Alls greiddu fimm fjármálafyrirtæki hinn svokallaða bankaskatt vegna ársins 2021, en hann leggst á slík sem skulda yfir 50 milljarða króna í lok hvers árs. Kerfislega mikilvægu bankarnir þrír: Landsbankinn, Íslandsbanki og Arion banki, greiða þorra hans.
Alls var álagður bankaskattur 5,3 milljarðar króna, sem er 552 milljónum krónum meira en var innheimt í hann vegna ársins 2020. Hann skilaði því 11,5 prósent meiri tekjum.
Þetta kemur fram í tilkynningu vegna álagningu opinberra gjalda á lögaðila vegna rekstrarársins 2021 sem birt var fyrir helgi.
Á milli áranna 2019 og 2020 drógust tekjur vegna bankaskattsins saman um 56,2 prósent, eða um 6,1 milljarð króna. Sú lækkun kom til vegna þess að ríkisstjórnin ákvað að lækka bankaskattinn vorið 2020, úr 0,376 í 0,145 prósent á heildarskuldir greiðenda, og kynnti þá lækkun sem viðbragð við efnahagslegum áhrifum kórónuveirufaraldursins. Vegna þessa kom lækkunin öll til framkvæmda á árinu 2020 í stað þess að verða í skrefum á fjórum árum, líkt og fyrri áætlanir gerðu ráð fyrir.
Hækkun skattsins á ný myndi skila 9,4 milljörðum í viðbót
Í byrjun nóvember greindi Kjarninn frá minnisblaði sem skrifstofa skattamála fjármála- og efnahagsráðuneytisins vann að beiðni efnahags- og viðskiptanefndar og var skilað til hennar 17. október síðastliðinn.
Þar kom fram að ef bankaskatturinn svokallaði yrði hækkaður aftur úr 0,145 í 0,376 prósent af heildarskuldum þeirra banka sem skulda yfir 50 milljarða króna myndi það auka tekjur ríkissjóðs af innheimtu skattsins úr 5,9 í 15,3 milljarða króna á næsta ári. Þar munar 9,4 milljörðum króna.
Þróun vaxtamunar – mismunarins á því sem bankar borga fyrir að fá fjármagn að lán og því sem þeir rukka heimili og fyrirtæki fyrir að lána þeim fjármagn – hefur þó ekki verið þannig síðan að bankaskatturinn var lækkaður. Þvert á móti lækkaði vaxtamunur frá 2016 og fram yfir þann tíma. Í fyrra var hann 2,3 til 2,8 prósent. Á fyrstu níu mánuðum yfirstandandi árs var hann 2,8 til 3,2 prósent. Vaxtamunur íslensku bankanna er miklu meiri en banka af sambærilegri stærð á hinum Norðurlöndunum.
Vegna þessa hafa hreinar vaxtatekjur bankanna aukist gríðarlega á milli ára, og farið úr 77,3 milljörðum króna á fyrstu níu mánuðum ársins 2021 í 94,2 milljarða króna á sama tímabili í ár. Það er aukning upp á 16,9 milljarða króna, eða 22 prósent.
Samhliða því að ákveðið var að lækka bankaskattinn var sveiflujöfnunarauki á eigið fé banka afnumin tímabundið og stýrivextir lækkaðir niður í 0,75 prósent, sem hratt af stað mikilli aukningu á virði eigna sem bankar sýsla með og fjármagna, sérstaklega hlutabréfa og íbúða. Breytinguna má glöggt sjá í uppgjörum bankanna síðan að þetta var ákveðið.
Eftir að hafa tapað samtals 7,2 milljörðum króna á fyrstu þremur mánuðum ársins 2020 enduðu stóru bankarnir þrír með sameiginlegan hagnað upp á 29,8 milljarða króna á öllu því ári. Á árinu 2021 höluðu þeir inn 81,2 milljörðum króna í hagnað, eða 170 prósent meira en árið áður. Samanlagður hagnaður þeirra á fyrstu níu mánuðum yfirstandandi árs var 50,2 milljarðar króna.
Tugir milljarða greiddir út til hluthafa
Stóru bankarnir hafa verið duglegir við að skila þessum aukna hagnaði til hluthafa sinna. Bæði Arion banki og Íslandsbanki, sem báðir eru skráðir á markað, hafa það sem yfirlýst markmið að gera það, í gegnum arðgreiðslur og endurkaup á bréfum.
