240 íslenskar fjölskyldur áttu 293 milljarða króna í eigið fé um síðustu áramót
Tvær af hverjum þremur krónum sem urðu til af nýjum auði á Íslandi í fyrra, og rann beint til einstaklinga, fóru til ríkustu fimm prósent landsmanna. Eigið fé landsmanna hefur ekki hækkað jafn lítið milli ára síðan á árinu 2010.
Það 0,1 prósent íslenskra fjölskyldna sem var með mestar tekjur í fyrra átti alls 293 milljarða króna í eigið fé í lok árs 2020. Um er að ræða 240 fjölskyldur og því er meðaleign á hverja fjölskyldu um 1,2 milljarðar króna.
Á árinu 2020 óx eigið fé 0,1 prósent ríkasta hluta þjóðarinnar um 10,8 milljarða króna. Alls hefur það vaxið um 131 milljarð króna frá árinu 2010, eða um 81 prósent. Hlutfallslega dregst hlutdeild þessa hóps af heildareignum þjóðarinnar lítillega saman í stað milli ára en næstum níu prósent af nýjum auði sem varð til á Íslandi í fyrra rann til hans.
Eigið fé landsmanna jókst minna í fyrra en það hafði gert árin á undan. Það var til að mynda 1.565 milljarðar króna í lok árs 2010 og óx upp í 5.176 milljarða króna í lok árs 2019, sem var í fyrsta sinn sem það fór yfir fimm þúsund milljarða króna. Það þýðir að eigið fé óx að meðaltali um 401 milljarða króna á því tímabili. Mest hækkaði eigin féð á árunum 2017 (760 milljarðar króna) og 2018 (641 milljarðar króna), en vert er að taka fram að á þeim árum varð mesta hækkun sem átt hefur sér stað á vexti á eigin fé frá því að Hagstofa Íslands hóf að halda utan um þær tölur. Í fyrra bættust hins vegar einungis við 122 milljarðar króna. Það er minnsta aukning á eigin fé innan árs sem orðið hefur hérlendis í meira en áratug.
Af þeim fóru 77 milljarðar króna til ríkustu fimm prósenta landsins, um tólf þúsund fjölskyldna. Því fór um 64 prósent af nýjum auði sem varð til á árinu 2020 til ríkustu fimm prósent landsmanna. Sá hópur átti 2.076 milljarða króna samanlagt í lok síðasta árs.
Ríkasta eitt prósentið, alls um 2.400 fjölskyldur, bættu 37,3 milljörðum króna við eigið fé sitt í fyrra, eða um 30 prósent af öllum nýjum auð sem varð til á því ári. Þessar fjölskyldur áttu samtals 902,2 milljarða króna í lok árs 2020.
Þetta kemur fram í svari Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, við fyrirspurn Loga Einarssonar, formanns Samfylkingarinnar, um skuldir og eignir landsmanna sem birt var síðdegis í dag á vef Alþingis.
Ekki tekið tillit til eigna í lífeyrissjóðum
Einfaldur samanburður á eignastöðu fólks á Íslandi er flókinn. Sérstaklega vegna þess að þær hagtölur sem safnað er saman mæla ekki að öllu leyti heildareignir fólks né taka tillit til hlutdeildar þess í eignum lífeyrissjóðakerfisins, sem er risavaxið og á eignir sem í lok apríl síðastliðins voru yfir sex þúsund milljarða króna virði. Ef þeirri eign er deilt í fjölda landsmanna þá ætti hver og einn um 16,3 milljóna króna eign í lífeyrissjóðakerfinu að meðaltali.
Hluti þeirra eigna eru innlendar verðbréfaeignir eins og hlutabréf í skráðum félögum.
Þær tölur sem eru hér til umfjöllunar eru yfir eignir sem fólk hefur safnað saman utan lífeyriseignar. Hjá flestum Íslendingum er meginuppistaða þeirra eigna bundin í heimilum þeirra. Bein þátttaka almennings á hlutabréfamarkaði hefur verið dræm á undanförnum árum, þótt hún hafi glæðst verulega í ár af ýmsum ástæðum. Í lok árs 2019 áttu til að mynda um átta þúsund einstaklingar hlutabréf hérlendis, en sá hópur telur nú um 32 þúsund manns.
0,1 prósent þénuðu stóran hluta af fjármagnstekjum
Það 0,1 prósent landsmanna sem var með mestar tekjur í fyrra var með 32,6 milljarða króna í fjármagnstekjur. Slíkar tekjur voru 60 prósent af öllum tekjum hópsins á árinu 2020. Til samanburðar þénuðu þær tólf þúsund fjölskyldur sem höfðu hæstar tekjur á síðasta ári um 75 milljarða króna í fjármagnstekjur. Það þýðir að ríkustu 240 fjölskyldurnar í hópnum tóku til sín um 44 prósent af öllum fjármagnstekjum sem tekjuhæstu fimm prósent landsmanna þénuðu á síðasta ári.
Eigið fé ríkustu hópanna hérlendis hefur verið stórlega vanmetið, og er mun meira en þær tölur sem hér eru til umfjöllunar segja til um. Hluti verðbréfaeignar, hlutabréf í innlendum og erlendum hlutafélögum, er metin á nafnvirði, en ekki markaðsvirði. Þá eru fasteignir metnar á samkvæmt fasteignamati, ekki markaðsvirði, sem er í flestum tilfellum hærra.
Það þýðir að ef verðbréf í t.d. hlutafélögum hafi hækkað í verði frá því að þau voru keypt þá kemur slíkt ekki fram í þessum tölum. Úrvalsvísitala Kauphallar Íslands hefur til að mynda hækkað um 55 prósent á einu ári.
Meginþorri verðbréfa sem eru í beinni eigu einstaklinga tilheyra þeim tíu prósentum landsmanna sem eru ríkastir. Sá hópur átti 86 prósent allra verðbréfa sem eru í beinni eigu einstaklinga í lok árs 2019.
Eignir erlendis
Þessi hópur er líka líklegastur allra til að eiga eignir utan Íslands sem koma ekki fram í ofangreindum tölum, en áætlað hefur verið að íslenskir aðilar eigi hundruð milljarða króna í aflandsfélögum sem ekki hafi verið gerð grein fyrir.
Þessi staða var meðal annars dregin upp í skýrslu sem unnin var fyrir Bjarna Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, eftir opinberun Panamaskjalanna og var birt í janúar 2017. Niðurstaða hennar var að uppsafnað umfang eigna Íslendinga á aflandssvæðum frá árinu 1990 til 2015 næmi einhvers staðar á bilinu 350 til 810 milljörðum króna, og að tekjutap hins opinbera á árunum 2006 til 2014 vegna þessa væri líklega um 56 milljörðum króna. Á hverju ári gæti tapið vegna vantalinna skatta því verið á bilinu 4,6 til 15,5 milljarðar króna.
Lestu meira:
-
11. janúar 2023Vatn á myllu kölska
-
10. janúar 2023Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
8. janúar 2023Náttúra og umhverfi í forgang
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sautján ár á milli ráðninga á konu í forstjórastóli hjá skráðu félagi
-
4. janúar 202314 félög lækkuðu í virði en fjöldi einstaklinga sem á hlutabréf þrefaldaðist á þremur árum
-
3. janúar 2023Vont vetrarveður en gæti verið (miklu) verra
-
2. janúar 2023Fréttablaðið hætt að koma inn um lúguna hjá fólki – Lestur hríðfallið og kostnaður aukist
-
2. janúar 2023Seðlabankinn gleymdi að telja séreignarsparnaðinn með í minnisblaði um greiðslubyrði