Þinghúsklukkan í Lundúnum með sínum fimm bjöllum og dimmum hljómi, ætíð kölluð Big Ben, er án efa ein þekktasta klukka heims. Henni er ætlað að ganga hárrétt og þegar kólfurinn slær í stóru bjölluna, til dæmis á hádegi á klukkan að vera nákvæmlega tólf. Fyrir nokkrum mánuðum tóku tæknimenn breska ríkisútvarpsins, BBC eftir því að sláttur klukkunnar var sex sekúndum of seint á ferðinni en ekki „on the dot“eins og þarlendir orða það. Ein af rásum breska útvarpsins, BBC4, útvarpar daglega klukkuslættinum í upphafi kvöldfréttatímans. Þótt ekki skeikaði nema sex sekúndum þótti Bretum þetta alvarleg tíðindi. „Það er ekki von á góðu í henni veröld þegar meira að segja Big Ben bregst“ sagði viðmælandi BBC. Þótt þessi ónákvæmni vekti vissulega athygli og umtal bárust brátt aðrar og alvarlegri fréttir af ástandinu í hinum heimsþekkta klukkuturni.
Bjartsýnir úrsmiðir
Árið 2007 var klukkan ásamt bjöllunum yfirfarin og ýmsir hlutir í gangverkinu endurnýjaðir. Það verk tók sex vikur og þegar því lauk höfðu úrsmiðir (hálfgert rangnefni í þessu tilviki) breska þingsins á orði að ekki yrði þörf á annarri eins yfirhalningu næstu tvö hundruð árin. Þau ummæli reyndust byggð á mikilli bjartsýni því nokkrum árum síðar kom í ljós að margt í þessu flókna og stóra klukkuverki var farið að gefa sig og nánast komið á síðasta snúning. Málið var rætt í breska þinginu og ákveðið að skipa nefnd til að meta ástandið og koma með tillögur.
Svört skýrsla
Þingmannanefndin lauk störfum fyrir nokkrum vikum. Skýrsla hennar hefur ekki enn verið birt opinberlega en innihaldið hefur komist í hendur fjölmiðla. Niðurstaða nefndarinnar er í stuttu máli sú að grípa verði sem allra fyrst til meiriháttar viðgerða á klukkunni, bæði úrverkinu sjálfu og bjöllunum. Ef það verði ekki gert sé mikil hætta á að klukkan skemmist svo mikið að hún verði ónothæf og jafnvel ónýt. Breska blaðið Daily Mail hefur eftir breskum þingmanni að sig hefði sundlað þegar hann las skýrsluna. Engan hefði grunað að ástandið á þessu einu helsta tákni bresku þjóðarinnar væri jafn bágborið og fram kemur í skýrslunni. Skýrsluhöfundar telja að viðgerð á klukkunni og því sem henni tilheyrir kosti sem samsvari tæpum átta milljörðum íslenskra króna, jafnvel meira. Það er mikið fé en þar með er ekki öll sagan sögð því þinghúsið sjálft er í mikilli niðurníðslu, utan dyra og innan. Kostnaðurinn við þær viðgerðir er metinn jafngildi fjórtán hundruð milljarða íslenskra króna. Eins og áðurnefndur breskur þingmaður sagði í viðtali við Daily Mail er viðgerðin á Big Ben smámál í þeim samanburði. Til tals hefur komið að breska þingið flytji úr þinghúsinu meðan viðgerðir, sem hvorki hafa verið ákveðnar né tímasettar, fari fram en margir þingmenn hafa lýst andstöðu við þær hugmyndir.
Sögufrægar byggingar
Breska þinghúsið heitir réttu nafni Palace of Westminster en er yfirleitt kallað Houses of Parliament (hýsir báðar deildir, House, þingsins) eða einfaldlega Westminster. Þinghúsið var byggt á árunum 1840 – 70 á rústum eldra þinghúss sem eyðilagðist í eldi árið 1834. Arkitekt var Charles Barry. Samtímis ákvörðun um byggingu þinghússins var ákveðið að við það skyldi reistur klukkuturn og sérstaklega tiltekið að klukkuskífa yrði sýnileg úr öllum áttum og klukkan skyldi ganga hárrétt. Turninn sem nú ber nafn Elísabetar II og iðulega ranglega kallaður Big Ben er 96 metra hár, smíði hans lauk 1859. Klukkuskífurnar fjórar, ein á hverri hlið, eru í 55 metra hæð. Þær eru um það bil 7 metrar í þvermál, stóri vísirinn 4.3 metra langur og sá minni 2.7 metrar. Úrverkið situr fyrir neðan skífurnar og er engin smásmíði, vegur 5 tonn. Turninn og klukkuskífurnar teiknaði Augustus Pugin.
