Bankarnir eru nú með 67 prósent af öllum útistandandi lánum til íbúðarkaupa. Þeir hafa stóraukið markaðshlutdeild sína á einu ári, en í lok apríl í fyrra var hlutdeild þeirra af íbúðalánum á Íslandi um 55 prósent.
Þetta kemur fram í nýlegri mánaðarskýrslu hagdeildar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) fyrir júnímánuð.
Þar segir enn fremur að hlutdeild óverðtryggðra lána hafi vaxið hratt eftir því sem vextir á íbúðalánum hafi farið lækkandi. Þá lækkun má rekja til mikillar lækkunar á stýrivöxtum Seðlabanka Íslands, en þeir fóru niður í 0,75 prósent í fyrra eftir að kórónuveirufaraldurinn og höfðu aldrei verið lægri í Íslandssögunni. Fyrir vikið gátu bankar boðið upp á óverðtryggða vexti sem höfðu ekki sést áður hérlendis. Þeir fóru lægst í 3,3 prósent á breytilegum lánum hjá Landsbankanum.
Þetta ástand leiddi til þess að lántakendur flykktust í óverðtryggð lán bankanna, enda mun hagstæðari kostur en aðrir lánamöguleikar á markaðnum. Í lok apríl 2021 var hlutdeild þeirra komin upp í 46 prósent. Til samanburðar var hlutdeild óverðtryggðra íbúðalána 23 prósent, eða helmingi minni, í byrjun árs 2019. Því átti sér stað eðlisbreyting á íbúðalánamarkaði undanfarið ár sem sýndi að íslensk heimili eru mjög hreyfanleg í leit að bestu kjörunum hverju sinni.
Hærri vextir bíta veskið hjá heimilum landsins
Stýrivextir voru hækkaðir í maí um 0,25 prósentustig og upp í eitt prósent. Það leiddi til þess að allir stóru bankarnir þrír: Landsbankinn, Íslandsbanki og Arion banki hækkuðu óverðtryggða vexti í kjölfarið. Þeir lægstu sem í boði eru nú eru 3,45 prósent á breytilegum lánum hjá Landsbankanum.
Frá upphafi kórónuveirufaraldursins hérlendis í mars í fyrra, þegar vextir tóku að hríðarlækka sem leiddu til stóraukinnar lántöku til húsnæðiskaupa, hafa heimili landsins tekið 517 milljarða króna í ný óverðtryggð lán hjá Landsbanka, Íslandsbanka og Arion banka að frádregnum uppgreiðslum og umframgreiðslum.
Það er um 119 milljörðum krónum meira en heimili landsins tóku í óverðtryggð húsnæðislán hjá bönkunum þremur frá byrjun árs 2013 og til loka febrúar 2020, eða á sjö árum og tveimur mánuðum.
Munurinn milli breytilegra og fastra vaxta eykst
Í mánaðarskýrslu HMS er bent á að til viðbótar við það að vextir séu að hækka á breytilegum óverðtryggðum lánum sé munurinn á föstum vöxtum, sem veittir eru á lán sem eru bundin til 3-5 ára, og breytilegum vöxtum, sem breytast mánaðarlega, farin að vaxa. Viðskiptavinir banka séu farnir að borga hærra verð fyrir fyrirsjáanleikann sem felst í föstum vöxtum.
Sá munur er nú að jafnaði um eitt prósentustig en var um hálft prósentustig í fyrravor. Hagdeild HMS telur að þetta aukna álag við að festa vextina í 3-5 ár gefi til kynna að væntingar um vaxtahækkanir á þeim tíma fari vaxandi.