Fjármagnshöft hafa verið við lýði á Íslandi frá því í nóvember 2008. Sú ríkisstjórn sem nú er við völd hefur haft sérfræðingahópa að störfum við að finna út leiðir til að losa um höftin nánast frá því að hún tók við vorið 2013. Ótrúlega margt hefur verið sagt á þeim tíma og margar leiðir í átt að losun hafta verið ræddar á opinberum vettvangi.
Nú virðist loks sem að það dragi til stórtíðinda í þessari miklu störukeppni sem verið hefur milli stjórnvalda og kröfuhafa föllnu bankanna um hvernig eigi að losa það gríðarlega stóra vandamál sem 2.200 milljarða króna eignir þeirra eru í íslenska hagkerfinu. Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, kynnti í morgun áætlun sína um losun hafta fyrir ríkisstjórn og í næstu viku eru væntanleg fyrstu frumvörpin sem þarf að lögfesta til að sú áætlun geti tekið gildi. Fyrstu skrefin hafa verið stigin.
Um hvað snýst þetta skref í losun hafta?
Viðræður milli framkvæmdahóps um losun hafta og slitastjórna Glitnis, Kaupþings og Landsbankans hófust með formlegum hætti í fyrrahaust. Á fyrstu fundunum voru engin skilyrði lögð fram heldur var farið almennt yfir stöðuna, greiðslujöfnuð íslenska hagkerfisins og framlagðar tillögur um nauðsamninga sem þrotabú Kaupþings og Glitnis hafa lagt fram.
Slitastjórnir þeirra beggja sóttu nefnilega báðar um undanþáguheimild frá fjármagnshöftum síðla árs 2012 til að ljúka nauðasamningum sínum. Seðlabankinn gaf það þó fljótlega út opinberlega að ekki væru forsendur til að ljúka nauðasamningum með þeim hætti sem undanþágubeiðnirnar lögðu málið upp. Áhrif nauðasamninganna á greiðslujöfnuð Íslands, og að þau yrðu ekki neikvæð, þyrftu fyrst að liggja fyrir.
Heimildir Kjarnans herma að þau skilyrði hafi verið lögð fyrir þær á undanförnum vikum í viðræðum milli framkvæmdahópsins og fulltrúa slitastjórnanna. Mikil leynd er yfir þeim viðræðum og allir sem að þeim koma voru látnir undirrita trúnaðareið.
Losun hafta og slit búa föllnu bankanna er stærsta mál sitjandi ríkisstjórnar. Gríðarlega mikilvægt er að vel takist til og því hafa þau skref sem stigin eru nú verið undirbúin mjög vel.
Það sem er vitað um áætlun ríkisstjórnarinnar um losun hafta er að slitabúunum verði gefnar nokkrar vikur til þess að ganga frá nauðasamningum sínum sem uppfylli skilyrði áætlunarinnar um að ógna ekki greiðslujöfnuði Íslands til lengri tíma. Það þýðir á mannamáli að þau þurfa að gefa eftir umtalsvert af innlendum eignum sínum.
Í DV í morgun kom fram að sú upphæð nemi um 500 milljörðum krona. Takist ekki að semja á þeim tíma sem gefin er verður stöðugleikaskattur, sem DV segir að verði 40 prósent, lagður á eignir búanna. Athygli vekur að álagning stöðugleikaskattsins er þar með orðin skilyrt, er nokkurs konar hótun, en ekki lagður beint á búin eins og oft hefur verið ýjað að.
Af hverju hefur þetta tekið svona langan tíma?
Það er ekki einfalt mál að leysa þær fordæmalausu aðstæður sem Ísland stóð frammi fyrir þegar höft voru sett á. Hagkerfið var troðfullt af íslenskum krónum í eigu erlendra aðila sem vildu skipta þeim í gjaldeyri og færa eign sína annað. Ísland átti ekki, og á ekki, nægjanlega mikinn gjaldeyri til að skipta þessum krónueignum í aðra gjaldmiðla. Bæði innri aðstæður (t.d. stöðugleiki, vöxtur og lág verðbólga) og ytri skilyrði (minnkandi líkur á að fjármagn þrýsti sér út úr íslenska kerfinu í fjárfestingar annarsstaðar) þurftu að verða réttar til að hægt væri að stíga alvöru skref. Þær aðstæður eru nú fyrir hendi.
