Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri í Kópavogi, segir að „gríðarleg óvissa“ skapist ef ekki sé hægt að reiða sig á upplýsingar úr þinglýsingabók, þegar kemur að eignarhaldi á landi. Eignarnám bæjarins í landi Vatnsenda hafi byggt á þinglýsingabók og heimildum frá opinberum stofnunum og ráðherra.
Þetta kemur fram í svari Ármanns við fyrirspurn Kjarnans um málefni sem tengjast landi Vatnsenda, en Hæstiréttur hefur nú staðfest að Þorsteinn Hjaltested var ekki réttmætur eigandi Vatnsenda þegar bærinn greiddi milljarða til hans í eignarnámsbætur, vegna uppbyggingar bæjarins á landi Vatnsenda, heldur fimmtán erfingjar dánarsbús Sigurðar K. Hjaltested. Erfingjarnir telja sig eiga rúmlega tíu milljarða inni hjá Kópavogsbæ þar sem eignarnámsbæturnar hafi verið greiddar til ólögmæts eiganda Vatnsenda, líkt og Hæstiréttur hefur nú staðfest með dómum. Kópavogsbær greiddi Þorsteini rúmlega tvo milljarða króna árið 2007 í eignarnámsbætur, en það er upphæð sem nemur 3,7 milljörðum að núvirði.
Er hætta á frekari fjárútlátum úr sjóðum bæjarins?
Fyrirspurin til Ármanns var eftirfarandi; Telur þú hættu á því að Kópavogsbær muni þurfi að greiða meira en hann hefur þegar gert, vegna uppbyggingar í Vatnsenda, og þeirra deilna sem eru í gangi varðandi eignarhald á jörðinni?
Í svari Ármanns kemur meðal annars fram að bærinn muni krefjast sýknu í þeim dómsmálum sem hluti erfingja í dánarbúið hefur höfðað á hendur bænum. „Hluti erfingja dánarbús Sigurðar K. Hjaltested hefur þegar höfðað dómsmál á hendur Kópavogsbæ með kröfu um að bærinn greiði dánarbúinu bætur vegna þess lands sem tekið var eignarnámi árin 1992 til 2007. Kópavogsbær mun krefjast sýknu af öllum kröfum stefnenda en varnir bæjarins munu koma fram í greinargerð sem lögð verður fyrir héraðsdóm. Rétt er þó að taka fram að eignarnám Kópavogsbæjar fóru í öllum tilfellum fram á grundvelli eignarnámsheimildar frá opinberum stofnunum og ráðherra. Eðli málsins samkvæmt ráðstafaði Kópavogsbær eignarnámsbótum til þinglýsts eiganda Vatnsenda sem jafnframt var ábúandi jarðarinnar,“ segir Ármann í svari sínu. Þá segir hann að aðrir opinberir aðilar sem hafi framkvæmt eignarnám í landi Vatnsenda hafi ráðstafað eignarnámsbótum til ábúenda jarðarinnar á hverjum tíma. „Þeir aðilar eru íslenska ríkið, Reykjavíkurborg og Landsvirkjun. Áréttað er að öll aðilaskipti með mannvirki, land og stærra lausafé eru háð þeirri grundvallarforsendu að aðilar megi treysta á réttmæti upplýsinga úr þinglýsingarbók. Önnur regla myndi leiða til gríðarlegrar óvissu um það kerfi sem gildir um skráningu eignarhalds að umræddum eignum,“ segir í svari Ármanns.
Neita að afhenda lögfræðiálit
Kjarninn óskaði eftir því að fá lögfræðiálit, sem unnin hafa verið fyrir bæinn vegna málsins, afhent. Bærinn neitaði að afhenda gögnin, og vísaði í upplýsingalög. „Hluti af lögerfingjum dánarbús Sigurðar K. Hjaltested hefur þegar stefnt Kópavogsbæ fyrir dóm með kröfu um bætur fyrir eignarnám bæjarins á landi Vatnsenda á árunum 1992-2007. Með vísan til 3. tl. 6. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 afhendir bærinn ekki þau lögfræðiálit sem unnin hafa verið fyrir bæinn og tengjast umræddum réttarágreiningi,“ segir í svari bæjarins.
Ritstjórn Kjarnans hyggst kæra neitunina til úrskurðarnefndar um upplýsingamál, og vísa þar öðru fremur til þess, að upplýsingar er varði mikla fjárhagslega hagsmuni Kópavogsbæjar og íbúa bæjarins, og eftir atvikum annarra opinbera aðila, varði almannahag og því sé eðlilegt að gögnin í dómsmálum sem beinast að bænum vegna eignarnáms í Vatnsenda séu opinber og aðgengileg blaðamönnum.
Samkvæmt tölum Hagstofu Íslands, bjuggu rúmlega 32 þúsund manns í Kópavogi í 1. janúar 2014, eða nærri tíu prósent íbúa Íslands.