Tvö risastór tæknifyrirtæki eru allsráðandi á kínverskum markaði. Þau eiga allt frá netverslunum, leitarvélum og greiðslukerfum til samskiptasmiðla, afþreyingarveitna og leikjafyrirtækja. Á meðan annað fyrirtækið, Alibaba, undirbýr stærsta frumútboð hlutabréfa í sögu tæknifyrirtækja er hitt, Tencent, í hópi fimm stærstu skráðu tæknifélaga heims. Varin allri erlendri samkeppni hafa félögin tvö orðið að sannkölluðum risum og fjárfest í nær öllum tækninýjungum síðustu 15 ára. Í fjölmennasta ríki heims fjölgar notendum tölva og snjallsíma ört. Allt fellur Alibaba og Tencent í hag, á sama tíma og þau heyja ofsafenginn bardaga sín á milli um hylli almennings.
Alibaba á markað
Í nóvember síðastliðnum, þegar Íslendingar hófu að kaupa jólagjafirnar í tæka tíð, bárust á sjöunda þúsund pakkar til landsins með ýmsum varningi, sérpöntuðum af kínversku netversluninni AliExpress.com. Landsmenn nýttu sér lægra vöruverð á fatnaði, skóm, raftækjum og öðru. Fjöldi sendinga frá Kína til Íslands margfaldaðist milli ára.
Netverslunin er aðeins ein nokkurra í eigu kínverska tæknifyrirtækisins Alibaba. Fyrirtækið er annað tveggja stærstu tæknifyrirtækja landsins, rekur allar mögulegar gerðir netverslana þar sem það ræður yfir 70% markaðarins, leitarvélar, netgreiðslukerfi, sjónvarps- og tölvuleikjavef og býður upp á gagnavistun í skýjunum. Í stuttu máli er Alibaba kínverska útgafan af Amazon, eBay og PayPal. Allt undir einum hatti.
Í síðasta mánuði óskaði Alibaba eftir skráningu á bandarískan hlutabréfamarkað. Fjárfestar á Wall Street iðuðu í skinninu af spennu og helstu fjölmiðlar, einkum þeir sem fylgjast náið með markaði tölva og tækni, greindu frá útboðsgögnum og fyrirætlunum félagsins í smáatriðum. Það hefur lengi reynst bandarískum félögum og fjárfestum erfitt að hasla sér völl á kínverska markaðnum en Alibaba gefur aukin færi til þess.
Það felast því tíðindi í ákvörðun Jack Ma, stofnanda og forstjóra Alibaba, og félaga hans um að skrá Alibaba í kauphöll. Fimmtán árum frá stofnun býr Alibaba til svo mikil verðmæti að stærstu bandarísku netfyrirtækin blikna flest í samanburði. Umsvifin eru lygileg. Samkvæmt útboðsgögnum veltu netverslanir félagsins um 248 milljörðum dollara í fyrra. Það er þrisvar sinnum hærri fjárhæð en velta uppboðssíðunnar eBay og ríflega tvöföld velta Amazon.com. Um 84% af tekjum Alibaba fást af þessari starfsemi. Greiðsluþjónusta er einnig mikilvægur tekjupóstur og veltir um 519 dollurum árlega. Það er yfir tvöfalt meira en hjá PayPal.
Fastlega er búist við að frumútboð hlutabréfa í Alibaba muni slá skráningarmet tæknifyrirtækja, sem Facebook setti í maí 2012. Þá safnaði bandaríski samskiptavefurinn 16 milljörðum dollara, sem er áttunda stærsta hlutafjárútboð sögunnar. Gert er ráð fyrir að útboð Alibaba á 12% hlut verði um 20 milljarða dollara virði. Það gefur markaðsverðmæti upp á um 165 milljarða dollara, meira en verðmæti Facebook, Amazon og eBay. Félagið verður skráð í kauphöll síðar á árinu og hafa sérfræðingar talið markaðsverðmætið geta orðið alls staðar á bilinu 136 til 245 milljarðar dollara.
Jack Ma heldur enn um tæplega 9% hlut í fyrirtækinu sem hann stofnaði. Hann er í dag meðal tíu ríkustu Kínverjanna.