Lögfræðingur og klukkuhönnuður
Þótt það freistaði margra að hanna og smíða klukkuna gekk illa að fá einhvern til að taka verkið að sér. Til þess voru þær ástæður helstar að hér var um mjög flókið verkefni að ræða og kröfur þingsins strangar. Á endanum tóku þekktir úrsmiðir, Edward og Frederick Dent verkið að sér í samvinnu við lögfræðinginn og áhugaúrsmiðinn Edmund Beckett Denison. Denison hafði enga formlega menntun sem úrsmiður en var að sögn ákaflega ráðríkur og sjálfsöruggur. Smíði úrverksins og skífanna fjögurra gekk vel, bjöllurnar voru steyptar á þekktu verkstæði í Lundúnum. Eftir að fljótandi málminum hafði verið hellt í mótið tók það málm stóru bjöllunnar 20 daga að kólna. Sú stóra vegur tæp 14 tonn og er 2.3 metrar á hæð og 2.75 metrar í þvermál, hinar eru langtum minni. Þegar verið var að prófa stóru bjölluna vildi ekki betur til en svo að hún hrökk i sundur. Þá var steypt önnur bjalla sem flutt var með mikilli viðhöfn niður að Westminster. Klukkan glumdi svo í fyrsta skipti sumarið 1859.
Denison krafðist þess að kólfurinn yrði hafður mun þyngri en upphaflega var gert ráð fyrir, til að slátturinn yrði öflugri. Það hafði þær afleiðingar að um það bil tveimur mánuðum eftir að klukkan var tekin í notkun kom sprunga í hana. Gert var við sprunguna og bjöllunni snúið og jafnframt settur í hana léttari kólfur. Þessar tilfæringar eru taldar ástæður þess að hljómurinn er nokkru dimmari og þyngri en ráð var fyrir gert.
Hvaðan kemur nafnið Big Ben?
Tilgátur um nafnið Big Ben eru margar en hvað er satt og rétt í þeim efnum er ekki vitað. Ein tilgátan, og sú lífseigasta, er sú að þegar þingmenn höfðu rætt klukkustundum saman um hvað klukkan skyldi heita tók til máls Sir Benjamin Hall. Hann var hár maður vexti og þrekvaxinn og gekk undir nafninu Big Ben. Þingmaðurinn talaði lengi og þegar hann settist að lokinni ræðunni kallaði einn þingmaður „Af hverju köllum við hana ekki bara Big Ben“. Hávær hlátrasköll gullu við í þingsalnum en þarna var nafnið komið. Formlega heitir stóra bjallan The Great Bell en það nafn þekkja fáir.
Turninn hallar
„Ef turninn er lóðréttur hallast kórinn til hægri“ segir í þekktu ljóði Steins Steinars. Það ljóð var, sem kunnugt er, ekki ort um breska þinghúsið. Ljóðið hefði heldur ekki getað átt við klukkuturninn af tveimur ástæðum: þar er enginn kór og svo hitt að turninn er ekki lóðréttur, hann hallar. Ekki mikið en þó svo að greina má með berum augum. Ekki er vitað um ástæður þessa en ýmsar skýringar á lofti. Framkvæmdir við lestagöng neðanjarðar, jarðvegurinn undir turninum hafi þornað og fleira er nefnt. Fylgst hefur verið með þessum breytingum frá árinu 1999. Umsjónarmaður turnsins segir að nú um stundir sé meiri ástæða til að hafa áhyggjur af klukkunni. Miðað við breytingar á halla turnsins þurfi að gera ráðstafanir eftir um það bil 4000 ár, í fyrsta lagi. Það sé því drjúgur tími til undirbúnings.