Það rigndi síðast í maí. Og þá aðeins í tvær klukkustundir. Reyndar hafa þurrkar geisað síðustu fjögur ár svo akrar líkjast nú helst sandgryfjum. Eyðimörkum. Þetta ástand er ekki bundið við bæinn Ifotaka, þar sem vonbrigðin með hina takmörkuðu úrkomu í maí voru gríðarleg, heldur alla sunnanverða Madagaskar, fjórðu stærstu eyju í heimi.
Sameinuðu þjóðirnar segja að eyjaskeggjar séu að upplifa fyrstu hungursneyðina sem loftslagshamfarir munu valda. Það vildi enginn verða fyrstur en eins og spáð hafði verið bitna breytingar á loftslagi af mannavöldum á þeim sem enga ábyrgð bera á þeim: Fólki sem ástundar að mestu sjálfsþurftarbúskap. Fólki sem nú býr við sult vegna uppskerubrests og hefur sumt hvert neyðst til að leggja sér engisprettur og laufblöð til munns. Þúsundir búa nú þegar við hungursneyð og sama bíður um milljón manna til viðbótar.
Á þeim svæðum þar sem þurrkurinn er hvað mestur eru sum þorpin þegar mannlaus. Þar er ekki hægt að búa. Þar er ekkert að borða. Því það er engu að sá. Hungrið hefur líka tekið sinn toll af styrk fólksins. Það er orðið kraftlaust. Hreyfir sig hægt. Heldur helst kyrru fyrir.
„Mér líður illa og svo hef ég áhyggjur,“ segir sex barna móðir í þorpinu Atoby. „Á hverjum degi velti ég því fyrir mér hvað við getum borðað.“
Hún vill flytja á frjósamari stað. En hún hefur einfaldlega ekki efni á því.
Karlmaður á fimmtugsaldri, sem hafði áður lifibrauð sitt af því að rækta kassava, safnar nú eldiviði. Fyrir hann fær hann vikulega jafnvirði einnar skálar af hrísgrjónum.
Oft eru það ömmurnar sem sjá um börnin þessa dagana. Foreldrarnir eru farnir að leita að vinnu annars staðar. Zemele fór með barnabarnið á heilsugæslustöðina til að fá hnetumauk. Það er aðeins skammtímalausn. Og ekkert til að lifa á til frambúðar. En það hefur lítið sem ekkert rignt á landskika fjölskyldunnar í að verða þrjú ár. Það er ekki nóg með að það rigni ekki heldur er meiri vindur. Hann feykir sandi yfir þurra akrana. Jarðvegurinn er orðinn næringarsnauður. „Þetta hefur verið slæmt áður en ekki svona slæmt,“ segir Zemele sem man tímana tvenna í sínum heimahögum.
Vannæring er ekki nýtt vandamál í suðurhluta Madagaskar. Hún lætur á sér kræla reglulega. En þurrkarnir nú eru þeir verstu í fjóra áratugi að mati Sameinuðu þjóðanna. Stjórnvöld á eyjunni hafa litla burði til að veita þjóðinni aðstoð. Hún kemur líka sjaldan og óreglulega. Hún er of lítil til að allir geti notið hennar.
Mannúðarsamtökin Læknar án landamæra fara um svæðið á bíl, innréttuðum sem heilsugæslustöð. Þaðan er hnetumauki dreift til barna sem þurfa mest á því að halda. Börn þyrpast að bílnum, sum í fylgd ættingja sinna, þegar hann stöðvast í þorpunum. Læknar og hjúkrunarfræðingar samtakanna þurfa að vera fljót að koma auga á þau börn sem eru hvað vannærðust. Þau sem þurfa bráðaaðstoð. Þau eru tekin afsíðis. Vigtuð. Málband hringað um granna handleggina. Það þarf að forgangsraða. Níu ára gamall drengur er einn þeirra sem kemst fram fyrir röðina í þorpinu Befeno. Hann er um tuttugu kíló á þyngd. Hann er daufur til augnanna. Allt bendir til næringarskorts. Honum eru gefin lyf og fæðubótarefni.
Alþjóðastofnanir skilgreina hungursneyð í fimm stigum. Um 30 þúsund manns á sunnanverðri Madagaskar eru á stigi fimm. Yfir milljón manns búa við alvarlegan matarskort og þurfa neyðaraðstoð. Óttast er að sú tala muni hækka umtalsvert á næstunni. Það líður senn að byrjun október. Mánuðinum sem sáð er í akrana. Ef ekkert breytist og það fljótt verður ekkert af því.
„Þetta er fólk sem hefur lifað af landinu en hefur þurft að flýja vegna þurrka,“ segir Shelley Thakral, talskona matvælaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna (WFP). „Þau hafa misst lifibrauð sitt og þau hafa þurft að selja allar eignir sínar.“
Fólk á þessum slóðum hefur getað leitað annað að tímabundinni vinnu á milli uppskera. En heimsfaraldur kórónuveirunnar hefur þurrkað að mestu út slík tækifæri sem flest eru bundin við ferðaþjónustu. Þannig hefur það verið í eitt og hálft ár. Engir túristar. „Þetta eru mjög háskalegir tímar fyrir íbúa í suðrinu.“
Madagaskar ber ábyrgð á 0,01 prósent af kolefnislosun heimsins á ári en er á sama tíma þjóðin sem fær að finna harðast fyrir áhrifunum af losuninni.
Í augum margra Vesturlandabúa er Madagaskar sannkölluð ævintýraeyja. Hún birtist okkur í náttúrulífsmyndum – og teiknimyndum – sem frjósöm og iðandi af dýralífi sem hvergi annars staðar er að finna í víðri veröld.
Hungursneyðin nú er alvarleg en hún átti sér þó ákveðinn aðdraganda síðustu ár og jafnvel áratugi. Tekjur á hvern íbúa hafa farið lækkandi og fátækt verið að aukast. Ólga hefur einnig verið á hinu pólitíska sviði og aðgangur fólks að grunnþjónustu á öllum sviðum verið skertur.
Allt hefur þetta svo haft í för með sér að þegar neyðarástand skapast, eins og tíðir uppskerubrestir nú, eru allir varasjóðir fólks tómir. Og litla aðstoð að hafa frá stjórnvöldum.
Madagaskar er meðal fátækustu ríkja heims og vannæring barna er stærsta einstaka heilbrigðisvandamálið sem blasir við.
Hinir óvenjulegu og miklu þurrkar síðustu misseri hafa beinlínis lagt landbúnað á stórum svæðum á suðurhluta eyjunnar í rúst. Þar er ekki stundaður stórtækur landbúnaður með nútíma tækjum og tólum. Ræktun hvers og eins er smá í sniðum, allt að því sjálfsþurftarbúskapur, þar sem fólk ræktar matvæli á litlum landskikum.
Matvælaaðstoð Sameinuðu þjóðanna segir Madagaskar meðal þeirra tíu landa heims sem viðkvæmust eru fyrir hamförum. Náttúruhamfarir á borð við fellibylji, flóð og þurrka eru þar ofarlega á blaði. Loftslagsbreytingar ýkja alla þessa þætti með enn alvarlegri afleiðingum fyrir viðkvæm vistkerfi.
„Þetta er fordæmalaust. Þeir sem búa á Suður-Madagaskar eiga engan þátt í loftslagsvánni en samt bitnar hún helst á þeim,“ segir Thakral. „Þeir keyra ekki bíla og þeir fljúga ekki með flugvélum.“
Eyjan þeirra er að hitna og þorna. Og þeir standa á þröskuldi „hörmunga sem ekki er hægt að ímynda sér,“ segir Jean Pletinck sem starfað hefur með Læknum án landamæra í tæpa þrjá áratugi. „Það er erfitt að finna orð til að lýsa því sem ég hef orðið vitni að hérna.“