71 tilkynning um kynferðislega áreitni og ofbeldi hjá 9 opinberum stofnunum og fyrirtækjum
Á síðustu fjórum árum hafa borist yfir sjötíu tilkynningar um kynferðislega áreitni og ofbeldi til stjórnenda níu opinberra fyrirtækja og stofnana. Langflestar voru þær hjá Háskóla Íslands.
Metoo er ekki lokið ef marka má fréttaflutning síðustu mánaða en allmörg slík mál hafa ratað á veraldarvefinn að undanförnu. Samfélagsmiðlar hafa logað – sérstaklega Twitter – þar sem konur á öllum aldri hafa greint frá reynslu sinni af kynferðislegri áreitni og ofbeldi og nú síðast byrlun.
Í fyrstu metoo-bylgjunni í lok árs 2017 skrifuðu tæplega 5.650 konur úr hinum ýmsu starfsstéttum sem lifa við margs konar aðstæður undir áskorun þar sem þær settu fram kröfur sínar og deildu með þjóðinni 815 sögum. Hver og ein frásögn lýsti reynslu konu sem þurft hefur að takast á við áreiti, ofbeldi eða mismunun vegna kyns síns. Mikið ákall var í samfélaginu að verkferlum yrði breytt varðandi þessi mál í öllum kimum samfélagsins og var víða brugðist við því ákalli.
Kjarninn kannaði málið og sendi fyrirspurnir meðal annars á opinberar stofnanir og fyrirtæki til að kanna hversu margar tilkynningar hefðu borist síðan lok árs 2017 og hverjir verkferlarnir væru í viðkomandi stofnun eða fyrirtæki. Hér koma svörin.
Sex málum lauk með starfslokum geranda
Tilkynnt hefur verið um sjö tilvik kynferðislegrar áreitni eða ofbeldis innan Orkuveitu Reykjavíkur (OR) síðustu fjögur ár. Í tveimur tilvikum var gerandinn starfsmaður verktaka. Tilvikin eru á tímabilinu apríl 2018 til apríl 2021 en síðan þá hefur ekkert atvik verið tilkynnt.
Í einu tilviki lauk málinu með skriflegri áminningu og sátt þolanda og geranda. Í hinum tilvikunum öllum lauk málinu með starfslokum geranda, hvort sem um var að ræða verktaka eða starfsmann, að því er fram kemur í svarinu.
Gera vinnustaðagreiningu árlega
„Hjá OR samstæðunni er í gildi viðbragðsáætlun við einelti, ofbeldi, kynferðislegri eða kynbundinni áreitni. Hún fylgir hér með svarinu. Viðbragðsáætlunin var unnin í samstarfi við Líf og sál sálfræðiþjónustu og í samráði við Vinnueftirlit ríkisins. Hún er endurskoðuð reglulega, síðast á yfirstandandi ári,“ segir enn fremur í svarinu.
Orkuveitan bendir á í svarinu að fyrirtækið geri ítarlega vinnustaðargreiningu árlega meðal allra starfsmanna fyrirtækjanna í samstæðunni. Þátttaka sé jafnan meiri en 95 prósent. Meðal annars er spurt hvort starfsmaður hafi orðið fyrir einelti eða kynferðislegri áreitni. Niðurstöðurnar eru birtar opinberlega í ársskýrslu Orkuveitu Reykjavíkur. Fram kemur í niðurstöðunum að 1 prósent starfsfólks sagðist hafa orðið fyrir einelti eða kynferðislegri áreitni árið 2019 og 0,2 prósent í fyrra.
Átta málum lokið og eitt í ferli
Níu mál sem skilgreina má sem kynferðislega áreitni eða áreiti hafa farið í formlegt ferli á Landspítala á undanförnum fjórum árum. Þeim úrræðum sem almennt er hægt að beita á spítalanum í svona málum eru til dæmis formleg viðvörun, tilflutningur/breyting á starfi, áminning eða uppsögn.
