Eliud Kipchoge, tvöfaldur Ólympíumeistara í maraþonhlaupi, bætti eigið heimsmet í maraþoni um 30 sekúndur um helgina þegar hann kom í mark við Brandenborgarhliðið í Berlínarmaraþoninu á tveimur klukkustundum, einni mínútu og níu sekúndum.
2:01:09.
Það þýðir að meðalhraði hans í hlaupinu var 21,02 kílómetra hraði á klukkustund. Einkunnarorð Kipchoge eiga því vel við eftir Berlínarmaraþonið: „Impossible is Nothing“, eins konar framþróun á frasanum „Nothing is impossible“ eða „ekkert er ómögulegt“.
Kipchoge er fæddur 5. nóvember 1984 í Nande-sýslu í Kenía og verður því 38 ára síðar á þessu ári. Sem barn æfði hann hlaup ekki sérstaklega en hljóp í og úr skólann á hverjum degi, 3,2 kílómetra hvora leið. Kipchoge er yngstur fjögurra systkina og ólst upp hjá móður sinni, sem var einstæð, en hann þekkti föður sinn aðeins af myndum. Kipchoge var 16 ára þegar hann kynntist þjálfaranum sínum, Patrick Sang, ólympíumeistara í hindrunarhlaupi.
Metavæn hlaupaleið í Berlín
Sang er enn hans aðalþjálfari í dag og fagnaði heimsmetinu innilega með honum í Berlín um helgina. Kipchoge, sem hóf langhlaupaferilinn sem 5.000 metra hlaupari, hefur nú sigrað 15 af 17 maraþonhlaupum sem hann hefur tekið þátt í. Þriðjungur sigranna hafa komið í Berlín og ljóst er að hlaupaleiðin í borginni er hentug til metabætinga, hvort sem um er að ræða heimsmet eða ekki. Heimsmetið sem hann sló setti hann einmitt í Berlín fyrir fjórum árum, þegar hann hljóp á tveimur klukkustundum, einni mínútu og 39 sekúndum.
Kipchoge var þakklæti efst í huga þegar hann kom í mark á sunnudaginn og þakkaði hann liðsfélögum sínum fyrir hversu hraðskreiður hann var. „Allt snýst um samvinnu,“ sagði hann. „Það sem hvetur mig áfram er fjölskyldan mín og ég vil veita ungu fólki innblástur. Íþróttir sameina fólk og það er það sem hvetur mig áfram.“
Um klukkutíma bæting á 126 árum
Saga maraþonhlaups er mörg hundruð ára gömul og nær allt aftur til ársins 490 f.Kr. þegar Grikkir áttu í stríði við Persa í orrustunni um Maraþon. Sagan segir að þegar Grikkir höfðu betur í stríðinu hafi maður nokkur, Þersippos, verið sendir til Aþenu til að greina frá sigrinum. Hlaupaleiðin var um 42 kílómetrar og þegar Þersippos komst á leiðarenda hneig hann niður.
Fyrst var keppt í maraþoni á fyrstu nútímaólympíuleikunum sem fram fóru í Aþenu árið 1896. Það var viðeigandi að Grikki sigraði í hlaupinu, á tímanum tveimur klukkustundum, 58 mínútum og 50 sekúndum. Vegalengdin var reyndar aðeins styttri en hún er í dag, aðeins 40 kílómetrar. En frá og með Ólympíuleikunum í París árið 1924 hefur vegalengd maraþons verið 24 kílómetrar og 195 metrar.
Fyrsta skráða heimsmetið í karlaflokki í viðurkenndri maraþonlengd er að öllum líkindum 2 klukkustundir, 26 mínútur og 14 sekúndur, sett af hinum japansk-kóreska Sohn Kee-chung, í Tókýó árið 1935. Japanir og Bretar skiptust á að setja heimsmet á árunum eftir seinni heimstyrjöldina þar til ársins 1964 þegar Eþíópíumaðurinn Abebe Bikila hljóp heilt maraþon á tveimur klukkustundum, 12 mínútum og 11 sekúndum. Síðan þá hefur metið nálgast tveggja klukkustunda markið, markmiðið sem fremstu maraþonhlaupararnir láta sig dreyma um að ná. Meira um það síðar.
Aldrei hlaupið hálfmaraþon í maraþoni jafn hratt
Hlaupið á sunnudag var hratt, eins og við mátti búast, enda voru aðstæður til langhlaups eins og best verður á kosið: 11 gráður, logn og úrkomulaust. Hlaupið byrjaði gríðarlega hratt. Kipchoge hljóp fimm kílómetra á 14 mínútum og 14 sekúndum og tíu kílómetra á 28 mínútum og 23 sekúndum. Hálfmaraþon hljóp hann á 59:51 og með sama hraða í síðara hlutanum hefði hann því náð að hlaupa á undir tveimur klukkutímum. Hann hefur aldrei hlaupið fyrri helming maraþons jafn hratt, en í sama hlaupi í fyrra hljóp hann fyrri 21,1 kílómeterinn á 60:48.
