Kjarninn endurbirtir nú valda pistla Borgþórs Arngrímssonar sem samhliða eru gefnir út sem hlaðvarpsþættir. Fréttaskýringar Borgþórs njóta mikilla vinsælda og sú sem er endurbirt hér að neðan var upphaflega birt þann 14. nóvember 2020.
Hlýnun andrúmsloftsins og þau gríðarlegu áhrif sem henni fylgja er einhver mesta ógn sem að mannkyninu steðjar og um fátt hefur verið meira fjallað undanfarin ár. Kórónuveiran, Covid 19, hefur reyndar mánuðum saman „stolið senunni“ ef svo mætti segja en hún mun væntanlega hverfa. Það er gerir loftslagsváin hins vegar ekki og flestum löngu orðið ljóst að hún er ekki tímabundin bóla.
Þótt flestum sé vandinn ljós gengur, að minnsta kosti enn sem komið er, misvel að grípa til aðgerða og finna ráð til að minnka útblástur og mengun. Umferðin, á sjó, landi og í lofti, og allt sem henni fylgir veldur mikilli mengun og er meðal helstu mengunarvalda. Rafknúnum farartækjum, sem menga minna en bensín og dísilvélar, fjölgar nú ört og útlit fyrir að notkun jarðefnaeldsneytis muni minnka verulega á næstu árum.
Landbúnaður er mikill mengunarvaldur. Sérfræðingar Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna hafa reiknað út að framleiðsla á kjöti og dýraafurðum valdi tæpum 15% af allri manngerðri losun gróðurhúsalofttegunda. Þar vegur nautgripaeldi þyngst.
Breytt mataræði
Á allra síðustu árum hafa matarvenjur Vesturlandabúa tekið miklum breytingum. Það á jafnt við hér á Íslandi sem í öðrum löndum. Úrval af fersku grænmeti hefur margfaldast og alls kyns tilbúnum grænmetisréttum fjölgar nánast frá degi til dags í kæliborðum verslana. Skýringarnar á þessum breyttu neysluvenjum eru ugglaust margar en ein þeirra tengist „loftslagsumræðunni“.
Í langri umfjöllun, og könnun, breska dagblaðsins Guardian um þessi mál kom fram að margir telja einkum tvennt valda því að æ fleiri kjósi að skipta kjöti út fyrir grænmeti nokkra daga í viku. Annars vegar að það sé hollara fyrir okkur mannfólkið að draga úr kjötáti og hins vegar sé það hollara fyrir heiminn sem við búum í, bæði jörð og loft. Fleira spili svo þarna inn í, til dæmis tíska, þrýstingur frá dýraverndunarsamtökum og fleira.
Hugmyndin um kjötlausu dagana
Það er stundum sagt um frændur okkar á Norðurlöndum að þar sé ekkert svo lítilfjörlegt að stjórnvöld sjái ekki ástæðu til að skipta sér af og jafnvel setja um það reglur. Þar séu reglur um allt og borgararnir aldrei á gráu svæði. Þeir séu annaðhvort að fylgja reglum eða brjóta þær.
Þetta er vitaskuld orðum aukið og oftast sagt í gamni.
Nýlega fékk ráðherra (ekki vitað hver) í dönsku ríkisstjórninni hugmynd, sem öðrum í stjórninni þótti góð. Þessi góða hugmynd var að í öllum mötuneytum á vegum hins opinbera skyldu vera tveir kjötlausir dagar í hverri viku. Með þessu legðu mötuneyti hins opinbera sitt lóð á loftslagsvogarskálarnar.
Nicolai Wammen fjármálaráðherra kynnti hugmyndina á fréttamannafundi fyrir hálfum mánuði. Ráðherrann sagði að mötuneyti ríkisins væru sannkallaðir „stórkúnnar“ í matarinnkaupum. Tveir kjötlausir dagar í hverri viku, sagði ráðherrann, táknrænt og jákvætt skref. Áður en lengra yrði haldið myndi ráðuneytið kynna forstöðumönnum stofnana ríkisins og yfirmönnum mötuneyta hugmyndina.
Ráðherrann kvaðst þess fullviss að þessi hugmynd ríkisstjórnarinnar myndi mælast vel fyrir. Fréttamenn lyftu brúnum, ekki alveg jafn vissir.
Hugmyndin lifði í fjóra daga
Þótt Nicolai Wammen fjármálaráðherra teldi fullvíst að hugmyndin um kjötlausu dagana í mötuneytum ríkisins myndi mælast vel fyrir varð sú ekki raunin. Sumir sem rætt var við í fjölmiðlum í kjölfar fréttamannafundar ráðherrans urðu undrandi þegar þeir voru spurðir álits á hugmyndinni. Og hristu svo höfuðið. „Kjötlausir dagar í mötuneytum, aldeilis fráleitt“ voru algeng svör.
Forstöðumenn mötuneyta ríkisins lýstu sig algjörlega andsnúna „ríkistilskipun um matseðla“ eins og einn þeirra komst að orði.
Fjórum dögum eftir fyrrnefndan fréttamannafund tilkynnti fjármálaráðuneytið að hugmyndin um kjötlausu dagana væri „hér með dregin til baka“ eins og sagði í tilkynningunni. Þar sagði jafnframt að mötuneytin hefðu hér eftir sem hingað til frjálsar hendur um hvað borið væri á borð. Dagblaðið Politiken sagði í fyrirsögn að „kjötbollurnar hefðu sigrað rauðrófubuffin á tæknilegu rothöggi“.
Risakjötbollan í Randers
Í tengslum við kjötleysishugmyndina má rifja upp „kjötbollumálið“ í Randers á Jótlandi árið 2016, en það vakti mikla athygli. Þar var niðurstaðan með öðrum hætti. Forsaga þess máls var sú að í mötuneytum grunnskóla í Randers hafði verið ákveðið að hætt yrði að bjóða upp á rétti úr svínakjöti. Sú ákvörðun var studd þeim rökum að múslímar megi, trúar sinnar vegna, ekki leggja sér svínakjöt til munns.
Þessi ákvörðun mætti andstöðu. Eftir miklar umræður í bæjarstjórn Randers var ákveðið að mötuneytum í grunn- og leikskólum sveitarfélagsins yrði skylt að bjóða upp á svínakjöt í skólamötuneytum. Bæjarfulltrúar Danska þjóðarflokksins í Randers fögnuðu þessari niðurstöðu og undir það tóku fulltrúar flokksins á danska þinginu, Folketinget. Sögðu Randers góða fyrirmynd.
Óþekktur listamaður gerði sér mat úr „kjötbollumálinu“. Bjó til stærðar kjötbollustyttu og notaði meðal annars til verksins gamla sæng. Verkið vakti mikla athygli þar sem því var komið fyrir við hringtorg í bænum í febrúar árið 2016. Haft var eftir listamanninum, sem enginn veit enn hver er, að verkið yrði ekki þarna til frambúðar „þá þyrfti varanlegra efni en gamla sæng“ var haft eftir honum. Verkið stóð á hringtorginu um þriggja mánaða skeið en hvarf þá jafn skyndilega og það hafði birst. Margir íbúa Randers lýstu vonbrigðum með að verkið væri horfið og kváðust vona að það yrði sett upp aftur og þá í varanlegra efni en dúnheldu lérefti. Það hefur ekki enn verið gert hvað sem síðar verður.