„Allir vinna“ … en aðallega byggingarverktakar og tekjuhæstu Íslendingarnir
Byggingafyrirtæki fengu rúmlega þriðjung allra endurgreiðslna vegna „Allir vinna“. Alls fóru 4,1 milljarður króna af endurgreiðslum til einstaklinga og húsfélaga til þeirra tíu prósent landsmanna sem voru með mesta tekjur. Það er rúmlega helmingur allra endurgreiðslna til einstaklinga og húsfélaga.
Íslenska ríkið greiddi alls 15 milljarða króna í endurgreiðslur vegna „Allir vinna“-átakið á árunum 2020 og 2021. Þar sem umsóknarfrestur fyrir endurgreiðslur er sex ár, og tölurnar miða við stöðu afgreiddra umsókna 15. febrúar síðastliðinn, býst fjármála- og efnahagsráðuneytið við því að endurgreiðslufjárhæðin muni hækka og áætlar að sú hækkun geti numið alls um þremur milljörðum króna. Að teknu tilliti til þess er áætlaður þegar tilfallinn heildarkostnaður vegna átaksins 18 milljarðar króna. Þá er ótalið að úrræðið var framlengt við fjárlagavinnu síðasta árs og er enn í gildi. Kostnaður ríkissjóðs vegna þess á því enn eftir að aukast.
„Allir vinna“ átakið felur í sér endurgreiðslu á 100 prósent af virðisaukaskatti vegna ýmiss konar iðnaðarvinnu, aðallega vegna nýbyggingar og viðhald húsnæðis en meginþorri endurgreiðsluupphæðarinnar fellur undir þann flokk. Átakið var hluti af efnahagsaðgerðarpakka sem ríkisstjórnin kynnti í upphafi kórónuveirufaraldursins og felur í sér að endurgreiðslur voru hækkaðar úr 60 í 100 prósent í sumum tilvikum og í öðrum voru þær látnar ná yfir þjónustu sem það náði ekki yfir áður.
Samkvæmt svari fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn þingmanns Samfylkingarinnar um „Allir vinna“ fór stærstur hluti endurgreiðslnanna vegna átaksins á árunum 2020 og 2021 til byggingafyrirtækja, eða 5,6 milljarðar króna. Það er rúmlega þriðjungur allra þegar útgreiddra endurgreiðslna.
Ráðuneytið vildi úrræðið burt og sagði það þensluhvetjandi
Til stóð að lækka þessar endurgreiðslur úr 100 í 60 prósent samkvæmt fjárlagafrumvarpi ársins 2022. Samtök iðnaðarins, sem gæta meðal annars hagsmuna byggingafyrirtækja, lögðust gegn þessari lækkun og fóru fram á að átakið yrði framlengt í eitt ár til að takast á við það sem þau kölluðu slaka í byggingariðnaði, þrátt fyrir að tæplega þúsund fleiri hafi starfaði í geiranum í fyrrahaust en fyrir kórónuveirufaraldur.
Við þinglega meðferð málsins skilaði skattaskrifstofa fjármála- og efnahagsráðuneytisins af sér minnisblaði þar sem hún mælti með því að fallið yrði að öllu leyti frá 100 prósent endurgreiðslu á virðisaukaskatti. Meðal annars var vísað til þess að um væri að ræða innspýtingu fjármagns í þegar þanið hagkerfi – en hagspár bæði Seðlabanka og Hagstofunnar gera ráð fyrir því að framleiðsluspenna myndist í þjóðarbúinu á þessu ári.
Auk þess benti fjármálaráðuneytið á að búist væri við vexti í íbúðafjárfestingu. „Þessar spár benda ekki til að þörf sé fyrir sérstakan skattahvata í byggingarstarfsemi. Varðandi endurbætur og viðhald íbúðarhúsnæðis þá bendir fátt til verkefnaskorts. Sú hæfni sem þarf til þeirra verkefna nýtist einnig við byggingu nýs íbúðarhúsnæðis. [...] Auk þess bendir margt til þess að umframeftirspurn sé eftir iðnaðarmönnum og myndi áframhaldandi skattahvati fremur viðhalda því ójafnvægi en draga úr því.“
Efnahags- og viðskiptanefnd, undir formennsku Guðrúnar Hafsteinsdóttur úr Sjálfstæðisflokki, sem er fyrrverandi formaður Samtaka iðnaðarins, ákvað hins vegar að mælast til þess að úrræðið fyrir starfsemi tengdri byggingarframkvæmdum og viðhaldi húsnæðis yrði framlengt að fullu út ágúst í ári og frá 1. september muni endurgreiðslan miðast við 60 prósent af því sem ætti annars að fara til ríkissjóðs sem virðisaukaskattur.
Það var samþykkt.
Óskaði eftir sundurliðun
Kristrún Frostadóttir, þingmaður Samfylkingar, sem gagnrýndi ráðstöfunina og skort á röksemdafærslu fyrir framlengingu úrræðisins harðlega í minnihlutaáliti sínu úr fjárlaganefnd, beindi í janúar fyrirspurn til fjármála- og efnahagsráðherra og óskaði eftir upplýsingum um hvernig endurgreiðslur vegna „Allir vinna“ skiptust eftir sveitarfélögum, lögaðilum, einstaklingum og tekjutíundum.
