Sveitarstjórn Skaftárhrepps hefur auglýst breytingu á aðalskipulagi og deiliskipulag fyrir fyrirhugaða virkjun við Hnútu í Hverfisfljóti. Virkjunin, sem yrði tæplega 10 MW að afli, er mjög umdeild og fékk afar neikvæða umfjöllun í áliti Skipulagsstofnunar síðasta sumar. Telur stofnunin að hún myndi hafa „verulega neikvæð umhverfisáhrif“ og að tilefni hafi verið til að meta áformin í rammaáætlun. Rökin séu m.a. þau að upphaflega hafi hún átt að vera allt að 15 MW en hafi síðar verið útfærð sem 9,3 MW virkjun. „Sú framkvæmd sem hér er til umfjöllunar og forsaga hennar sýna veikleika þess að miða við uppsett afl sem viðmið um það hvaða framkvæmdir skulu teknar fyrir í rammaáætlun,“ sagði í áliti Skipulagsstofnunar á umhverfisáhrifum Hnútuvirkjunar. „Umfang fyrirhugaðrar 9,3 MW virkjunar í Hverfisfljóti er að mestu sambærilegt fyrri áformum um 15 MW virkjun.“
Áform landeiganda í Dalshöfða um virkjun Hverfisfljóts hafa verið uppi í nokkuð langan tíma. Árið 2006 var lögð fram fyrirspurn um matsskyldu 2,5 MW rennslisvirkjunar til Skipulagsstofnunar. Þau áform voru svipuð og nú eru uppi, nema hvað uppsett afl virkjunar var mun minna. Skipulagsstofnun taldi að framkvæmdin ætti ekki að vera háð mati á umhverfisáhrifum. Sú ákvörðun var kærð til umhverfisráðherra sem sneri ákvörðun Skipulagsstofnunar við. Í framhaldinu lagði framkvæmdaraðili fram tillögu að matsáætlun sem Skipulagsstofnun féllst á árið 2008.
Samkvæmt matsáætluninni var áformað að reisa 15 MW virkjun. Þau áform voru þau sömu og nú nema hvað aflsetning var hærri. Eftir að ákvörðun um matsáætlun lá fyrir voru framkvæmdaáform lögð til hliðar og ekki tekin upp fyrr en árið 2016. Ný áform um virkjun eru byggð á gömlum grunni og sú framkvæmd sem nú er áformuð byggir að mestu á eldri hugmyndum frá 2006 og 2008.
Virkjunarsvæðið er fyrirhugað í hinu tæplega 240 ára gamla Eldhrauni sem rann í Skaftáreldum á árunum 1783-1784. Skaftáreldar voru eitt mesta eldgos Íslandssögunnar og þriðja mesta hraun sem runnið hefur á jörðinni frá ísaldarlokum. Um þetta atriði fjallaði Skipulagsstofnun sérstaklega í áliti sínu og var það niðurstaða stofnunarinnar að virkjunin myndi hafa neikvæð áhrif á Skaftáreldahraun sem hefði mikið verndargildi bæði á landsvísu og heimsvísu. Ekki væri hægt að að horfa til stærðar hraunsins og hlutfallslegs rasks þess líkt og gert væri í matsskýrslu og bent var á að um jarðminjar væri að ræða sem nytu sérstakrar verndar í náttúruverndarlögum. Þeim skuli ekki raska nema brýna nauðsyn beri til og að almannahagsmunir séu í húfi. „Skipulagsstofnun telur að ekki hafi verið sýnt fram á brýna nauðsyn fyrir röskun á Skaftáreldahrauni,“ segir svo í álitinu og að í ljósi sérstöðu þess verði að gera kröfu um að sýnt verði fram á það með afdráttarlausari hætti í skipulagsgerð og áður en kemur til leyfisveitinga.
Margra ára gömul hugmynd
Í gildandi aðalskipulagi Skaftárhrepps er gert ráð fyrir allt að 40 MW virkjun í Hverfisfljóti. Í aðalskipulagsbreytingunni sem nú hefur verið auglýst er lagt til að gert verði ráð fyrir 9,3 MW virkjun, að iðnaðarsvæðinu verði hnikað til og legu aðrennslis- og veituganga breytt í samræmi við umhverfismat og grunnhönnun.
Samtímis hefur verið auglýst tillaga að deiliskipulagi vegna virkjunarinnar. Það tekur til allra mannvirkja hennar, bygginga, vega og annarra framkvæmda. Þá tekur það einnig til efnisnáma og efnislosunarsvæða, auk vegtenginga að þessum svæðum. „Markmið deiliskipulagsins er að sýna fyrirhugaðar byggingar auk stíflumannvirkja og lóns,“ segir í auglýsingunni. Stærð deiliskipulagssvæðisins er 84,2 hektarar.
