Kjarninn endurbirtir nú valda pistla Borgþórs Arngrímssonar sem samhliða eru gefnir út sem hlaðvarpsþættir. Fréttaskýringar Borgþórs njóta mikilla vinsælda og sú sem er endurbirt hér að neðan var upphaflega birt þann 3. apríl 2016.
Þegar pistlaskrifari var að alast upp var töframaðurinn og búktalarinn Baldur Georgs, ásamt dúkkunni Konna, vinsæll skemmtikraftur. Baldur töfraði kanínur úr hatti og sýndi ýmsa galdra svo áhorfendur stóðu á öndinni. Aldrei hefði þó hvarflað að Baldri (né Konna) að breyta svínakótelettu í nautasteik en það vefst hinsvegar ekki fyrir víetnömskum matvörusvindlurum. Nokkurra mánaða aðgerð Alþjóðalögreglunnar Interpol og Evrópulögreglunnar Europol gegn svindli með matvæli lauk fyrir nokkrum dögum.
Á undanförnum árum hafa margoft, víða um heim, komið upp mál sem tengjast svikum og prettum með matvæli. Starfsemi af því tagi tengist nær undantekningarlaust þeirri áráttu, sem fylgt hefur mannkyninu frá upphafi, að fá meira fyrir minna. Græða.
Síðastliðinn áratug hafa flest slík mál, í Evrópu, með einum eða öðrum hætti tengst nautum og hrossum. Í flestum, eða öllum, tilvikum hefur verið um það að ræða að hross hefur breyst í naut, gamall dráttarklár orðinn að úrvals tudda. Iðulega hefur þetta gerst á leiðinni gegnum hakkavélar kjötvinnslufyrirtækja. Skýringin á því að hross verður oftast að nauti en ekki öfugt liggur í því að nautakjöt er eftirsótt vara, andstætt því sem gildir um hrossakjöt. Þaraf leiðandi er verðið á nautakjötinu hærra, auk þess sem erfitt getur reynst að selja hrossakjöt því að í flestum Evrópulöndum er ekki hefð fyrir neyslu þess.
Findus málið
Í febrúar 2013 var greint frá því í fjölmiðlum víða um lönd að matvælaframleiðandinn Findus hefði orðið uppvís að því að nota hrossakjöt í ýmsa tilbúna rétti og hamborgara, í stað nautakjöts eins og stóð á umbúðunum. Margt athyglisvert kom í ljós við rannsókn þessa máls og leiðir hrossakjötsins á leiðinni í neytendapakkningar Findus bæði langar og flóknar. Milliliðirnir reyndust margir og mjög flókið að komast að uppruna kjötsins, hvaðan gat allt þetta hrossakjöt komið, var spurt. Grunur beindist að Rúmeníu en nokkrum árum áður höfðu tekið þar gildi lög sem bönnuðu hestakerrur á vegum. Á árunum eftir að bannið tók gildi er talið að allt að sex hundruð þúsund kerruklárum hafi verið slátrað og miklum fjölda asna sem höfðu verið notaðir til dráttar. Rúmenar harðneituðu öllum slíkum ásökunum og aldrei tókst að komast til botns í málinu. Hrossakjötsskandallinn (eins fjölmiðlar komust að orði) vakti mikla athygli og olli Findus fyrirtækinu, sem er sænskt og með framleiðslu í mörgum löndum, miklum skaða. Þótt Findus yrði að eins konar samnefnara fyrir þetta umfangsmikla mál tengdust því mörg önnur fyrirtæki, í mörgum löndum. Þetta mál hefur iðulega verið kallað stærsta matvælahneyksli Evrópu.
26 handteknir
Árið 2015, tveimur árum eftir að Findus málið komst upp voru 26 manns handteknir sem taldir voru tengjast umfangsmiklu smygli og svindli með hrossakjöt. Evrópska réttaraðstoðin (Eurojust) og franska lögreglan skipulögðu aðgerðirnar en handtökurnar fóru fram í sjö löndum. Í tilkynningu Eurojust kom fram að Belgi væri höfuðpaur málsins.
Hér hafa aðeins verið nefnd tvö mál sem tengjast svindli með matvæli. Ótal mál af svipuðu tagi, ekki þó jafn umfangsmikil, væri hægt að nefna.
Stóra rassían
Fyrir nokkrum dögum sendu Alþjóðalögreglan Interpol og Evrópulögreglan Europol frá sér fréttatilkynningu. Tilefnið var að lokið var nokkurra mánaða aðgerðum gegn ólöglegum matvælaiðnaði. Aðgerðir lögreglunnar, sem lögregla í 57 löndum tók þátt í, áttu sér langan adraganda, undirbúningurinn hafði staðið yfir í nokkur ár. Þótt margir hafi talið sig vita að víða væri maðkur í matvælamysunni hefur líklega fæsta grunað að svindlið væri jafn umfangsmikið og teygði anga sína jafn víða og rannsóknin leiddi í ljós. Hvatinn í öllum tilvikum gróðavonin og grunlaus almenningur getur fátt gert annað en treysta á eftirlit lögreglu og eftirlitsstofnana. Þessi ólöglega starfsemi veltir árlega þúsundum milljarða og hækkandi matarverð víða um heim kyndir enn frekar undir gróðavonina.
