Rússnesk stjórnvöld kynntu á dögunum drög að stefnu um ákveðið uppgjör við hina myrku og blóði drifnu stjórnartíð Jósefs Stalíns. Stefna stjórnvalda er í grundvallaratriðum tvískipt. Annars vegar miðar hún að því að berjast gegn réttlætingu á harðræðinu, kúguninni og glæpunum sem áttu sér stað á tæpum þremur áratugum undir stjórn Stalíns. Svo hins vegar á að heiðra minningu þeirra sem létust í „pólitískum hreinsunum” harðstjórans en fræðimenn telja að rekja megi dauða 15 til 20 milljón manns til þeirra. Á meðal tilgreindra markmiða stefnu stjórnvalda er að skrá sögu og opna söfn til minningar um fórnarlömb ógnarstjórnarinnar. Þá verður nýr minnisvarði, sem ber heitið „Veggur sorgarinnar”, formlega afhjúpaður í Moskvu í lok október.
Þessi “nýja” stefna þykir reyndar fremur óvænt skref hjá núverandi stjórnvöldum, sem hafa fram til þessa ekki viljað horfast í augu við fortíðina með þessum hætti. Stefnan kemur hins vegar í kjölfarið á fregnum þess efnis að þrjár styttur af Stalín hafi verið reistar undanfarna mánuði í borgunum Lipetsk, Penza og Vladimir, í Rússlandi. Kommúnistaflokkur Rússlands (KPRF), stærsti flokkur stjórnarandstöðunnar, sá til þess að stytturnar yrðu reistar en flokkurinn hefur allt frá stofnun sinni árið 1993 lagt mikla áherslu á að Stalíns sé minnst sem mikils leiðtoga og föðurlandsvinar.
Stytta af Stalín í Muzeon-garðinum í Moskvu. Stytturnar í garðinum eru í misjöfnu
ásigkomulagi en eiga það flestar sameiginlegt að hafa „fallið" af stalli sínum, af einhverjum ástæðum. Mynd: Ómar.
Það er reyndar margt sem bendir til þess að „ný-stalínismi” sé alltaf að verða meira og meira áberandi í Rússlandi og það skýrir ef til vill að einhverju leyti þetta útspil stjórnvalda. Það er samt óneitanlega öskrandi þversögn falin í því að láta byggja minnisvarða um þjáningar fórnarlamba ógnarstjórnar - á sama tíma og styttum er leyft að rísa til heiðurs helsta kvalara þeirra, Jósef Stalín. Ágreiningur Rússa um arfleifð Stalíns er þó alls ekki nýr af nálinni.
Grafreitur hinna föllnu minnismerkja
Eftir lát Stalíns árið 1953 var hann í fyrstu hylltur sem hetja og lík hans var til sýnis í grafhýsi, við hlið lík Vladimírs Lenín. Hetjuljóminn dvínaði þó fljótt og í frægri “leyniræðu” á tuttugasta landsþingi sovéska kommúnistaflokksins gerði Nikíta Krútsjov, eftirmaður Stalíns sem leiðtogi Sovétríkjanna, harða atlögu að stjórnartíð hans. Á meðal aðgerða sem Krútsjov boðaði í kjölfarið voru að breyta nafni borgarinnar Stalíngrad í Volgograd, láta eyðileggja styttur af Stalín og fjarlægja lík hans úr grafhýsinu á Rauða torginu í Moskvu. Leoníd Brésnev, Mikhaíl Gorbatsjev og Boris Jeltsín voru síðar einnig háværir í gagnrýni sinni á verknaði í stjórnartíð Stalíns.
Við fall Sovétríkjanna árið 1991 létu svo almennir borgarar í ljós reiði sína með því eyðileggja styttur af Stalín og öðrum fyrrum leiðtogum Sovétríkjanna. Skemmdarverkin voru táknræn á margan hátt þar sem þau endurspegluðu á sama tíma samfélag í molum og skýlausa kröfu almennings um breytingar og betri tíð.
Í Muzeon-garðinum í Moskvu hafa safnast saman styttur og minnismerki sem hafa af einhverjum ástæðum fallið af stalli sínum í gegnum tíðina. Nokkuð margar styttur af Stalín er að finna í garðinum. Sumar stytturnar eru meira skemmdar en aðrar en allar hafa þær einhverja sögu að segja um ástæðurnar fyrir því að þær eru komnar á þessa endastöð. Staðurinn hefur því stundum verið kallaður grafreitur hinna föllnu minnismerkja.
Stalín eftirherman og leikarinn Latif Valiyev situr fyrir á mynd með ferðamanni á Rauða
torginu í Moskvu, ásamt Lenín eftirhermu. Margir vestrænir fjölmiðlar hafa sérstakan áhuga á
eftirhermunum og birta reglulega myndir og fréttir af þeim í skoplegum stíl. Mynd: Ómar.
„Ný-stalínismi” verði gerður refsiverður með lögum?
Samkvæmt nýlegri skoðanakönnun Levada Center, sjálfstæðri rannsóknarstofnun sem framkvæmir reglulegar og viðamiklar skoðanakannanir á rússnesku samfélagi, hefur afstaða Rússa til Stalíns hins vegar mildast þó nokkuð á undanförnum árum. Í skoðanakönnun stofnunarinnar sem framkvæmd var fyrr á árinu kemur fram að 45% aðspurðra telji verknaði í stjórnartíð Stalíns hafa verið réttlætanlega. En þremur árum áður svöruðu 25% aðspurðra með þeim hætti í sambærilegri skoðanakönnun Levada Center.