Önnur ástæða þess að það hefur tekið svona langan tíma að leggja fram skilyrðin fyrir samþykkt nauðasamnings er sú að í framkvæmdahóp um losun hafta voru lengi vel ráðandi tveir skólar um hvernig ætti að ljúka skiptum búanna. Annar, hin svokallaða gjaldþrotaleið, gekk út á að knýja slitabúin í þrot og að dótturfélag Seðlabanka Íslands eða skiptastjóri yrði látinn taka yfir eignir þeirra og þær síðan seldar til nýrra eigenda. Afrakstrinum yrði síðan skipt á milli kröfuhafa og þeir myndu þannig fá allt sitt greitt í íslenskum krónum. Tveir þeirra sem sátu í framkvæmdarhópnum, lögmaðurinn Eiríkur Svavarsson og Freyr Hermannsson, forstöðumaður fjárstýringar Seðlabanka Íslands, voru sagðir fylgjandi gjaldþrotaleiðinni.
Í skýrslu sem hagfræðingarnir Ásgeir Jónsson og Hersir Sigurgeirsson unnu fyrir slitabú Glitnis, og var birt í síðasta mánuði, kom fram að gjaldþrotaleiðin svokallaða hafi verið dæmd úr leik með dómi Hæstaréttar hinn 10. nóvember 2014 í máli Kaupþings hf. gegn Aresbank S.A.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra var einnig hrifinn af leiðinni. Í viðtali við Fréttablaðið fyrir síðustu kosningar sagði hann meðal annars: „Eins og lögin eru núna í stakk búin á að greiða úr þrotabúum íslenskra fyrirtækja í íslenskum krónum. Seðlabankinn gæti því í raun innkallað gjaldeyrinn, í krafti gjaldeyrishaftanna, og greitt út í íslenskum krónum sem menn sætu þá fastir með hér.“
Í skýrslu sem hagfræðingarnir Ásgeir Jónsson og Hersir Sigurgeirsson unnu fyrir slitabú Glitnis, og var birt í síðasta mánuði, kom fram að þessi leið hafi verið dæmd úr leik með dómi Hæstaréttar hinn 10. nóvember 2014 í máli Kaupþings hf. gegn Aresbank S.A. „Þar kom skýrt fram að þó að allar kröfur íslenskra þrotabúa væru reiknaðar í lögeyri landsins stæðu engar skyldur til þess að greiða þessar sömu kröfur út í krónum. Með því að ganga inn þessa blindgötu virðist haftaafnámsvinna stjórnvalda hafa tafist um rúmlega ár,“ segir í skýrslunni.
Bæði Freyr og Eiríkur hafa yfirgefið framkvæmdahóp um losun hafta á þessu ári. Hópurinn samanstendur nú af Glenn V. Kim, sem er formaður hans, Benedikt Gíslasyni og Sigurði Hannessyni, sem báðir eru varaformenn hópsins, Ingibjörgu Guðbjartsdóttur og Jóni Þ. Sigurgeirssyni frá Seðlabanka Íslands. Auk þess vinnur Ásgeir Helgi Reykfjörð Gylfason, yfirlögfræðingur MP banka, með hópnum. Auk þess starfa fjölmargir innlendir og erlendir sérfræðingar sem ráðgjafar með honum. Á meðal þeirra er Lee Buccheit, lögmaður hjá Cleary Gottlieb Steen & Hamilton, sem er vel þekktur á Íslandi eftir að hafa leitt síðustu Icesave-viðræðurnar fyrir nokkrum árum. Allir sem sitja í hópnum, og starfa með honum, hafa undirritað trúnaðaryfirlýsingu. Brjóti þeir gegn þeim trúnaði eða misnoti upplýsingarnar með einhverjum hætti gæti það verið talið saknæmt athæfi, og viðkomandi gæti verið ákærður fyrir vikið.
Hvernig ganga viðræður við slitabúin?
Hinn skólinn sem verið hefur til umræðu, og virðist loks hafa orðið ofan á, gengur út á að semja við slitastjórnir föllnu bankanna og kröfuhafa þeirra um að ljúka skiptum á búum sínum án þess að það ógni greiðslujöfnuði. Þetta er í raun það sem slitastjórnirnar hafa kallað eftir undanfarin ár, að fá að semja um slit búanna á grundvelli skilyrða sem fyrir liggja af hendi stjórnvalda.
Í megindráttum virðist sem sú leið sem stjórnvöld eru að fara í losun hafta sé sú sama og Seðlabanki Íslands hefur unnið eftir frá árinu 2011. Henni var einnig ágætlega lýst í greinargerð sem Bjarni Benediktsson lagði fram í mars um framgang áætlunar um losun fjármagnshafta.
Hér má sjá skýringarmynd sem birtist í áætlun Seðlabankans um afnám fjármagnshafta frá árinu 2011. Ekki hafa verið stigin skref ennþá í átt að áfanga II.
