Kjarninn endurbirtir nú valda pistla Borgþórs Arngrímssonar sem samhliða eru gefnir út sem hlaðvarpsþættir. Fréttaskýringar Borgþórs njóta mikilla vinsælda og sú sem er endurbirt hér að neðan var upphaflega birt þann 26. júlí 2020.
Í hádeginu dag einn fyrir tæpum tuttugu árum sátu nokkrir kennarar og nemendur í efnafræðideild Hafnarháskóla í mötuneytinu. Í matartímanum var iðulega rætt um allt milli himins og jarðar. Meðal þeirra sem sátu þarna og spjölluðu var Thorvald Pedersen lektor í efnafræði. Hann var áhugamaður um margt annað en það sem viðkom beinlínis sérgrein hans. Meðal annars skrifaði hann árum saman um matreiðslu í innanhússblað efnafræðideildarinnar. Dálkur hans hét „efnafræðingurinn í eldhúsinu“.
Þennan tiltekna dag í mötuneytinu sagði hann allt í einu: „Hvað er það sem veldur því að það er svo góð lykt af þvotti sem þornað hefur í sólinni, allt önnur en af þvotti sem þornað hefur á snúru í skugga utandyra, í þvottahúsinu, eða í þurrkara?“
Viðstaddir voru allir sammála lektornum um góðu lyktina af útisnúruþvotti en enginn gat svarað spurningunni. Tæknin til að skilgreina hvað gerist í þvotti á snúru var ekki til staðar.
Þessi himneski ilmur
Thorvald Pedersen lifir ekki lengur en þeir sem sátu við borðið í mötuneytinu þennan dag fyrir tæpum tveimur áratugum gleymdu ekki vangaveltum hans um „þennan himneska ilm“.
Fyrir nokkrum árum fékk efnafræðideildin tæki sem gera mögulegt að skilgreina hvað framkallar ilminn úr þvottinum. Þótt möguleikar þessara tækja séu ekki einskorðaðir við skilgreiningu á lykt úr þvotti ákvað starfsfólk deildarinnar að finna svarið við spurningu hins látna lektors. Þrír starfsmenn unnu að verkefninu og þegar rannsókninni var lokið skrifuðu þeir grein sem birtist í vísindatímaritinu Environmental Chemistry og tileinkuðu greinina Thorvald Pedersen.
Aðferðin og niðurstaðan
Í viðtali við danska dagblaðið Politiken útskýrði Malte Frydenlund, einn þremenninganna, vinnuaðferðina.
Þvegin var full vél af handklæðum sem öll voru eins. Notað var lyktarlaust þvottaefni. Hluti handklæðanna var svo hengdur á snúru í sólinni, hluti á snúru í skugga utandyra, enn önnur á þurrkgrind innandyra og afgangurinn settur í þurrkara. Þegar handklæðin voru orðin þurr voru þau sett í loftþétta poka, sérstakt tæki sogaði loft úr handklæðunum sem enn annað tæki skilgreindi svo. Þetta er einföld útgáfa af vinnuaðferðinni.
Þremenningarnir komust að því að geislar sólarinnar setja af stað ákveðið efnaferli (kemisk proces) í handklæðunum. Við þetta leysist úr læðingi lykt, eða ilmur sem vekur notalega líðan. Minnir á sítrónur, möndlur, súkkulaði, rósir og fleira sem flestum líkar við.
Tilraunin var endurtekin þrisvar sinnum og útkoman var alltaf sú sama.
Vekur bernskuminningar
Einn þeirra sem sat við borðið í mötuneyti efnafræðideildar Hafnarháskóla þegar Thorvald Pedersen fitjaði upp á handklæðalyktinni var Matthew Stanley Johnson. Hann var þá nemandi við deildina en er nú prófessor, og hafði yfirumsjón með rannsókninni. Hann sagði í viðtali að það hefði verið sérlega ánægjulegt að geta fundið svarið við þessari gömlu spurningu Thorvald Pedersen. „Það kannast allir við að tiltekin lykt vekur ákveðnar minningar,“ sagði Matthew Stanley Johnson og bætti við: „Ef ég leggst til hvílu þar sem rúmfötin hafa verið hengd til þerris í sólinni, hugsa ég ósjálfrátt til bernskuheimilisins í Minnesota.“
Albert Gjedde, sérfræðingur í rannsóknum á starfsemi heilans við Hafnarháskóla, tók ekki þátt í rannsókn þremenninganna en sagði það vel þekkt að lyktin af þvotti sem þornað hefur í sól veki minningar. „Þessi lykt framkallar dópamínskot í heilanum og við fyllumst vellíðan.“
Albert Gjedde bætti við að lyktin af nýbökuðum smákökum minni marga á jólin.
Þvottaefni, kerti og sápur og ilmvötn
Malte Frydenlund, einn rannsóknarþremenninganna, sagði að allir kannist við frískt loft sem fylgir rigningarskúrum. Þessi frískleiki verður líklega til á svipaðan hátt og notalega lyktin af sólþurrkuðum handklæðum. Það væri þessi notalegheit sem framleiðendur reyni að framkalla í þvottaefnum, hreingerningavökvum, sápum, ilmvötnum og mörgu fleiru.
Malte Frydenlund sagðist viss um að framleiðendur áðurnefndra vara og margra fleiri myndu kynna sér niðurstöður rannsóknarinnar í því skyni að komast enn nær því en áður að líkja eftir „lykt náttúrunnar“. Hann sagði að utanaðkomandi lykt gæti hins vegar yfirgnæft hinn náttúrulega ilm sólþurrkuðu handklæðanna.
Skrifari þessa pistils getur í þessu sambandi rifjað upp að á bernskuheimili hans, úti á landi, var þvottur ætíð hengdur út til þerris. Ef svo vildi til að búið væri að hengja út og síðan gustaði af suðaustan og verið var að bræða fiskúrgang í bræðslunni (kölluð iðjan) var voðinn vís með þvottinn. Lausnin var að kippa þvottinum inn og þvo síðan aftur við betra tækifæri. Annars lyktuðu föt, handklæði og allur annar þvottur af gúanó.
Þótti ekki beinlínis þægilegur ilmur.