Í greinargerð með tillögu að breyttu aðalskipulagi, sem Landmótun vinnur og er tímasett í mars, segir að þegar aflsetning hinnar fyrirhuguðu virkjunar var sett fram árið 2008, og hún þá áætluð 15 MW, hafi það verið byggt á rennslistölum sem safnað var saman á árunum 1981-2005. „Síðan þá hafa farið fram rennslismælingar ofar í ánni við fyrirhugað stíflustæði árið 2006 og frá desember 2016. Þær mælingar eru nákvæmari með tilliti til virkjaðs rennslis á virkjunarstað og sýna að hagkvæmasta afl er mun minna en áður var talið eða um 9 MW.“ Einnig segir að markmið breytingarinnar sé að auka raforkuöryggi á svæðinu og framleiða rafmagn til sölu á almennum markaði.
Deiliskipulagstillagan er unnin af Landmótun og Mannviti. Hún er einnig tímasett í mars í ár. Í hvorugri tillögunni er fjallað um niðurstöður álits Skipulagsstofnunar frá því í fyrrasumar en minnst á að það liggi fyrir og þess getið í heimildaskrá.
Í athugasemdum Skipulagsstofnunar við skipulagstillögurnar, sem gefnar voru út í lok apríl og birtar eru á heimasíðu Skaftárhrepps, ítrekar stofnunin að um sé að ræða skipulagsákvörðun vegna framkvæmdar sem myndi hafa í för með sér „varanleg og óafturkræf umhverfisáhrif“. Af fundargerðum sveitarstjórnar, umsögnum og athugasemdum stofnana og einstaklinga vegna skipulags- og matslýsingar megi ráða að verkefnið sé umdeilt, einkum í ljósi líklegra umhverfisáhrifa. „Í ljósi þess telur Skipulagsstofnun ástæðu til að sveitarstjórn vísi ákvörðun um virkjun í Hverfisfljóti til endurskoðunar aðalskipulags sveitarfélagsins sem nú stendur yfir, og skoði heildstætt allar mögulegar leiðir til úrbóta á afhendingaröryggi raforku í sveitarfélaginu,“ segir í athugasemdunum. „Í þeirri vinnu taki sveitarstjórn afstöðu til þess hvers konar raforkuframleiðsla verði heimiluð í sveitarfélaginu og hvaða tækifæri skapast til atvinnuuppbyggingar með orkuframleiðslu og tryggara afhendingaröryggis.“
Þá ítrekar stofnunin ennfremur að hún telji að ekki hafi verið sýnt fram á að brýnir almannahagsmunir séu til staðar fyrir röskun Skaftáreldahrauns og að forsenda fyrir leyfisveitingum sé að við skipulagsgerð verði sýnt fram á slíka hagsmuni með skýrum hætti. Jafnframt telur stofnunin að þörf sé á að við skipulagsgerðina verði skoðað hvort það rask á hrauninu sem framkvæmdinni fylgi sé ásættanlegt. Stofnunin gerir fleiri athugasemdir við tillögurnar en bendir að lokum á að ekki sé gerð athugasemd við að aðalskipulagstillagan verði auglýst, þegar brugðist hafi verið við athugasemdum og ábendingum stofnunarinnar. „Að öðrum kosti ber sveitarstjórn að birta athugasemdir Skipulagsstofnunar með tillögunni á auglýsingatíma.“
Það er gert og því ljóst að sveitarstjórn valdi þann kost í stað þess að bregðast við athugasemdum stofnunarinnar í hinum auglýstu tillögum.
Umdeilt innan sveitarstjórnar
Virkjanaáformin hafa ekki aðeins verið gagnrýnd af íbúum hreppsins og ýmsum hagsmunaaðilum, s.s. í ferðaþjónustu, heldur hafa þau verið umdeild innan sveitarstjórnarinnar. Á fundi stjórnarinnar í maí, þar sem samþykkt var af meirihluta sveitarstjórnarmanna að auglýsa tillögurnar, lét Jóna Björk Jónsdóttir, fulltrúi Z-listans, Sólar í Skaftárhreppi, bóka að flokkurinn tæki undir niðurstöður Skipulagsstofnunar um að framkvæmdin hefði í för með sér varanleg og óafturkræf umhverfisáhrif. „Bent er á að ekki hefur verið sýnt fram á að framkvæmdin sé sú leið sem fara þurfi til að tryggja afhendingaröryggi rafmagns í sveitarfélaginu. Eðlilegt er að sveitarstjórn vísi ákvörðun um virkjun í Hverfisfljóti til endurskoðunar aðalskipulags og þar verði allar leiðir til úrbóta á afhendingaröryggi raforku skoðaðar.“
Frestur til að skila athugasemdum við tillögurnar er til og með 1. júlí. Þeim skal skila skriflega á netfangið bygg@klaustur.is eða á skrifstofu Skaftárhrepps á Kirkjubæjarklaustri.