Með skrefinu sem verið er að stíga núna er líka verið að leggja upp fyrir slitastjórnirnar og kröfuhafanna hvað gerist ef ekki tekst að semja. Þá ætla stjórnvöld að leggja svokallaðan stöðugleikaskatt á eignir þeirra. Sá skattur að vera, líkt og áður hefur komið fram, 40 prósent.
Til að greiðslujöfnuði verði ekki ógnað þurfa slitabúin þrjú að gefa eftir um 500 milljarða króna af 2.200 milljarða króna heildareignum sínum.
Samkvæmt upplýsingum Kjarnans hafa viðræður við slitabú Landsbankans og Kaupþings gengið ágætlega og vonir eru uppi um að það takist að semja við þau eftir þeim línum sem lagðar verða í frumvarpinu sem Bjarni kynnti í ríkisstjórn í morgun. Tilkynning slitabús Landsbankans í dag, um að það hafi sótt um undanþágu til að greiða 123,5 milljarða króna forgangskröfur í erlendum gjaldeyri, gefur til kynna að það hafi væntingar um hvernig megi leysa úr slitum búsins. Eignir Landsbankans umfram forgangskröfur (1.328 milljarðar króna) eru 252 milljarðar króna. Það er há tala, en ekki nærri því jafn mikil upphæð og er eftir í búum Kaupþings og Glitnis eftir að þau greiddu sínar forgangskröfur.
Staða Kaupþings er töluvert önnur en Glitnis. Kaupþing átti um 800 milljarða króna í eignum um síðustu áramót. Þar af voru 158 milljarðar króna í íslenskum krónum og munar þar langmest um 87 prósent eignarhlut búsins í Arion banka. Hann er talin vera um 140 milljarða króna virði. Afgangurinn eru innstæður í reiðufé sem búið hefur hvort sem er reiknað með að fari í að greiða íslenska ríkinu bankaskatt. Ef Kaupþingi tekst að losna við Arion banka ætti ekkert að koma í veg fyrir að nauðasamningur búsins yrði kláraður, enda fylgja erlendu eignunum ekkert útflæði sem gæti ógnað greiðslujöfnuði.
Ef ekki tekst að ná niðurstöðu í viðræðum við Glitni er viðbúið að stöðugleikaskattur verði lagður á bú bankans. Kröfuhafar hans munu ekki taka honum þegjandi og hljóðalaust enda líta þeir á slíkan skatt sem eignaupptöku, sem sé andstæð stjórnarskrá.
Eignir Glitnis voru metnar á 979 milljarða króna í lok mars síðastliðins. Þar af voru 323 milljarðar króna í íslenskum krónum og munar þar mestu um 95 prósent hlut í Íslandsbanka sem er verðmetinn á í kringum 150 milljarða króna. Glitnir á því, með öðrum orðum, miklu meira af krónueignum en hin búin og er tregari til að gefa þær eftir. Því var viðbúið að viðræður við Glitni myndu ganga erfiðar en við hin stóru búin tvö.
Ef ekki tekst að ná niðurstöðu í viðræðum við Glitni er viðbúið að stöðugleikaskattur verði lagður á bú bankans. Kröfuhafar hans munu ekki taka honum þegjandi og hljóðalaust enda líta þeir á slíkan skatt sem eignaupptöku, sem sé andstæð stjórnarskrá. Viðbúið er því að þeir muni leita leiða fyrir dómstólum, bæði innanlands og erlendis, til að komast hjá því að greiða skattinn. Slík staða gæti tafið skref í átt að losun hafta um ófyrirsjáanlegan tíma.
Hvað verður um Arion banka og Íslandsbanka?
Í DV í morgun var greint frá því að því að áætlunin miði ekki að því að íslenska ríkið sé að fara að eignast hluti Glitnis og Kaupþings í Íslandsbanka og Arion banka. Þar sem þeir hlutir eru langstærstu krónueignir búanna tveggja vakna upp spurningar um hvernig það vandamál verði leyst.
Í raun eru ekki margir valkostir í stöðunni. Hægt væri að selja eignarhlutina í bönkunum fyrir erlendan gjaldeyri. Glitnir hefur raunar unnið að þeirri lausn lengi. Kjarninn greindi frá því í febrúar að nokkrir hópar væru áhugasamir um að kaupa Íslandsbanka og að viðræður stæðu yfir við þá.
Kjarninn greindi frá því í febrúar að nokkrir hópar væru áhugasamir um að kaupa Íslandsbanka og að viðræður stæðu yfir við þá.