Arion banki, eini stóri bankinn sem er ekki að neinu leyti í opinberri eigu, hefur verið allra banka duglegastur í þessari vegferð. Alls greiddi bankinn út arð eða keypti eigin bréf af hluthöfum fyrir 31,5 milljarða króna á síðasta ári. Á fyrstu níu mánuðum ársins 2022 hefur Arion banki skilað 28,9 milljörðum króna til hluthafa sinna í gegnum arðgreiðslur og endurkaup á bréfum. Því hefur Arion banki greitt yfir 60 milljarða króna út til hluthafa sinna á tveimur árum. Bankinn hefur þegar boðað áform um að greiða enn meira út til þeirra í fyrirsjáanlegri framtíð þannig að útgreiðslurnar nálgist 90 milljarða króna.
Bankaráð Landsbankans samþykkti á aðalfundi í mars að greiða 14,4 milljarðar króna í arð vegna ársins 2021. Bankaráð samþykkti auk þess fyrr í ár að greiða út sérstaka arðgreiðslu upp á 6,1 milljarð króna. Arðgreiðslur Landsbankans fara nær allar í ríkissjóð.
Lengi verið stefna stjórnarinnar að lækka bankaskatt
Það var búið að vera lengi á stefnuskrá ríkisstjórnar Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks að lækka bankaskattinn sem hafði skilað ríkissjóði miklum tekjum í kjölfar bankahrunsins, fyrst með að leggjast af krafti á þrotabú föllnu bankanna og síðan með því að leggjast á starfandi íslenska viðskiptabanka.
Samtök fjármálafyrirtækja höfðu árum saman kvartað töluvert undan bankaskattinum, sagt að hann dragi úr samkeppnishæfni íslenska bankakerfisins og leiði til verri kjara fyrir almenning.
Frumvarp um að lækka bankaskattinn í skrefum var lagt fram 2018 og samkvæmt því átti það ferli að eiga sér stað milli 2020 og 2023. Í lok þess tímabils átti skatturinn að verða 0,145 prósent.
Í júní 2019 var ákveðið að fresta þessum áformum um eitt ár og að lækkun skattsins myndi hefjast 2021 en yrði komin að öllu leyti til framkvæmda á árinu 2024. Þær breytingar voru gerðar vegna breyttra aðstæðna í íslensku efnahagslífi, aðallega vegna gjaldþrots WOW air og loðnubrests.
Síðla árs 2019 var frumvarp um að lækka bankaskatt í þrepum svo samþykkt. Samkvæmt því átti að lækka skattinn niður í 0,145 prósent í þremur áföngum á árunum 2021 til 2024.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, sagði meðal annars í aðdraganda þess í stöðuuppfærslu á Twitter að skatturinn þyrfti að fara. Það væri grundvallaratriði að íslenskir bankar myndu búa við eðlileg og samkeppnishæf skilyrði til að sinna viðskiptavinum sínum.
Þetta er mikilvægt. Grundvallaratriði er einnig að bankarnir búi við eðlileg, samkeppnishæf skilyrði til að sinna viðskiptavinum sínum. Þessi sérstaki skattur þarf því að fara. https://t.co/U8yrQZ7ayQ
— Bjarni Benediktsson (@Bjarni_Ben) October 30, 2019
Þar hlekkjaði Bjarni í frétt Fréttablaðsins sem birst hafði sama dag þar sem kom fram að ef sérstakur bankaskattur yrði afnumin með öllu myndi söluandvirðið sem ríkissjóður gæti vænst að fá fyrir hlutafé í Íslandsbanka og Landsbanka, yrðu þeir seldir að fullu, hækka um 70 milljarða króna.
Í greinargerð frumvarpsins sagði að með því yrði komið til móts við gagnrýni hagsmunasamtaka fjármálafyrirtækja á fjárhæð bankaskattsins „í því skyni að liðka fyrir lækkun útlánavaxta og hækkun inneignarvaxta til hagsbóta fyrir almenning.“
Í kjölfar kórónuveirufaraldursins var lækkuninni, líkt og áður sagði, svo flýtt og gjaldhlutfallið var fært niður í 0,145 prósent vegna skulda í árslok 2020.