Svar barst í gær, rúmum fjórum mánuðum eftir að fyrirspurnin var lögð fram. Þar kemur fram að heildarkostnaður vegna endurgreiðslu á árunum 2020 og 2021, og fram til 15. febrúar 2022, var rúmlega 15 milljarðar króna. Þar af fóru 4,5 milljarðar króna til einstaklinga, 2,7 milljarðar króna til húsfélaga, leigufélaga eða félagasamtaka, 1,9 milljarðar króna til sveitarfélaga og 298 milljónir króna til almannaheillafélaga. Stærsta upphæðin, alls 5,6 milljarðar króna, fór hins vegar, líkt og áður sagði, til byggingafyrirtækja.
Búist er við því að þrír milljarðar króna bætist við í endurgreiðslur vegna tímabilsins þar sem hægt er að sækja um þær í allt að sex ár eftir að verkið er unnið. Auk þess er átakið enn í fullu gildi og því mun heildartalan vegna endurgreiðslna hækka umtalsvert til viðbótar.
Rúmur helmingur af greiðslum til einstaklinga til efstu tekjutíundar
Kristrún óskaði einnig eftir því að endurgreiðslur til einstaklinga sem nýttu sér úrræðið yrðu sundurliðaðar eftir tekjutíundunum.
Samkvæmt svari ráðuneytisins voru endurgreiðslur vegna íbúðarhúsnæðis í mörgum tilfellum ekki greiddar beint til einstaklinga heldur til húsfélaga. „Gögn um þá einstaklinga sem eiga aðild að húsfélögum sem fá slíka endurgreiðslu eru ekki í gagnagrunni Skattsins um endurgreiðslurnar. Af þeim sökum gefur tekjutíundadreifingin aðeins mynd af dreifingu þeirra endurgreiðslna sem einstaklingar sóttu sjálfir um. Hún nær ekki til endurgreiðslna sem nýttust einstaklingum vegna íbúðarhúsnæðis í eigu þeirra í þeim tilvikum þegar húsfélög standa fyrir viðkomandi framkvæmdum í fjölbýlishúsum. Samkvæmt gögnum Skattsins námu endurgreiðslur til húsfélaga vegna endurbóta og viðhalds íbúðarhúsnæðis 1.639 millj. kr. árið 2020. Þar sem það samsvarar um tveimur þriðju hlutum af greiðslunum sem heimfærðar eru á einstaklinga er ljóst að dreifing þeirra eftir tekjutíundum sem hér er sett fram gefur að öllum líkindum ekki rétta mynd.“
Í þeirri sundurliðun ráðuneytið birtir um skiptingu milli tekjutíunda segir að greiðslur til einstaklinga og húsfélaga sem eru framtalsskyld hérlendis hafi verið tæplega 7,6 milljarðar króna. Þar af hafi 4,1 milljarður króna farið til efstu tekjutíundar, þeirra 24.026 fjölskyldna sem höfðu hæstu tekjurnar árið 2020. Lægstu heildartekjur þeirra á því ári voru 18,1 milljón króna, eða um 1,5 milljónir króna á mánuði. Það þýðir að tekjuhæstu tíu prósent heimila í landinu fékk um 54 prósent af endurgreiðslunum sem fóru til heimila. Næst tekjuhæsta tíundin fékk 1,4 milljarða króna og sú þriðja tekjuhæsta 829 milljónir króna. Því fengu þær 30 prósent fjölskyldna sem voru með hæstu tekjurnar alls rúmlega 6,3 milljarða króna, eða 83 prósent endurgreiðslna sem runnu til fjölskyldna.
Ekkert mat framkvæmt á áhrifum á innheimtu tekjuskatts
Í fyrirspurn Kristrúnar var einnig kallað eftir upplýsingum um hvort fram hafi farið mat á áhrifum „Allir vinna“ á innheimtu tekjuskatts.
Í svari ráðuneytisins segir að ekkert mat hafi fram fram á þeim áhrifum með kerfisbundnum hætti. „Hliðstætt verkefni, þó með þrengra gildissviði, gilti á árunum 2009–2014 og er líklegt að bæði þá og nú hafi verkefnið haft þau áhrif að auka tekjur ríkisins af tekjuskatti. Það leiðir af því að fyrirkomulagið felur í sér fjárhagslegan hvata sem ætti að auka líkur á því að vinna við slík verk sé talin fram til skatts, auk þess að upplýsingar um einstök verkefni og verksala sem fylgja umsóknum um endurgreiðslu virðisaukaskatts geta almennt komið skattyfirvöldum að gagni við skatteftirlit. Tekjuábatinn er þó óreglulegur og getur komið fram á löngum tíma eftir að sótt er um endurgreiðslu. Nokkuð langan tíma myndi því taka að meta áhrifin með samræmdri aðferðafræði á grundvelli upplýsinga um einstök mál.“
Lestu meira:
-
11. janúar 2023Vatn á myllu kölska
-
10. janúar 2023Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
8. janúar 2023Náttúra og umhverfi í forgang
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sautján ár á milli ráðninga á konu í forstjórastóli hjá skráðu félagi
-
4. janúar 202314 félög lækkuðu í virði en fjöldi einstaklinga sem á hlutabréf þrefaldaðist á þremur árum
-
3. janúar 2023Vont vetrarveður en gæti verið (miklu) verra
-
2. janúar 2023Fréttablaðið hætt að koma inn um lúguna hjá fólki – Lestur hríðfallið og kostnaður aukist
-
2. janúar 2023Seðlabankinn gleymdi að telja séreignarsparnaðinn með í minnisblaði um greiðslubyrði