Samsett mynd Íþróttir
Samsett mynd

Hvert fara tilkynningar um kynferðislega áreitni eða ofbeldi í íþróttum?

Kjarninn sendi fyrirspurnir á stærstu íþróttahreyfingarnar á Íslandi til að kanna hvort ásakanir um kynferðislega áreitni eða ofbeldi hefðu borist á borð stjórnenda á síðustu fjórum til tíu árum. Svörin létu ekki á sér standa.

Konur í íþróttum kröfð­ust þess í byrjun árs 2018 að umhverfi íþrótt­anna breytt­ist, að konum væri gert kleift að segja frá ofbeldi án þess að það kæmi niður á fram­­tíð­­ar­­mög­u­­leikum þeirra innan íþrótt­­ar­inn­­ar, að á þær væri hlust­­að, að með þeim væri staðið og að þeim væri trú­að.

Þremur og hálfu ári síðar lék allt á reiði­skjálfi innan Knatt­spyrnu­sam­bands Íslands (KSÍ) þegar Hanna Björg Vil­hjálms­dóttir skrif­aði grein í Vísi í sumar þar sem hún sak­aði KSÍ um þöggun varð­andi kyn­­ferð­is­of­beldi af hendi lands­liðs­­manna. Vís­aði hún til frá­­­sagnar ungrar konu af kyn­­ferð­is­­legu ofbeldi sem hún varð fyrir árið 2010 sem hún birti á sam­­fé­lags­miðlum í byrjun maí en ger­end­­urnir voru sagðir hafa verið lands­liðs­­menn Íslands í fót­­bolta.

Kjarn­inn óskaði ítrekað eftir svörum hjá KSÍ varð­andi það hvort sam­bandið hefði ein­hvern tím­ann haft vit­neskju um ásak­anir um kyn­ferð­is­brot eða ofbeldi á hendur lands­liðs­manna í fót­bolta, sér í lagi áður en verk­ferlar voru end­ur­bættir en sam­kvæmt yfir­lýs­ingu KSÍ þann 17. ágúst voru all­ir verk­­ferl­ar slíkra mála end­­ur­bætt­ir og hafði fyrsta bylgja #Met­oo meðal ann­ars áhrif þar á. „Jafn­­rétt­is­á­ætl­­un og jafn­­rétt­is­­stefna sam­­bands­ins hafa verið upp­­­færðar og er þar fjallað sér­­stak­­lega um kyn­­ferð­is­­­legt of­beldi. Þá hef­ur KSÍ staðið fyr­ir vinn­u­­stofu um kyn­­ferð­is­of­beldi fyr­ir aðild­­ar­­fé­lög sín og bætt fræðslu um kyn­­ferð­is­of­beldi inn í náms­efni þjálf­­ara­­mennt­un­­ar,“ sagði í yfir­lýs­ing­unni.

KSÍ vildi ekki tjá sig um ein­stök mál en í svari frá sam­band­inu til Kjarn­ans kom fram að þann 20. ágúst kvart­anir um meint brot ein­stakra leik­manna hefðu ekki borist inn á borð KSÍ. Rúmum mán­uði seinna var annað hljóð í skrokknum og stað­festi KSÍ við Kjarn­ann að ábend­ing hefði borist sam­band­inu „snemm­sum­ars“ um fyrr­nefnt 10 ára gam­alt mál. Deild­­ar­­stjóra sam­­skipta­­deildar vissi ekki nákvæm­­lega í hvaða formi sú ábend­ing hefði komið inn á borð sam­­bands­ins.

„Seinnipart sum­­­ars barst svo aftur skrif­­leg ábend­ing. Frá KSÍ séð var for­­mað­­ur­inn með það mál á sínu borði. Við höfum ekki upp­­lýs­ingar um það hvort KSÍ hafi haft ein­hverja sér­­staka vit­­neskju um það mál fyrir þann tíma.“ Sú ábend­ing kom með tölvu­­pósti þann 27. ágúst, að því er fram kemur í svar­inu, eða degi eftir umtalað við­­tal við for­­mann sam­­bands­ins, Guðna Bergs­­son, þar sem hann sagði að engar kvart­­anir eða til­­kynn­ingar um kyn­­ferð­is­brot hefðu komið inn á borð KSÍ.

KSÍ svarar ekki hvort málið hafi farið í sér­­stakan verk­­feril þegar ábend­ingin barst í byrjun júní.

Kjarn­inn sendi í kjöl­farið á KSÍ-­mál­inu fyr­ir­spurnir á stærstu íþrótta­hreyf­ing­arnar á Íslandi til að kanna hversu margar til­kynn­ingar hefðu borist þeim er varðar kyn­ferð­is­lega áreitni eða ofbeldi á síð­ustu árum. Svörin létu ekki á sér standa og svör­uðu allar hreyf­ing­arnar þegar eftir því var leit­að. Einnig spurði Kjarn­inn hvort sér­stakt verk­lag væri til staðar fyrir slíkar til­kynn­ingar innan hreyf­ing­anna.

Pexels/Christian Fregnan

Þurfa að virða óskir þolenda ef þær eru aðrar en að kalla til lög­­­reglu eða sam­­skipta­ráð­gjafa

Eitt mál er varðar kyn­­ferð­is­­legt áreiti hefur komið for­m­­lega inn á borð Körfuknatt­­leiks­­sam­­bands Íslands (KKÍ) á síð­­­ustu 10 árum. Málið var „tekið föstum tök­um“, að því er fram kemur í svar­inu.

„Mál koma for­m­­lega inn á borð til okkar með því að þol­andi eða ein­stak­l­ingur tengdur þolenda með beina vit­­neskju til­­kynnir okkur um mál. Hvort sem er í beinu sam­tali, gegnum síma eða tölvu­­póst­­i,“ segir í svar­inu.

Sam­­kvæmt KKÍ er sam­­bandið með verk­­ferla fyrir slík mál.

„Í stuttu máli er það þannig að ef upp kemur mál þá eru for­­maður og vara­­for­­maður fyrstu snertiflet­­ir. Málið er yfir­­farið og tekin ákvörðun um hvort þurfi að til­­kynna til lög­­­reglu sem við teljum þann far­­veg sem svona alvar­­leg mál eigi að fara.

Í dag höfum við einnig sam­­skipta­ráð­gjafa íþrótta-og æsku­lýðs­hreyf­­ing­­ar­innar sem á að fá öll mál til sín. En samt sem áður þurfum við að virða óskir þolenda ef þær eru aðrar en að kalla til lög­­­reglu eða sam­­skipta­ráð­gjafa. Þegar búið er að ná utan um málið er stjórn KKÍ upp­­lýst og ítrek­aður trún­­aður sem ríkir um svona alvar­­leg mál. KKÍ hvetur þá sem telja á sér brotið að til­­kynna um slík mál, öðru­­vísi er ekki hægt að taka á þeim,“ segir í svar­inu.

Pexels/Javier Balseiro

HSÍ hefur ekki beina aðkomu að málum sem koma upp innan félag­anna

Hand­knatt­­leiks­­sam­­bandi Íslands (HSÍ) hefur borist eitt erindi er varðar ótil­hlýð­i­­lega hátt­­semi starfs­­manns sem var skoðað og er lok­ið á síð­ustu fjórum árum, að því er fram kemur í svari HSÍ við fyr­ir­­spurn Kjarn­ans.

Sam­­kvæmt HSÍ kom eitt mál óbeint á þeirra borð fyrir þann tíma en það varð­aði sjálf­­boða­liða hjá þeim „sem varð sekur um ótil­hlýð­i­­lega fram­komu vegna starfa hans í félag­i“.

Í svari HSÍ við fyr­ir­­spurn Kjarn­ans vill sam­­bandið benda á að mál sem koma upp innan félaga fari í ferli hjá félög­unum sjálfum sam­­kvæmt leið­bein­ingum ÍBR og ÍSÍ eða sam­­kvæmt reglu­­gerð um aðgerðir gegn ein­elti, kyn­­ferð­is­­legri áreitni, kyn­bund­inni áreitni og ofbeldi á vinn­u­­stöðum ef það á við og hafi HSÍ enga beina aðkomu að þeim.

Ef upp koma mál er tengj­­ast starf­­semi HSÍ þá sé þeim beint til sam­­skipta­ráð­gjafa íþrótta – og æsku­lýðs­­starfs eins og kveðið er á um íþrótta­lög­­um.

Konur í íþróttum stigu fram

Konur í íþróttum létu sig ekki vanta, eins og áður segir, í fyrstu metoo-bylgjunni og sendu þær frá sér yfir­lýs­ingu í janúar 2018 og sam­an­tekt sagna af kyn­ferð­is­legri áreitni og ofbeldi sem þær höfðu orðið fyrir.

Þær sögðu ljóst að kyn­bundið ofbeldi, áreitni og mis­munun væri vanda­mál í hinum karllæga íþrótta­heimi Íslands líkt og á öðrum stöðum í sam­fé­lag­inu. Þær sögðu sjást í frá­sögn­unum að vand­ann mætti finna í fram­komu þjálf­ara, stjórn­ar­manna, nudd­ara og sjúkra­þjálf­ara, dóm­ara, sjálf­boða­liða, fjöl­miðla, sem og hjá öðrum iðk­end­um.

Ein sagan frásögnin greindi frá því að eftir að íþrótta­konu var nauðgað af þjálf­ara sínum hefði hún grennst tölu­vert og átt mjög erfitt með að borða og sofa. Hún hefði síðan greint tveimur lands­liðs­þjálf­urum frá nauðg­un­inni svo þeir vissu hvað hún var að ganga í gegn­um. Nokkrum dögum síðar hefði einn aðstoð­ar­lands­liðs­þjálf­ari komið upp að henni og sagt að hún ætti að líta á björtu hlið­arn­ar, kannski var það gott að henni hefði verið nauðgað því nú væri hún svo grönn.

Konurnar sögðu for­dæmi fyrir því að konur sem staðið hafa á rétti sínum og látið vita af ofbeldi sem þær hafa verið beitt­ar, fengju á sig orð fyrir að vera erf­iðar í sam­starfi með til­heyr­andi útskúfun og órétt­læti, ef það á annað borð væri tekið mark á orðum þeirra. Ger­endur sem hafa verið reknir á einum stað væru ein­fald­lega ráðnir ann­ars stað­ar. Einnig væru dæmi um það að íþrótta­fé­lög hefðu ekk­ert gert í mál­unum þrátt fyrir að brot ger­anda hefði verið upp­lýst.

„Stúlkur og konur eiga skilið að fá að iðka íþrótt sína í öruggu umhverfi og vera lausar við kyn­bundið mis­rétti og kyn­ferð­is­lega áreitni af öllum toga. Við setjum því fót­inn niður og biðjum um leik­hlé. Við sættum okkur ekki við mis­mun­un, ofbeldi eða áreitni og köllum eftir breyt­ing­um,“ sögðu þær í yfirlýsingunni.

Þær kröfðust þess að málið væri tekið föstum tök­um, að öll íþrótta­fé­lög, sér­sam­bönd, þjálf­arar og aðrir innan íþrótt­anna, litu í eign barm og lofuðu stúlkum og konum breyt­ingum til fram­búð­ar. Þá kröfðust þær þess að umhverfi íþrótt­anna breyttist, að konum væri gert kleift að segja frá ofbeldi án þess að það kæmi niður á fram­tíð­ar­mögu­leikum þeirra innan íþrótt­ar­inn­ar, að á þær væri hlust­að, að með þeim væri staðið og að þeim væri trú­að. Síð­ast en ekki síst kröfðust þær þess að geta stundað íþróttir án þess að verða fyrir ofbeldi eða áreitni. Undir yfir­lýs­ing­una skrifuðu 462 íþrótta­kon­ur.

Pexels/cottonbro

Ítar­leg­asta svarið barst frá Fim­­leika­­sam­­bandi Íslands (FSÍ) en það hefur fengið til­­kynn­ingar um fimm til­­­felli er varða kyn­­ferð­is­­lega áreitni eða ofbeldi inn á borð til sín á síð­­­ustu fjórum til fimm árum. Á vef sam­­bands­ins er sér­­stakur til­­kynn­ing­­ar­hnappur þar sem hægt er að til­­kynna mál til sér­­staks fagráðs.

„Stjórn FSÍ hefur á síð­­­ustu mis­s­erum lagt mikla áherslu að búa til þannig umhverfi að ef iðk­endur hafa upp­­lifað erf­iða lífs­­reynslu geti þeir leitað til sam­­bands­ins og við stutt þá og brugð­ist við,“ segir í svar­inu.

Þjálf­­ara sagt upp störfum eftir til­­kynn­ingar

Fram kemur hjá FSÍ að í lok árs 2016 hafi sam­­bandið fengið ábend­ingu frá fagteymi þeirra um ósæmi­­lega hegðun þjálf­­ara í lands­liðs­verk­efni á vegum sam­­bands­ins. Í kjöl­farið hafi málið verið til­­kynnt til Íþrótta-og Ólymp­­íu­­sam­­bands Íslands (ÍSÍ) en þjálf­­ar­inn var þá að störfum við þjálfun í félagi innan þeirra raða.

Sam­­kvæmt FSÍ var stjórn við­kom­andi félags upp­­lýst um málið og þjálf­­ar­inn boð­aður á fund hjá FSÍ þar sem honum hafi verið til­­kynnt að málið hefði borist á borð stjórnar og að hann kæmi ekki til greina sem þjálf­­ari í verk­efnum á vegum sam­­bands­ins aft­­ur. Málið hafi söm­u­­leiðis verið til­­kynnt til barna­vernd­­ar.

Í lok árs 2017 hafði félagið sjálft fengið fleiri til­­kynn­ingar um þjálf­­ar­ann og var honum í fram­hald­inu sagt upp störf­um, að því er fram kemur í svar­inu. FSÍ hafi þá aftur komið inn í málið til að styðja við félag­ið, safnað upp­­lýs­ingum og til­­kynnt hann aftur til barna­vernd­­ar, sem hafi leitt til rann­­sóknar hjá lög­­­reglu. Þjálf­­ar­inn sem um ræðir er af erlendu bergi brot­inn og flutt­ist af landi brott í fram­hald­inu, að því er fram kemur hjá FSÍ.

End­­ur­­skoð­uðu siða­­reglur sam­­bands­ins í kjöl­farið

Eftir reynslu sam­­bands­ins af þessu máli ákvað stjórn FSÍ að stofna óháða aga- og siða­­nefnd sem starfar sem leið­bein­andi nefnd fyrir iðk­endur og félög­in. Í henni sitja lög­­­mað­­ur, læknir og sál­fræð­ing­­ur. Hægt er að til­­kynna mál til nefnd­­ar­innar og fá ráð nafn­­laust, kjósi við­kom­andi það.

Sam­hliða stofnun aga- og siða­­nefndar FSÍ, voru siða­­reglur sam­­bands­ins end­­ur­­skoð­aðar og í kjöl­farið sendar til félag­anna, þeim til leið­sagn­­ar.

Fleiri mál áttu eftir að koma inn á borð sam­­bands­ins. Fram kemur hjá FSÍ að í byrjun árs 2018 hafi lands­liðs­­kona leitað til þeirra með mjög erf­iða lífs­­reynslu í keppn­is­­ferð á vegum FSÍ, þar sem henni hafi verið nauðgað af kepp­anda frá öðru landi.

Sam­­kvæmt FSÍ voru við­brögð stjórnar við þeim fréttum þau „að allt kapp var lagt á að standa við bakið á kon­unni, henni veittur sá stuðn­­ingur sem hana vant­aði og við hvöttum hana ein­­dregið til að segja sína sögu og vorum til staðar fyrir hana og hjálp­­uðum henni við und­ir­­bún­­ing og fram­­setn­ing­u“.

Eitt mál til með­­­ferðar hjá aga- og siða­­nefnd FSÍ

Í fyrra leit­uðu síðan konur til FSÍ vegna erf­iðrar reynslu á árunum 2008 til 2013 þar sem félags­­­þjálf­­ari þeirra áreitti þær kyn­­ferð­is­­lega um ára­bil. „Þegar að svo langt var liðið frá þessum erf­iðu atburðum var þjálf­­ar­inn, sem var af erlendu bergi brot­inn, fluttur af landi brott og var því ákveð­ið, í sam­ráði og sam­vinnu við félag­ið, að til­­kynna málið til sam­­skipta­ráð­gjafa íþrótta­hreyf­­ing­­ar­inn­­ar, sem hafði nýlega hafið störf. Þar fengu kon­­urnar ráð­­gjöf og sál­fræð­i­­þjón­­ustu. Félagið sem um ræðir hafði á sínum tíma brugð­ist við til­­kynn­ingu þeirra með því að segja þjálf­­ar­­anum upp störf­um,“ segir í svari FSÍ.

Nýjasta til­­kynn­ingin barst á borð stjórnar fyrir stuttu. Sam­­kvæmt FSÍ á félags­­­þjálf­­ari að hafa nýtt sér yfir­­­burða­­stöðu sína gagn­vart iðkanda. Málið hafi verið til­­kynnt til aga- og siða­­nefndar sam­­bands­ins og sé þar til með­­­ferð­­ar.

Krefj­­ast nú sér­­stakt þjálf­­ara­­leyfis

FSÍ seg­ist hafa farið í mikla vinnu til að bregð­­ast við málum sem þessum – bæði sem komið hafi upp hér á landi sem og í fim­­leika­hreyf­­ing­unni erlend­­is.

„Tekið var inn í samn­inga við lands­liðs­­þjálf­­ara FSÍ að óskað er eftir leyfi til upp­­flett­ingar í saka­­skrá og slíkt er gert áður en samn­ingur er klár­að­­ur.

Árið 2017 var tekin ákvörðun um að fræða þjálf­­ara í fim­­leikum enn frekar og ákveðið að setja upp kerfi þar sem kraf­ist er sér­­staks þjálf­­ara­­leyfis til að þjálfa ólíka iðk­enda­hópa. Eitt af skil­yrð­unum til að fá þjálf­­ara­­leyfi er að þjálf­­arar mæta á fræðslu­dag FSÍ sem hald­inn er á hverju hausti, þar sem tekin eru fyrir mál­efni líð­andi stundar í sam­­fé­lag­inu hverju sinn­i,“ segir í svari FSÍ. Í fyrra, á fræðslu­degi árs­ins 2020, voru sam­­skipti við iðk­end­­ur, siða­­reglur FSÍ og trans­­börn í íþróttum í brennid­­epli.

Vilja setja auk­inn kraft í for­varnir og grein­ingu á stöðu mála

Þing Fim­­leika­­sam­­bands Íslands árið 2020 fagn­aði því að opin umræða hefði átt sér stað um það ofbeldi sem hefur lið­ist í fim­­leika­hreyf­­ingum víðs vegar um heim­inn, því aðeins með hisp­­ur­s­­lausri umræðu væri hægt að sporna við því að slíkt ofbeldi lið­ist í fram­­tíð­inni.

„Ið­k­endur eiga rétt á öruggu umhverfi án alls ofbeld­­is. Við ætlum öll að taka höndum saman um að ofbeldi í hvaða formi sem er innan fim­­leika­hreyf­­ing­­ar­innar verði ekki lið­ið. Við erum öll sam­­mála um að standa sam­eig­in­­lega vörð um fag­­lega með­­höndlun á þeim málum sem upp kunna að koma og við hvetjum jafn­­framt alla iðk­endur og aðra innan hreyf­­ing­­ar­innar til að til­­kynna til aga­­nefndar Fim­­leika­­sam­­bands­ins ef þeir upp­­lifa ofbeldi af ein­hverju tagi við fim­­leika­ið­k­un. Til að fyr­ir­­byggja að iðk­endur og aðrir innan hreyf­­ing­­ar­innar verði fyrir ofbeldi og áreitni ætlum við að stuðla að menn­ingu virð­ingar og jafn­­ingja­­sam­­skipta og setja auk­inn kraft í for­varnir og grein­ingu á stöðu þess­­ara mála hér á land­i,“ segir í ályktun þings­ins síðan í fyrra.

Þá felur sam­­þykkt aðgerð­­ar­á­ætlun sam­­bands­ins meðal ann­­ars í sér að farið verði í rann­­sókn á and­­legri líðan iðk­enda innan sam­­bands­ins til að hægt sé að meta næstu skref á þess­­ari veg­­ferð og standa við­ræður yfir við háskóla­­sam­­fé­lagið um sam­­starf.

