Rétt fyrir klukkan níu að morgni í fyrradag, gekk 21 árs gamall maður, Dylan Storm Roof, inn í Emanuel AME kirkjuna í Charleston og skaut níu til bana. Allir sem létust voru svartir Bandaríkjamenn, og hluti af söfnuði kirkjunnar. Lögreglan hefur þegar ákært manninn fyrir morðin, og á hann mögulega yfir höfði sér dauðarefsingu. Ríkisstjórinn í Suður-Karólínu, Nikki Halley, kallaði eftir því að dauðarefsingu yrði beitt, en morðin voru framin í einni sögufrægustu kirkjunni í Charleston, sem í áratugi var vettvangur dramatískra sigra og ósigra í kynþáttabaráttu í Bandaríkjunum, og miðdepill hrikalegrar meðhöndlunar á svörtum á tímum þrælahaldsins.
Eftir um fjórtán tíma lögregluaðgerð tókst sérsveitarmönnum að handsama Storm Roof, en nær óumdeilt er að hann hafi framið morðin, þar sem þau náðust upp á myndbandsupptöku sem er í kirkjunni.
Kveikjan að morðunum kynþáttahatur?
Barack Obama Bandaríkjaforseti ávarpaði þjóðina í beinni útsendingu flestra sjónvarpsstöðva í Bandaríkjunum í gær, af blaðamannafundi í Hvíta húsinu, og var Joe Biden, varaforseti, með honum á fundinum. Slíkt er gert þegar tilefnin þykja alvarleg, og voru stjórnmálaskýrendur sammála um að með þessu hefði Obama viljað undirstrika hversu mikilvægt það væri, að umræða um kynþáttahyggju í Bandaríkjunum færi ekki úr böndunum. Undanfarna mánuði hafa staðið yfir einhver mestu mótmæli vegna kynþáttafórdóma í garð svartra sem farið hafa fram í Bandaríkjunum undanfarin áratug. Sérstaklega hafa þau verið umfangsmikil í New York, Baltimore og Ferguson, enn þau hafa einnig farið fram í mun fleiri borgum, meðal annars Washington D.C. og Los Angeles. Í þeim tilfellum hefur kveikjan verið lögregluofbeldi hvítra gegn svörtum.
Í þessu andrúmslofti getur kynþáttahatursglæpur verið eins og eldspýta í púðurtunnu, og breytt viðkvæmu ástandi í stórhættulegt.
Í ávarpi sínu beindi Obama kastljósi að tveimur aðskildum hlutum, eftir að hafa vottað aðstandendum hinna látnu samúð. Annars vegar sögulegum bakgrunni kirkna í Charleston, og hvaða mikilvæga hlutverki þær hefðu haft þegar kom að baráttu fyrir réttindum svartra. Í öðru lagi var það síðan byssueign almennings í Bandaríkjunum, og hversu afleitt það væri að brjálæðingar sem væru tilbúnir skaða aðrar manneskjur, gætu auðveldlega komist yfir byssur. „Þetta er ekki að gerast í öðrum þróuðum ríkjum, það sem er að gerast hjá okkur,“ sagði Obama, og sagði að það væri á valdi Bandaríkjamanna að breyta þessu.
Full video: Watch President Obama's statement on the tragic #CharlestonShooting. http://t.co/LkxrbDmWQQ
— The White House (@WhiteHouse) June 18, 2015
Innamein í Bandaríkjunum
Glæpir sem tengdir eru skotvopnum eru gríðarlega umfangsmikið vandamál í Bandaríkjunum, margfalt meira en í öðrum þróuðum ríkjum. Yfir þrettán þúsund einstaklingar deyja árleg vegna skotvopna, og að meðaltali um 3,2 á hverja 100 þúsund íbúa. Flest önnur ríki sem teljast þróuð eru með sama hlutfall innan við 0,5. Aðeins ríki í Suður-Ameríku, þar sem vopnuð átök gengja eru samfélagsleg vandamál víða, eru nærri þessu meðaltali Bandaríkjanna. En ná þeim þó ekki.
Hér má sjá gögn úr skýrslu UNDOC, þar sem fjallað er um byssutengda glæpi.