Baldvin Þorsteinsson, sonur Þorsteins Más Baldvinssonar, hefur keypt hollenska félagið Öldu Seafood af Samherja Holding. Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag. Þar er haft eftir Þorsteini Má að ástæðan fyrir sölunni séu kynslóðaskipti sem átt hafi sér stað innan Samherja, og að salan á Öldu sé eðlilegt framhald af því. „Við teljum að félagið sé vel komið í hans höndum og þeirra stjórnenda sem hafa starfað þar.“
Alda Seafood heldur utan um erlenda starfsemi Samherjasamstæðunnar, fyrirtæki á sviði veiða, vinnslu og sölu sjávarafurða í Evrópu og Norður-Ameríku. Fjárfestingafélagið Sæból tilheyrir líka Öldu. Það félag á tvö dótturfélög, Esju Shipping Ltd. og Esju Seafood Ltd. sem bæði eru með heimilisfesti á Kýpur. Þau félög héldu meðal annars utan um veiðar Samherja í Namibíu, þar sem samstæðan og stjórnendur hennar eru nú grunaðir um að hafa greitt mútur til að komast yfir ódýran kvóta.
Auk þess á Sæból þrjú dótturfélög í Færeyjum, þar á meðal Spf Tindhólm.
Alda Seafood er því risastórt félag. Bókfært virði þess í lok síðasta árs var 361 milljón evrur, eða tæplega 55 milljarðar króna á gengi dagsins í dag. Í frétt Morgunblaðsins er ekki greint frá því á hvaða verði Baldvin keypti Öldu Seafood né hvernig kaupin voru fjármögnuð.
Með sölunni á Öldu hefur sjávarútvegshluta Samherjasamstæðunnar að mestu verið komið til barna stofnenda fyrirtækisins. Og nær allar eignir Samherji Holding, félagsins sem er til rannsóknar í Namibíu og á Íslandi vegna gruns um mútugreiðslur, peningaþvætti og skattasniðgöngu, hafa verið færðar annað.
Miklar tilfærslur á síðustu árum
Á árinu 2018 gerðist það að Samherja var skipt upp í tvö fyrirtæki. Það var samþykkt 11. maí 2018 á hluthafafundi og skiptingin látin miða við 30. september 2017.
Eftir það var þorri innlendrar starfsemi Samherja og starfsemi fyrirtækisins í Færeyjum undir hatti Samherja hf. en önnur erlend starfsemi og hluti af fjárfestingarstarfsemi á Íslandi í félaginu Samherji Holding ehf. Stærsta eign síðarnefnda félagsins var dótturfélagið Alda Seafood, sem nú hefur verið seld til Baldvins Þorsteinssonar sem leitt hefur þá starfsemi undanfarin ár.
Þetta er enn eitt skrefið sem stigið hefur verið í átt að því að færa eignarhald á Samherjasamstæðunni til barna stofnenda fyrirtækisins, frændanna Þorsteins Más og Kristjáns.
Saman áttu þessi tvö félög, Samherji hf. og Samherji Holding, eigið fé upp á um 160 milljarða króna um síðustu áramót. Þorsteinn Már er forstjóri bæði Samherja hf. og Samherja Holding.
Tilkynnt var um það um miðjan maí 2020 að þeir, ásamt Helgu, væru að færa stóran hluta af eignarhaldi á Samherja hf., sem heldur utan um innlendu starfsemina, til barna sinna. Stærsti eigandi þess félags er K&B ehf. Baldvin á 49 prósent hlut í K&B ehf. en Katla systir hans 48,9 prósent. Faðir þeirra á svo 2,1 prósent hlut.
Halldór Örn, Kristján Bjarni og Katrín Kristjánsbörn, eiga samanlagt með um 41,5 prósent hlutafjár í Samherja en ekkert þeirra meira en 8,5 prósent hlut hvert. Þar á eftir kemur félagið Bliki ehf. með 11,9 prósent hlut, sem er líka í eigu Samherjafjölskyldunnar.
Framsal hlutabréfa foreldranna í Samherja hf. til barnanna fór annars vegar þannig fram að um fyrirframgreiddan arf var að ræða, og hins vegar um sölu milli félaga að ræða.
Ráðuneytið lét saksóknara vita
Baldvin, sem á nú eignir sem metnar eru á tugi milljarða króna, er með lögheimili í Hollandi, þar sem hann býr og leiðir alþjóðlega starfsemi Samherja. Þar af leiðandi er hann skilgreindur sem erlendur samkvæmt íslenskum lögum og því ber að tilkynna hana til stjórnvalda. Kjarninn greindi frá því sumarið 2020 að fjárfesting K&B ehf. í Samherja hafi verið tilkynnt til atvinnuvegaráðuneytisins átta dögum áður en að Kveikur, Stundin, Wikileaks og Al Jazeera opinberuðu margra mánaða rannsóknarvinnu sem sýndi fram á meintar mútugreiðslur, peningaþvætti og skattasniðgöngu Samherjasamstæðunnar í tengslum við veiðar hennar í Namibíu.