Þeir sem hafa sýnt mestan áhuga koma annars vegar frá löndunum við Persaflóa í Mið-Austurlöndum og hins vegar frá Kína. Samkvæmt heimildum Kjarnans er um að ræða risastór fyrirtæki. Hluti þeirra sem hafa áhuga rituðu undir viljayfirlýsingu um kaupin í febrúar. Þessi áform voru kynnt fyrir ráðgjöfum stjórnvalda á fundi með þeim í desember 2014. Kaupin eru hins vegar alltaf bundin því að íslensk stjórnvöld myndu blessa þau. Auk þess þyrfti að semja um hvers kyns hömlur yrðu settar á arðgreiðslur bankanna til erlendra eigenda á meðan að fjármagnshöft eru við lýði. Þá þarf að taka pólitíska afstöðu til þess hvort vilji sé til að selja íslenskan banka til erlendra fjárfesta.
Slitastjórn Kaupþings hefur líka unnið að því að losa um 87 prósent eignarhlut sinn í Arion banka, enda er sá hlutur uppistaðan í innlendum eignum þrotabús Kaupþings. Samkvæmt heimildum Kjarnans lagði slitastjórnin margvíslegar tillögur um lausn á „Arion-vandamálinu“ fyrir ráðgjafa stjórnvalda á fundi sem haldinn var með þeim 9. desember 2014.
Ef íslensk stjórnvöld vilja ekki að erlendir aðilar kaupi íslenska viðskiptabanka þá eru nokkrir möguleikar í stöðunni. Það væri til dæmis hægt að skrá þá á markað á Íslandi með því skilyrði að greiða þyrfti fyrir hlutaféð með gjaldeyri til að koma í veg fyrir neikvætt útflæði. Það væri líka hægt að skrá þá á markað í öðrum löndum, til dæmis í Svíþjóð eða Noregi. Sá möguleiki hefur verið skoðaður nokkuð gaumgæfilega. Fjórði möguleikinn væri sá að kröfuhafar þrotabúanna myndu einfaldlega eiga bankanna áfram í eignarhaldsfélagi. Þeir gætu þá selt eignarhlutina, mynu þeir kjósa svo, með tíð og tíma. Þá þyrfti þeir væntanlega að mæta ströngum skilyrðum til að komast burt með það fé sem slík sala myndi skila.
Í hvað fara peningarnir?
Ef lausnin gagnvart slitabúum föllnu bankanna á að skila 500 milljörðum króna þá vaknar eðlilega sú spurning hvað eigi að gera við það fé. Ljóst er að Seðlabankinn vill alls ekki að það fari í umferð, enda vandinn sem við glímum við núna, allt of margar krónur í eigu útlendinga inni í íslensku hagkerfi, tilkominn vegna peningaprentunar sem fjórfaldaði peningamagn í umferð á árunum fyrir hrun. Vilji er til að nota hluta af þessum peningum til að greiða niður skuldir ríkissjóðs, meðal annars við Seðlabankann, eða til að kaupa aftur ríkisskuldabréf sem gefin hafa verið út. Már Guðmundsson seðlabankastjóri hefur hins vegar talað um þessa peninga sem „mengun“ sem þurfi að eyða. Því er ekki loku fyrir það skotið að einhverjum peningum verði einfaldlega eytt út úr kerfinu. Þ.e. peningamagn í umferð verði einfaldlega minnkað.
Það er að minnsta kosti yfirlýst stefna stjórnvalda að nota þessa peninga ekki til framkvæmda eða til að auka útgjöld. Það myndi bæði valda því að litið yrði á lausnina sem eignaupptöku og valda aukinni verðbólgu. Með öðrum orðum þýðir það að peningunum verður ekki eytt í að byggja t.d. nýjan Landsspítala eða til að ráðast í aðrar stórframkvæmdir á vegum ríkisins.
Er pólitískt samstaða um þessa leið?
Til þess að hægt verði að samþykkja þau frumvörp sem Bjarni Benediktsson mun leggja fram í næstu viku verða ríkisstjórnarflokkarnir að semja við stjórnarandstöðuna um framgang þeirra. Þótt vænta megi þess að ekki verði mótstaða við að haftafrumvörpin fái að fara í gegnum fyrstu umræðu og í nefnd þá er ljóst að önnur deilumál, sérstaklega varðandi breytingar á rammaáætlun og makrílfrumvarpið, muni lita þær viðræður.
Stjórnarandstaðan mun vilja fá fullvissu um að ef hún hleypir haftafrumvörpunum í gegn muni það ekki leiða til þess að deilur um ofangreind frumvörp hefjist í kjölfarið strax að nýju heldur verði afgreiðslu þeirra frestað fram yfir yfirstandandi þing.