Fjárveitingar til danska hersins hafa á síðustu árum minnkað svo mikið að hann er orðinn hálfgerður sýndarher sem væri alls ófær um hafast nokkuð að ef þess gerðist þörf. Þetta er álit margra danskra hernaðarsérfræðinga.
Umræður um herinn og hlutverk hans tengjast því að 9. apríl voru liðin 75 ár síðan Þjóðverjar hernámu Danmörku. Í hugum margra Dana er 9. apríl 1940 einn dapurlegasti dagur í sögu landsins og um allt land blakta fánar í hálfa stöng þennan dag á ári hverju. Danskir fjölmiðlar hafa eytt miklu púðri í að minnast þessara tímamóta, dagblöðin hafa rifjað upp atburði dagsins og aðdraganda þess að Þjóðverjar réðust inn í landið, rætt við fólk sem man þennan tíma og svo framvegis. Það er reyndar ekki nýtt að um herinn sé fjallað í fjölmiðlum en á undanförnum árum hefur sú umfjöllun undantekningalítið snúist um niðurskurð og meiri niðurskurð.
Aldrei aftur (dag eins og) 9. apríl
„Aldrig mere en 9. april“ er setning sem víða sést og heyrist þessa dagana í dönskum fjölmiðlum. Þessi stutta setning varð einskonar sameiningartákn dönsku þjóðarinnar eftir að síðari heimsstyrjöldinni lauk. Lýsti í senn von og þeim ásetningi að danski herinn yrði ekki framvegis jafn vanbúinn og raun bar vitni þegar Þjóðverjar réðust inn í landið aðfaranótt 9. apríl 1940.
Eins og kunnugt er var fátt um varnir hjá Dönum sem gáfust upp, nánast baráttulaust, enda við ofurefli að etja. 16 danskir hermenn féllu og 23 særðust. Allar götur síðan hefur það verið nánast óþrjótandi umræðuefni dönsku þjóðarinnar hvort það hafi verið rétt ákvörðun að gefast strax upp fyrir Þjóðverjum, hvort danska stjórnin hafi verið of samvinnufús við hernámsliðið. Margir töldu þá og telja enn að danska stjórnin og kóngurinn, Kristján X, hafi verið Þjóðverjum allt of leiðitöm og gert allt til að þóknast stríðsherrunum. Hernámið hafi verið niðurlæging.
Margir hafa velt fyrir sér ástæðum þess að gyðingum í Danmörku tókst nær öllum að flýja yfir til Svíþjóðar og bjarga þannig lífi sínu.
Aðrir segja að stjórnin, með kónginn (konung Íslands og Danmerkur) hafi haldið vel á spilunum og gert það eina rétta í erfiðri aðstöðu. Kóngurinn bjó áfram á Amalíuborg og reið daglega á hesti sínum um götur borgarinnar, vildi þannig sýna þegnum sínum að öllu væri óhætt og hann óbugaður þrátt fyrir hernámið.
Margir hafa velt fyrir sér ástæðum þess að gyðingum í Danmörku tókst nær öllum að flýja yfir til Svíþjóðar og bjarga þannig lífi sínu. Sumir sagnfræðingar halda því fram að „samvinnuvilji“ danskra stjórnvalda hafi þarna ráðið miklu og þýska herstjórnin látið það „leka út“ hvað til stæði og þannig gefist ráðrúm til að koma gyðingum úr landi. Ekki hefur tekist að færa óyggjandi sönnur á hvort eitthvað sé hæft í þessu. Danska andspyrnuhreyfingin var bæði fámenn og máttlítil en lét þó meira að sér kveða undir lok stríðsins.
Allir voru sammála um að styrkja herinn
Eftir að stríðinu lauk, og raunar fyrr, var almenn samstaða meðal danskra þingmanna, og almennings, um nauðsyn þess að efla herinn, sagan frá 9. apríl 1940 mætti ekki endurtaka sig. Flestum var ljóst að Danmörk yrði aldrei stórveldi á hernaðarsviðinu, til þess væri landið allt of fámennt. Einhverskonar hernaðarsamstarf var lausnin í augum flestra.
Á kaldastríðsárunum átti sér stað mikil uppbygging innan danska hersins, það mætti skilningi þjóðarinnar, 9. apríl 1940 var enn í fersku minni.