Í skjali um samskiptin kom fram að ástæða þess að haft var samband við við héraðssaksóknara var að ráðuneytinu væri „kunnugt um að það félag sem tilkynningin viðkemur og aðaleigandi þess og forstjóri eru til rannsóknar hjá embætti héraðssaksóknara.“
Í tilkynningu Samherja um að stofnendur fyrirtækisins væru að láta eignarhluti renna til barna sinna kom fram að stjórn Samherja hefði fyrst verið tilkynnt um áformin sumarið 2019.
Fyrirtækið hefur hafnað því að tengsl væru á milli þess að tilkynnt væri um eigendabreytingarnar og umfjöllunar um athæfi Samherja í Namibíu.
Rannsókn á Íslandi langt komin
Rannsókn héraðssaksóknara á meintum lögbrotum Samherjasamstæðunnar og lykilfólks innan hennar hefur staðið yfir síðan í lok árs 2019. Auk þess er málið í rannsókn og ákærumeðferð í Namibíu. Átta manns hið minnsta hafa fengið réttarstöðu sakbornings við yfirheyrslur hjá embætti héraðssaksóknara vegna málsins. Þeirra á meðal er Þorsteinn Már.
Aðrir sem kallaðir hafa verið inn til yfirheyrslu og fengið stöðu sakbornings við hana eru Ingólfur Pétursson, fyrrverandi fjármálastjóri Samherja í Namibíu, Ingvar Júlíusson, fjármálastjóri Samherja á Kýpur, Arna McClure, yfirlögfræðingur Samherja og ræðismaður Kýpur á Íslandi, Egill Helgi Árnason, framkvæmdastjóri Samherja í Namibíu, Aðalsteinn Helgason, fyrrverandi framkvæmdastjóri Samherja í Namibíu, Jón Óttar Ólafsson, ráðgjafi og fyrrverandi rannsóknarlögreglumaður sem starfað hefur fyrir Samherja árum saman, og uppljóstrarinn Jóhannes Stefánsson.
Hérlendis hófst rannsókn eftir að Kveikur og Stundin opinberuðu að grunur væri á að Samherji hefði greitt mútur, meðal annars til háttsettra stjórnmálamanna, til að komast yfir fiskveiðikvóta í Namibíu og Angóla. Á sama tíma voru birtar upplýsingar sem bentu til þess að Samherji væri mögulega að stunda stórfellda skattasniðgöngu og peningaþvætti.
Í umfjöllun Stundarinnar um rannsóknina í nóvember var haft eftir Ólafi Þór Haukssyni héraðssaksóknara að rannsóknin á Íslandi væri langt komin.
Segjast ekki líða „spillingu af neinu tagi“
Þau brot sem grunur er um að hafi verið framin í Samherjamálinu varða 109. og 264. grein almennra hegningarlaga um mútur. Í fyrrnefndu greininni segir að hver sem gefur, lofar eða býður opinberum starfsmanni, gjöf eða annan ávinning, sem hann á ekki tilkall til, í þágu hans eða annarra, til að fá hann til að gera eitthvað eða láta eitthvað ógert sem tengist opinberum skyldum hans skal sæta fangelsi allt að fimm árum eða sektum ef málsbætur eru fyrir hendi. „Sömu refsingu skal sá sæta sem beinir slíku að erlendum opinberum starfsmanni, erlendum kviðdómanda, erlendum gerðarmanni, manni sem á sæti á erlendu fulltrúaþingi sem hefur stjórnsýslu með höndum, starfsmanni alþjóðastofnunar, manni sem á sæti á þingi slíkrar stofnunar eða á opinberu löggjafarþingi í erlendu ríki, dómara sem á sæti í alþjóðlegum dómstóli eða starfsmanni við slíkan dómstól, í því skyni að fá hann til að gera eitthvað eða láta eitthvað ógert sem tengist opinberum skyldum hans.“
Í 264. grein segir að hver sem tekur við, nýtir eða aflar sér eða öðrum ávinnings af broti á hegningarlögum eða af refsiverðu broti á öðrum lögum, eða umbreytir slíkum ávinningi, flytur hann, sendir, geymir, aðstoðar við afhendingu hans, leynir honum eða upplýsingum um uppruna hans, eðli, staðsetningu eða ráðstöfun ávinnings skuli sæta fangelsi allt að sex árum.
Þá eru einnig til rannsóknar meint brot á ákvæðum kafla XXXVI í almennum hegningarlögum, sem fjalla um auðgunarbrot. Við brotum á ákvæðum þess kafla liggur fangelsisrefsing sem getur verið allt að þrjú til sex ár.
Í nýbirtum ársreikningi Samherja Holding er að finna svokallaða ófjárhagslega upplýsingagjöf, sem er óendurskoðuð. Þar er meðal annars fjallað um viðskiptasiðferði og sagt að hjá Samherja sé mikilvægt að unnið sé af heilindum og „við líðum ekki spillingu af neinu tagi.“
Þar segir að undir spillinum falli „mútugreiðslur, fyrirgreiðslur og ávinningur af sérhverju tagi í skiptum fyrir óeðlileg áhrif á ákvarðanatöku. Þá er peningaþvætti ekki liðið af neinu tagi og er Samherji Holding staðráðið í að fara eftir gildandi lögum gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og munum grípa til viðeigandi ráðstafana til að koma í veg fyrir og koma auga á ólögmætar greiðslur.“