Kipchoge hafði samkeppni í fyrri hluta hlaupsins og það hjálpaði líklega til við að halda hraðanum uppi. Eþíópíumaðurinn Andamlak Belihu, sem var að hlaupa sitt annað maraþon á ferlinum, var rétt á eftir honum. Kipchoge hafði aðeins hægt á sér við 25 kílómetra sem hann hljóp á 1:11:08 og fljótlega eftir það stakk hann Belihu af. Kipchoge hljóp 35 kílómetra á 1:40:10. Meðalhraði á hvern kílómetra var samt sem áður 2 mínútur og 52 sekúndur og ljóst að heimsmetið var í hættu með þessu áframhaldi.
Stöldrum aðeins við.
Meðalhraðinn sem Kipchoge hljóp á, þegar hann var búinn að hlaupa 35 kílómetra, var 2 mínútur og 52 sekúndur á hvern kílómetra. Það er eins og að stilla hlaupabrettið á 21,2.
Niðurstaðan varð svo, sem fyrr segir, 30 sekúndna bæting, 2:01:09. Næstur á eftir Kipchoge var landi hans Mark Korir á 2:05:58. Eþíópíumaðurinn Tadu Abate var þriðji á 2:06:40 og Belihu varð fjórði, fimm og hálfri mínútu á eftir Kipchoge, á tímanum 2:06:40.
Kipchoge sagði eftir hlaupið að hann ætlaði sér að hlaupa fyrri helminginn á 60 mínútum og 50 sekúndum. „En fæturnir mínir voru að hlaupa mjög hratt og ég hugsaði með mér að reyna að hlaupa á tveimur tímum sléttum. En ég er ánægður með frammistöðuna.“
Hann viðurkenndi að seinni helmingur hlaupsins reyndist honum erfiður þar sem fyrri hlutinn var svo hraður. „Við fórum of hratt og það tók orku frá vöðvunum.“
Undir tveimur tímum í París 2024?
Kipchoge er hraðskreiðasti maraþonhlaupari í heimi með tvo bestu tímana í sögunni. Heimsmetið sem hann setti á laugardag og tímann frá því í sama hlaupi fyrir fjórum árum. Næstur á eftir honum kemur Eþíópíumaðurinn Kenenisa Bekele sem hefur hlaupið maraþon á tveimur klukkustundum, einni mínútu og 41 sekúndu.
Kipchoge verður 38 ára í nóvember en hann er hvergi nærri hættur. Markmið hans eru háleit. Hann ætlar að hlaupa hraðar. Undir tveimur klukkustundum.
Það hefur hann raunar gert. Fyrstur allra í heiminum í Vínarborg árið 2019 þegar hann hljóp maraþon á einni klukkustund, 59 mínútum og 40 sekúndum. Tíminn var ekki skráður sem opinbert heimsmet þar sem ekki var um hefðbundið maraþonhlaup að ræða heldur heljarinnar teymisvinnu.
Hlaupið og allt umstangið í kringum það var þaulskipulagt. Kipchoge hljóp 9,4 kílómetra langan hring, rúmlega fjórum sinnum, í kringum garð í miðborg Vínar og naut aðstoðar 41 „héra“ sem hlupu með honum, sjö og sjö í einu. Þá fékk hann einnig hjálp frá þjálfurum sínum sem fylgdu honum á reiðhjóli og gáfu honum vatn og orkugel svo hann þyrfti ekki að teygja sig eftir því sjálfur eins og gera þarf í keppnishlaupum.
Næsta stóra verkefnið er Ólympíuleikarnir í París 2024 þar sem Kipchoge gæti náð þeim árangri að ná þriðja Ólympíugullinu í röð, fyrstur maraþonhlaupara. Hvort hann reyni að hlaupa maraþon á undir tveimur klukkstundum þá, eða jafnvel fyrr, til að mynda í Berlín að ári liðnu, sagði Kipchoge: „Ég ætla að fagna þessu meti og átta mig á hvað gerist næst. Bara halda áfram og sjá hvað gerist.“
Aðspurður hvort honum líði ennþá eins og hann sé ungur svaraði hraðskreiðasti maraþonhlaupari í heimi: „Það býr meira í fótunum mínum og ég vona að framtíðin verði frábær. Hugurinn er skynsamur og líkaminn er enn að drekka í sig allar æfingarnar og keppnishlaupin.“