Sumir töldu að náin samvinna Norðurlandanna væri rétta leiðin, sá möguleiki var aldrei raunhæfur vegna hlutleysisstefnu Svía, kommúnistar vildu samvinnu við Rússa en flestir hölluðust að nánari samvinnu við Bandaríkin. Danir voru meðal stofnenda Sameinuðu þjóðanna 1945 og þegar Atlantshafsbandalagið, NATO, varð til árið 1949 voru Danir (og Íslendingar) í hópi þeirra ríkja sem tóku þátt í stofnun þess. Danir vörðu miklu fé til að efla herinn og þátttakan í NATO styrkti stöðu þeirra gagnvart Rússum, sem margir vantreystu. Á kaldastríðsárunum átti sér stað mikil uppbygging innan danska hersins, það mætti skilningi þjóðarinnar, 9. apríl 1940 var enn í fersku minni. Eftir að kalda stríðinu lauk var dregið úr fjárveitingum til hersins, breyttar aðstæður var ástæðan.
Herinn í löngum og ströngum megrunarkúr
Danskur hernaðarsérfræðingur lét þau orð falla í nýlegu blaðaviðtali að danski herinn væri búinn að „vera í megrun síðan kalda stríðinu lauk og slíkan megrunarkúr þolir enginn. Orðinn hálfgerður þykjustuher.“ Þótt orðin hljómi eins og þau séu sögð í hálfkæringi er þó mikil alvara í þeim fólgin að margra mati, ekki síst innan hersins.
Einn af yfirmönnum hersins lét svo um mælt að herinn væri dálítið eins og svissneskur ostur, götóttur. Þegar hann var beðinn að útskýra orð sín sagði hann að þótt ýmislegt væri gott hjá hernum væri hann alltof fámennur, ekki síst í ljósi þess að danskt herlið er enn til staðar í Afganistan og Írak. Grunnmenntun hermanna hafi verið skorin niður og tækjabúnaður hersins bæði lítill og úreltur.
Fyrrverandi yfirmaður í hernum sagði að mörg Afríkuríki byggju yfir betri loftvörnum með sínar gömlu rússnesku loftvarnabyssur. „Í Danmörku verðum við að láta nægja að hrópa á óvininn þegar hann nálgast í loftinu, loftvarnavopn eigum við engin.“ Á launaskrá hersins eru átján þúsund manns en eiginlegir hermenn eru rúmlega sex þúsund.
NATO hefur líka áhyggjur
Í viðtali við dagblaðið Berlingske, og birt var 9. apríl, sagði Anders Fogh Rasmussen fyrrverandi framkvæmdastjóri NATO það mikið áhyggjuefni hvað Evrópuríkin í Atlantshafsbandalaginu hefðu takmarkaðan skilning á nauðsyn þess að verja fé til hermála. Bandaríkin gætu ekki endalaust dregið hestinn og staðið að mestu leyti undir útgjöldum NATO, eins og nú er raunin.
Anders Fogh Rasmussen, fyrrverandi forsætisráðherra Danmerkur og framkvæmdastjóri NATO. Mynd: EPA
Samkvæmt samkomulagi sem gert var á danska þinginu heldur niðurskurður til hersins áfram til ársins 2017. Af þessu hafa margir áhyggjur, ekki síst í ljósi ástandsins í Úkraínu og hernaðarbrölts Rússa. Ýmsir úr hópi þingmanna, meðal annars Lars Lökke Rasmussen formaður Venstre, hafa sagt að ljóst sé að herinn sé kominn í þá stöðu að ekki verði lengra gengið í niðurskurði. Hvort eitthvað breytist í þeim efnum eftir kosningar í sumar eða haust er ómögulegt að segja til um.
Unga fólkið hefur mikinn áhuga á sögunni
Nokkuð hefur verið um það rætt hér í Danmörku að nú sé heimsstyrjöldin síðari orðin það fjarlæg að unga kynslóðin hafi líklega takmarkaðan eða lítinn áhuga fyrir henni. Kannanir sýna að þetta er alrangt. Unga fólkið er mjög áhugasamt um þennan tíma, kennarar segja að nemendur þyrsti í að vita sem mest um hernámið og stríðsárin, tölur frá bókasöfnum segja sömu sögu.
Menntaskólanemi sem eitt blaðanna ræddi við hitti kannski naglann á höfuðið þegar blaðamaður sagði að það væru rétt að verða sjötíu ár síðan stríðinu lauk, það væri nú orðið dálítið langt síðan. „Langt?“ spurði strákur „afi er 78 ára, hann er í fullu fjöri og bara ekkert gamall.“