Árið 1241, sama ár og Snorri Sturluson var veginn í Skálholti, voru Jósku lögin, fyrstu ríkislög Danmerkur, staðfest. Það gerði Valdemar konungur annar (Valdemar Sejr) við sérstaka athöfn í Vordingborg á Suður-Jótlandi. Þegar skrifað hafði verið undir lagaskjalið, sem hefst á orðunum „með lögum skal land byggja“ tókust menn í hendur. Danir rekja sögu handabandsins þar í landi til þessa atburðar. Framvegis varð það siður í Danmörku að takast í hendur til að staðfesta samkomulag.
Johannes Nørregaard Frandsen fyrrverandi prófessor telur að það hafi fyrst verið í lok 19. aldar að Danir fóru að nota handaband til að heilsast og kveðjast. Þá voru það fyrst og fremst jafningar sem það gerðu. Það var ekki fyrr en komið var langt fram á síðustu öld að t.d. bóndi og háttsettur embættismaður tókust í hendur, áður lyftu menn hatti eða hneigðu sig. Í dag, að minnsta kosti fram að COVID, hefur handaband þótt sjálfsögð kurteisi en ekki endilega tákn um gagnkvæma virðingu.
Ríkisborgararétturinn
Í Danmörku býr fjöldi erlendra ríkisborgara, sumir um skemmri tíma, aðrir árum saman. Árlega sækja margir þeirra um danskan ríkisborgararétt. Ríkisborgararéttinum fylgja ýmis réttindi, meðal annars rétturinn til að taka þátt í þingkosningum. 1. september 2015 tóku gildi í Danmörku lög sem heimila tvöfaldan ríkisborgararétt. Það þýðir að ríkisborgarar annarra landa sem heimila slíkt, t.d. Íslands, þurfa ekki að afsala sér ríkisborgararéttinum, þótt sótt sé um að gerast danskur ríkisborgari.
Margoft breytt og skilyrði hert
Lögunum um ríkisborgararétt í Danmörku, réttara sagt skilyrðunum til að geta orðið danskur ríkisborgari hefur margoft verið breytt. Kröfurnar sem þarf að uppfylla oftast hertar. Árið 2018, í tíð ríkisstjórnar Lars Løkke Rasmussen, voru gerðar umtalsverðar breytingar á þessum kröfum. Meðal annars þurftu umsækjendur nú að gangast undir þekkingarpróf um sögu Danmerkur ásamt dönskuprófi.
Íslendingar og aðrir Norðurlandabúar eru undanþegnir þessum prófum, sem hafa bæði þótt erfið og smásmuguleg. Dagblaðið Berlingske lagði prófin fyrir stóran hóp innfæddra Dana, meira en helmingur þeirra féll á söguprófinu en flestir náðu dönskuprófinu. Sú breyting varð líka á skilyrðunum að nú þurfti umsækjandi að sýna fram á níu ára samfellda búsetu í Dannmörku, hafði áður verið sjö ár.
Umdeilda skilyrðið
Eitt skilyrðanna í lögunum frá 2018 vakti sérstaka athygli, og hafði reyndar mikið verið rætt í þinginu, og valdið deilum. Þegar umsækjandi ríkisborgararéttar hefur fengið að vita að hann uppfylli skilyrðin er honum gert að mæta í ráðhús sveitarfélagsins, á tilteknum degi, ríkisborgaradeginum svonefnda. Árlega er haldinn að minnsta kosti einn slíkur í hverju sveitarfélagi, tveir í stærri bæjum. Þegar umsækjandinn mætir, hann skal áður hafa tilkynnt þátttöku, þarf hann að gera tvennt: undirrita skjal þar sem hann lofar að virða dönsk lög og reglur, og halda í heiðri danska siði. Þetta vefst sjaldnast fyrir umsækjandanum. Öðru gegnir um hið síðara, lokahnykkinn. Í lögunum frá 2018 segir að staðfesting ríkisborgararéttarins felist í handabandi umsækjanda og embættismanns, sem stjórnar athöfninni. Þetta lítur ekki út fyrir að vera flókið. Þegar þetta var rætt í danska þinginu 2018 sagði Inger Støjberg, þáverandi ráðherra innflytjendamála, þetta mjög einfalt: ekkert handaband, enginn ríkisborgararéttur.
Handaband ekki endilega einfalt
Þrátt fyrir yfirlýsingar innflytjendaráðherrans er þetta með handabandið ekki alveg einfalt.
Meðal umsækjenda má ætíð gera ráð fyrir að séu margir sem ekki geta hugsað sér að taka í höndina á einstaklingi af gagnstæðu kyni, til dæmis af trúarástæðum, eða bara yfirleitt að taka í höndina á ókunnugum. Í lögunum stendur að nýi ríkisborgarinn skuli taka í höndina á borgarstjóranum, eða fulltrúa hans. Sumar bæjarstjórnir hafa brugðið á það ráð að hafa tvo embættismenn, karl og konu, til staðar við athöfnina. Inger Støjberg, ráðherra sagði í blaðaviðtali að það væri sinn skilningur að það ætti að vera borgar- eða bæjarstjórinn sem tæki í höndina á nýja ríkisborgaranum. „Hvernig ráðherra skilur þetta eða hitt skiptir ekki máli, það eru lögin sem gilda,“ sagði einn borgarstjóri, sem bætti því við að það væri eiginlega hreint ótrúlegt að handaband skuli vera skilyrði ríkisborgararéttarins. Nokkur brögð ku hafa verið að því að borgarstjórar og embættismenn hafi ekki fylgt lögunum um handabandið og séð í gegnum fingur við einstaklinga sem ekki hafa viljað taka í höndina á embættismanni.
Þeir sem neita handabandinu
Ef umsækjandi neitar að taka í höndina á fulltrúanum frá bænum þegar á hólminn er komið fær hann, samkvæmt lögunum, ekki ríkisborgararéttinn, en hefur hins vegar tvö ár til að hugsa sinn gang.
Ef viðkomandi endurnýjar ekki umsóknina innan þess tíma verður hann að byrja allt umsóknarferlið upp á nýtt.
Margir ósáttir við handabandsskilyrðið
Þegar ríkisborgaralögin voru til meðferðar í þinginu árið 2018 voru skoðanir þingmanna skiptar. Jafnaðarmenn, sem þá voru í stjórnarandstöðu, sátu hjá við atkvæðagreiðslu í þinginu, sögðu út í hött að þingið væri að greiða atkvæði um handaband. Síðan þetta var eru liðin þrjú ár.
Strangari reglur og borgarstjóri skal rétta fram höndina
Eins og nefnt var hér framar hafa gegnum árin verið gerðar fjölmargar breytingar á lögum um ríkisborgararétt. Þær hafa nær undantekningalaust snúist um hert skilyrði. Nú hefur meirihluti flokka á danska þinginu náð samkomulagi um ýmsar breytingar og þær miða allar að því að herða reglurnar og auka kröfur til umsækjendanna. Í viðtali við dagblaðið Information sagði Kristian Mølgaard lögmaður, og formaður Landssambands verjenda (Landsforeningen af Forsvarsadvokater) nýju lögunum beint gegn ungmennum. Einkum þeim sem komist hefðu í kast við lögin. Hann nefndi sem dæmi að 17 ára unglingur sem fengið hefur 60 daga skilorðsbundinn dóm á aldrei möguleika á að sækja um ríkisborgararétt.
Ennfremur segir í nýju lögunum að einstaklingur sem hefur fengið sekt, 3 þúsund krónur danskar (61 þúsund íslenskar), eða hærri getur ekki sótt um ríkisborgararétt fyrr en sex ár verða liðin frá því að sektin var ákveðin. Sömuleiðis segir að einstaklingur sem sækir um ríkisborgararétt skuli hafa verið í fullu starfi í þrjú og hálft ár af síðustu fjórum árum. Þetta skilyrði getur sett strik í reikning hjá mörgum, sem vegna COVID-19 hafa misst vinnuna og geta því ekki sýnt fram á óslitið vinnusamband í 42 mánuði, þegar sótt er um. Eva Ersbøll sérfræðingur á sviði mannréttindamála sagðist, í viðtali við danska útvarpið, telja að nýju lögin auki ójöfnuð. „Að útiloka stóran hóp frá því að gerast fullgildir danskir þegnar er ekki góð leið.“
Og svo er það handabandið
Framvegis skal það vera ófrávíkjanleg skylda að sá sem sækir um ríkisborgararétt, og uppfyllir skilyrðin, skuli taka í höndina á borgarstjóranum í sínum bæ (Danir kalla alla bæjarstjóra borgarstjóra) á ríkisborgaradeginum. Þetta sagði ráðherra innflytjendamála eiga að koma í veg fyrir að sumir komist hjá því að staðfesta ríkisborgararéttinn „eins og við vitum að brögð hafa verið að“. Mörgum þykir einkennilegt að jafnaðarmenn skuli styðja „handabandið“ í ljósi þess að fyrir aðeins þremur árum voru þeir mjög mótfallnir því og sátu hjá við atkvæðagreiðsluna.
Margir borgarstjórar, úr öllum flokkum, hafa lýst óánægju með að þingið skuli með þessum hætti skipta sér af slíku smáatriði sem handabandi. Einn sagði, kannski meira í gamni en alvöru ,,maður er steinhissa á að ekki skuli vera kveðið á um hvort handabandið skuli vera þétt og hvað það eigi að vara lengi“.
Ríkisborgaradagurinn, eða dagarnir, eru ekki þeir sömu um allt land, í Kaupmannahöfn verður hann næst 22. júní.