Lögreglan í Bandaríkjunum skaut að minnsta kosti 1.055 manns til bana á síðasta ári og hafa ekki verið fleiri frá því að Washington Post hóf árið 2015 að taka saman tölfræði um fólk sem lögregla skýtur til bana.
Það sem af er þessu ári hefur lögreglan skotið 80 manns til bana. Meðal þeirra er Amir Locke, 22 ára svartur karlmaður, sem var skotinn til bana í heimahúsi í Minneapolis á miðvikudagskvöld. Lögreglan var að rannsaka morð og nýtti sér heimild til að fara inn á heimili án þess að banka. Námsfólk í borginni efndu til mótmæla þar sem þau fordæma morðið og krefjast þess að heimild lögreglu til að fara inn á heimili án þess að banka verði endurkölluð.
FBI vantaldi þau sem lögregla skaut til bana
Árið 2014 skaut lögregla Michael Brown, óvopnaðan svartan mann, til bana. Í umfjöllun sinni um málið komst blaðamaður Washington Post að því að alríkislögreglan (FBI) vantaldi dauðsföll af völdum lögreglu um meira en helming. Skýrist það einna helst af því að lögreglu er valkvætt að greina frá þegar almennir borgarar láta lífið og kjósa fæstar lögreglustöðvar að tilkynna slík dauðsföll.
Fjölmiðillinn ákvað því að taka saman og halda utan um tölfræði yfir fjölda fólks sem lögregla skýtur til bana. Tölur Washington Post byggja aðallega á fréttaflutningi, samfélagsmiðlafærslum og lögregluskýrslum.
Frá því að Washington Post hóf að taka tölfræðina saman hefur lögregla skotið um þúsund manns til bana árlega, alls 7.082. Fæst voru þau árið 2016, 958 talsins en árið 2020 fór talan í fyrsta sinn yfir þúsund.
Svartir 13 prósent þjóðarinnar en nær fjórðungur þeirra sem lögregla skýtur til bana
Meðal þess sem lesa má úr gagnagrunninum er að þrátt fyrir að um helmingur þeirra sem lögregla skýtur til bana eru hvítir eru hlutfall svartra sem láta lífið að völdum lögreglu yfir tvöfalt meira ef miðað er við samsetningu íbúa. 13 prósent Bandaríkjamanna eru svartir en 22,3 prósent þeirra sem lögregla hefur skotið til bana síðustu sjö ár eru svartir. Ef miðað er við óvopnaða sem láta lífið af völdum lögreglu er þriðjungur þeirra svartur.
Langstærstur hluti þeirra sem lögregla skýtur til bana eru karlmenn eða 95 prósent og meira en helmingur þeirra er á aldrinum 20 til 40 ára. Lögregla hefur skotið fólk til bana í öllum ríkjum Bandaríkjanna en eru algengari í fjölmennum borgum. Hæsta dánartíðnin er í Nýju Mexíkó, Alaska og Oklahoma.
Þrátt fyrir að talan hafi aldrei verið jafn há og nú segja sérfræðingar að talan sé innan þeirra marka sem búist var við. Andrew Wheeler, afbrotafræðingur og tölfræðingur, segir gögnin í samræmi við þá staðreynd að litlar breytingar hafi verið gerðar á löggæslu í Bandaríkjunum síðustu ár. „Að minnsta kosti hvað varðar tilfelli þar sem lögreglumenn skjóta fólk til bana,“ segir Wheeler.
Morðið á George Floyd breytti í raun litlu
Dauði George Floayd í lok maí 2020 var dropinn sem fyllti mælinn hjá fjölda fólks í Bandaríkjunum. Eldfimi dropinn sem kveikti neista og gerði milljónir manna bálreiðar. Og vikurnar og mánuðina á eftir loguðu Bandaríkin stranda á milli.
Floyd bjó í Minneapolis, einni þeirra borga þar sem ójöfnuður milli svartra og hvítra íbúa er mikill. Þann 25. maí gekk hann inn í verslun og borgaði fyrir sígarettupakka með peningaseðli sem afgreiðslumanninn grunaði að væri falsaður. Hann hringdi því í lögregluna sem kom skömmu síðar á vettvang. Floyd var handtekinn og einn lögreglumannanna setti hné sitt að hálsi hans. Floyd, liggjandi á jörðinni í handjárnum, sagðist ekki ná andanum en það breytti engu, áfram var hnénu haldið að hálsi hans. Í átta mínútur og 46 sekúndur.
Þar til Floyd hætti að anda.
Derek Chauvin, lögreglumaðurinn sem kraup á hálsi hans, var dæmdur í 22 ára fangelsi. En gögn sýna að dauði Floyd hefur í reun breytt litlu. Að vísu hafa yfir 400 frumvörp verið lögð frá á ríkisþingum sem snúa að valdbeitingu lögreglu. Þá hafa sálfræðingar veitt lögreglumönnum á ákveðnum lögreglustöðum veitt aðstoð sína og ráð um hvernig ber að nálgast fólk sem glímir við andleg veikindi. Það virðist ekki hafa skilað sér, að minnsta kosti ekki enn sem komið er.
Wheeler segir að þó dauðsföllum af völdum lögreglu fari fjölgandi milli ára þurfi að fara varlega í að draga ályktanir út frá tölunum. Franklin Zimring, lagaprófessor og afbrotafræðingur við Berkely háskólann í Kaliforníu, tekur í sama streng og bendir á að prósentuaukningin milli ára, þrjú prósent, sé lítil.
„Góðu fréttirnar eru þær að hlutirnir eru ekki að versna mjög mikið. En slæmu fréttirnar eru að þeir eru heldur ekki að verða betri,“ segir Zimring.