Danski rithöfundurinn og blaðakonan Lise Nørgaard er látin 105 ára að aldri. Flestir kannast líklega við hana sem höfund sjónvarpsþáttanna Matador. Hún taldi sjálf önnur ritstörf sín merkari en sjónvarpshandritin. Þegar Lise Nørgaard varð hundrað ára birtist hér í Kjarnanum umfjöllun um hana. Ummælin í fyrirsögninni eru úr þeirri umfjöllun.
Danir líta á hana nánast sem þjóðareign, konuna sem átti hugmyndina að og skrifaði að stórum hluta handrit, Matador, lang þekktasta og vinsælasta sjónvarpsmyndamyndaflokks sem Danir hafa framleitt. En saga Lise Nørgaard er miklu meira en bara Matador.
Send á húsmæðraskóla
Fjölskyldufaðirinn var mjög stjórnsamur, húsbóndi á sínu heimili eins og Lise hefur orðað það. Hann lagði mikla áherslu það við börnin að þau skyldu ætíð leggja sig fram við allt sem þau tækju sér fyrir hendur. Við matarborðið hvatti hann börnin til að segja frá því sem gerst hefði þann daginn og Lise segir í endurminningum sínum að hann hafi lagt áherslu á að frásögnin væri skemmtileg og „þar lærði ég að blanda saman gamni og alvöru og með því móti heldur maður athyglinni.“ Faðirinn ákvað,að sögn Lise, að nám við Hússtjórnarskólann í Sorø, væri prýðilegur undirbúningur undir lífið. „Gjörsamlega misheppnuð ákvörðun“ sagði Lise síðar „meira að segja pabbi gat ekki borðað það sem ég eldaði eftir að hafa verið í skólanum og mér hefur ekki farið fram“ sagði hún í viðtali fyrir nokkrum árum.
Hróarskeldudagblaðið
Árið 1935 var Lise Nørgaard ráðin til Roskilde Dagblad, Hróarskeldudagblaðsins. Eins og títt er á litlum fjölmiðlum þurfti Lise að sinna öllu mögulegu. Í endurminningum sínum segir hún að ekki hafi allir verið jafn hrifnir af því að „þessi stelpa“ kæmi þegar eitthvað fréttnæmt átti sér stað.
Hjónabönd, barneignir, Politiken, Hjemmet og Berlingske
Þótt annríkið og vinnuálagið á Hróarskeldudagblaðinu hafi verið mikið hafði Lise Nørgaard fleiri járn í eldinum. Árið 1938 giftist hún Mogens Einar Flindt Nielsen, þau eignuðust fjögur börn en skildu árið 1950. Þá var Lise Nørgaard orðin blaðamaður á Politiken, byrjaði þar árið 1949. Hún hefur margoft sagt að þau nítján ár sem hún var á Politiken og stutt vera hennar á Berlingske Tidende (heitir núna Berlingske) hafi verið skemmtilegasti tíminn á starfsferlinum. „Ég var, held ég, ágætur blaðamaður en ekki góð móðir.“ Börnin hennar hafa tekið undir þetta „hún var náttúrlega aldrei heima“. Árið 1968 réð Lise Nørgaard sig til vikuritsins „Hjemmet“ og þar var hún ritstjóri um tveggja ára skeið 1975 – 1977. Á blaðamannsferlinum skrifaði Lise um allt milli himins og jarðar, mikið um neytendamál og málefni kvenna. Með fram blaðamennskunni sinnti hún ýmsum verkefnum, skrifaði kvikmyndahandrit, handrit að útvarpsþáttum, skáldsögur, tvær bækur um hundaþjálfun og dægurlagatexta svo eitthvað sé nefnt. Árið 1951 giftist Lise Nørgaard Jens Waaben ritstjóra, hann lést 1984.
Húsið á Kristjánshöfn og Matador
Þann 1. maí árið 1970 var frumsýndur í danska sjónvarpinu fyrsti þáttur í sjónvarpsþáttaröð sem fékk nafnið Huset paa Christianshavn, Húsið á Kristjánshöfn. Þættirnir fjölluðu í stuttu máli um daglegt líf íbúa í fjölbýlishúsi á Kristjánshöfn í Kaupmannahöfn. Þrátt fyrir að margir af þekktustu leikurum og kvikmyndaleikstjórum Dana stæðu að gerð þáttanna töldu flestir gagnrýnendur að þeir yrðu ekki langlífir. Gagnrýnendurnir reyndust hins vegar hlaðvarpaspekingar, Húsið á Kristjánshöfn er ein vinsælasta þáttaröð í sögu dansks sjónvarps, alls voru gerðir 84 þættir, sá síðasti frumsýndur 31. desember 1977.