Hugmyndaflugi þeirra sem þessa iðju stunda virðast lítil takmörk sett og margt af því sem nefnt er í tilkynningunni með hreinum ólíkindum.
Á Ítalíu lagði lögregla hald á 85 tonn af ólífum sem höfðu verið baðaðar í koparsúlfati til að fá á þær sterkari grænan lit.
Í Belgíu gerði lögreglan upptækt apakjöt sem hafði verið flutt til landsins, slíkt er ólöglegt og veiðar á öpum víðast hvar bannaðar. Belgíska og franska lögreglan lögðu líka hald á engisprettur og lirfur, hvort tveggja ólöglegt og ekki vitað hver ætlunin með innflutningnum var.
Í Bolívíu fann lögreglan tugþúsundir sardínudósa og jafnframt límmiða með nafni þekkts niðursuðufyrirtækis í Perú. Eigandi sardínulagersins hafði vandað til prentunarinnar á miðunum því þeir voru nákvæmlega eins og fyrirmyndin.
Gríska lögreglan fann þrjú ólögleg víngerðarhús, þarsem framleiðsla var í fullum gangi. Þar fundust 7400 flöskur með merkimiðum þekktra framleiðenda og sömuleiðis tappar og merkimiðar í tugþúsundatali, ásamt tómum flöskum undir framleiðsluna.
Í Indónesíu lagði lögreglan hald á margskonar matvörur, bæði eftirlíkingar þekktra vörumerkja og ýmiskonar ólöglegan varning. Sumt af þeim varningi hættulegt heilsu manna, þar á meðal 70 kíló af kjúklingagörnum, sem geymdar voru í formalíni.
Í Bretlandi fann lögregla 10 þúsund lítra af sterku ólöglega framleiddu víni sem blandað hafði verið með enn ódýrari vökva. Á vef breska útvarpsins BBC segir að alls hafi í þessari aðgerð víða um lönd fundist ólöglegt vín sem dugi til að fylla 10 þúsund baðker. Ekki algeng mælieining enda fremur ónákvæm!
Í Ungverjalandi, Litháen, Rúmeníu og á Ítalíu fann lögreglan tugi tonna af súkkulaði og kexi, pakkað í nákvæmar eftirlíkingar þekktra framleiðenda. Á Ítalíu fannst einnig, og ekki í fyrsta sinn, ólífuolía á flöskum merktum þekktum framleiðendum. Fyrir þremur árum kom upp hliðstætt mál, lögregla taldi þá að allt að 80 prósent af því sem selt væri sem ólífuolía í hæsta gæðaflokki væri ódýrt sull.
Þótt svindlarar um allan heim séu hugvitssamir slá líklega fáir þeim tælensku við. Þar greip lögreglan nokkra menn sem voru að dunda sér við að breyta svínakótelettum í nautasteikur. Kótelettunum var dýft í pott með nautablóði sem natríumblöndu hafði verið bætt í. Eftir ferðina í pottinn voru kóteletturnar blóðrauðar en líktust kannski ekki, af myndum að dæma, að öðru leyti nautakjöti. Af því hvernig þessar litbreyttu svínakótelettur smökkuðust fer ekki sögum. Tælenska lögreglan gerði auk þess upptæka tugi tonna af nautakjöti sem talið var óhæft til manneldis, en var eigi að síður á leið í verslanir.
Í Danmörku fann Matvælaeftirlitið 81 tonn af sírópi sem eftir „lagfæringar” er selt sem hunang. Eitt stærsta fyrirtækið á þessu sviði í Danmörku er nú til sérstakrar skoðunar þar sem ætlunin er að komast að hvort ”breytingin úr sírópi í hunang” hefur farið fram í Danmörku eða Kína en þaðan kemur stór hluti þess hunangs sem selt er í dönskum verslunum.
Hér hefur einungis fátt eitt verið nefnt af því sem fannst í rassíu Interpol og Europol. Einn af yfirmönnum Europol sagði í viðtali að þótt mörgum blöskraði eflaust það mikla umfang sem getið væri um í tilkynningu Interpol og Europol væri það því miður aðeins toppurinn á ísjakanum.
Á allra síðustu árum hafa stjórnvöld víða um heim aukið mjög eftirlit með öllu því sem við kemur matvælaiðnaðinum. Það gildir bæði um framleiðslu og sölu, merkingar og geymsluþol svo eitthvað sé nefnt. Evrópusambandið hefur lagt mikla áherslu á þessi mál, stundum svo mikla að ýmsir hafa kallað ofureftirlit. Miðað við niðurstöðurnar úr rassíu Alþjóðalögreglunnar og Evrópulögreglunnar er ekki vanþörf á slíku eftirliti.