Hinn risinn
Á meðan Alibaba ræður lögum og lofum í netverslunum og netgreiðslumiðlun er keppinauturinn Tencent ráðandi þegar kemur að samfélagsmiðlum. Í kommúníska alþýðulýðveldinu Kína er óleyfilegt að nota Twitter og Facebook. Almenningur þarf þó ekki að örvænta, því Tencent býður upp á sambærilega þjónustu. Það kemur ekki til af hreinni tilviljun, margsinnis hefur verið bent á tengsl æðstu stjórnenda félagsins við kínversk stjórnvöld.
Ein helsta afurð Tencent er samskiptaforritið WeChat. Nýlega var það metið á um 64 milljarða dollara, þrefalda þá upphæð sem Facebook greiddi fyrir sambærilega forritið WhatsApp. Notendur eru um 270 milljónir talsins og senda með því skilaboð, myndir og myndbönd auk þess að panta ýmsa þjónustu eins og leigubíla.
Tencent hefur fjárfest í margvíslegum fyrirtækjum, helst á markaði snjallsíma. Utan WeChat má nefna hlut þess í leikjafyrirtækinu Zynga og hinu alíslenska Plain Vanilla. Unnið er að gerð kínverskrar útgáfu QuizUp-spurningaleiksins.
Tencent var stofnað sama ár og Alibaba, árið 1999, af Ma Huateng og fór á markað 2004. Hann er í dag ríkasti maður Kína. Verðmæti Tencent í kauphöllinni í Hong Kong er um 150 milljarðar dollara. Það er því í útvöldum hópi stærstu tæknifyrirtækjanna á markaði, ásamt Amazon, Google, eBay og Facebook.
Aðrir starfshættir
Eignarhaldsfélagið Tencent, rétt eins og Alibaba, hefur starfað mjög í anda þess umhverfis sem fyrirtækin spruttu úr. Á sama tíma og utanaðkomandi samkeppni er með minnsta móti keppa þau hvert við annað. Drifkrafturinn er til staðar enda eftir miklu að slægjast. Starfsmannafjöldi félaganna er mikill, um 21 þúsund manns starfa hjá Alibaba og þar af rúmlega 7.300 verkfræðingar, forritarar eða gagnasérfræðingar. Enn fleiri eru hjá Tencent, tæplega 27 þúsund.
Kínverjarnir vilja gera „þetta“ sjálfir – og geta það í lokuðu umhverfinu. Almenningur getur ekki horft á sjónvarpsefni á Netflix, tíst á Twitter eða pantað leigubíl með Uber. Þeir sækja sömu eða svipaða þjónustu með öðrum forritum, flestum í eigu Tencent eða Alibaba. Þegar hugmyndir og forrit annarra (oft í samráði við þau fyrirtæki) eru heimfærð til Kína er gott að hafa marga forritara. Nokkur þúsund ættu að duga.
Blæs köldu
Ef einhver hélt að fyrirtækin tvö lifðu í sátt og samlyndi á kínverska markaðinum, með athygli 618 milljónir netnotenda til skiptanna og fer fjölgandi, þá hafði sá hinn sami rangt fyrir sér. Samkeppnin hefur farið harðnandi og bæði félög hafa hætt sér inn á markaði þar sem hitt var áður ráðandi. Í því samhengi er talað um kauphlaup. Á síðasta ári hafa fyrirtækin fjárfest í félögum sem keppa við þjónustu þar sem hitt fyrirtækið er ráðandi.
Ekki er útséð um sigurvegara kínverska internetsins og alls þess sem þar þrífst. Sérfræðingar spá einhverjum dýrustu samkeppnisaðgerðum sögunnar. Á sama tíma og félögin fjárfesta um allan heim berjast þau hatrammlega í Kína, í skjóli boði og banna kínverskra stjórnvalda og regluverks sem mörgum þykir allt í senn framandi, breytilegt og flókið. Keppinautar í hinum vestræna heimi búa ekki við sömu skilyrði heima fyrir og ættu að vígbúast.