Handritshöfundarnir voru allmargir, þar á meðal Lise Nørgaard. Meðal leikstjóranna var Erik Balling (1924 – 2005) og það var hann sem komst á snoðir um að Lise Nørgaard ætti í fórum sínum handrit að sögu tveggja fjölskyldna í smábæ. Þegar Erik Balling stakk upp á því við Lise Nørgaard að hún mynda skrifa handritsdrög fyrir sjónvarpsþætti tók hún hugmyndinni fálega. En Erik Balling var ekki maður sem lét auðveldlega segjast og að lokum féllst Lise Nørgaard á að skrifa söguþráð sex þátta, sem Nordisk Film framleiddi fyrir DR. Þættirnir kostuðu miklu meira en nokkuð það sem DR hafði áður látið framleiða og útvarpsráðið sá ofsjónum yfir kostnaðinum og hafði efasemdir um þættina. Fyrsti þáttur Matador var frumsýndur í DR 11. nóvember 1978 og er skemmst frá því að segja að þáttaröðin sló algjörlega í gegn. Á næstu árum voru framleiddar þrjár sex þátta syrpur til viðbótar, samtals urðu þættirnir 24 og spanna árabilið 1929 til 1947. Það segir sína sögu að sjötti, tólfti og átjándi þáttur höfðu ákveðinn endapunkt, Nordisk Film vissi nefnilega aldrei hvort þættirnir yrðu fleiri og sló því varnagla. Þættirnir hafa öðlast vinsældir sem eiga sér enga hliðstæðu í Danmörku og um þessar mundir er verið að sýna þáttaröðina í áttunda skipti. Lise Nørgaard skrifaði sjálf handrit sextán þátta en aðrir hina átta.
Margt fleira en Matador
Þótt í hugum Dana sé einskonar samasem merki milli Lise Nørgaard og Matador var hún ekki sama sinnis. Í umfjöllun Kjarnans 2016 kom fram að hún væri stoltust af blaðamannaferlinum en það allir tali alltaf um Matador. ,,Þegar ég hitti ókunnugt fólk vill það bara tala um Matador, stundum get ég næstum kastað upp vegna þess. En ég sit uppi með þetta.“
Lise Nørgaard fannst það ekki merkilegt að verða gömul. ,,Stundum hugsa ég um hvernig á því standi að nánast allir gamlir vinir mínir eru dánir en alltaf tóri ég. Í fyrra fór ég í tíu jarðarfarir og þær verða ekki færri á þessu ári, ef ég lifi. Þeir vinir sem ég á nú eru nær allir miklu yngri, það er allt í lagi fyrir mig, veit ekki með þá.“
Lise Nørgaard var búin að tilkynna að hún vildi ekki gjafir í tilefni aldarafmælisins fyrir rúmum fimm árum. ,,Húsið er fullt af dóti, er eins og grafhýsi. Súkkulaði vil ég ekki, maður fitnar bara af því og ég vil heldur ekki blóm. Þau visna í vösunum og svo kemur vond lykt af vatninu. Engar gjafir takk.“
Bannsettur farsíminn
Lise Nørgaard sagði að farsíminn væri algjör plága. ,,Maður fær kannski einhverja hugmynd og byrjar að skrifa, þá hringir síminn og svo þegar símtalinu loksins lýkur man maður ekki lengur hugmyndina, alveg tómur í kollinum.“
Þegar hún var spurð af hverju hún væri þá að svara í símann sagði hún að það yrði hún að gera. ,,Ef ég svara ekki halda börnin mín að ég sé hrokkin af standinum og svo myndi tengdasonurinn, sem býr í grenndinni, ryðjast inn og segja svo, ja hérna, þú ert þá lifandi. Þess vegna verð ég að svara. Árum saman hef ég reynt að horfa á glæpaþætti þar sem ég sé bæði morðið og svo lausnina. Það tekst aldrei, síminn hringir alltaf og eyðileggur skemmtunina.“
Fréttaskýringin byggir á umfjöllun sem birtist upphaflega árið 2017.