Á nýaf­­stöðnu Fim­­leika­­þingi þann 4. sept­­em­ber síð­­ast­lið­inn fékk stjórn FSÍ sam­­skipta­ráð­gjafa Íþrótta­hreyf­­ing­­ar­innar til að halda erindi með það að mark­miði að kynna vel fyrir félög­unum hvernig þjón­usta hennar virkar í þeim til­­­gangi að auð­velda félögum að til­­kynna mál af þessu tagi til hennar núna og síðar meir, ef ein­hver væru.

Pexels/Ashford Marx

Gam­alt mál kemur upp hjá GSÍ

Þrjú mál er varða kyn­­ferð­is­­lega áreitni eða ofbeldi hafa borist á borð stjórn­­enda Golf­­sam­­bands Íslands (GSÍ) á síð­­­ustu tíu árum. Fyrsta málið varðar gam­alt brot en GSÍ hefur í tveimur málum hvatt aðila til þess að fara með sín mál til sér­­staks sam­­skipta­ráð­gjafa íþrótta- og æsku­lýðs­­starfs sem tók til starfa árið 2020.

Í svar­inu segir að fyrir 10 árum hafi verið óskað eftir fundi með for­svar­s­­fólki GSÍ vegna kyn­­ferð­is­of­beld­­is. „Um var að ræða ein­stak­l­ing sem hafði verið mis­­not­aður um 40 árum áður af manni sem starf­aði innan golf­hreyf­­ing­­ar­inn­­ar. Með fund­inum vildi þol­and­inn upp­­lýsa Golf­­sam­­bandið um brotið og þau áhrif sem atburð­­ur­inn hafði haft á líf hans. Þol­and­inn hafði þá þegar leitað aðstoðar fag­að­ila.“

Fram kemur hjá GSÍ að á sama fundi hafi einnig verið upp­­lýst um annað fórn­­­ar­­lamb sama ger­anda. „Brota­­mað­­ur­inn hafði þá verið ákærður og hlaut síðar dóm fyrir kyn­­ferð­is­brot gegn þriðja ein­stak­l­ingn­­um. Stjórn Golf­­sam­­bands­ins ákvað í fram­haldi af mál­inu að setja verk­lags­­reglur um mál af þessum toga. Þar sagði meðal ann­­ars að ef til­­kynn­ingar eða erindi bær­ust á borð sam­­bands­ins er vörð­uðu hverslags ofbeldi innan golf­hreyf­­ing­­ar­innar væri við­kom­andi þol­anda bent á að hafa sam­­band við fag­að­ila og/eða lög­­­reglu.“

Úrbóta­vinna er hafin – GSÍ for­­dæmir allt ofbeldi og stendur með þolendum

Sam­­kvæmt svari GSÍ tók sér­­stakur sam­­skipta­ráð­gjafi íþrótta- og æsku­lýðs­­starfs til starfa árið 2020 og nú skal öllum málum sem ber­­ast Golf­­sam­­band­inu vísað til hans.

GSÍ hefur í tveimur málum hvatt aðila til þess að fara með sín mál til sam­­skipta­ráð­gjafans, eins og áður seg­ir, en þau snúa bæði að sam­­skiptum ein­stak­l­inga við golf­­klúbba. Einnig hefur Golf­­sam­­band Íslands not­­ast við for­varn­­ar­efni frá ÍSÍ, að því er fram kemur í svar­inu.

„At­­burðir síð­­­ustu vikna hafa leitt það í ljós að bæta má enn frekar ferla, við­brögð og fræðslu innan íþrótta­hreyf­­ing­­ar­innar bæði hvað varðar for­varnir gegn ofbeldi sem og við­brögð við til­­kynn­ingum um atvik og með­­höndlun þeirra. Hafin er ýmis úrbóta­vinna til að tryggja að allir innan vébanda hreyf­­ing­­ar­innar hafi þau tól og tæki sem þarf til að bregð­­ast rétt við atvikum er upp koma í starfi hreyf­­ing­­ar­innar og auka öryggi allra innan henn­­ar,“ segir í svari GSÍ og vísar þarna í umfjöllun um ásak­­anir um kyn­­ferð­is­­lega áreitni og ofbeldi innan KSÍ.

Golf­­sam­­band Íslands seg­ist að end­ingu for­­dæma allt ofbeldi og standa með þolend­­um.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnBára Huld Beck
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar