Brýnt hefur verið fyrir ráðamönnum að tjá sig ekkert opinberlega um þær tekjur sem frumvörp um losun hafta geti skilað. Slíkt tal er talið geta styrkt málflutning kröfuhafa fyrir dómi, en fastlega er búist við að málið endi þar. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.
Til að hægt verði að ganga frá nauðasamningum föllnu bankanna Glitnis, Kaupþings og Landsbankans er ljóst að slitabú þeirra þurfa öll að gefa eftir miklar eignir í krónum. Ástæðan er sú að Ísland getur ekki skipt krónunum þeirra í gjaldeyri án þess að ógna greiðslujöfnuði sem myndi hafa þær afleiðingar að íslenska krónan myndi falla mikið. Takist ekki að ljúka nauðasamningum slitabúanna á vikunum eftir að frumvörpin verða lögð fram, en þau voru kynnt fyrir ríkisstjórn í gær, stendur til að leggja svokallaðan stöðugleikaskatt á slitabúin. Í DV í gærmorgun kom fram að hann ætti að vera um 40 prósent. Skatturinn er nú orðin skilyrtur. Þ.e. hann leggst einungis á ef ekki tekst að semja. Búist er við að uppgjör slitabúanna með þessum hætti skili allt að 500 milljörðum króna.
Þótt að ráðamenn eigi ekki að tjá sig um tekjur sem gætu skapast vegna frumvarpa um losun hafta þá hafa þeir samt sem áður gert það opinberlega. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sagði í yfirlitsræðu sinni á flokksþingi Framsóknarflokksins í apríl að „sérstakur stöðugleikaskattur mun þá skila hundruðum milljarða króna og mun ásamt öðrum aðgerðum gera stjórnvöldum kleift að losa um höft án þess að efnahagslegum stöðugleika verði ógnað.“ Sigmundur Davíð áréttaði síðan í viðtali við Morgunblaðið þremur dögum síðar að fjármagn sem kæmi út úr áætluninni um losun, sem felur meðal annars í sér álagningu svokallaðs stöðuleikaskatts, yrði ekki hugsað til þess að ráðstafa í framkvæmdir eða verða hluti útgjalda ríkissjóðs.
Bjarni vill lækka skuldir ríkissjóðs
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir í Morgunblaðinu í dag að í hans huga sé eina rétta ráðstöfunin á því fé sem verður til við uppgjör slitabúanna að lækka skuldir ríkissjóðs.
Það er hægt að réttlæta slíka ráðstöfun án þess að slitabúin eða kröfuhafar gangi fram og segist hafa orðið fyrir óbilgjarnri eignaupptöku sem sé í andstöðu við stjórnarskrá, enda varð þorri skulda ríkisins vegna efnahagshrunsins. Það væri því verið að hreinsa upp skuldir vegna þess með uppgjör á einu af stærstu vandamálunum sem hrunið skóp.
Ekki eru allir á því að niðurgreiðsla skulda væri skynsamleg ráðstöfun. Í niðurstöðu skýrslunnar Drög að uppgjöri, sem hagfræðingarnar Ásgeir Jónsson og Hersir Sigurgeirsson unnu fyrir slitastjórn Glitnis, og var birt í maí, sagði að Ísland væri að glíma við svokallaðan færsluvanda. Það hugtak lýsi vanda sem felst í að flytja mikil verðmæti frá einu myntsvæði, því íslenska, til annars, t.d. evrusvæðisins, án þess að gengisskráning fari á skjön við eðlilegt jafnvægi í utanríkisviðskiptum. Með öðrum orðum þá þýðir það að hægt verði að borga út kröfur í íslenskum krónum til erlendra aðila án þess að gengi krónu sökkvi eins og steinn.
Í skýrslunni segja Ásgeir og Hersir að grunnástæða vandans sé fjórföldun peningamagns á árunum 2003-2008. „Peningamagn í umferð er að langmestu leyti innlán í bönkum og staðan er því sú að fjármálakerfið er fullt af lausu fé sem vill leita útgöngu í gegnum gjaldeyrismarkaðinn. Þannig skapast hætta á verulegu gengisfalli krónunnar við losun fjármagnshafta sem hefði neikvæð áhrif á lífskjör í landinu.“
Þegar íslenskir eignamarkaðir hættu að skila undur-arðsemi og bólan sprakk hafi hinn bráði færsluvandi skapast þar sem stór hluti af hinni miklu seðlaprentun sem átti sér stað fyrir hrun sé nú kominn í eigu erlendra fjárfesta sem vilji skipta útgáfunni í erlendan gjaldeyri og flytja hana af landi brott. „Þetta á bæði við um hina svokölluðu snjóhengju, sem eru krónur fyrrum vaxtamunarfjárfesta, en einnig innlendar eignir slitabúa föllnu bankanna. Það er eðli slitabúa að breyta eignum í laust fé til útgreiðslu. Frá hruni hafa búin eignast íslenskt lausafé sem liggur nú sem umfram eigið fé og innstæður í nýju bönkunum.“
Skýrsluhöfundar segja að allar lausnir á færsluvandanum hljóti að byggja á því að peningamagn sé tekið úr umferð eða því umbreytt úr innlánum í langtímafjármögnun fyrir bankakerfið. „Ella mun færsluvandinn ekki leysast þrátt fyrir að slitabúin hverfi úr sögunni. Og jafnvel þótt þessu umfram peningamagni sé varnað að flæða úr landi með fjármagnshöftum munu áhrifin þess í stað koma fram innanlands með bæði verðbólgu og hækkun eignaverðs.“
Már Guðmundsson seðlabankastjóri hefur einnig talað um krónurnar sem eru í eigu útlendinga sem mengun og því sé réttlætanlegt að leggja á mengunarskatt til að eyða þeim.