem skapar ákveðna togstreitu. Um leið og stjórnvöld reyna að tryggja þjóðaröryggi með njósnum og leyniaðgerðum getur það hæglega snúist upp í andhverfu sína. T.d. geta stjórnvöld borið fyrir sig ógn við þjóðaröryggi þegar forðast á að ræða mál sem þola ekki dagsljósið. Þannig er m.a. hægt að réttlæta aukið eftirlit með borgurunum, í versta falli ólögmætar handtökur og kúgun á forsendum ógnar við þjóðaröryggi.

Hvað segja alþjóðalög?

Þrátt fyrir að njósnir séu aldagamalt fyrirbæri eru alþjóðalög um þær harla óljós og takmörkuð. Athyglisvert er að andstætt því sem halda mætti vísar hugmyndin um njósnir í alþjóðalögum eingöngu til upplýsingaöflunar en ekki til leynilegra aðgerða.

Það er aðeins á stríðstímum sem staða njósnara er í raun háð sérstökum alþjóðlegum reglum en lögfræðileg álitamál um njósnir hafa almennt lítið verið rædd. Á tímum kalda stríðsins fóru lögspekingar að hafa raunverulegan áhuga á njósnastarfsemi milli ríkja. Beindist þá greiningin helst að almennum alþjóðalögum og meginreglunni um fullveldi ríkisins.

Jafnframt hefur það gerst í samræmi við þróun mannréttinda, sem eiga sér ekki bara stoð innan hins fullvalda ríkis, að farið er að skoða hvernig njósnir, þar á meðal ýmiskonar eftirlit, koma við almenning. Nýlegar rannsóknir hafa því byrjað að beinast að því hvort eftirlitsaðferðir stjórnvalda eða fyrirtækja geti varðað við mannréttindalög. Eftir árásirnar 11. september 2001 fengu þessi mál byr undir báða vængi vegna aukins eftirlits stjórnvalda í þeim tilgangi að berjast gegn hryðjuverkum.

Þróun nýrrar tækni og samskiptamiðla hefur sömuleiðis aukið möguleika á umfangsmiklu eftirliti með öllum ferðum og gjörðum almennings. Uppljóstranir Edwards Snowdens, fyrrverandi starfsmanns Þjóðaröryggisstofnunar Bandaríkjanna (NSA), vöktu jafnframt upp miklar umræður um leyniþjónustuáætlanir Bandaríkjanna og lagalega og pólitíska stöðu njósnastarfsemi ríkja almennt.

Njósnir hafa sem sagt tekið á sig fjölbreyttari og fágaðri mynd með mismunandi starfsháttum og gerendum. Vegna þessa fjölbreytileika og skorts á afgerandi lagasetningu krefjast vandamál sem njósnir hafa í för með sér að aðrar reglur sé skoðaðar. Þ.e. lög og reglur sem varða fullveldi, íhlutun og valdbeitingu, hafsvæði, viðskipti og efnahagsmál o.fl.

Edward Snowden. Mynd: EPA

Meginreglan er sú að njósnir eru í sjálfu sér ekki bannaðar, þ.e.a.s. njósnir fyrir hönd ríkisins. Njósnir sem beinast gegn ríkinu eru hins vegar önnur saga og að upplýsa um njósnir ríkisins getur varðað við lög og haft alvarlegar afleiðingar, eins og fyrrnefndur Snowden getur vitnað um, að ekki sé talað um Julian Assange og Chelsea Manning.

Þetta beinir sjónum að þeirri staðreynd að þrátt fyrir býsna þróað alþjóðasamfélag, með tilteknum lögum og reglum, er kerfið formlega stjórnlaust. Það er því sjaldnast yfirþjóðlegu valdi eða lögreglu til að dreifa og mjög torvelt að draga ríki til ábyrgðar, þaðan af síður dæma og fullnusta refsingar. Um einstaklingana gilda önnur lögmál, þ.e. þá sem gripnir eru við slíka iðju, eða ljóstra upp um hana.

