Danir eru miklir matmenn og þekktir víða um heim fyrir matarást sína. Margir fá vatn í munninn þegar minnst er á purusteik, kjötbollur, hakkbuff með lauk og spæleggi og pylsur. Að ekki sé minnst á smurbrauðið, sem enskumælandi og margir aðrir kalla „danish open sandwich“.
Danskar drykkjarvörur eru sömuleiðis þekktar um víða veröld. Carlsberg og Tuborg bjórinn þekkja flestir. Sama má segja um Gammel Dansk snafsinn og Álaborgar ákavítið, en fyrir kaldhæðni örlaganna eru bæði sá gamli og ákavítið nú framleidd í Noregi. Danir hugga sig við að uppskriftirnar að þessum þekktu veigum séu danskar og rétt að nefna að Danir framleiða eftir sem áður margar gerðir af snafs og ákavíti.
Ekki má svo gleyma bakkelsinu. „Danish pastry“ er víða um lönd eins konar samheiti yfir sætabrauð, einkum vínarbrauð af ýmsu tagi. Danskar smákökur í dósum eru vinsælar meðal ferðamanna, ekki síst asískra, sem leggja leið sína til Danmerkur. Hundruð, eða þúsundir, tonna af þessum smákökum eru auk þess árlega fluttar til Kína og seldar í verslunum þar í landi. Fyrir nokkru var greint frá því að kínverskt fyrirtæki hafi fengið dóm fyrir að framleiða eftirlíkingar af dönsku kökunum og þær seldar sem danskur bakstur í Kína.
Bakaríin, brauðið, stórverslanir og bensínstöðvar
Áratugum saman hefur ferð í bakaríið verið fastur liður í lífi danskra fjölskyldna, einkum um helgar. Sunnudagur ætíð annasamasti dagur vikunnar hjá bökurum. Þannig er það reyndar enn, en á undanförnum árum hefur margt breyst.
Matvöruverslanir gerast æ umsvifameiri í köku- og brauðsölu. Sumar þeirra, einkum þær stærstu, eru með eigin bakarí en margar selja svonefnt „bakeoff“. Það er frosin hálfbökuð vara, iðulega innflutt, sem svo er skellt í ofninn og baksturinn kláraður. Margar bensínstöðvar bjóða líka samskonar bakstur. Bakarar, sem vinna allt frá grunni, eiga í harðri samkeppni við „bakeoff“ kruðeríið og á undanförnum árum hefur dönskum bakaríum fækkað. Flest voru þau árið 2005 um 1200 talsins en fækkaði næstu árin. Þar átti áðurnefnd samkeppni við verslanir og bensínstövar stóran hlut. Fyrir nokkrum árum virtist ástandið þó vera að breytast, þeim sem vildu kaupa baksturinn hjá „bakaranum á horninu“ fjölgaði. En þá mætti annar vandi bökurum, hann var sá að æ færri lögðu bakaranámið fyrir sig. Margir bakarar stóðu frammi fyrir því að geta ekki fengið fagfólk til starfa. Á síðasta ári útskrifuðust 153 bakarar en það hrekkur ekki til, margir í bakarastéttinni eru orðnir nokkuð við aldur og fyrirséð að á næstu árum fjölgi þeim sem fari á eftirlaun. Á þessu ári hafa þó aðrir og meiri erfiðleikar mætt dönskum bökurum.
Orku- og hráefniskostnaður setur strik í reikninginn
Innrásin í Úkraínu og átökin þar hafa haft miklar afleiðingar, sem danskir bakarar hafa ekki farið varhluta af. Verð á hveiti og kornvöru hefur hækkað verulega, smjör hefur sömuleiðis meira en tvöfaldast í verði að undanförnu. Verðhækkunin á smjöri hefur valdið mikilli óánægju meðal Dana og danska Samkeppniseftirlitið fer þessa dagana í saumana á „smjörmálinu“ eins og það er kallað. Og orkuverðshækkanir verða sömuleiðis skoðaðar
Fækkar um eitt á viku og bakarar uggandi
Í byrjun þessa árs voru um það bil 750 bakarí í Danmörku. Eftir innrásina í Úkraínu hefur þeim fækkað og um þessar mundir fækkar þeim um eitt í viku hverri. Bakarar óttast að þeim sem gefast upp og skelli í lás muni fjölga til muna á næstunni. Henrik Mühlendorph framkvæmdastjóri samtaka danskra bakara- og kökugerðarmeistara, BKD, sagði í viðtali við viðskiptavefritið Finans að samtökunum bærust sífellt fleiri tilkynningar frá bökurum um að reksturinn væri að fara í þrot. „Þeim fjölgar sífellt sem sjá enga lausn aðra en að loka“.