Árið 1962 rak kaupmaðurinn Arne Bybjerg fjórar verslanir í Kalundborg á Sjálandi. Þar voru seld útvarpstæki, plötuspilarar og sjónvörp. Reksturinn gekk vel, græjurnar ruku út og æ fleiri Danir eignuðust sjónvarpstæki. Á þessum tíma var sent út í „sauðalitunum“, fyrsta útsending í lit í Danmörku fór fram 26. ágúst 1967 „Gala-Abend der Schallplatte“ hét sá dagskrárliður.
Eins og áður sagði gekk reksturinn vel hjá Arne Bybjerg árið 1962 og Arne, sem var 34 ára, velti fyrir sér möguleikum á einhverju nýju „sem gæti sigrað heiminn“ eins og hann komst síðar að orði í viðtali. Dag einn rak hann augun í auglýsingu frá hárgreiðslu- og rakarastofu í Kaupmannahöfn, þar var getið um rafmagnshárrúllur. Arne Bybjerg skildi ekki hvað átt var við en lagði leið sína á stofuna í Kaupmannahöfn til að skoða rafmagnsrúllurnar.
Þegar til átti að taka hitnuðu rúllurnar ekki og Arne Bybjerg sneri heim, þessar rúllur væru ekki neitt sem myndi sigra heiminn. En samt sem áður fór hann aftur til Kaupmannahafnar og hann og eigandi stofunnar ákváðu að vinna að frekari þróun rafmagnsrúllunnar. Það gekk brösuglega og á endanum keypti Arne Bybjerg hugmyndina og þar með lauk þátttöku stofunnar í Kaupmannahöfn í þessu uppfinningastarfi.
Mörg ljón í veginum
Arne Bybjerg gerði sér grein fyrir að hann byggi ekki yfir þeirri tæknikunnáttu sem til þyrfti ef rafmagnsrúllurnar áttu að verða að veruleika. Hann setti sig í samband við Niels Christian Jørgensen verkfræðing sem var áhugamaður um uppfinningar. Niels Christian tók að sér að reyna að þróa „rúlluhugmyndina“ og fékk 15 krónur á tímann, það þótti þokkalegt tímakaup. Rúllurnar, með litlum göddum á, skyldu vera úr plasti og fylltar vökva. Þeim var stungið á þar til gerða pinna, sem hitnuðu, þegar stungið var í samband. Margs konar vandamál komu upp meðan á þróunarvinnunni stóð: Rúllurnar voru límdar saman og þrútnuðu þegar vökvinn innan í þeim hitnaði. Í eitt skipti munaði minnstu að illa færi þegar lím í rúllu gaf sig og heitur vökvinn lak út. Stúlka sem þá sat í stól á vinnustofu Niels Christian brenndist á höfði og missti hluta hársins, sem óx þó aftur. En Niels Christian tókst á endanum að leysa öll tæknilegu vandamálin, hann fékk einkaleyfi á hugmyndinni en þeir Arne gerðu samning um frí afnot þess síðarnefnda á hugmyndinni.
Vakti litla athygli í upphafi
Arne Bybjerg var bjartsýnn á að rafmagnsrúllurnar myndu slá í gegn. Hann fékk gluggaskreytingamann sem hann þekkti til að hanna hentug box, fyrir rúllurnar sem ákveðið var að skyldu heita Carmen, í hverju boxi 18 rúllur. Arne var stórhuga og lét í fyrstu framleiða, í húsnæði sem hann leigði, 10 þúsund sett. En þegar að því kom að selja rúllurnar sýndu fáir þeim áhuga. Arne ákvað að stöðva framleiðsluna, í bili, og fékk hárskerann Søren Unmack til að selja rúllurnar. Áður en Søren hellti sér í sölumennskuna ákvað hann að prófa rúllurnar, þannig að hann vissi hvað hann væri að bjóða.
Settar í þurrt hár
Þeir Arne Bybjerg og Niels Christian Jørgensen höfðu alltaf gengið út frá því að rafmagnsrúllurnar yrðu settar í blautt hár, eins og hafði tíðkast með „gömlu“ hárrúllurnar. Søren Unmack ákvað að prófa að setja rúllurnar í þurrt hár, og viti menn: virkaði fullkomlega. Søren gekk svo hús úr húsi í Kalundborg og kynnti Carmen rúllurnar. Jafnframt voru rúllurnar, og notkun þeirra kynntar í verslunum. Skemmst er frá því að segja að rúllurnar seldust eins og heitar lummur, 10 þúsund settin sem upphaflega voru framleidd kláruðust fljótt og til að gera langa sögu stutta voru starfsmenn (80% konur) árið 1969 orðnir 3 þúsund talsins. Slíkur fjöldi starfsfólks lá ekki á lausu í Kalundborg og Arne Bybjerg gerði út rútubíla sem óku með starfsfólk til og frá vinnu víða af Sjálandi.
Bandaríkin urðu fljótlega stærsta markaðssvæðið og um miðjan sjöunda áratuginn fóru daglega tvær flugvélar, hvor um sig með 10 tonna farm af rúllum, frá Danmörku vestur um haf. Klondyke Kalundborg sögðu Danir.
Tvennt kom til
Ástæður þess að Carmen náði slíkum vinsældum sem raun ber vitni voru einkum tvær. Á sjöunda áratugnum var sítt hár í tísku hjá báðum kynjum og ekki síður hitt að Carmen rúllurnar voru auðveldar í notkun. Það þurfti ekki að bleyta hárið, og vera svo með rúllurnar í hárinu tímunum saman eða sitja undir hárþurrkuhjálmi og láta sér leiðast. Í viðtölum var Carmen iðulega lýst sem byltingu.
Clariol kaupir
Bandaríska fyrirtækið Clariol, sem á þessum árum átti fjöldann allan af snyrtivöruverslunum og apótekum var lang stærsti viðskiptavinur Carmen. Árið 1969 keypti Clariol fyrirtækið Carmen af Arne Bybjerg. Kaupverðið nam sem jafngildir í dag 3 milljörðum danskra króna, um það bil 56 milljörðum íslenskum. Arne sá sig tilneyddan að selja því annars hefði Clariol einfaldlega sjálft látið framleiða rúllurnar annars staðar. Framleiðslan var áfram í Kalundborg.
Úti er ævintýri
Fljótlega eftir að Clariol keypti Carmen fyrirtækið tók að halla undan fæti. Mestu réði breytt hártíska, síða hárið var ekki lengur hátíska og svo komu fleiri ,,hjálpartæki“ á þessu sviði til sögunnar. Verksmiðjunni í Kalundborg var lokað árið 1990, síðustu árin voru starfsmenn tæplega 400, rúmlega tíundi hluti þess sem var á „gullaldarárunum“ um 1970. Þegar starfseminni var hætt hafði um það bil einn milljarður rúlla verið framleiddur í verksmiðju Carmen. Algengast var að í hverju Carmen boxi væru 18 rúllur en einnig voru rúllurnar fáanlegar í minni og stærri boxum.
Í lokin er rétt að geta þess að í haust sýnir danska sjónvarpið, DR myndaflokk sem byggður er á sögu Carmen fyrirtækisins. Í kynningu sagði talsmaður DR, að myndaflokkurinn væri ekki sagnfræði, en styddist við staðreyndirnar um sögu þessa einstaka fyrirtækis. DR hefur greinilega trú á myndaflokknum því að þegar er undirbúningur hafinn að annarri þáttaröð um Carmen. RÚV er meðframleiðandi að Carmen þáttunum þannig að ætla má að þeir komi á skjá landsmanna með haustinu.