Nauðsyn laga og reglna

Bretar hafa reynt að koma einhverri reglu á hlutina hvað varðar athafnir stjórnvalda. Lagafrumvarp hefur verið lagt fyrir breska þingið sem kveður á um að leyniþjónustustofnanir megi fara á svig við eða hreinlega brjóta lög. Lögunum er ætlað að auðvelda starfsmönnum bresku leyniþjónustunnar að smeygja sér í raðir hryðjuverka- og glæpasamtaka. Segja málshefjendur þessar aðferðir leyniþjónustunnar hafi m.a. komið í veg fyrir hryðjuverkatilræði við Theresu May þáverandi forsætisráðherra árið 2017.

Þegar njósnir beinast út á við, milli ríkja eða stórfyrirtækja, er það vissulega vandamál, í besta falli lagalegt álitamál um brot á fullveldisrétti sem ekkert regluverk er til um. Fullyrða má að tvöfalt siðgæði hafi ríkt um njósnir og leyniaðgerðir. Stórveldin sem stóðu í leppstríðum og önnur ríki sem áttu nýlendur víða, hafa staðið í harðri hagsmunagæslu um landsvæði, auðlindir og völd – og hafa haft ákveðið leyfi til verja þessa hagsmuni með þeim meðulum sem tiltæk eru.

Við árekstra hafa ríkin horft í gegnum fingur sér og látið nægja að mótmæla formlega og senda stjórnarerindreka úr landi, í versta falli koma þeim fyrir kattarnef. Heimsbyggðin er þó að vakna upp við vondan draum eftir því sem nettæknin verður fullkomnari og fleiri ríki eru farin að ástunda njósnir og hugverkaþjófnað um allan heim. Þekktar eru ásakanir þess efnis á hendur Kínverjum og hafa staðið deilur, þar sem m.a. Evrópusambandið og Bandaríkin hafa reynt að stöðva slíka hegðun Kínverja. Alþjóðlegar reglur og samningar um vernd hugverkaréttinda hafa haft lítinn fælingarmátt.

Fleiri og fleiri ríki, sem áður þóttu ekki hafa mikla burði á alþjóðasviðinu, hafa nú jafnframt aukna möguleika til fjölþáttahernaðar. Það geta þau m.a. með því að brjótast inn í tölvukerfi og nýta sér samfélagsmiðla til að hafa áhrif á stjórnmál og grafa undan stjórnvöldum í öðrum ríkjum með fölsuðum upplýsingum til að skapa upplýsingaóreiðu.

Líf og starf okkar allra hefur færst inn á internetið sem kallar á regluverk um eftirlit og kortlagningu hegðunar almennra borgara, bæði af hálfu yfirvalda og fyrirtækja. Gleymum því ekki að miðlarnir eru í höndum tæknirisa eins og Google og Facebook, sem eru hagnaðardrifin stórfyrirtæki og lúta ekki endilega lögum þeirra ríkja sem þau starfa í. Því er mikilvægt að fram fari öflug umræða um starfsemi samfélagsmiðla, öflun og miðlun upplýsinga um almenning og samræming alþjóðlegra laga og reglna um starfsumhverfi og lögsögu þeirra.

