Sjávarútvegsfyrirtækið Brim heldur sem stendur á 13,2 prósent af heildarverðmæti úthlutaðra aflaheimilda hérlendis, samkvæmt nýjum útreikningum Fiskistofu sem birtir voru í dag. Það er yfir lögbundnu hámarki á fiskveiðikvóta sem einn útgerð má halda á samkvæmt lögum, en það er tólf prósent.
Þar munar mestu um að Brim er fékk 18 prósent af nýlega úthlutuðum loðnukvóta, sem var stóraukinn milli ára. Fyrir vikið hefur heildarhlutdeild sjávarútvegsfyrirtækisins í öllum tegundum farið úr því að vera 10,41 prósent 1. september í fyrra í áðurnefnda tölu, 13,2 prósent, nú.
Ef aflahlutdeild fiskiskipa í eigu einstakra aðila eða tengdra aðila fer umfram tólf prósent mörkin skal Fiskistofa, samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða, tilkynna viðkomandi aðila um það og veita honum sex mánaða frest til að „gera ráðstafanir til að koma aflahlutdeildinni niður fyrir mörkin“. Ef Brim veitir ekki Fiskistofu upplýsingar um að fullnægjandi ráðstafanir hafi verið gerðar fyrir lok frestsins fellur umframaflahlutdeildin niður. Í lögunum segir að þá muni aflahlutdeild fiskiskipa í eigu viðkomandi skerðast „hlutfallslega miðað við einstakar tegundir“.
Blokk sem heldur rúmlega 16 prósent aflaheimilda
Brim hefur verið skráð í Kauphöll Íslands frá árinu 2014. Langstærsti eigandi þess er Útgerðarfélag Reykjavíkur, sem á 43,97 prósent hlut í Brim beint og í gegnum dótturfélag sitt RE-13 ehf.
Til viðbótar heldur útgerðarfélagið Ögurvík, að fullu í eigu Brims, á 0,76 prósent af úthlutuðum kvóta. Þessi þrjú félög halda því á 16,19 prósent af úthlutuðum kvóta.
Fáir halda á mestu
Mikil samþjöppun hefur átt sér stað í sjávarútvegi á Íslandi á undanförnum áratugum, eftir að framsal kvóta var gefið frjálst og sérstaklega eftir að heimilt var að veðsetja aflaheimildir fyrir bankalánum, þótt útgerðarfyrirtækin eigi þær ekki í raun heldur þjóðin. Slík heimild var veitt árið 1997.
Samhliða hefur eftirlit með framfylgd laga um stjórn fiskveiða lengi verið í lamasessi. Það var til að mynda staðfest í kolsvartri skýrslu Ríkisendurskoðunar sem birt var í byrjun árs 2019. Þar gerði hún meðal annars verulegar athugasemdir við að Fiskistofa kannaði ekki hvort yfirráð tengdra aðila í sjávarútvegi yfir aflahlutdeildum, eða kvóta, væru í samræmi við lög. Eftirlitsaðilinn sinnti ekki eftirlitinu.
Samkvæmt lögum má hver blokk halda á tólf prósent af úthlutuðum kvóta en í gildandi lögum má eiga allt upp að helmingi í annarri útgerð án þess að kvóti sem hún heldur á teljist með. Þessi lög eiga að koma í veg fyrir mikla samþjöppun í sjávarútvegi á meðal þeirra fyrirtæki sem fá að vera vörsluaðili fiskimiðanna.
Svæft í nefnd
Nokkrar tilraunir hafa verið gerðar á undanförnum árum til að taka á þeirri stöðu sem komin er upp í sjávarútvegi á Íslandi og brjóta upp hringamyndanir í geiranum. Slíkar hugmyndir fengu byr í seglin eftir að Samherjamálið var opinberað í nóvember 2019.
Þorri þeirra tilrauna hefur verið kæfður. Niðurstaðan eru engar sýnilegar breytingar á kerfinu.
Í desember 2019 lögðu þingmenn úr þremur stjórnarandstöðuflokkum: Viðreisn, Samfylkingu og Pírötum, fram frumvarp sem fól í sér kúvendingu á því kerfi sem er við lýði vegna nýtingarréttar á fiskveiðiauðlindinni.
Í öðru lagi gerði frumvarpið ráð fyrir að allir þeir sem ráða yfir eitt prósent heildaraflahlutdeildar þurfi að stofna hlutafélag um reksturinn og skrá félagið á markað. Það myndi þýða, að óbreyttu, að 21 sjávarútvegsfyrirtæki þyrftu að skrá sig á markað til viðbótar við Brim, sem er eina fyrirtækið sem heldur á kvóta sem er skráð í dag.
Í þriðja lagi lagði frumvarpið til að settar yrðu takmarkanir við hlutafjáreign eða atkvæðisrétt einstakra hluthafa og tengdra aðila í útgerðum sem fara með átta til tólf prósent af kvóta. Í frumvarpinu sagði að í slíkum útgerðarfyrirtækjum ætti enginn aðili, einstaklingur, lögaðili eða tengdir aðilar, að eiga „meira en tíu prósent af hlutafé, stofnfé eða atkvæðisrétti í viðkomandi aðila. Þessu ákvæði er ætlað að koma í veg fyrir frekari samþjöppun eignaraðildar í allra stærstu útgerðarfyrirtækjunum.“
Frumvarpið, sem unnið var af þingmönnum Viðreisnar sem fengu svo stuðning úr hinum flokkunum tveimur, fékk að ganga til atvinnuveganefndar þar sem það var svæft.
Hjón yrðu talin tengdir aðilar
Eftir að áðurnefnd svört skýrsla Ríkisendurskoðunar var birt skapaðist nokkur þrýstingur á úrbætur. Skipuð var verkefnastjórn sem fékk það hlutverk að leggja þær til. Vinnu hennar var flýtt eftir að Samherjamálið kom upp.
Í febrúar 2020 kynnti Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, drög að frumvarpi um breyttar skilgreiningar á því hvað teljist tengdir aðilar sem byggði á vinnu verkefnastjórnarinnar.
Í þeim drögum kom fram að þeir sem lagabreytingin hefur áhrif á munu hafa fram á fiskveiðiárið 2025/2026 til að koma sér undir lögbundið kvótaþak, eða sex ár.
Í tillögunum, sem voru fimm talsins, fólst að skilgreining á tengdum aðilum verði látin ná til hjóna, sambúðarfólks og barna eða fósturbarna þeirra, að ákveðin stjórnunarleg tengsl milli fyrirtækja leiði til þess að fyrirtækin eru talin tengd nema sýnt sé fram á hið gagnstæða, að skilgreint verði hvað felst í raunverulegum yfirráðum, að aðilar sem ráða meira en sex prósent af aflahlutdeild eða 2,5 prósent af krókaflahlutdeild skulu tilkynna til Fiskistofu áætlaðan samruna, eða kaup í félagi sem ræður yfir hlutdeild eða kaup á hlutdeild og koma kaupin ekki til framkvæmda nema samþykki Fiskistofu liggi fyrir og að Fiskistofu verði veittar auknar heimildir til afla gagna.
Í tillögunum var hvorki tekin afstaða til reglna um hámarksaflahlutdeild né kröfu um hlutfall meirihlutaeignar í tengdum aðilum.
Meirihluti nefndar varði kvótaþakið
Þegar lokaskýrsla verkefnastjórnarinnar var birt í fyrrasumar kom í ljós að hún gerði engar tillögur að breytingum á kvótaþaki eða kröfu um hlutfall meirihlutaeignar í tengdum aðilum í nýrri skýrslu verkefnastjórnar um bætt eftirlit með fiskveiðiauðlindinni.
Oddný Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar sem sat í nefndinni, gerði fyrirvara við niðurstöðuna og vildi að ákvæði laga um hámarksaflahlutdeild yrði breytt í samræmi við þau ákvæði sem er að finna í lögum um skráningu raunverulegra eigenda. Þar er miðað við 25 prósent beinan eða óbeinan eignarhlut til að aðilar teljist tengdir eða aðili teljist raunverulegur eigandi.
Oddný talaði fyrir þessari breytingu á vettvangi nefndarinnar, en hún hlaut ekki hljómgrunn hjá hinum nefndarmönnunum. Þeir voru Sigurður Þórðarson, fyrrverandi ríkisendurskoðandi, Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Ölfusi og áður bæjarstjóri Sjálfstæðisflokks í Vestmannaeyjum, Brynhildur Benediktsdóttir, sérfræðingur í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, og Hulda Árnadóttir lögmaður.