Maður er nefndur Dan Bilzerian. Hann er 34 ára gamall fyrrverandi bandarískur hermaður, var næstum orðinn sérsveitarmaður en lenti upp á kant við yfirmenn sína í hernum og lauk ekki lokaprófi til þess að komast inn. Hann er í dag fjárfestir, pókerspilari og samfélagsmiðla auglýsingamaður. Hann selur fyrirtækjum umfjallanir í gegnum gríðarlega stór samfélagsmiðlanet sem hann hefur byggt upp, en auglýsingarnar birtast oftast nær í gegnum myndir á Instagram svæði hans. Samtals er Bilzerian með 6,8 milljónir fylgjenda á Facebook, 5,8 milljónir á Instagram og ríflega eina milljón á Twitter. Samtals er hann með 13,6 milljónir fylgjenda og þeim fjölgar ört. Algengt er að meira en 400 þúsund manns like-i við myndir hans á Instagram.
Auglýsing
Skilgreiningin á glaumgósa
Bilzerian lifir hátt, svo ekki sé fastar að orðið kveðið. Hann er líka fífldjarfur, grófur í talsmáta og framsetningu á samfélagsmiðlum, og uppátækjasamur. Þannig komst hann í fréttirnar fyrir að kasta klámmyndaleikkonunni Janice Griffith af húsþaki ofan í sundlaug, með þeim afleiðingum að hún fótbrotnaði, og í síðustu viku fór hann langt yfir strikið þegar hann réðst á konu, fyrirsætuna Vanessu Castano, á næturklúbbi í Miami. Hann hefur beðist afsökunar á því, með semingi þó. Á samfélagsmiðlum birti hann yfirlýsinguna: Fangelsi...Við skulum ekki gera það aftur. (Jail... Lets not do that again.) Castano íhugar málsókn gegn honum vegna árásarinnar. Hann er þó alls ekki laus allra mála vegna þess og gæti átt von á ákæru. Þá hafa lögregluyfirvöl í Los Angeles handtekið hann einu sinni fyrir að beita vopnum ólölega á landi í eigu hins opinbera, meðal annars sprengjuefni. Ekki liggur fyrir dómsniðurstaða í því máli.
Too classy for the yacht club Ett foto publicerat av Dan Bilzerian (@danbilzerian)
Það sem er algengast á myndum hans er næstum alveg nakið kvennfólk, byssur af ýmsu tagi, sportbílar og reiðufé. Yfirleitt fylgja síðan stuttar setningar með lýsingum á því sem er gerast. Eða einhver einkennileg skilaboð um eigið ágæti.
Viðskiptin - hvað á hann mikið af peningum?
En er Bilzerian bara glaumgósi sem nýtur þess að baða sig í sviðsljósinu? Nei. Svo er ekki. Hann er fjárfestir og atvinnupókerspilari. Í fjárfestingunum er hann sagður vera áhættusækinn, sem kemur kannski ekki mikið á óvart miðað við lífstílinn, en svolítið snjall sömuleiðis þó reyndar séu deildar meiningar um það. Eignir hans eru metnar á 150 til 200 milljónir Bandaríkjadala, eða allt að 25 milljarða króna. Hann er pókerspilari af lífi og sál, og græðir þar oft fúlgur fjár - en tapar oft líka. Þá hóf hann í byrjun árs að selja fyrirtækjum aðgang að myndefni hans á Instagram, en hann sést oft með vopn frá bandarískum vopnaframleiðlendum, og síðan einnig með tímarit, sem hefur verið greitt fyrir.
Það er þó vel hugsanlegt að þetta sé aðeins lítill hluti af raunverulegum eignum hans þar sem faðir hans, Paul Bilzerian, sem var fjárfestir á sínum tíma áður en hann varð gjaldþrota, kom undan eignum í sjóð sem kröfuhafar hans gátu ekki nálgast (Trust fund). Paul hefur árum saman barist við bandaríska fjármálaeftirlitið sem hefur sakað hann um að skjóta undan eignum, og nýta ólölegar leiðir til að ávaxta fasteignaverkefni sín. Árið 2007 vann eftirlitið (SEC) sigur í máli gegn honum og fékk viðurkennda kröfu á hann upp 62 milljónir dala, eða ríflega sjö milljarða króna. Paul hefur kært eftirlitið og hefur sagt að það sé að ofsækja hann fyrir ekkert.
Bilzerian virðist hins vegar hafa aðgang að gríðarlega miklum fjármunum, og hefur gaman af því að nota reiðufé þegar hann stundar viðskipti. Samkvæmt frétt frá Wall Street Journal gekk hann inn í spilavíti með fulla tösku af reiðufé og spilaði þar. Það tónar við myndirnar sem hann birtir reglulega af sér á Instagram með reiðufé, naktar konur og byssur. Wall Street Journal segir enn fremur að skatturinn (IRS) í Bandaríkjunum sé farinn athuga hvort ekki sé allt með felldu hjá Bilzerian.
Partýinu mun einhvern tímann ljúka hjá Dan Bilzerian, en hann virðist njóta peningana sem hann fékk frá föður sínum, sem halda partýinu gangandi augljóslega.