Staðan í efnahagsmálum Íslands er snúin um þessar mundir. Enn einu sinni virðast hagfræðingar ekki vera að spá rétt fyrir um hagvöxt, en að þessu sinni munar mun meiru en venjulega. Samkvæmt nýjustu Hagtíðindum Hagstofu Íslands var neikvæður hagvöxtur á þriðja ársfjórðungi, sem nam 0,2 prósentum. Á fyrstu níu mánuðum ársins var hagvöxtur einungis 0,5 prósent en Hagstofa Íslands hafði sjálf spáð 2,7 prósent fyrir þetta ár, í spá sem hún birti um miðjan nóvember.
Hagvöxtur fyrir neðan spár
Til samanburðar gerðu spár þeirra sem greina stöðu á markaði hér á landi, greiningardeilda bankanna og Seðlabanka Íslands, ráð fyrir því að hagvöxtur á árinu verði í kringum þrjú prósent á þessu ári. Fátt bendir til þess að svo verði, sé mið tekið af tölum Hagstofu Íslands. Líklega verður hagvöxturinn í kringum eitt til tvö prósent. Þetta kunna að líta út fyrir að vera sakleysislegar tölur á blaði, en svo er ekki. Í því samhengi má nefna að ein af forsendum fyrir fjárlögum 2015 er að hagvöxtur verði 3,4 prósent á næsta ári.
Það má ekki mikið útaf bregða, þó ýmsir hafi verið óþreytandi við að benda á það að Ísland sé komið upp úr kreppuástandi og á leið inn í betri tíma.
Ísland er hlekkur í alþjóðlegri keðju viðskipta – þrátt fyrir fjármagnshöftin – og er háð eftirspurn eftir vörum og þjónustu hér á landi erlendis frá. Þar eru nú uppi miklar áhyggjuraddir og sums staðar er beinlínis uppi mikil hræðsla við ástandið, t.d. í Rússlandi og Japan, þriðja stærsta hagkerfi heimsins. Þar dróst hagkerfið saman um 1,6 prósent sem leiddi til mikilla pólitískra sviptinga. Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans, boðaði þau tíðindi að kosningum yrði flýtt og seðlabankinn boðaði örvunaraðgerðir. Á sama tíma hefur Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn áhyggjur af því að hjól efnahagslífsins í Kína snúist hægar nú en áður, með tilheyrandi margfeldisáhrifum á heimsvísu.
"We are not here to envy China’s growth or to look at their growth as a curse to Japan" http://t.co/haPruETmey pic.twitter.com/6RDDsTx655
— The Economist (@TheEconomist) December 7, 2014
Lítið að gerast í Evrópu
Það sama á raunar við um stöðu mála í Evrópu. Á vettvangi Evrópusambandsins hefur verið deilt um hvort eyða eigi meira púðri í að ná tökum á ríkisfjármálunum eða örva hagvöxt. Það er að stækka kökuna, og minnka þannig hlutfallslega skuldsetningu þjóðríkja, eða fara strax í sársaukafullan niðurskurð útgjalda með tilheyrandi áhrifum. Eins og staða mála er núna eru hagtölurnar ekki of jákvæðar. Hagvöxtur er lítill, 0,6 prósent á evrusvæðinu öllu.
Spurningin er þá kannski; hvað áhrif hefur þetta á Ísland? Það er ekki svo gott að segja til um það, en til lengdar litið er þetta áhyggjuefni fyrir Ísland þar sem hagkerfið er háð eftirspurn erlendis frá eftir vörum og þjónustu. Gamla tuggan um að ál, orka, fiskur og ferðaþjónusta haldi okkur uppi, er að miklu leyti rétt, þó að margt annað sé nauðsynlegt og skapi mikil verðmæti, ekki síst nýsköpunarstarfsemi ýmis konar.
Einkaneysla og vaxtaákvörðun
Athygli vekur að á þriðja ársfjórðungi þá jókst einkaneysla lítið sem ekkert, eða um 0,7 prósent miðað við sama tímabil frá árinu á undan. Þetta ætti að koma ráðamönnum landsins nokkuð á óvart, miðað við hvernig þeir hafa talað, og eflaust mörgum hagfræðingum líka.
Það er vaxtaákvarðanadagur framundan á miðvikudaginn hjá Seðlabanka Íslands. Peningastefnunefndin lækkaði stýrivexti í síðasta mánuði um 0,25 prósentustig en þeir eru nú 5,75 prósent. Á sama tíma mælist verðbólga um eitt prósent á árs grundvelli. Í ljósi fram kominna upplýsinga um að hagvöxturinn sé ekki eins mikill og reiknað hafði verið með og verðbólga töluvert undir 2,5 prósent verðbólgumarkmiðinu þá er ekki ólíklegt að vextir muni lækka nokkuð á næstunni. Það virðast í það minnsta vera ástæður til þess. Spár hafa komið fram um 0,25 prósent lækkun vaxta á miðvikudaginn og síðan aftur 0,25 prósent í febrúar á næsta ári. Ekki er þó útilokað að vextir gætu lækkað skarpar í ljósi þess að það eru blikur á lofti, en sagan sýnir þó að best sé að fara varlega þegar kemur að því að spá fyrir um miklar vaxtalækkanir hér á landi.