Á næstu tuttugu árum verður þörf fyrir fleiri en hálfa milljón nýrra flugmanna í heiminum. Og enn fleiri flugvirkja, flugfreyjur og -þjóna. Evrópsk flugfélög mega búast við harðri samkeppni frá félögum í Asíu sem bjóða hærri laun.
Stærsti flugvélaframleiðandi heims, Boeing, birti fyrir skömmu fróðlegar og áhugaverðar tölur um þróun flugmála í heiminum næstu áratugina. Starfsfólk þróunardeildar fyrirtækisins hefur ekki rýnt í kaffibolla til að sjá fram í tímann en styðst við tölur um pantanir á flugvélum, bæði frá Boeing og Airbus. Þessir tveir stærstu framleiðendur farþegavéla í heiminum voru samtals með fyrirliggjandi pantanir á rúmlega tólf þúsund flugvélum um síðastliðin áramót, og gera ráð fyrir að fram til ársins 2035 muni fyrirtækin tvö afhenda um það bil 38 þúsund nýjar flugvélar.
28 þúsund flugmenn á hverju ári
Til þess að manna þennan flugflota þarf margt fólk. Þróunardeild Boeing hefur reiknað út, miðað við fjölda nýrra flugvéla, þurfi á hverju ári að bætast við 28 þúsund nýir flugmenn, semsé um 560 þúsund fram til ársins 2035. Flugfreyjum og -þjónum þarf að fjölga álíka mikið eða jafnvel rúmlega það og á þessu tuttugu ára tímabili þarf flugvirkjum að fjölga um hvorki meira né minna en 610 þúsund.
Ellefti september, fuglaflensa og kreppa
Fyrstu ár aldarinnar voru ekki uppgangstímar í fluginu. Fyrst var það 11.september 2001, því næst fuglaflensan 2003 og svo fjármálakreppan 2008. Þetta þrennt hafði mikil áhrif um allan heim. Almenningur ferðaðist minna og flugferðum tengdum vinnu fækkaði sömuleiðis. Þetta hafði í för með sér miklar sviptingar í flugrekstri, mörg félög lögðu upp laupana, önnur héngu á horriminni.
Til varð það sem nefnt hefur verið lággjaldaflugfélög, sum þeirra einskonar hliðarfélög við stóru "gömlu" félögin, önnur sem verið höfðu lítil og flogið á tilteknum leiðum, sem stóru félögin sinntu ekki, sáu sér leik á borði til að nýta sér aðstæðurnar. Í þessum hópi eru meðal annars Ryanair, Easyjet og Norwegian sem öll hafa þanið vængina, ef svo má segja, á síðustu árum.
Asía skiptir mestu, einkum Kína
Allt tekur enda er stundum haft á orði, ekki síst þegar vonast er eftir betri tíð. Þótt afleiðingar kreppunnar sem reið yfir heiminn fyrir nokkrum árum séu ekki að fullu liðnar hjá gildir það ekki um flugið. Þar er uppgangur.
Geysilegur uppgangur í Kína á undanförnum árum hefur verið mjög áberandi í fréttum. Kínverskir ferðamenn eru áberandi víða um lönd, ekki síst í Evrópu. Ástæðan er augljós: meiri efni sem gera sístækkandi hópi Kínverja kleift að að ferðast um heiminn. Jafnframt fjölgar árlega í þeim hópi, ekki síst Vesturlandabúum, sem heimsækja risann í austri eins og Kína er stundum nefnt. En Kínverjarnir ferðast ekki eingöngu til annarra landa, þeir ferðast í síauknum mæli innanlands og með bættum efnahag velja sífellt fleiri flug framyfir lestar- eða rútuferð. Sem kallar á flugvélar, margar flugvélar, og áhafnir. Flugvélarnar kaupa Kínverjar frá stóru framleiðendunum tveim, þar eru þeir einfaldlega í kaupendaröðinni. Og svo þarf fólk, margt fólk.
225 þúsund flugmenn
Þótt Kínverjar séu um margt framsýnir og iðulega sagðir hugsa áratugi fram í tímann gildir það ekki um menntun flugmanna og flugvirkja. Að mati þróunardeildar Boeing verða Kínverjar ekki í vandræðum með að mennta flugfreyjur og -þjóna en öðru máli gegni um flugmenn og flugvirkja. Á næstu 20 árum þurfa Kínverjar að ráða til starfa að minnsta kosti 150 þúsund flugmenn og aðrar Asíuþjóðir að minnsta kosti 75 þúsund. Og þá er spurt: hvaðan kemur þessi mannskapur? Og svarið: að miklu leyti frá Evrópu. Þá er spurt: eru svona margir flugmenn þar án atvinnu. Svarið við því er nei, en þá er til gott ráð: bjóða hærri laun, miklu hærri laun. Það er þetta ráð sem Kínverjarnir grípa til. Bjóða einfaldlega miklu betri kjör en flugfélög í Evrópu, þar sem samkeppnin er mjög hörð og allra leiða leitað til að ná niður kostnaði.
Víðar vantar flugmenn
Þróunardeild Boeing telur að í Bandaríkjunum vanti á næstu 20 árum 95 þúsund flugmenn, annan eins fjölda í Evrópu, og Suður-Ameríku, Miðausturlöndum og Rússlandi og Afríku um það bil 145 þúsund. Við þetta bætist svo sá fjöldi flugmanna sem kemst á eftirlaunaaldur.
Evrópsk flugfélög hafa áhyggjur
Á síðustu árum hafa mörg evrópsk flugfélög, til dæmis SAS, beint kröftum sínum að uppsögnum og sparnaði. Það kemur ekki til af góðu, ástæðurnar eru síharðnandi samkeppni og aukinn tilkostnaður. Félögin hafa þess vegna ekki, fyrr en kannski nú, áttað sig á að þau geti ekki gengið út frá því sem vísu að alltaf verði nægilegt framboð á flugmönnum og flugvirkjum. Flugmaður sem Jótlandspósturinn danski ræddi nýlega við sagði að nú væri af það sem áður var, í dag væru flugmenn tilbúnir að ráða sig til starfa nánast hvar sem væri í veröldinni.
Reyndir flugmenn, einkum flugstjórar, gætu valið úr störfum og leituðu auðvitað þangað sem best kjör byðust. Jan Herlev Christoffersen yfirflugstjóri hjá Norwegian flugfélaginu sagði í viðtali við dagblaðið Berlingske að hann þyrfti á næstu 12 mánuðum að ráða til starfa 250 flugmenn "og ég hef ekki hugmynd um hvernig ég á að fara að því," sagði hann. Þessi yfirflugstjóri er ekki sá eini sem þarf að klóra sér í kollinum á næstu árum.