Fyrir íslensk stjórnvöld og almenning sem lengi hafa skautað framhjá, eða umgengist þessi mál af ákveðinni léttúð, sem endurspeglar bæði reynslu- og skilningsleysi, er nauðsynlegt að taka á þessum málum af meiri alvöru. Ýmis teikn eru á lofti um að það sé einmitt að gerast, ýmist að frumkvæði eða á vettvangi Þjóðaröryggisráðs, Utanríkisráðuneytisins, Fjölmiðlanefndar og fleiri aðila. Upplýst umræða og meðvitund meðal almennings og fulltrúa okkar á þingi eru einnig mikilvæg, jafnvel þó flækjustig, lítil reynsla af slíkum málum í sögulegu samhengi og hugtakaskortur séu óneitanlega ákveðinn fjötur um fót.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Það er erfitt að ímynda sér að það snjói í Brasilíu en snjókoma er eflaust algengari þar en ætla mætti. Þessi mynd er tekin eftir snjókomu í Brasilíu í ágúst árið 2020
Snjór fellur í Brasilíu
Sumir íbúar í syðsta héraði Brasilíu hafa tekið snjónum fagnandi enda ekki á hverjum degi sem þar snjóar. Bændur gætu aftur á móti átt von á lakari uppskeru og verð á hrávörumörkuðum hefur hækkað í kjölfar kuldakastsins.
Kjarninn 30. júlí 2021
Landspítalinn er á hættustigi vegna kórónuveirufaraldursins.
Sjúklingur á krabbameinsdeild reyndist ekki með COVID
Sjúklingur og starfsmaður á blóð- og krabbameinslækningadeild Landspítalans, sem sagt var frá í gær að hefðu greinst með COVID-19 reyndust ekki smitaðir af kórónuveirunni.
Kjarninn 30. júlí 2021
Óli varð efstur í forvali VG í Norðausturkjördæmi en Bjarkey Olsen í öðru.
Óli Halldórsson hættur við að leiða lista VG í Norðausturkjördæmi
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir mun leiða lista Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í Norðausturkjördæmi. Óli Halldórsson færist niður í þriðja sætið en hann stígur til hliðar úr oddvitasætinu vegna veikinda í fjölskyldunni.
Kjarninn 30. júlí 2021
Um 85 prósent Íslendinga sextán ára og eldri eru bólusett
Fjórðungur smitaðra óbólusettur
Að minnsta kosti 255 óbólusettir einstaklingar hafa greinst með kórónuveiruna hér á landi á þremur vikum. Tæplega 750 smit, um 72 prósent, eru hjá fullbólusettum.
Kjarninn 30. júlí 2021
Þessir frambjóðendur skipa sjö efstu sæti Sósíalistaflokksins í Suðvesturkjördæmi.
María Pétursdóttir og Þór Saari leiða sósíalista í Suðvesturkjördæmi
María hefur starfað innan Sósíalistaflokksins í fjögur ár sem formaður Málefnastjórnar. Raðað er á lista flokksins af hópi flokksfélaga sem hefur verið slembivalinn.
Kjarninn 30. júlí 2021
Ísland og Ísrael örva bólusetta
Á Íslandi og í Ísrael er bólusetningarhlutfall með því hæsta sem fyrirfinnst á jörðu. Bæði löndin sáu smit nær þurrkast út en rísa svo í hæstu hæðir á ný. Og nú hafa þau, sama daginn, ákveðið að gefa þegar bólusettum borgurum örvunarskammt.
Kjarninn 30. júlí 2021
Stóru bankarnir þrír fækkuðu allir í starfsliði sínu á fyrstu sex mánuðum ársins.
Starfsmönnum stóru bankanna fækkaði um rúmlega 80 á fyrri helmingi árs
Í lok júní störfuðu 2.167 manns hjá stóru viðskiptabönkunum þremur, Íslandsbanka, Landsbanka og Arion banka. Samanlagður hagnaður bankanna nam 37 milljörðum á fyrstu 6 mánuðum ársins.
Kjarninn 30. júlí 2021
Losun koldíoxíðs út í andrúmsloftið á stóran þátt í því að þolmarkadagur jarðar er jafn snemma á árinu og raun ber vitni.
Þolmarkadagur jarðarinnar er runninn upp
Mannkynið hefur frá upphafi árs notað þær auðlindir sem jörðin er fær um að endurnýja á heilu ári. Til þess að viðhalda neyslunni þyrfti 1,7 jörð.
Kjarninn 29. júlí 2021
Meira eftir höfundinnBjarni Bragi Kjartansson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar