Fyrr á þessu ári skipaði danska ríkisstjórnin nefnd „Kommissionen for den glemte kvindekamp“ eins og nefndin hét í skipunarbréfinu. Verkefni nefndarinnar, sem var skipuð ellefu fulltrúum, var að koma með tillögur og hugmyndir um hvernig hægt væri að tryggja konum sem tilheyra minnihlutahópum í Danmörku sömu réttindi og frelsi og aðrar konur í landinu njóta. Formaður nefndarinnar er Christina Krzyrosiak Hansen borgarstjóri í sveitarfélaginu Holbæk. Í skipunarbréfinu kom fram að nefndinni væri ætlað að ljúka störfum og skila tillögum sínum í ársbyrjun 2023. Í skipunarbréfinu voru nefnd þau gildi sem nefndinni bæri að hafa í huga og eiga að ná til allra íbúa Danmerkur. Í fyrsta lagi að börnum sé tryggt uppeldi án valdbeitingar (uden vold i opdragelsen), eðlilega umgengni við börn af báðum kynjum, í íþróttum, ferðum á vegum skólans, í leikjum og starfi.
Í öðru lagi að unglingar, ákveði sjálfir hverja þeir umgangist, þar á meðal að velja kærasta, eða kærustu, og maka. Ráða sjálfir yfir eigin líkama og kyni (seksualitet).
Í þriðja lagi að vera hluti samfélagsins Danmerkur, velja menntun og vini, taka þátt í hátíðum og atvinnulífi. Ákveða eigin klæðnað og njóta tjáningar- og trúfrelsis.
Í skipunarbréfinu kom fram að nefndinni væri ætlað að ljúka störfum og skila tillögum sínum í ársbyrjun 2023.
Engin sérlög um slæður
Í Danmörku eru ekki í gildi lög sem gilda sérstaklega um slæðuburð. Á vinnumarkaðnum eru engar almennar reglur um slæður en hinsvegar er bannað að mismuna fólki af trúarástæðum. Lögum um dómstóla (Retsplejeloven) var breytt árið 2009 og þar var tekið fram að dómarar mættu ekki bera trúarleg né pólitísk tákn í réttarsölum. Hermenn og lögregluþjónar mega ekki bera slæður sem hluta einkennisbúnings.
Áralangar deilur og umræður
Í byrjun þessa árs voru tæplega 850 þúsund manns af erlendu bergi brotið, innflytjendur og afkomendur þeirra, búsett í Danmörku. Innflytjendum fjölgaði eftir síðari heimsstyrjöldina allt fram til ársins 1973. Í sumum tilvikum var um að ræða fólk sem hrakist hafði frá heimalöndum sínum en einnig var um ræða erlent vinnuafl, einkum tengt olíu-og gasvinnslu, fyrst og fremst karlmenn. Margir úr þessum hópi sneru ekki heim aftur heldur settust að í Danmörku. Árið 1983 tóku gildi breytt lög um útlendinga, þau tryggðu aukin réttindi, meiri en í flestum öðrum ríkjum Evrópu. Þessi lög mættu velvilja Dana í upphafi en í kjölfar aukinnar ásóknar útlendinga í að setjast að í Danmörku kom annað og gagnrýnna hljóð í strokkinn.
Málefni erlends fólks sem flutt hefur til Danmerkur með aðra siði og trúarbrögð en Danir eiga að venjast hafa þannig árum saman orðið tilefni deilna, bæði í þinginu, Folketinget, og meðal almennings. Mikil umræða varð um málefni útlendinga í kjölfar stríðsátakanna í Sýrlandi en árið 2015 óskuðu 21 þúsund Sýrlendingar og Sómalar eftir pólitísku hæli í Danmörku. Af þeim 850 þúsundum íbúa Danmerkur af erlendum uppruna eru Tyrkir fjölmennastir, um 65 þúsund, Pólverjar eru næst fjölmennastir, um það bil 50 þúsund og Sýrlendingar koma næstir þar á eftir, rétt um 44 þúsund.
Slæðubann margoft rætt í þinginu
Á undanförnum árum hafa slæðumál, eins og gjarna er komist að orði, margoft komið til umræðu í danska þinginu og skoðanir ætíð skiptar. Snemma árs 2018 lagði Danski þjóðarflokkurinn til að öll trúarleg tákn skyldu bönnuð í grunnskólum landsins og fyrir þingkosningarnar 2019 sagði Pernille Vermund, formaður Nýja borgaralega flokksins (Nye Borgerlige) að flokkurinn myndi vinna að því að banna múslimaslæður, eins og hún komst að orði, í grunnskólum landsins.
Árið 2018 tók gildi bann við því að hylja andlit sitt á almannafæri, kallað búrkubannið. Þessu banni var fyrst og fremst beint gegn múslímskum konum þótt ekki væri það sagt berum orðum.
Málefni innflytjenda og staða þeirra í dönsku samfélagi hafa verið áberandi í danskri þjóðfélagsumræðu á síðustu árum. Sú umræða stafar ef til vill af þeirri staðreynd að innflytjendum og fólki af erlendu bergi brotið hefur fjölgað og gerir sig æ meira gildandi í þjóðlífinu. Það hefur þó frekar gilt um karla en konur. Kannanir hafa sýnt að konum af öðrum uppruna en dönskum hefur ekki reynst auðvelt að hasla sér völl og láta til sín taka í samfélaginu. Mörgum hefur verið ljóst að „ekkert kemur af engu“ eins og Lér konungur í samnefndu leikriti Shakespeares sagði en þó hefur fátt gerst. Nefndin sem stjórnin skipaði í byrjun ársins hefur nú birt tillögur sínar og þær hafa vakið athygli.
Leggur til slæðubann
Tillögur nefndarinnar sem stjórnin skipaði eru ekki endanlegar. Tillögurnar eru í níu liðum en sú sem lang mesta athygli hefur vakið er sú sem snýr að slæðunum margnefndu. Nefndin mælir með að slæður verði bannaðar í öllum grunnskólum landsins. Rökin eru þau að stúlkur sem beri slæður skilji sig frá öðrum og einangrist og þær myndi ekki vinatengsl utan mjög takmarkaðs hóps. Séu öðruvísi.
Skiptar skoðanir
Tillögurnar sem nefnd ríkisstjórnarinnar lagði fram til kynningar í síðustu viku eru mjög umdeildar. Rök þeirra sem styðja tillögurnar eru þau að verði slæðurnar bannaðar hverfi sú sýnilega aðgreining sem nú er til staðar. Þeir sem eru andsnúnir slæðubanni segja að ef það verði lögfest muni sumir, kannski margir, foreldrar einfaldlega ekki senda dæturnar í skóla og þar með einangrist stúlkurnar enn frekar. Í Danmörku er ekki skólaskylda, heimakennsla er heimil og börn sem læra heima fari á mis við félagslíf sem tengist skólanum. Aðrir gagnrýnendur slæðubannsins segja að trúfrelsi sé tryggt í dönsku stjórnarskránni og ekki gangi að ætla að banna slæður en ekki önnur trúartákn, t.d. hálsmen með krossi.
Meðal þingmanna eru skoðanir skiptar. Sama máli gegnir um borgarstjóra vítt og breitt um landið, margir þeirra eru andsnúnir slæðubanni. Jakob Ellemann Jensen formaður Venstre hefur ekki sagt af eða á varðandi hugsanlegt slæðubann. Kaare Dybvad Beck ráðherra útlendingamála hefur ekki viljað tjá sig um málið. Margir þingmenn sem danskir fjölmiðlar hafa rætt við telja útilokað að lög um slæðubann yrðu samþykkt í þinginu, ef til þess kæmi að málið næði svo langt.
Rétt er að geta þess að slæðunefndin, eins og nefndin sem ríkisstjórnin skipaði er kölluð, á að skila endanlegum tillögum sínum í ársbyrjun 2023.