Margir Rússar nú til dags virðast þannig vera tilbúnir að líta framhjá kúgun og glæpum ógnarstjórnar Stalíns og einblína frekar á aukna iðnvæðingu og hernaðarlega sigra Rauða hersins undir hans stjórn. “Eitt er þjóðrækni, annað þjóðremba,” skrifaði Árni Bergmann, sérfræðingur í málefnum Rússlands, í bókinni Rússland og Rússar frá árinu 2004. Árni varar þar við að þjóðernishyggja geti tekið á sig háskalegar myndir í Rússlandi, líkt og annarsstaðar.
TASS-fréttastofan greindi reyndar frá því í lok september að nýtt frumvarp til laga gegn “ný-stalínisma” væri í burðarliðnum í Dúmunni, neðri deild rússneska þingsins. Lítið hefur þó spurst af frumvarpinu síðan þá. Frumvarpið leggi hins vegar til að allur áróður sem miðar að því að fegra stjórnartíð Stalíns verði gerður refsiverður með lögum. Þá verði verði jafnframt bannað með lögum að skýra götur, neðajarðarlestarstöðvar og önnur slík mannvirki í höfuðið á einstaklingum tengdum ógnarstjórn Stalíns.
Þegar Stalín snéri aftur í Neðanjarðarlestakerfið
Neðanjarðarlestakerfið í Moskvu var að stórum hluta byggt í stjórnartíð Stalíns. Þess vegna var vitanlega engu til sparað við upphefja þáverandi leiðtogann með myndum, styttum og slagorðum á lestarstöðvunum borgarinnar. Öll ummerki um Stalín voru hins vegar fjarlægð úr neðanjarðarlestakerfinu, líkt og öðrum stöðum, þegar Krútsjov komst til valda. Líkt og áður var minnst á.
Það kom því mörgum Rússum í opna skjöldu þegar Kurskaya-lestarstöðin í Moskvu var opnuð aftur eftir endurbætur árið 2009 og slagorð sem hylltu Stalín voru aftur komin upp. “Fyrir móðurlandið. Fyrir Stalín” stóð á einni áletrununni. Þá blasti upprunalegur texti þjóðsöngvar Sovétríkjanna frá árinu 1943 við fólki þegar það kom inn á lestarstöðina. Í textabrotinu, sem hangir uppi enn þann dag í dag, er Stalín meðal annars þakkað fyrir að „hvetja þjóðina til vinnu og hetjudáða”. Nafn Stalíns var reyndar síðar klippt út úr texta þjóðsöngvarins í skiptum fyrir nafn Leníns.
Dmitry Gaev, þáverandi yfirmaður neðanjarðarlestakerfisins í Moskvu, bar fyrir sig að hugsunin hafi einfaldlega verið sú að endurbyggja lestarstöðina í sem upprunalegastri mynd til að varðveita sögu hennar. Endurbæturnar vöktu hins vegar hörð viðbrögð hjá mörgum Rússum. Arseny Roginsky, yfirmaður Memorial mannréttindasamtakanna, var einn þeirra. “Þetta er bara enn ein vísbendingin um ný-stalínismann sem er að gera vart við sig í samfélaginu okkar. Stjórnvöld vilja halda uppi nafni Stalíns sem einskonar tákni um styrk ríkisvaldsins sem allir eigi að hræðast,” sagði Roginsky í viðtali við Ekho Moskvy útvarpsstöðina.
Stalín eftirhermur á Rauða torginu
Að Stalín látnum á Charles de Gaulle, fyrrum forseti Frakklands, að hafa sagt eitthvað á þá leið: “Stalín gekk ekki í burtu í fortíðina, hann hvarf inn í framtíðina”. En fólk sem nú heimsækir Rauða torgið gæti í fyrstu haldið að orð de Gaulle væru ef til vill einum of bókstafleg. Þar er nefnilega að finna enn eina birtingarmynd Stalíns nú til dags. Í þetta skiptið í formi eftirhermunnar og leikarans Latif Valiyev og annarra kollega hans.
Stalín eftirhermur eru sérstaklega vinsælar á meðal ferðamanna á Rauða torginu, en þar má einnig finna Lenín og Pútín eftirhermur. Þá virðast vestrænir fjölmiðlar hafa tekið ástfóstri við eftirhermurnar og birta reglulega fréttir og myndir af þeim. Mail Online birti þannig mynd af Stalín eftirhermu að borða McDonalds franskar undir fyrirsögninni „Hvað myndi alvöru Stalín segja?” The Wall Street Journal birti ennfremur á dögunum ítarlegt viðtal við nokkrar af eftirhermunum. Þar kemur meðal annars fram að starfið geti oft reynst andlega erfitt þar sem margir Rússar séu bæði sármóðgaðir og öskureiðir þegar þeir sjá upprisna fyrrum leiðtoga Sovétríkjanna í fullum skrúða.
Hvernig sem því líður þá er í það minnsta ekki útlit fyrir að ágreiningur um arfleifð Stalíns verði leystur í bráð. Rússar munu áfram skiptast í fylkingar þegar nafn Stalíns ber á góma og aðgerðir stjórnvalda, hverjar sem þær á endanum verða, munu ekki breyta því.
Höfundur er sagn- og markaðsfræðingur búsettur í Moskvu.