Stefnt er að því að reka samstæðu Reykjavíkurborgar með 8,6 milljarða króna afgangi á næsta ári samkvæmt fjárhagsáætlun borgarinnar fyrir árið 2022 sem lögð var fram í borgarstjórn í dag. Sá hluti rekstrar Reykjavíkurborgar sem fjármagnaður er með skatttekjum, svokallaður A-hluti, verður hins vegar að óbreyttu rekinn með 3,4 milljarða króna halla. Sá halli bætist við 9,7 milljarða króna halla á A-hlutanum í ár samkvæmt útkomuspá og 5,8 milljarða króna halla á honum í fyrra.
Samanlagt er því gert ráð fyrir að A-hluti rekstrar Reykjavíkurborgar verði rekinn í 18,9 milljarða króna halla á árunum 2020 til 2022.
Þetta kemur fram í fjárhagsaætlun Reykjavíkurborgar fyrir næsta ár sem lögð var fram í borgarstjórn í dag.
Samstæða borgarinnar mun hins vegar skila alls 23,2 milljarða króna hagnaði á tímabilinu gangi spár og áætlanir eftir. Þar skiptir máli að hinn hlutinn í rekstri borgarinnar, B-hlutinn, á að skila miklum hagnaði á árunum 2021 og 2022. Hann nær yfir afkomu þeirra fyrirtækja sem borgin á að öllu leyti eða að hluta. Fyrirtækin sem teljast til B-hlutans eru Orkuveita Reykjavíkur, Faxaflóahafnir sf., Félagsbústaðir hf., Íþrótta- og sýningahöllin hf., Malbikunarstöðin Höfði hf., Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins bs., Sorpa bs. og Strætó bs, auk Aflvaka hf og Þjóðarleikvangs ehf.
Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg vegna framlagningu fjárhagsáætlunarinnar segir að góðan afgang megi einkum rekja til Orkuveitu Reykjavíkur og Félagsbústaða hf. vegna matsbreytinga fjárfestingaeigna félagsins.
66 milljarða hagnaður á fjórum árum
Í fimm ára áætlun borgarinnar sem var líka lögð fram í dag er gert ráð fyrir að afkoma samstæðunnar batni á tímabilinu 2023 til 2026. Gert er ráð fyrir að hagnaður samstæðunnar verði samtals 66,2 milljarðar króna á því fjögurra ára tímabili.
Í aðgerðaráætlun sem lögð er fram til að ná þessum árangri segir að það eigi að ná eins prósents hagræðingu á ári á launakostnað í gegnum aðhaldsaðgerðir og stafræna umbreytingu á tímabilinu 2022-2025. Þá verði einungis verðbættar samningsbundnar skuldbindingar og hagræðingu náð í rekstri með miðlægum innkaupum og aðhaldsaðgerðum á tímabilinu 2022-2025. Halda á áfram með vinnumarkaðsaðgerðir fram eftir næsta ári með það að markmiði að skapa störf fyrir einstaklinga sem eru á fjárhagsaðstoð eða atvinnuleysisbótum og stuðla að bættri nýtingu húsnæðis með aukinni samnýtingu.
Borgin vill auk þess tryggja óhindrað framboð íbúða og húsnæðis með skipulegri þróun nýrra hverfa sem eigi að laða að íbúa og efla tekjustofna. Þá verður leitað samninga við ríkið um leiðréttingu á framlögum vegna lögbundinna verkefna, einkum vegna þjónustu við fatlað fólk, og fjármagnsskipan fyrirtækja borgarinnar verður endurskoðuð. Að lokum er tiltekið að ráðast eigi í aðgerðir til að bæta skattskil í samstarfi við ríkið.
Kosið verður til borgarstjórnar næsta vor. Því er ekki víst að núverandi meirihluti Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna, sem leggur fram áætlunina til næstu fimm ára, verði með umboð til að fylgja henni eftir.
Dagur segir að vaxið verði út úr Covid
Í tilkynningu borgarinnar segir að síðustu 20 mánuðir eigi sér enga hliðstæðu í íslensku efnahagslífi. „Kórónaveirufaraldurinn hefur haft áhrif á starfsemi fyrirtækja í nær öllum atvinnugreinum sem leiddi til fjölda uppsagna auk þess að stór partur af vinnuafli fór á hlutabótaleiðina. Aukið atvinnuleysi hefur að mestu verið vegna áhrifa kórónuveirufaraldursins á þjónustugreinar og mun bati í atvinnustigi að mestu fylgja auknum fjölda ferðamanna næstu árin. Þrátt fyrir að enn sé óvissa um framgang faraldursins eru vonir bundnar við að hann sé í rénun. Sé litið til Reykjavíkur þá hefur almennt atvinnuleysi aukist mikið undanfarin 2 ár en hefur þó minnkað jafnt og þétt frá því í febrúar 2021. Meðalatvinnuleysi var 9 prósent árið 2020 en mældist 5,8 prósent í september 2021. Þrátt fyrir spá um að hagvöxtur glæðist á þessu og næstu árum verður atvinnuleysi þó áfram nokkuð hátt sögulega séð.“
Hin neikvæða niðurstaða A-hluta megi rekja til efnahagskreppunnar og magnaukninga einkum í velferðarþjónustu vegna aukinna skuldbindinga af hálfu ríkisins sem lagðar eru á sveitarfélög með lagasetningu og reglugerðum án þess að tekjustofnar séu styrktir.
Þar er haft eftir Degi B. Eggertssyni, borgarstjóra Reykjavíkur, að borgin muni vaxa út úr þeim vanda sem Covid skilji eftir sig. „Niðurstöður eru í samræmi við Græna planið sem lagt var fram í fyrra og er sýn borgarinnar til skamms og lengri tíma. Grænum fjárfestingum hefur verið flýtt, við bætum sérstaklega við viðhaldsfé í skóla- og frístundahúsæði. Verður 25-30 milljörðum varið til þeirra næstu 5-7 ár. Það dugir til að vinna upp það viðhald sem sparað var á árunum eftir hrun. Grunnskólinn verður einnig betur fjármagnaður á grunni nýs úthlutunarlíkans og velferðarsvið fær fjármuni til að mæta áskorunum og aukinni þjónustu. Borgin er að sækja fram og næsti áratugur verður áratugur Reykjavíkur.“