Átta málum hefur verið lokið og er eitt mál enn í formlegu ferli og ólokið. „Við höfum ekki leyfi til að tala um hvernig einstökum málum er lokað eftir því sem ég best veit. Þetta eru 8 mál – fólk innan spítalans veit af þeim, og þau eru það fá að þau gætu verið persónugreinanleg,“ segir í svari upplýsingafulltrúa spítalans.
„Ferlið sem heldur utan um slík tilvik er skilgreint sem verklagsregla í gæðahandbók spítalans, fjallað er um það á innri vef spítalans og það kynnt fyrir starfsmönnum í tengslum við samskiptasáttmála,“ segir jafnframt í svarinu.
Samkvæmt skilgreindum verkferlum fyrir mál af þessu tagi er starfsmaður sem upplifir áreitni hvattur til að tilkynna það til næsta stjórnanda og/eða mannauðsstjóra, að því er fram kemur hjá spítalanum.
„Í ákveðnum tilfellum tekur stuðnings- og ráðgjafateymi á skrifstofu mannauðsmála erindið til skoðunar. Tilgangur þeirrar skoðunar er að leggja sameiginlega mat á það hvort umkvörtun falli undir skilgreiningu á einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni eða ofbeldi. Tilgangurinn er einnig að kanna hvaða lausnir séu mögulegar og styðja þolanda vilji hann leggja fram formlega kvörtun. Í öllum tilvikum er lögð áhersla á að trúnað og virðingu gagnvart öllum hlutaðeigandi.“
Ellefu tilvik hjá Landsvirkjun
Alls hafa 11 tilvik er varða ásakanir um kynferðislega áreitni, áreiti eða ofbeldi borist á borð stjórnenda Landsvirkjunar á síðustu fjórum árum.
Fram kemur hjá fyrirtækinu að Landsvirkjun sé með skilgreinda viðbragðsáætlun fyrir greiningu og úrvinnslu mála af þessu tagi í samræmi við reglugerð um aðgerðir gegn kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni eða ofbeldi. Viðbragðsáætlunin sé hluti af stjórnunarkerfi fyrirtækisins og endurskoðuð með reglubundnum hætti. Í starfsmannakönnunum komi enn fremur fram að starfsfólk þekki vel til viðbragðsáætlunarinnar.
Þremur málum lauk með starfslokum
„Á síðustu fjórum árum hefur komið til þess að stuðst hefur verið við framangreint verklag við úrlausn mála. Landsvirkjun er enn fremur í samstarfi við ytri sérfræðinga um málaflokkinn við úrvinnslu mála sem falla undir viðbragðsáætlunina. Stöðugt er unnið að fræðslu og forvörnum innan fyrirtækisins varðandi þennan málaflokk, m.a. með vinnu á áhættumati, reglulegri fræðslu um málaflokkinn og öruggri óháðri veitu/leið fyrir starfsfólk að leita til ef upp koma mál,“ segir í svarinu.
Enn fremur kemur fram að á síðastliðnum fjórum árum hafi verið stuðst við viðbragðsáætlunina í 11 tilvikum. „Málin sem um ræðir eru af ýmsu tagi og snúa bæði að starfsfólki, verktökum og samskiptum starfsfólks við ytri aðila. Tveimur málum lauk með sátt, tveimur með munnlegri áminningu, tveimur með skriflegri áminningu, þremur málum lauk með starfslokum og tvö mál sem sneru að ytri aðilum voru leyst með öðrum hætti.“
Átta málum lauk með starfslokum geranda
Ellefu mál sem snúa að kynferðislegu áreiti eða kynbundnu ofbeldi komu á borð stjórnenda Isavia-samstæðunnar á árunum 2017 til 2020. Þremur málum lauk með sátt og átta málum með starfslokum geranda.
Isavia ohf. annast uppbyggingu og rekstur Keflavíkurflugvallar. Dótturfélög þess Isavia ANS og Isavia Innalands reka annars vegar flugleiðsöguþjónustu á einu stærsta flugstjórnarsvæði heims og hins vegar net innanlandsflugvalla á Íslandi. Þessu til viðbótar rekur dótturfélagið Fríhöfnin ehf. fimm verslanir í Flugstöð Leifs Eiríkssonar á Keflavíkurflugvelli. Hjá Isavia og dótturfélögum vinnur hópur sem telur um 1.000 manns.
„Ofbeldi, einelti eða önnur sálfélagsleg áreitni, þar með talið kynbundin og kynferðisleg áreitni, er ekki undir neinum kringumstæðum umborin hjá Isavia,“ segir í svarinu.
Þegar upp koma mál af þessu tagi er viðbragðsáætlun Isavia virkjuð. Samkvæmt fyrirtækinu er viðbragðsáætlun sem þessi tekin reglubundið til endurskoðunar eins og allar áætlanir hjá Isavia. „Ein slík endurskoðun er í gangi þessar vikurnar og er ekki lokið,“ segir í svari Isavia.
Meðvirkni starfsmanna fordæmd
Fram kemur í viðbragðsáætluninni að í starfsmannastefnu Isavia sé lögð rík áhersla á að bæði líkamlegt og andlegt heilsufar starfsmanna, gagnkvæma virðingu, umburðarlyndi og stuðning þeirra á meðal. Viðbragðsáætlun við einelti og annarri sálfélagslegri áreitni sé frekari útfærsla á því markmiði og gildir fyrir allar starfsstöðvar Isavia. Það sé stefna Isavia að starfsmenn vinni í anda samstarfs og sýni þannig samstarfsfólki sínu alltaf kurteisi og virðingu í samskiptum. Einelti og önnur sálfélagsleg áreitni, svo sem kynbundin og kynferðisleg áreitni, verður undir engum kringumstæðum umborin. Meðvirkni starfsmanna í slíkum tilvikum sé jafnframt fordæmd.
„Viðbragðsáætlun þessi á við um allar starfsstöðvar Isavia og jafnt um starfsmenn, stjórnendur og verktaka sem starfa á vegum fyrirtækisins. Mun Isavia bregðast við ábendingum um einelti, áreitni eða ótilhlýðilega háttsemi í samræmi við viðbragðsáætlun þessa og í samstarfi við atvinnurekanda utanaðkomandi einstaklings sem á í samskiptum við starfsmenn Isavia. Við mat á því hvort viðbragðsáætlun sé virkjuð skiptir ekki máli hvort gerandi sé starfsmaður eða til dæmis viðskiptavinur,“ segir meðal annars í áætluninni.
Þegar mál telst nægjanlega upplýst skuli mannauðsstjóri taka ákvörðun, í samráði við aðra stjórnendur eða vinnuverndarfulltrúa vinnustaðarins, til hvaða aðgerða verði gripið í samræmi við alvarleika máls hverju sinni.
„Þegar atvik eða hegðun telst vera einelti, kynferðisleg áreitni, kynbundin áreitni, ofbeldi eða önnur ótilhlýðilega hegðun verður brugðist við eftir eðli máls með því að veita geranda tiltal, áminningu, tilfærslu í starfi eða honum sagt upp störfum. Þolanda og geranda verður veitt viðhlítandi aðstoð. Haldi þolandi og gerandi áfram störfum er lögð áhersla á að breytingar verði gerðar á vinnustaðnum eins og kostur er, svo sem breytingar á vinnuskipulagi, verkferlum, staðsetningu innan starfsstöðva og svo framvegis,“ segir enn fremur í viðbragðsáætluninni.
Tuttugu og fimm tilkynningar til HÍ
Fagráði Háskóla Íslands (HÍ) bárust alls 25 tilkynningar um kynferðislega áreitni eða ofbeldi á árunum 2017 til 2020, að því er fram kemur í svari frá skólanum við fyrirspurn Kjarnans.
„Mál geta ýmist varðað starfsfólk, nemendur eða samskipti milli starfsfólks og nemenda, en meirihluti þessara mála hefur varðað samskipti milli nemenda. Í sumum tilvikum lýkur máli með sátt milli aðila en sum mál hafa rektor eða eftir atvikum aðrir stjórnendur tekið til meðferðar í kjölfar niðurstöðu fagráðsins,“ segir í svarinu.
Samkvæmt HÍ er skólinn með skýra verkferla í málum er varða kynferðislega og kynbundna áreitni og ofbeldi.
„Háskólinn setti sér verklagsreglur um þennan málaflokk árið 2014. Þær voru endurskoðaðar árið 2018, þar á meðal ákvæði um meðferð kvartana. Árið 2014 var jafnframt sett á fót fagráð Háskóla Íslands sem hefur það hlutverk að fjalla um mál er varða brot starfsfólks og nemenda Háskóla Íslands. Fagráðið er skipað þremur aðilum og er í verklagsreglum kveðið skýrt á um að formaður þess sé aðili með fagþekkingu og reynslu af meðferð mála af þessu tagi og sé ekki í föstu starfi við HÍ.“
Fram kemur í svarinu að áhersla sé lögð á fræðslu til stjórnenda, starfsfólks og nemenda við HÍ um kynferðislega og kynbundna áreitni og ofbeldi og ekki síst að kynna verklagsreglurnar og fagráð HÍ svo fólk viti hvert það eigi að leita, komi slík mál upp. Enn fremur sé lögð áhersla á þennan málaflokk í jafnréttisáætlun HÍ.
Eitt mál í skoðun
Þrjú mál er varða kynferðislega áreitni hafa borist á borð stjórnenda Landhelgisgæslunnar síðastliðin 4 ár. Tveimur málum hefur verið lokið með sátt milli aðila og er eitt mál nú í skoðun.
Unnið er eftir stefnu og viðbragðsáætlun Landhelgisgæslu Íslands gegn einelti, ofbeldi og áreitni á vinnustað, að því er fram kemur í svarinu.
Í svarinu kemur jafnframt fram að einn af skipherrum Landhelgisgæslunnar sé kominn í leyfi á meðan frumrannsókn á samskiptum um borð í varðskipinu Tý fer fram. Ástæða rannsóknarinnar séu ábendingar sem bárust stjórnendum Landhelgisgæslunnar helgina 18. til 19. september vegna gruns um kynferðislega áreitni.
Tveir óháðir aðilar rannsaka málið
Kynferðisleg áreitni er samkvæmt viðbragðsáætluninni hvers kyns kynferðisleg hegðun sem er í óþökk þess sem fyrir henni verður og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi einkum þegar hegðunin leiðir til ógnandi, fjandsamlegra, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi aðstæðna. Hegðunin getur verið orðbundin, táknræn og/eða líkamleg.
„Landhelgisgæslan lítur málið alvarlegum augum og brást strax við með því að fá tvo óháða aðila til að annast rannsókn á umræddum atriðum. Sú rannsókn stendur yfir,“ segir í svarinu til Kjarnans.
Meintir þolendur tvær ungar konur
RÚV greindi frá málinu þann 21. september síðastliðinn en í frétt RÚV kemur fram að skipherra á varðskipi Landhelgisgæslunnar hefði verið settur í leyfi vegna gruns um kynferðislega áreitni. Þá herma heimildir fréttastofu RÚV að þolendurnir í málinu sem nú er til rannsóknar séu tvær ungar konur í áhöfn varðskipsins.
Mannlíf fjallaði einnig um málið 18. september en í frétt miðilsins var því haldið fram að innan sjódeildar Landhelgisgæslunnar hefði viðgengist einelti og kynferðisleg áreitni gagnvart kvenkyns starfsmönnum. Margar hefðu „hrökklast frá“ Landhelgisgæslunni í gegnum tíðina eða verið sagt upp.
Fjórar tilkynningar hjá RÚV
Samkvæmt skráningum RÚV hafa fjórar tilkynningar um kynferðislega áreitni borist á síðastliðnum fjórum árum. Þetta kemur fram í svari útvarpsstjóra við fyrirspurn Kjarnans.
„Brugðist hefur verið við þeim í samræmi við viðbragðsáætlun og leyst úr málum á grunni hennar. Viðbragðsáætlunin er endurskoðuð reglulega, síðast í ágúst síðastliðnum,“ segir í svarinu. Kynferðisleg áreitni er skilgreind í viðbragðsáætluninni sem hvers kyns hegðun sem er í óþökk þess sem fyrir henni verður og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi einkum þegar hegðunin leiðir til ógnandi, fjandsamlegra, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi aðstæðna. Hegðunin getur verið orðbundin, táknræn og/eða líkamleg.
Fram kemur hjá RÚV að spurt sé um þessi mál í árlegri vinnustaðagreiningu og fræðsla um þau, viðbragðsáætlun og verkferla sé hluti af fræðslu til starfsfólks RÚV. Viðbragðsáætlun RÚV gegn einelti, ofbeldi, kynferðislegri og kynbundinni áreitni er aðgengileg á innri og ytri vef RÚV.
Í viðbragðsáætluninni segir að hver sem telur sig hafa orðið fyrir einelti, ofbeldi, kynferðislegri eða kynbundinni áreitni á vinnustað, eða hafa rökstuddan grun eða vitneskju um slíka hegðun, skuli upplýsa næsta yfirmann, annan stjórnanda, mannauðsstjóra eða annan sem viðkomandi treystir. Fyllsta trúnaðar skuli gætt við meðferð slíkra mála og vinnsla þeirra vera í samráði við þann sem tilkynnir. Gagnlegt sé að skrá þau atvik sem tilkynningin byggist á og einnig hverjir séu mögulega til vitnis. Ef viðkomandi vill fá ráðgjöf utan vinnustaðarins sé hægt að leita beint til Áfalla- og sálfræðimiðstöðvarinnar (ÁSM) og fá tíma hjá sálfræðingi.
Þegar tilkynnt er um einelti, ofbeldi, kynferðislega eða kynbundna áreitni eru tvær leiðir færar. Sá sem fer með úrlausn málsins ákveður viðbrögðin í samráði við þann er tilkynnir. Farvegur máls getur verið formlegur eða óformlegur og eru þessir kostir kynntir starfsmanni er tilkynnir.
Eitt mál er varðar kynferðislega áreitni eða ofbeldi hefur borist til stjórnenda Vegagerðarinnar á síðustu fjórum árum en engar ásakanir um slíkt hafa komið fram hjá Samgöngustofu.
Samkvæmt svari Vegagerðarinnar var málið tekið mjög alvarlega og var fenginn utanaðkomandi ráðgjafi til að vinna úr málinu fyrir þau. „Það er ferill um viðbrögð sem verið að endurskoða hann núna, líkt og alla aðra ferla mannauðs- og öryggisdeildar,“ segir jafnframt í svari Vegagerðarinnar.
Verklagið í endurskoðun hjá Samgöngustofu
Ekkert mál hefur hins vegar borist á borð stjórnenda Samgöngustofu, eins og áður segir. „Hjá Samgöngustofu er fyrir hendi skýrt verklag um meðferð mála sem upp kunna að koma, svo sem um einelti eða áreitni,“ segir í svarinu. Áætlun Samgöngustofu gegn einelti og áreitni hefur verið í gildi frá árinu 2014. Endurskoðun verklagsins er í ferli „eins og eðlilegt er að gera með reglubundnum hætti“, segir í svari Samgöngustofu.
Í eineltisáætlun Samgöngustofu kemur fram að markmið hennar sé að stuðla að forvörnum og aðgerðum gegn einelti hjá stofnuninni og leggi stofnunin áherslu á að starfsmenn sýni samstarfsfólki sínu alltaf kurteisi og að komið sé fram við sérhvern starfsmann af virðingu.
„Einelti og kynferðisleg áreitni verður undir engum kringumstæðum umborin á vinnustaðnum og er meðvirkni starfsmanna í einelti fordæmd,“ segir meðal annars í áætluninni.